Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1121/1991

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 5. tl. — 4. gr. 6. tl. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml. — 100. gr. 5. mgr.   Lög nr. 127/1989 — 1. gr. — 2. gr. — 5. gr. — 7. gr.   Reglugerð nr. 245/1963 — 93. gr. 2. mgr.  

Sérstakur eignarskattur — Sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði — Skrifstofuhúsnæði — Skrifstofuhald — Fasteign — Notkun húsnæðis — Skrá til sérstaks eignarskatts — Skattskylda — Lögaðili — Félag — Stéttarfélag — Verkalýðsfélag — Skattskylda félags — Skattfrelsi — Skattfrjáls lögaðili — Lögaðili, skattfrjáls — Atvinnurekstur — Leiðréttingarskylda skattstjóra — Síðbúin kæra — Kæra, síðbúin — Frávísun — Frávísun vegna síðbúinnar kæru — Kröfugerð ríkisskattstjóra

I.

Málavextir eru þeir, að kærandi skilaði sérstakri skrá yfir eignir til sérstaks skatts á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, sbr. 5. gr. laga nr. 127 frá 28. desember 1989, um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Er skrá þessi dagsett 4. júlí 1990. Í skránni var leiddur fram stofn til hins sérstaka eignarskatts 1.722.000 kr. vegna eignarhlutdeildar kæranda í fasteigninni A. Í athugasemdum í skránni kom fram, að skrifstofuhúsnæðið að A, væri rekið af skrifstofu verkalýðsfélaganna, þ.e.a.s. um væri að ræða samrekstur um skrifstofuhald 6 verkalýðsfélaga og Alþýðusambands Y. Félögin hvert um sig nytu skattfríðinda en skrifstofa verkalýðsfélaganna væri rekin sem sjálfstæður skattaðili og innti af hendi öll þau gjöld, er leiddu af launagreiðslum til starfsfólks.

Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1990 var lagður sérstakur eignarskattur á kæranda á grundvelli fyrrgreindrar skrár og nam fjárhæð hans 25.830 kr. Með bréfi, dags. 19. febrúar 1991, mótmælti kærandi álagningunni á þeim grundvelli, að hann væri ekki skattskyldur til hins sérstaka eignarskatts, sbr. 2. gr. laga nr. 100/1988 (sic), um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, og 6. tl. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kom fram í kærunni, að vegna skriflegrar beiðni skattstofu hefði umrædd skrá, dags. 4. júlí 1990, verið send. Í henni hefði verið vísað til skattfrelsis þeirra félaga, er stæðu að skrifstofuhaldinu. Tekið var fram af hálfu kæranda, að vegna tilvísunar laga um hinn sérstaka eignarskatt til I. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, varðandi skattskyldu, teldist hann ekki skattskyldur til hins sérstaka eignarskatts. Um væri að ræða samrekstur 7 skattfrjálsra aðila, er í hagræðingarskyni rækju saman skrifstofu, er nefndist í firmaskrá „[Skrifstofa …]“, þar sem starfrækt væri þjónusta fyrir hvert einstakt félag. Þá kom fram af hálfu kæranda, að kannað hefði verið hvernig álagningu hefði verið háttað að þessu leyti á önnur verkalýðsfélög eða sambönd þeirra, er rækju sambærilega þjónustu og flest með miklu fleira starfsfólki. Voru slík félög og sambönd nafngreind og tekið fram, að ekkert þeirra hefði orðið að sæta slíkri álagningu.

Með kæruúrskurði, dags. 12. mars 1991, vísaði skattstjóri kærunni frá sem of seint framkominni með því að kærufrestur vegna álagningar gjaldárið 1990 væri liðinn.

II.

Með kæru, dags. 15. mars 1991, hefur frávísunarúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar af hálfu kæranda og er þess krafist, að sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði verði felldur niður. Vísað er til fyrirliggjandi málsgagna.

III.

Með bréfi, dags. 30. september 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur. Telji ríkisskattanefnd hins vegar að taka beri kæruna til efnislegrar meðferðar er með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum fallist á kröfu kæranda.“

IV.

Eins og sakarefni er háttað var ekki rétt af skattstjóra að vísa kærunni frá á þeim forsendum, að hún væri of seint framkomin, sbr. 2. mgr. 93. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt. Er því rétt að taka kæruna til efnismeðferðar og er aðalkröfu ríkisskattstjóra því hrundið. Að virtum málavöxtum og með vísan til 2. gr. laga nr. 127/1989, um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, sbr. og varakröfu ríkisskattstjóra í máli þessu, er fallist á kröfu kæranda og hinn sérstaki eignarskattur felldur niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja