Úrskurður yfirskattanefndar
- Rekstrarkostnaður
Úrskurður nr. 763/1997
Gjaldár 1996
Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr.
Kærandi, sem var tónlistarmaður, færði til gjalda í rekstrarreikningi sínum tannlæknakostnað. Kvað hann slík útgjöld nauðsynleg þeim sem hefðu atvinnu af að leika og kenna á blásturshljóðfæri. Yfirskattanefnd taldi verða að virða útgjöld kæranda til tannviðgerða sem persónulegan kostnað hans en ekki frádráttarbæran rekstrarkostnað og staðfesti þá ákvörðun skattstjóra að fella gjaldfærslu umræddra útgjalda niður.
I.
Með kæru, dags. 11. desember 1996, hefur kærandi mótmælt þeirri breytingu skattstjóra á rekstrarreikningi með skattframtali kæranda árið 1996 að strika út gjaldfærðan tannlæknakostnað 255.000 kr., sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 24. júlí 1996, og kæruúrskurð, dags. 12. nóvember 1996. Skattstjóri byggði ákvörðun sína á því að um væri að ræða persónulegan kostnað kæranda en ekki rekstrarkostnað samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Kærandi er tónlistarkennari og hefur jafnframt með höndum sjálfstæða starfsemi við tónlistarflutning og dagskrárgerð. Umboðsmaður kæranda gerir þá kröfu í kæru til yfirskattanefndar að umræddur kostnaðarliður standi óhaggaður til frádráttar tekjum. Kærandi sé tónlistarmaður og sé aðalhljóðfæri hans [blásturshljóðfæri]. Gott ástand á tönnum sé skilyrði og algjör undirstaða … allra blásara til að geta stundað starf sitt. Raunar megi halda því fram að góðar tennur blásara séu jafn nauðsynlegar hljóðfærinu sjálfu til að starfið verði stundað með árangri. Viðgerð á tönnum kæranda hafi verið nauðsynlegar til að kærandi gæti stundað starf sitt. Vísar umboðsmaður kæranda til framlagðra yfirlýsinga frá Félagi íslenskra hljómlistarmanna annars vegar og … tannlækni hins vegar, en þar komi fram upplýsingar um nauðsyn þessa kostnaðarliðar. Telji kærandi umrædda aðgerð á tönnum hans í raun vera þátt í tekjuöflun hans og að frádráttarbærni kostnaðarins sé til staðar skv. 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981. Maður sem hafi atvinnu af því að leika og kenna á blásturshljóðfæri verði gjarnan fyrir meiri kostnaði af aðgerðum á tönnum sínum en aðrir, sem geti starfs síns vegna sætt sig við ódýrari lausnir í tannviðgerðum, þegar aðgerðirnar séu liður í almennri heilbrigðisþjónustu en ekki í leiðinni forsenda þess að þeir geti stundað ævistarf sitt.
Með bréfi, dags. 4. júlí 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda gert þá kröfu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
II.
Virða verður umrædd útgjöld kæranda til tannviðgerða sem persónulegan kostnað hans en ekki rekstrarkostnað í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Því er úrskurður skattstjóra staðfestur.