Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 967/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 35/1960 — 10. gr.   Lög nr. 75/1981 — 1. gr. — 3. gr. 5. og 9. tl. — 70. gr. 2. mgr. — 71. gr. 3. tl. 1. mgr. — 84. gr.  

Skattskylda — Skattskylda einstaklings — Takmörkuð skattskylda — Ótakmörkuð skattskylda — Heimilisfesti — Lögheimili — Skattaleg heimilisfesti — Íbúðarhúsnæði — Húsaleigutekjur — Eignarskattur — Eignarskattsstofn — Eignarskattsútreikningur — Brottför úr landi — Nám — Nám erlendis — Úrskurðarvald ríkisskattstjóra — Valdsvið ríkisskattanefndar — Heimilisfesti hluta úr ári — Dvalartími — Valdþurrð — Valdþurrð skattstjóra — Valdframsal — Æðra stjórnvald framselur lægra stjórnvaldi vald sitt — Frávísun — Frávísun, mál utan valdsviðs — Gildistaka skattalaga

I.

Álagningu opinberra gjalda kærenda gjaldárið 1989 byggði skattstjóri á því, að kærendur hefðu borið ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, til 30. júní 1988, en takmarkaða skattskyldu eftir þann tíma vegna fasteignar hér á landi, sbr. 5. og 9. tl. 3. gr. sömu laga. Um tekjuskattsútreikning fór skattstjóri því annars vegar eftir ákvæðum 2. mgr. 70. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og hins vegar eftir 3. tl. 71. gr. sömu laga. Um eignarskattsútreikning fór skattstjóri eftir 84. gr. nefndra laga.

II.

Í kæru til skattstjóra, dags. 9. ágúst 1989, var álagningunni mótmælt af hálfu kærenda. Kom fram í kærunni, að kærandi, A, væri í námi við Uppsalaháskóla og af þeim sökum hefðu kærendur flust til Svíþjóðar. Börn þeirra tvö væru búsett á Íslandi. Var í kærunni sótt um skattalega heimilisfesti á Íslandi af þeim ástæðum, að kærendur væru með annan fótinn hérlendis. Með kæruúrskurði, dags. 5. mars 1990, synjaði skattstjóri kröfum kærenda. Varðandi tilmæli um skattalega heimilisfesti hérlendis kom fram af hálfu skattstjóra, að til þess að námsmenn gætu notið þeirra skattalegu réttinda, er leiddu af skattskyldu samkvæmt 1. gr. laga nr. 75/1981 þyrfti nám að vera stundað við viðurkennda námsstofnun og leggja þyrfti fram fullgild vottorð um nám og námsframvindu. Jafnframt þyrfti að koma fram í gögnunum, hvenær nám hafi hafist og hvenær námslok væru áætluð.

III.

Af hálfu kærenda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 5. apríl 1990. Leggja kærendur fram ýmis gögn um nám sitt í Svíþjóð og gera jafnframt grein fyrir því, að hluta úr árinu séu þau hér á landi við vinnu og rannsóknarstörf. Þá er gerð grein fyrir notkun íbúðar að X.

IV.

Með bréfi, dags. 22. janúar 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Með því að eigi verður ráðið að aðalástæða fyrir dvöl kærenda erlendis sé nám eða að þau geti talist námsmenn í skilningi 10. gr. laga nr. 35/1960, um lögheimili, er gerð krafa um staðfestingu á úrskurði skattstjóra. Staðfestar upplýsingar um laun og skatta erlendis liggja og ekki fyrir þannig að framtal kærenda sé álagningartækt enda þótt ríkisskattanefnd gæti fallist á að um skattlagningu kærenda skuli fara eftir 1. gr. laga nr. 75/1981.“

V.

Kæruefnið í máli þessu er sú krafa kærenda, að þau verði talin hafa verið heimilisföst hér á landi allt árið 1988 í skilningi 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og opinber gjöld ákvörðuð í samræmi við það. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. nefndra laga hefur ríkisskattstjóri úrskurðarvald um það hverjir skuli teljast heimilisfastir samkvæmt 1. gr. og úrskurði ríkisskattstjóra má bera undir dómstóla að stefndum ríkisskattstjóra vegna fjármálaráðherra. Ekki hefur verið leitað úrskurðar ríkisskattstjóra um álitaefnið samkvæmt nefndu lagaákvæði. Hins vegar hefur skattstjóri lagt úrskurð á það, sbr. kæruúrskurð hans, dags. 5. mars 1990, er virðist hafa verið gert á grundvelli bréfs ríkisskattstjóra, dags. 29. september 1989, til allra skattstjóra viðvíkjandi meðferð úrskurðarvalds þessa vegna námsdvalar erlendis. Þrátt fyrir það þykir bera að byggja á því, að úrskurðar ríkisskattstjóra sé leitað um þetta efni svo sem lög mæla fyrir um, enda tók 5. gr. laga nr. 112/1990, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, ekki gildi fyrr en 1. janúar 1991. Með því að úrskurðar ríkisskattstjóra hefur ekki verið leitað um skattalega heimilisfesti kærenda svo sem fyrr segir þykir verða að vísa kærunni frá að svo stöddu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja