Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag vegna staðgreiðsluskila

Úrskurður nr. 766/1997

Staðgreiðsla opinberra gjalda árið 1995

Lög nr. 45/1987, 20. gr. 3. mgr., 28. gr. 2. mgr.  

Skattstjóri ákvarðaði kæranda álag vegna vanskila á staðgreiðslu fyrir desembermánuð staðgreiðsluárið 1995 og byggði á því að greiðsla kæranda á staðgreiðslu fyrir umræddan mánuð hefði ekki borist innheimtumanni fyrir lok afgreiðslutíma á eindaga þann 15. janúar 1996. Skattstjóri vefengdi hins vegar ekki að greiðslan hefði borist síðar sama dag. Yfirskattanefnd féllst á kröfu kæranda um niðurfellingu álagsins.

I.

Með kæru, dags. 23. febrúar 1996, hefur kærandi skotið úrskurði skattstjóra frá 8. febrúar 1996 til yfirskattanefndar. Með hinum kærða úrskurði hafnaði skattstjóri beiðni kæranda um niðurfellingu álags skv. 1. tölul. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, vegna vanskila á staðgreiðslu fyrir desembermánuð staðgreiðsluárið 1995. Voru forsendur skattstjóra þær að fyrir lægi að greiðsla kæranda á staðgreiðslu desembermánaðar 1995 hefði ekki borist innheimtumanni fyrir lok afgreiðslutíma þann 15. janúar 1996 og kærandi yrði ekki talinn hafa fært fram gildar ástæður sér til afsökunar, sbr. 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987.

Af hálfu kæranda er því haldið fram, sbr. bréf hans til skattstjóra, dags. 22. janúar 1996, og rökstuðning í kæru til yfirskattanefndar, að sendill á hans vegum hafi komið umslagi með umræddri greiðslu í póstkassa innheimtumanns á réttum tíma þann 15. janúar 1996. Með kæru til yfirskattanefndar fylgdi yfirlýsing nefnds sendimanns þess efnis, að hann hefði sett umrætt umslag í póstkassa innheimtumanns milli kl. 16.00 og 17.00 mánudaginn 15. janúar 1996.

Með bréfi, dags. 4. júlí 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Samkvæmt 3. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, er gjalddagi greiðslu samkvæmt 1. mgr. sömu greinar 1. hvers mánaðar og eindagi 14 dögum síðar. Hafi launagreiðandi ekki greitt á eindaga skal hann sæta álagi samkvæmt 28. gr. laganna. Engin heimild er í lögum til að ákveða að greiðslufresturinn renni út við lok afgreiðslutíma. Skattstjóri byggir á því að greiðslan hafi ekki borist fyrir lok afgreiðslutíma þann 15. janúar 1996 en hefur ekki vefengt að greiðslan hafi borist síðar þann sama dag eins og kærandi staðhæfir. Að framangreindu virtu er það mat ríkisskattstjóra að fallast beri á kröfu kæranda um niðurfellingu álags."

II.

Með vísan til þeirra sjónarmiða, sem fram koma í kröfugerð ríkisskattstjóra, er fallist á kröfu kæranda um niðurfellingu hins kærða álags. Af niðurstöðu leiðir að álag samkvæmt 1. og 2. tölul. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 á 12. tímabili árið 1995 fellur niður, samtals 128.786 kr., þ.e. samkvæmt 1. tölul. 127.326 kr. og samkvæmt 2. tölul. 1.460 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja