Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 969/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. B-liður og C-liður 4. tl. — 9. gr. — 30. gr. 1. mgr. B-liður 2. tl.
Hlutabréf — Hlutafé — Hlutafélag — Arður — Arður af hlutabréfum — Arðsfrádráttur — Arðsfrádráttur manna frá tekjum utan atvinnurekstrar á fengnum arði af hlutabréfum — Atvinnurekstrareign — Atvinnurekstur — Sjálfstæð starfsemi — Atvinnurekstrartekjur — Eignatekjur — Skattskyldar tekjur — Frádráttarheimild — Framtalsháttur — Eignfærsla — Efnahagsreikningur — Hlutabréf, færð sem atvinnurekstrareign hjá einstaklingi
Málavextir eru þeir, að í ársreikningi kæranda rekstrarárið 1988 var færður til tekna arður ársins af hlutabréfaeign, sem færð var til eignar á efnahagsreikningi í árslok. Í greinargerð um tekjuskattsstofn ársins var fyrrgreindur arður færður til frádráttar tekjuskattsstofni.
Með bréfi, dags. 27. júlí 1989, tilkynnti skattstjóri kæranda, að hann hefði með vísan til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981 hækkað hreinar tekjur af rekstri, sem næmi arðgreiðslum þar sem ekki væri að finna í ákvæðum 31. gr. sömu laga heimild til frádráttar móttekins arðs frá tekjum ársins. Af hálfu umboðsmanns kæranda var breytingum skattstjóra mótmælt í bréfi, dags. 29. ágúst 1989. Með kæruúrskurði, dags. 16. október 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda með þeim orðum, að ekki væri að finna ákvæði í 31. gr. laga nr. 75/1981, sem undanþægju arðstekjur í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, álagningu tekjuskatts.
Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með bréfi, dags. 1. nóvember 1989, þar sem hann mótmælir úrskurði skattstjóra og krefst þess, að tekjuskattsstofn verði reiknaður í samræmi við innsent framtal. Segir svo í bréfinu:
„Þær arðstekjur sem um ræðir, kr. 13.321 eru að hluta til fengnar vegna hlutabréfaeignar umbjóðanda okkar í óskiptri sameign hans og systkina hans, og að hluta til vegna hlutabréfaeignar sem færð hefur verið í rekstri hans, sem er útleiga fasteigna.
Ofangreind hlutabréfaeign tengist á engan hátt atvinnurekstri umbjóðanda okkar, heldur er hér um að ræða eign sem hann á sem einstaklingur og hafa því arðstekjur þessar á framtali verið færðar til lækkunar tekjum sbr. 2. tl. B. liðs 30. gr. laga nr. 75/1981.
Bókun hlutabréfaeignarinnar á ekki að vera ákvarðandi um skattalega meðferð arðsteknanna, heldur eðli máls.“
Með bréfi, dags. 30. september 1991, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi kærandi talið umrædd hlutabréf til eignar á efnahagsreikningi og verði ekki annað séð en að þau séu talin með í atvinnurekstri kæranda.
Úrskurður skattstjóra er staðfestur með vísan til forsendna hans, enda liggur ljóst fyrir, að umrædd hlutabréfaeign er talin til eignar í atvinnurekstri kæranda.