Úrskurður yfirskattanefndar
- Reiknað endurgjald
- Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra
- Málsmeðferð áfátt
Úrskurður nr. 682/1997
Gjaldár 1995
Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul. 2. mgr., 59. gr., 96. gr. Lög nr. 45/1987, 6. gr.
Í málinu var fjallað um ákvörðun reiknaðs endurgjalds vegna vinnu kæranda við eigin atvinnurekstur sem skattstjóri hafði ákvarðað miðað við flokk B-1 í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra. Kærandi krafðist þess að endurgjald yrði ákvarðað samkvæmt flokki B-2 í viðmiðunarreglunum og byggði m.a. á því að ekki bæri að taka tillit til verktakagreiðslna við mat á umfangi rekstrar með tilliti til starfsmannafjölda. Yfirskattanefnd féllst á þessa kröfu, m.a. með vísan til umsagnar ríkisskattstjóra. Þá var málsmeðferð skattstjóra talið áfátt.
I.
Málavextir eru þeir að með skattframtali kæranda árið 1995 fylgdi ársreikningur vegna reksturs hraðfrystihúss og fiskverkunar rekstrarárið 1994. Samkvæmt ársreikningnum námu rekstrartekjur 148.316.721 kr. og reiknað endurgjald kæranda vegna eigin vinnu 1.101.300 kr. Heildarlaunagreiðslur kæranda samkvæmt launaframtali námu 12.341.749 kr. Kærandi færði hreinar tekjur af rekstrinum að fjárhæð 2.630.950 kr. í reit 62 á framtali sínu árið 1995.
Með bréfi, dags. 2. febrúar 1996, óskaði skattstjóri eftir því við kæranda að hann gerði ítarlega grein fyrir vinnuframlagi sínu á árinu 1994. Fram kom í bréfi skattstjóra að hann teldi með hliðsjón af tegund og umfangi atvinnurekstrar kæranda á árinu 1994 að reiknað endurgjald hans væri lægra en eðlilegt gæti talist. Gerði skattstjóri kæranda viðvart um að komið gæti til þess að reiknað endurgjald hans yrði hækkað á skattframtali 1995 og í staðgreiðslu á árinu 1994. Ef til hækkunar kæmi myndi bætast við álag samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda með áorðnum breytingum, auk hækkunar tryggingagjalds og dráttarvaxta, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, sbr. og 13. og 14. gr. sömu laga.
Í svari umboðsmanns kæranda, dags. 16. febrúar 1996, kom fram að kærandi væri ófaglærður verkamaður og hefði hann unnið sem hver annar verkamaður í rekstrinum en fengið aðra til að vinna að bókhaldi og stjórnunarstörfum. Væri reiknað endurgjald kæranda ekki lægra en ef hann hefði innt það af hendi fyrir óskyldan aðila en vinnutími hans hefði að meðaltali verið um 44 tímar á viku. Meðaltalskaup verkamanna í fiskvinnu hefði numið um 380 kr. á tímann en laun kæranda hefðu verið um 550 kr. á tímann.
Skattstjóri tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 11. mars 1996, að reiknað endurgjald hans hefði verið hækkað í 2.677.222 kr. á árinu 1994, eða um 1.575.922 kr. Álagt tryggingagjald, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 113/1990 hækkaði því úr 424.598 kr. í 474.240 kr. og dráttarvextir, sbr. 1. mgr. 10. gr. og 2. mgr. 13. gr. sömu laga, hækkuðu úr 127 kr. í 6.555 kr. Þá bætti skattstjóri við álagi skv. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 að fjárhæð 148.001 kr. Skattstjóri hafnaði þeirri röksemd kæranda að hann hefði ekki verið stjórnandi í rekstrinum þótt hann keypti bókhaldsvinnu og vinnu við stjórnunarstörf og ynni sjálfur verkamannastörf. Taldi skattstjóri að með hliðsjón af launagreiðslum í rekstrinum yrði ekki annað séð en kærandi félli undir flokk B-1 í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra í staðgreiðslu á árinu 1994 en samkvæmt þeim flokki miðuðust árslaun við 2.677.222 kr.
Með kæru, dags. 24. mars 1996, kærði kærandi endurákvörðun skattstjóra og krafðist þess að reiknað endurgjald hans yrði lækkað. Kærandi benti á að þrátt fyrir fjölda launamanna í rekstri hans hefðu aðeins tveir starfsmenn unnið hjá honum í fullu starfi, einn í hálfu starfi en aðrir hefðu starfað tímabundið. Kærandi kvað könnun á launabókhaldi hafa leitt í ljós að unnar vinnuvikur á árinu hefðu numið 415 eða sem svaraði til átta ársverka. Með kærunni fylgdi samantekt kæranda á unnum vinnuvikum og launagreiðslum í rekstri hans, sundurliðað eftir mánuðum.
Skattstjóri hafnaði kröfum kæranda með kæruúrskurði, dags. 2. júlí 1996. Fram kom í úrskurðinum að með hliðsjón af umfangi rekstrar kæranda, greiddum launum og verktakagreiðslum, svo og heildarveltu (rekstrarins), þætti reiknað endurgjald kæranda réttilega ákvarðað 2.677.222 kr.
II.
Með kæru, dags. 2. júlí 1996, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni er gerð sú krafa að reiknað endurgjald kæranda árið 1994 verði miðað við tekjur í flokki B-2 samkvæmt viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra. Telur umboðsmaður kæranda að færðar hafi verið fram sönnur þess að kærandi hafi á árinu 1994 greitt laun sem svari til átta ársverka og því eigi reiknað endurgjald hans að miðast við flokk B-2 í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra. Bendir umboðsmaður kæranda á að skattstjóra hafi ekki verið heimilt að taka mið af verktakagreiðslum né veltu rekstrar kæranda við ákvörðun á viðmiðunartekjum kæranda.
Með bréfi, dags. 11. júlí 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra fyrir árið 1994, gjaldárið 1995 segir að undir flokk B1 falli stjórnendur fyrirtækja með veruleg umsvif og umfang er greiða laun sem samsvara árslaunum tíu starfsmanna eða fleiri. Skattstjóri tekur mið af umfangi rekstrar kæranda, launa og verktakagreiðslum, sem og heildarveltu.
Ef viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra eru túlkaðar eftir orðanna hljóðan þá verður ekki annað séð en að aðeins eigi að taka mið af launagreiðslum skattgreiðanda en ekki af verktakagreiðslum líka. Í flokki B2 er miðað við stjórnendur fyrirtækja sem greiða laun sem samsvara árslaunum fjögurra til allt að tíu starfsmanna. Telja verður að samkvæmt gögnum málsins og skýringum að kærandi falli undir flokk B2 í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra fyrir árið 1994.
Með vísan til þess sem að framan greinir er fallist á kröfu kæranda."
III.
Með bréfi, dags. 2. febrúar 1996, gerði skattstjóri kæranda grein fyrir lagaákvæðum um ákvörðun reiknaðs endurgjalds og ákvörðun þess í staðgreiðslu. Skattstjóri tók fram að með hliðsjón af tegund og umfangi atvinnurekstrar kæranda á árinu 1994 virtist reiknað endurgjald sem kærandi hefði greitt staðgreiðslu af og fært í reit 24 á skattframtali sínu 1995 vera lægra en eðlilegt gæti talist. Fór skattstjóri því fram á að kærandi gerði ítarlega grein fyrir vinnuframlagi sínu á árinu 1994, sýndi sundurliðaðan útreikning á launum ársins og útskýrði forsendur útreikningsins. Í niðurlagi bréfs síns tók skattstjóri fram að í framhaldi af svari kæranda yrði tekin ákvörðun um það hvort hækka þyrfti reiknað endurgjald á skattframtali kæranda 1995 og í staðgreiðslu á árinu 1994. Jafnframt tók skattstjóri fram að hækkun reiknaðs endurgjalds hefði auk álags samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, í för með sér hækkun tryggingagjalds og dráttarvexti á þá hækkun, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, sbr. 13. og 14. gr. sömu laga. Með bréfi, dags. 16. febrúar 1996, gerði umboðsmaður kæranda grein fyrir þeim forsendum sem ákvörðun reiknaðs endurgjalds kæranda byggðist á. Skattstjóri tilkynnti kæranda um ákvörðun reiknaðs endurgjalds sem kæranda hefði borið að taka mið af í staðgreiðslu á árinu 1994, ásamt breytingum á tryggingagjaldi, álagi og dráttarvöxtum, sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 11. mars 1996. Í tilkynningu sinni féllst skattstjóri ekki á skýringar kæranda og taldi að honum bæri að reikna sér endurgjald miðað við tilgreindan flokk í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald.
Það er við málsmeðferð skattstjóra að athuga að áður en hann hratt breytingum sínum í framkvæmd bar honum að vefengja skýringar kæranda og gefa honum kost á að tjá sig um þann viðmiðunarflokk (B-1) sem skattstjóri taldi að kæranda bæri að miða ákvörðun reiknaðra launa við. Tekið skal fram að kærandi miðaði staðgreiðsluskil sín við að starfsemi hans félli í flokk E í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra og verður ekki séð að skattstjóri hafi gert athugasemdir við það á staðgreiðsluári. Svo sem málsmeðferð skattstjóra var háttað átti kærandi þess ekki nægilega kost að koma að sjónarmiðum sínum og eftir atvikum leggja fram gögn varðandi þann viðmiðunarflokk sem skattstjóri taldi að kæranda bæri að miða við varðandi ákvörðun reiknaðs endurgjalds. Var þessi málsmeðferð ekki að öllu leyti í samræmi við 1. og 4. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981. Að því virtu hvernig mál þetta liggur fyrir yfirskattanefnd þykja ekki alveg nægar forsendur til að hnekkja breytingu skattstjóra.
Kærandi hefur gert kröfu um að byggt verði á því að starfsemi hans falli í flokk B-2. Að því virtu sem fram hefur komið um starfsemi kæranda, sbr. einnig kröfugerð ríkisskattstjóra, er fallist á kröfu kæranda.