Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 16/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tl.  

Skattskyldar tekjur — Rútupeningar — Launatekjur — Fargjöld — Fargjaldafrádráttur — Fargjaldakostnaður — Langferðir — Dagpeningar — Dagpeningafrádráttur — Ferða- og dvalarkostnaður vegna vinnuveitanda — Ferðakostnaður — Frádráttarheimild

Ágreiningsefnið í máli þessu er sú ákvörðun skattstjóra að fella niður sem frádráttarlið á skattframtali 1990 127.650 kr., sem kærandi hafi fært sem „Rútugjald v/langferða milli byggðarlaga“. Í kæru til skattstjóra, dags. 6. ágúst 1990, var breytingunni mótmælt og taldi kærandi m.a., að ferðastyrkur þessi væri sambærilegur við dagpeninga og hliðstæðar greiðslur og væri því frádráttarbær samkvæmt 1. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. gildandi skattalaga nr. 75/1981.

Skattstjóri hafnaði kröfu kæranda um frádrátt með úrskurði uppkveðnum 29. október 1990. Voru forsendur úrskurðarins þær, að rútugjald teldist ekki vera ferða- og dvalarkostnaður vegna atvinnurekanda heldur launþegans sjálfs. Væri því enginn frádráttur skv. 1. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 heimill frá þeim greiðslum.

Kærandi skaut máli þessu til ríkisskattanefndar með bréfi, dags. 23. nóvember 1990, og ítrekaði fyrri kröfu og vísaði til fyrri bréfaskipta.

Af hálfu ríkisskattstjóra er með bréfi, dags. 17. október 1991, gerð sú krafa, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Úrskurð skattstjóra þykir bera að staðfesta með vísan til forsendna hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja