Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 1055/1991
Gjaldár 1990
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 1. mgr. — 92. gr. — 95. gr. 1. mgr. 3. ml. — 96. gr. 1. og 3. mgr. Lög nr. 45/1987 — 5. gr. — 24. gr.
Skattskyldar tekjur — Launatekjur — Upplýsingaskylda — Upplýsingaskylda launagreiðanda — Launamiði — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Laun í staðgreiðslu — Staðgreiðsluskrá — Breytingarheimild skattstjóra — Fyrirspurnarskylda skattstjóra — Andmælareglan — Upplýsingaréttur — Sjónarmið, sem stjórnvaldsákvörðun er byggð á — Ólögmæt sjónarmið — Forsendur skattstjóra — Rangar forsendur skattstjóra — Sönnun — Sönnunarbyrði — Rökstuðningur — Rökstuðningur ákvarðana skattstjóra — Rökstuðningi áfátt — Málsmeðferð áfátt
I.
Málavextir eru þeir, að kærandi skilaði undirrituðu og staðfestu skattframtali árið 1990. Meðal launatekna tilgreindi kærandi laun frá Launaskrifstofu ríkisins 3.245.888 kr. Hinn 27. júlí 1990 tilkynnti skattstjóri kæranda, að fjárhæð launa frá Launaskrifstofu ríkisins hefði verið hækkuð í 3.446.898 kr. Vísaði skattstjóri til þess, að samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá svo og samkvæmt launamiða frá launagreiðanda næmi launafjárhæð fyrrgreindri fjárhæð. Við framkvæmd þessarar breytingar á skattframtali kæranda fór skattstjóri eftir 3. ml. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Af hálfu kæranda var fyrrgreindri breytingu skattstjóra mótmælt í bréfi, dags. 31. júlí 1990. Fylgdi bréfi kæranda ljósrit af launamiða þeim, er kæranda barst frá Launaskrifstofu ríkisins vegna launa árið 1989. Kvaðst kærandi hafa stuðst við upplýsingar þær, er fram komu á launamiðanum, við gerð skattframtals síns. Fram kom af hálfu kæranda, að hann áleit nauðsynlegt vegna bréfs skattstjóra, dags. 27. júlí 1990, að skattstjóri upplýsti hann nánar um það á hvaða upplýsingum væri byggt varðandi hækkun tekna frá Launaskrifstofu ríkisins, enda bæri þeim upplýsingum, er hann hefði fengið frá Launaskrifstofunni, saman við launaseðil þann, er bréfinu fylgdi.
Hinn 19. febrúar 1991 tók skattstjóri kæru kæranda til úrlausnar með kæruúrskurði. Vísaði skattstjóri kærunni frá, þar sem hann taldi hana vanreifaða af hendi kæranda með því að af hans hálfu hefðu ekki verið lögð fram gögn eða skýringar, er sönnuðu, að laun hans frá Launaskrifstofu ríkisins væru lægri en 3.446.898 kr. Vísaði skattstjóri til þess, að samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá hefði kærandi fengið greiddar 3.446.898 kr. frá Launaskrifstofu ríkisins.
II.
Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 19. mars 1991. Krefst kærandi þess, að tekjuhækkun þeirri, sem skattstjóri ákvað og fyrr var lýst, verði hrundið. Segir svo í kærunni:
„Eins og lýst er í hinum kærða úrskurði voru framtalin laun mín frá Launaskrifstofu ríkisins tekjuárið 1989 samtals kr. 3.245.888.- og var það í samræmi við upplýsingar á launaseðlum og launamiða, sbr. meðfylgjandi ljósrit. Með bréfi, dags. 27. júlí 1990, var mér gerð grein fyrir þeirri ákvörðun skattstjórans í Reykjavík að hækka framtaldar tekjur mínar um kr. 201.010.- og var það rökstutt með upplýsingum úr staðgreiðsluskrá. Hinn 31. júlí 1990 bar ég fram kæru við skattstjóra af þessu tilefni og hafði jafnframt samband við Launaskrifstofu ríkisins og óskaði eftir því að upplýsingar í staðgreiðsluskrá yrðu leiðréttar. Af hálfu Launaskrifstofunnar var lofað að réttum upplýsingum yrði komið á framfæri við skattstjóra og staðgreiðsluskrá. Samkvæmt hinum kærða úrskurði er ljóst að þessar upplýsingar hafa ekki verið sendar þrátt fyrir loforð þar um. Ég hef því óskað eftir að fá senda slíka staðfestingu frá Launaskrifstofu og verður hún send ríkisskattanefnd strax og hún liggur fyrir. Er kæra þessi borin fram með þeim áskilnaði að mér gefist kostur á að koma þessum viðbótargögnum að.
Kæru mína byggi ég á því að samkvæmt launamiða 1990 námu heildarlaunagreiðslur Launaskrifstofu ríkisins til mín árið 1989 kr. 3.245.888.-. Með útgáfu launamiðans staðfesti Launaskrifstofan þær launagreiðslur, sem hún hafði innt af hendi til mín á árinu 1989 í samræmi við 92. gr. laga nr. 75/1981 um tekju- og eignarskatt. Ég mótmæli því að upplýsingar í staðgreiðsluskrá skuli lagðar til grundvallar í úrskurði skattstjóra og þær látnar ganga framar upplýsingum launagreiðanda um launagreiðslur. Ég lít svo á að fara verði með mistök eða leiðréttingar á launagreiðslum, sem ekki hefur náðst að leiðrétta í staðgreiðsluskrá, sem sjálfstætt úrlausnarefni, enda þeirri skrá ætlað að geyma upplýsingar um greiðslur, sem inntar hafa verið af hendi til að mæta skattgreiðslum.
Ég ítreka hér með að frekari gögn til stuðnings kæru þessari verða send á næstu dögum.“
Með bréfi, dags. 18. júní 1991, sendi kærandi ljósrit af staðfestingu fjármálaráðuneytisins, dags. 10. júní 1991, á launagreiðslum hans árið 1989, þar sem fram kemur, að launagreiðslur til kæranda það ár eru í samræmi við tilgreiningu hans í skattframtali. Þá er í staðfestingu þessari gerð grein fyrir leiðréttingarfærslum og tekið fram af ráðuneytisins hálfu, að þær færslur hafi engin áhrif haft á launagreiðslur á árinu 1989, sbr. niðurstöðutölur launaseðils 16. febrúar 1989. Kemur og fram, að fjármálaráðuneytið kunni enga skýringu á þeirri hækkun tekna 210.010 kr. er um sé deilt í máli þessu. Í bréfi sínu, dags. 18. júní 1991, ítrekar kærandi kæru sína með skírskotun til þeirra upplýsinga, er fram komi í nefndri staðfestingu.
III.
Með bréfi, dags. 17. október 1991, hefur ríkisskattstjóri f.h. gjaldkrefjenda fallist á kröfu kæranda.
IV.
Fyrir skattstjóra lá launauppgjöf launagreiðanda gerð samkvæmt lagaskyldu þeirri, sem kveðið er á um í 1. mgr. 92. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ákvæði þetta er grundvöllur upplýsingaskyldu í þessum efnum. Allt að einu ákvað skattstjóri að byggja á öðrum upplýsingum en lögmæltum gögnum varðandi launafjárhæð kæranda án þess þó að af hans hálfu væru nokkur sérstök rök færð fyrir þeim afbrigðum. Að auki gaf skattstjóri kæranda ekki færi á að tala máli sínu og koma að athugasemdum sínum, andmælum og eftir atvikum gögnum, áður en hann breytti framtalinu á hinn umdeilda veg. Skattstjóra bar að fara með hina kærðu breytingu eftir 1. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, hyggðist hann hrófla við umræddum lið skattframtals kæranda en ekki eftir 3. ml. 1. mgr. 95. gr. s.l. svo sem hann gerði. Að þessu virtu og með skírskotun til skýringa og gagna viðvíkjandi efnishlið málsins er krafa kæranda tekin til greina.