Úrskurður yfirskattanefndar
- Reiknað endurgjald
- Málsmeðferð áfátt
Úrskurður nr. 753/1997
Gjaldár 1995
Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul. 2. mgr., 59. gr. 1. mgr. 2. málsl., 95. gr. 1. mgr., 96. gr. Lög nr. 37/1993, 13. gr.
Ákvarðanir skattstjóra um að færa rekstrarhagnað kæranda vegna sjálfstæðrar starfsemi sem reiknuð laun og um álagningu tryggingagjalds voru ómerktar þar sem málsmeðferð skattstjóra var talin hafa brotið í bága við andmælarétt kæranda.
I.
Með kæru, dags. 7. nóvember 1995, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar þeirri ákvörðun skattstjóra að færa rekstrarhagnað kæranda vegna sjálfstæðrar starfsemi hans sem reiknuð laun. Þá hefur hann kært ákvörðun skattstjóra um álagningu tryggingagjalds.
Málavextir eru þeir að skattframtali kæranda gjaldárið 1995 fylgdi rekstrarreikningur vegna sjálfstæðrar starfsemi hans á árinu 1994. Samkvæmt rekstrarreikningnum námu tekjur kæranda af sjálfstæðri starfsemi á árinu 1994 4.605.442 kr. og gjöld námu 4.163.266 kr. Mismunurinn 442.176 kr. var færður sem rekstrarhagnaður í reit 62 á skattframtali kæranda. Kærandi greiddi 447.000 kr. í laun á árinu og greiddi af þeirri fjárhæð tryggingagjald. Með bréfi, dags. 12. júní 1995, óskaði skattstjóri eftir að kærandi ákvarðaði sér endurgjald 1995 við blaðaumsýslu en skattstjóri taldi að samkvæmt rekstrarreikningi hefði umfang starfseminnar verið það mikið að óreglulega reiknað endurgjald virtist ekki geta átt við hjá honum. Í sama bréfi gerði skattstjóri kæranda viðvart um leiðréttingar á skattframtali 1995 með vísan til 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Fjárhæð í reit nr. 62 alls 442.176 kr. hefði verið færð sem reiknað endurgjald í reit 24 á framtalinu. Í kæru umboðsmanns kæranda, dags. 15. júní 1995, kom fram að kærandi væri málari og inni við iðn sína og væri greitt tryggingagjald af launum hans þar. Þá hefði hann verið atvinnulaus um tíma á árinu 1994. Umfang áðurnefndrar blaðaumsýslu árið 1994 hefði að sönnu verið allnokkuð en tekjuafgangur hefði þó verið innan við 10% af veltu. Kærandi hefði greitt 447.000 kr. í laun árið 1994 og tryggingagjald af því. Engar viðmiðunarreglur væru til um reiknað endurgjald vegna blaðaumsýslu og því væri mótmælt að hreinar tekjur væru færðar sem reiknað endurgjald og þess krafist að fjárhæðin 442.176 kr. stæði áfram í reit 62 á framtali. Með bréfi, dags. 24. ágúst 1995, kærði umboðsmaður kæranda einnig álagningu tryggingagjalds 1995. Samkvæmt álagningarseðli væri stofn 889.176 kr. og álagning 58.238 kr. Stofninn virtist vera samtala greiddra launa 447.000 kr. og hreinna tekna 442.176 kr. Í fyrsta lagi hefði átt að reikna 3,20% tryggingagjald af 447.000 kr. sem væru laun fyrir blaðburð. Í öðru lagi væri því mótmælt að tryggingagjald væri lagt á hreinar tekjur. Kærandi hefði haft 844.884 kr. eða 70.407 kr. á mánuði í tekjur af öðru en blaðaumsýslu, því væri fráleitt að leggja tryggingagjald á hreinar tekjur. Þess væri krafist að tryggingagjald af 442.176 kr. yrði fellt niður og það endurreiknað af 447.000 kr.
Með kæruúrskurði, dags. 26. október 1995, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda varðandi reiknað endurgjald. Í ársreikningi hefði komið fram að umsýslulaun hefðu numið 4.605.442 kr. og þegar gjöld væru skoðuð yrði ekki annað séð en að starfsemin væri byggð á vinnuframlagi kæranda við umsjón með dreifingu X-blaðsins til áskrifenda á Y, miklum akstri bifreiðar, innheimtu áskriftargjalda o.fl. Þá væri afgreiðsla X-blaðsins á Y auglýst opin frá kl. 7–13 alla útburðardaga. Fullar löglíkur væru því á einhverju vinnuframlagi kæranda við ofangreinda verkþætti. Greinargerð kæranda um reiknað endurgjald hefði verið móttekin 21. október 1993 þar sem hann hefði tilkynnt sig með óreglulegt endurgjald og í hlutastarfi. Kæranda hefði því verið lögskylt samkvæmt umfangi starfseminnar og samkvæmt 2. mgr. 1. tölul. 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að reikna sér laun, sbr. og innsendu greinargerðina um óreglulega reiknað endurgjald í hlutastarfi. Vinna kæranda sem málara breytti ekki þeirri skyldu hans að ákvarða sér endurgjald vegna blaðaumsýslu. Ekki væru því forsendur til að falla frá færslu á reiknuðu endurgjaldi en fallist væri á að lækka það í 408.000 kr. og færa 34.176 kr. sem hreinar tekjur.
Með öðrum kæruúrskurði, dags. sama dag, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda varðandi álagningu tryggingagjalds 1995. Vísaði skattstjóri í ofangreindan úrskurð um reiknað endurgjald máli sínu til stuðnings. Stofn til álagningar tryggingagjalds væri lækkaður um 34.176 kr., sbr. lækkun á reiknuðu endurgjaldi og yrði 855.000 kr. Ekki væri fallist á að lækka gjaldstig tryggingagjalds þar sem hér væri ekki um útgáfustarfsemi eða prentiðnað að ræða heldur væri kærandi verktaki við dreifingu blaða og félli sú starfsemi undir almennan gjaldflokk með gjaldstigi 6,55%.
II.
Með kæru, dags. 7. nóvember 1995, hefur umboðsmaður kæranda kært áðurnefnda úrskurði skattstjóra, báða dags. 26. október 1995, til yfirskattanefndar. Varðandi úrskurð um reiknað endurgjald vísar umboðmaðurinn í fyrri kærur til skattstjóra. Blaðberar annist innheimtu áskriftargjalda auk þess sem allmikið sé innheimt með greiðslukortum og komi kærandi þar hvergi nærri. Afgreiðsla X-blaðsins sé auglýst opin frá kl. 7–12 útburðardaga. Þetta sé kæranda unnt með aðstoð annarra, símsvara og þeirri þjónustu stafræna símakerfisins að færa símtöl milli númera. Þannig geti kærandi tryggt að áskrifendur nái í hann í farsíma þótt hann sé í vinnu annarsstaðar. Þá geti fleiri ekið bifreið kæranda en hann sjálfur í þágu X-blaðsins, enda hafi hann greitt 447.000 kr. í laun á árinu 1994. Með vísan til framanritaðs og raka í fyrri kærum til skattstjóra krefst umboðsmaðurinn að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi og að hagnaður 442.176 kr. standi áfram í reit 62 á framtali. Varðandi álagningu tryggingagjalds 1995 er einnig vísað í fyrri kærur til skattstjóra. Skattstjóri hafi ekki fallist á að lækka gjaldstig tryggingargjalds í 3,20% og haldi því fram að aðrar reglur eigi að gilda um kæranda en blaðbera. Starfsemi umboðsmanna sé hluti af prentiðnaði og útgáfustarfsemi, þ.e. að koma hinu prentaða máli til áskrifenda og annarra kaupenda blaðsins. Þess sé því krafist að lægra gjaldstig verði notað við útreikning tryggingagjaldsins.
Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 24. nóvember 1995, gert þær kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
III.
Kæranda, sem hafði umsjón með dreifingu X-blaðsins á Y árið 1994, bar að reikna sér endurgjald vegna vinnu sinnar við þessa sjálfstæðu starfsemi, sbr. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Framtalsgerð kæranda fékk því ekki staðist. Hins vegar verður að telja að skattstjóra hafi borið að gera kæranda kleift að njóta andmælaréttar áður en hann tók ákvörðun í málinu. Eins og fram kemur í bréfi skattstjóra, dags. 12. júní 1995, fór skattstjóri með hina kærðu breytingu eftir ákvæðum 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en ekki eftir ákvæðum 1. og 3. mgr. 96. gr. sömu laga svo sem rétt hefði verið, enda var sakarefnið ekki svo vaxið að það gæti fallið undir þá breytingarheimild sem fyrrnefnda lagaákvæðið hefur að geyma. Verður að telja að skattstjóra hafi borið að gefa kæranda kost á að gæta hagsmuna sinna og koma að athugasemdum sínum og skýringum áður en hann ákvarðaði fjárhæð reiknaðs endurgjalds, sbr. 1. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, en samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 59. gr. sömu laga varð skattstjóri að gæta að atriðum sem ekki verður séð að hafi legið fyrir honum með óyggjandi hætti. Þá var sá annmarki á málsmeðferð skattstjóra að í kæruúrskurði sínum varðandi reiknað endurgjald, dags. 24. október 1995, byggði skattstjóri synjun sína, auk fyrri forsendna, á því að þegar gjöld kæranda hefðu verið skoðuð virtist starfsemi hans byggjast á vinnuframlagi hans við umsjón með dreifingu X-blaðsins til áskrifenda á Y. Nefndi skattstjóri máli sínu til stuðnings að bifreið kæranda hefði verið mikið ekin á árinu 1994, að innheimta hefði þurft áskriftargjöld og að afgreiðsla X-blaðsins á Y hefði verið auglýst opin kl. 7–13 alla útburðardaga. Skattstjóri vísaði einnig til umfangs starfsemi kæranda. Fullar löglíkur væru því á einhverju vinnuframlagi kæranda við ofangreinda verkþætti. Þessar forsendur komu ekki fram í bréfi skattstjóra, dags. 12. júní 1995, til kæranda. Það var því fyrst með kæruúrskurðinum að kæranda var gert ljóst að byggt var á þessum forsendum. Því er ljóst að þessi málsmeðferð skattstjóra brýtur í bága við andmælarétt kæranda, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 1. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981. Af þessum sökum verður að ómerkja hina kærðu breytingu. Úrskurður skattstjóra um álagningu tryggingagjalds, dags. 26. október 1995, er einnig ómerktur af sömu ástæðu.