Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1091/1991

Gjaldár 1982-1984

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 7. tl. — 95. gr. 2. mgr. — 97. gr. 1. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml. — 100. gr. 1. mgr. — 101. gr. 3. mgr. — 106. gr. 1. mgr.  

Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Skatterindi — Endurákvörðun skattstjóra — Endurákvörðunarheimild ríkisskattstjóra — Rekstrartap — Rekstrartap, yfirfæranlegt — Yfirfæranlegt rekstrartap — Tímamörk endurákvörðunar — Valdframsal — Æðra stjórnvald framselur lægra stjórnvaldi vald sitt — Kæruúrskurður — Kærufrestur — Kæruheimild — Kæranleg skattákvörðun — Kæranleiki — Kæranleiki skattákvörðunar til skattstjóra — Frávísun — Frávísun, engin kæranleg skattákvörðun — Tímamörk endurákvörðunar gilda ekki sé ákvörðun skattaðila til hags

I.

Tildrög málsins eru þau, að af hálfu kæranda voru skattframtöl áranna 1982 til og með skattframtali 1989 send ríkisskattstjóra ásamt bréfi, dags. 25. janúar 1990, þar sem þess var óskað, að skattframtölin yrðu lögð til grundvallar álagningu opinberra gjalda umrædd gjaldár í stað áætlunar áður. Voru skýringar í bréfinu eftirfarandi:

„Árið 1981 seldi X h/f allar eignir sínar og var allri starfsemi félagsins jafnframt hætt. Þess var hinsvegar ekki gætt að skila skattframtölum fyrir árin 1982–1989. Skattframtali 1990 hefur verið skilað.“

Með bréfi, dags. 23. febrúar 1990, framsendi ríkisskattstjóri skattstjóra mál kæranda til afgreiðslu á grundvelli 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Féllst skattstjóri á að leggja skattframtöl áranna 1985 til og með 1989 til grundvallar nýrri álagningu að viðbættum viðurlögum samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 106. gr. sömu laga en synjaði kröfu kæranda varðandi skattframtöl 1982 til og með 1984 á þeim forsendum að þau væru vegna svo löngu liðins tíma að ekki væri heimilt að breyta álagningu þeirra ára.

II.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur úrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kröfu um, að umrædd skattframtöl kæranda vegna áranna 1982 til og með 1984 verði lögð til grundvallar álagningu opinberra gjalda í stað áætlunar áður og að uppsafnað tap samkvæmt þeim verði ekki fellt niður. Eru forsendur umboðsmannsins í kærubréfinu svohljóðandi:

„Enda þótt það komi ekki fram í úrskurði skattstjóra, mun hann styðjast við 97. gr. skattalaga. Ég tel, að líta verði svo á, að ákvæði um tímamörk í 97. gr. eigi fyrst og fremst við um íþyngjandi álagningu frá hendi skattstjóra. Hafi breyting álagningar hinsvegar ívilnandi áhrif fyrir skattaðilann er það skoðun mín, að ekki skuli tekið tillit til tímaákvæða 97. gr. Hér er um að ræða ívilnandi breytingu, þar sem annars væri með úrskurði skattstjóra fellt niður allt uppsafnað tap fyrri ára. Sem hliðstæðu má benda á þá takmörkun, sem er í 59. gr. skattalaga á heimild skattstjóra til að ákvarða laun við eigin atvinnurekstur. Ekkert í þeirri grein bannar framteljanda að reikna sér hærri laun ef hann óskar.“

III.

Með bréfi, dags. 24. október 1990, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda, að kröfu kæranda verði hafnað með vísan til 1. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981.

IV.

Svo sem fram hefur komið fól ríkisskattstjóri skattstjóra með bréfi, dags. 23. febrúar 1990, afgreiðslu þeirrar óskar kæranda, að skattframtöl áranna 1982 – 1989 yrðu tekin til meðferðar og opinber gjöld ákvörðuð að nýju í samræmi við þau í stað áætlana skattstjóra á gjaldstofnum, en kærandi hafði eigi áður talið fram til skatts vegna þessara ára og engum skattframtölum skilað. Fór ríkisskattstjóri í þessum efnum eftir ákvæðum 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með bréfum, dags. 23. mars 1990, tók skattstjóri ofangreint erindi til afgreiðslu. Féllst hann á að taka skattframtöl áranna 1985, 1986, 1987, 1988 og 1989 til álagningarmeðferðar og miðaði nýja skattstofna við þau að viðbættu 25% álagi vegna síðbúinna framtalsskila. Að því er þau ár varðar gat skattstjóri þess réttilega, að kærufrestur til sín væri 30 dagar frá og með póstlagningardegi tilkynningar hans um endurákvörðun þessa, sbr. 3. mgr. 101. gr. nefndra laga. Af hálfu kæranda hefur verið unað við þessa afgreiðslu skattstjóra og hún ekki kærð til hans svo séð verði af framlögðum gögnum í málinu. Að því er varðar skattframtöl áranna 1982, 1983 og 1984 féllst skattstjóri ekki á að leggja þau til grundvallar nýrri álagningu opinberra gjalda, þar sem þau framtöl séu „vegna það löngu liðins tíma að ekki sé heimilt að breyta álagningu þeirra ára“. Þessari afstöðu skattstjóra hefur umboðsmaður kæranda skotið til ríkisskattanefndar með kæru sinni, dags. 2. apríl 1990, og er hér áður gerð grein fyrir kröfum hans.

Á það er út af fyrir sig fallist með kæranda, að í máli þessu var 1. mgr. 97. gr. áður nefndra laga því eigi til fyrirstöðu að skattstjóri tæki efnislega afstöðu til erindis kæranda varðandi gjaldárin 1982, 1983 og 1984. Á hitt er að líta, að skattstjóri hefur engan þann úrskurð kveðið upp í málinu, sem kæranlegur er til ríkisskattanefndar eftir ákvæðum 100. gr. nefndra laga. Þegar af þeirri ástæðu er kærunni vísað frá.

Það athugist, að rétt hefði verið af skattstjóra að endursenda ríkisskattstjóra þau skattframtöl, sem hann taldi sig eigi hafa haft að lögum heimild til að taka til umfjöllunar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja