Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1075/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 1. mgr. — 60. gr. 2. mgr. — 92. gr.   Lög nr. 46/1987 — 2. gr.  

Skattskyldar tekjur — Launatekjur — Tekjutímabil — Launauppgjöf — Launamiði — Upplýsingaskylda — Upplýsingaskylda launagreiðanda — Launaleiðrétting — Greiðslutími launa — Greiðsluár — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Gildistaka skattalaga — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda

Málavextir eru þeir að með bréfi til skattstjóra, dags. 4. ágúst 1989, óskaði kærandi eftir því, að launatekjur í skattframtali hans 1989 frá Launaskrifstofu ríkisins yrðu lækkaðar um 35.234 kr. en umrædd fjárhæð væri vegna launa á árinu 1987 og ætti þess vegna ekki að skattleggjast.

Með kæruúrskurði, dags. 26. febrúar 1990, synjaði skattstjóri kröfu kæranda á eftirfarandi forsendum:

„Samkvæmt launamiða frá Launaskrifstofu ríkisins voru launatekjur kr. 1.004.529 og hefur ekkert komið fram frá vinnuveitanda um að laun, er greidd voru á árinu 1988 væru röng.

Samkvæmt venjum undanfarinna ára hefur sami háttur verið hafður á launauppgjöri, þannig að laun vegna eftirvinnu og aðrar greiðslur, sem falla til síðustu daga ársins, hafa verið taldar til tekna á greiðsluári og hefur engin breyting orðið þar á.“

Kærandi hefur skotið hinum kærða úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með bréfi sem er ódagsett en móttekið hjá ríkisskattanefnd þann 22. mars 1990. Í kærubréfinu greinir kærandi frá því, að hin umdeilda fjárhæð sé vegna vinnu sem unnin var á árinu 1987. Hefði hann eftir nokkurt erfiði fengið Launaskrifstofu ríkisins til þess að leiðrétta skattafrádrátt sinn á öndverðu ári 1988 á þann veg að ekki var lagður skattur á hina umdeildu fjárhæð. Við gerð skattframtals árið 1989, hefði hann hinsvegar gleymt að draga fjárhæðina frá launatekjum ársins 1988, enda hefði svo verið einnig hjá launaskrifstofu ríkisins. Mótmælir kærandi úrskurði skattstjóra og krefst þess að launatekjur ársins 1988 verði lækkaðar um hina umþrættu fjárhæð.

Með bréfi, dags. 10. ágúst 1990, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Óumdeilt er að hin umdeilda launafjárhæð er vegna vinnu á árinu 1987. Er krafa kæranda því tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja