Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 1116/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tl. — 116. gr. Auglýsing um skattmat ríkisskattstjóra tekjuárið 1988, liður 3.1.0.
Skattskyldar tekjur — Ökutækjastyrkur — Ökutækjakostnaður — Akstur í eigin þágu — Akstur milli heimilis og vinnustaðar — Skattmat ríkisskattstjóra — Matsreglur ríkisskattstjóra — Flugmaður
Málavextir eru þeir, að skattstjóri tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 21. mars 1990, að tilfærður frádráttur í reit 32 á skattframtali 118.478 kr. vegna greidds ökutækjastyrks frá vinnuveitanda hefði verið felldur niður, þar eð svar við fyrirspurnarbréfi varðandi ökutækjastyrkinn hefði ekki borist.
Í kæru til skattstjóra, dags. 18. apríl 1990, var ofangreindri breytingu mótmælt, en með úrskurði, uppkveðnum 25. apríl 1990, synjaði skattstjóri kærunni og eru forsendur úrskurðarins þessar:
„Í kærubréfi kemur fram að hér er um akstur á milli heimilis og vinnustaðar að ræða.
Í lögum nr. 75/1981, sbr. lög nr. 92/1987, um tekjuskatt og eignarskatt, er ekki að finna heimild til frádráttar á akstri framteljanda milli heimilis og vinnustaðar. Allur akstur á milli heimilis og vinnustaðar telst því vera í eigin þágu og eru eldri reglur þar um úr gildi fallnar, sbr. leiðbeiningar á bakhlið fylgiskjals RSK 3.04, „endurgreiddur bifreiðakostnaður, ökutækjastyrkur og ökutækjarekstur.“ Umræddur bifreiðastyrkur er því skattskyldur, sbr. 7. gr. nefndra laga.“
Kærandi skaut máli þessu til ríkisskattanefndar með bréfi, dags. 18. maí 1990, og segir þar m.a.:
„Ég undirritaður leyfi mér hér með að áfrýja til Ríkisskattanefndar úrskurði skattstjórans í Reykjavík, dagsettum 23. apríl 1990, og óska eftir jákvæðum úrskurði Ríkisskattanefndar um að mér hafi á árinu 1988 verið heimilt að selja X h.f. bifreiðaþjónustu og að draga frá þeim tekjum allan kostnað vegna öflunar þeirra, sbr. fylgiskjal í skattframtali mínu árið 1989, svo og með tilvísun til 2. málsgreinar 30. greinar laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt með síðari breytingum. Jafnframt er farið fram á, að gjaldaálagning skattstjóra á mig vegna fyrrgreindra tekna, dags. 21.3.1990, að fjárhæð kr. 51.133.00 verði felld niður.
Máli mínu til stuðnings leyfi ég mér að vísa til raka er fram koma í bréfum, sem ég hefi sent skattstjóra vegna þessa skattamáls og fylgja munu skattframtali mínu árið 1989.
Ennfremur skal eftirfarandi tekið fram:
Ég hefi, svo sem aðrir stjórnendur flugvéla handbækur til afnota í starfi og innihalda bækur þessar kort yfir flugvelli og flugleiðir og aðrar nauðsynlegar upplýsingar, og þarfnast þess að vera leiðréttar reglulega og skulu ævinlega vera réttar þá er flug er hafið.
Leiðréttingar þessar þarf að sækja á flugvöll og vinna síðan úr þeim heima og er hluti af hinni seldu bifreiðaþjónustu í því sambandi.“
Af hálfu ríkisskattstjóra er með bréfi, dags. 15. mars 1991, gerð sú krafa, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Samkvæmt 1. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, eru útgjöld á móti ökutækjastyrk frádráttarbær í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra. Samkvæmt matsreglum þess embættis telst allur akstur milli heimilis og vinnustaðar vera í einkaþágu. Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á, að akstur sá, sem hann hefur tilfært sé annað en akstur milli heimilis og vinnustaðar. Að svo vöxnu er kröfu kæranda synjað.