Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðahlunnindi
  • Skattmat ríkisskattstjóra

Úrskurður nr. 768/1997

Gjaldár 1993 og 1994

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul.   Skattmat í staðgreiðslu árið 1993   Skattmat í staðgreiðslu árið 1994  

Í máli þessu var fjallað um ákvörðun bifreiðahlunninda. Óumdeilt var að kærandi hafði haft bifreiðar launagreiðenda sinna til umráða utan vinnutíma en ágreiningur stóð um það hvort hann hefði haft bifreiðarnar til fullra umráða eða þær staðið honum til takmarkaðra afnota. Yfirskattanefnd taldi verða að skilja skattmat ríkisskattstjóra í staðgreiðslu þannig að bifreiðaafnot skyldu metin til tekna eftir reglum um takmörkuð afnot ef eingöngu væri um að ræða akstur milli heimilis og vinnustaðar, svo og tilfallandi og einstök afnot, en til fullra umráða ef afnotin væru ekki bundin við framangreint. Kærandi hélt því fram að honum hefði einungis verið heimilt að nota bifreiðarnar til aksturs milli heimilis og vinnustaðar og stjórn launagreiðanda hans staðfesti þá staðhæfingu. Ekkert þótti fram komið af hálfu skattstjóra sem hnekkt gæti skýrslu kæranda um einkanot af umræddum bifreiðum og tók yfirskattanefnd til greina kröfu kæranda um að skattskyld bifreiðahlunnindi yrðu ákveðin eftir reglum um takmörkuð afnot.

I.

Kærð er endurákvörðun skattstjóra á opinberum gjöldum kæranda gjaldárin 1993 og 1994 vegna þeirra breytinga skattstjóra að færa kæranda til tekna 254.400 kr. í bifreiðahlunnindi á skattframtali 1993 og 258.884 kr. á skattframtali 1994.

Málavextir eru þeir að í bréfi, dags. 23. maí 1995, krafði skattstjóri kæranda, sem er framkvæmdastjóri, upplýsinga um afnot hans árin 1992 og 1993 af bifreiðunum … og …, sem voru í eigu launagreiðenda hans, X hf. og Y hf. en fyrrnefnda félagið var sameinað hinu síðarnefnda … 1992. Kvað skattstjóri að koma þyrfti fram hvort kæranda væru sett takmörk varðandi notkun bifreiðanna, um hvers konar takmörk hafi þá verið að ræða, hver hafi sett þau takmörk og hvernig þeim hafi verið fylgt eftir en auk þess krafði hann kæranda upplýsinga um hve marga kílómetra kærandi hefði ekið viðkomandi bifreiðum í eigin þágu. Í framhaldi af því boðaði skattstjóri kæranda í bréfi, dags. 21. júní 1995, hækkun tekna vegna bifreiðahlunninda á skattframtölum hans 1993 og 1994.

Með bréfi, dags. 21. júní 1995, sem móttekið var hjá skattstjóra 26. júní 1995, greindi umboðsmaður kæranda frá því að sölumenn og gjaldkeri félaganna hefðu notað umræddar bifreiðar í vinnutíma en samkomulag hefði verið um að kærandi bæri ábyrgð á þeim og geymdi þær við heimili sitt utan vinnutíma en ekki hefði verið talið fært að geyma bifreiðarnar á vinnustað sökum hættu á tjónum. Samkomulag væri jafnframt um að kærandi nýtti ekki bifreiðarnar í eigin þágu utan vinnutíma. Einkanot kæranda væru því einungis fólgin í akstri á milli heimilis og vinnustaðar. Kærandi hefði notað bifreið móður sinnar í eigin þágu en hún væri til heimilis á sama stað og kærandi.

Með bréfi, dags. 6. nóvember 1995, tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði hrundið í framkvæmd boðuðum breytingum og endurákvarðað opinber gjöld kæranda gjaldárin 1993 og 1994 í samræmi við það. Kvað hann ekki verða annað séð með tilliti til stöðu kæranda og eignaraðildar að félögunum að honum hafi verið í sjálfsvald sett að ákvarða einkanot af umræddum bifreiðum. Væri kæranda því reiknuð bifreiðahlunnindi miðað við full og ótakmörkuð afnot.

Kærandi mótmælti breytingum skattstjóra í kæru, dags. 20. nóvember 1995. Kvað hann engin ættartengsl vera á milli sín og hluthafa í félaginu en sjálfur ætti hann 20% hlut. Sú hlutdeild veitti sér enga stöðu umfram aðra hluthafa og yrði hann að fara í einu og öllu eftir ákvörðun stjórnar um umsamin kjör. Með kærunni fylgdi staðfesting stjórnarformanns félagsins og tveggja stjórnarmanna um að munnlegt samkomulag hefði verið gert í stjórn félagsins … um að bifreiðamál kæranda yrðu með sambærilegum hætti og verið hefði hjá X hf. fyrir sameiningu. Væri kæranda heimilt að fara heim á bifreið félagsins að loknum vinnudegi, en talið hefði verið óráðlegt að geyma bifreiðina á vinnustað og kærandi æki fyrir félagið í pósthús að morgni og við lok hvers vinnudags. Takmörkuðust afnot framkvæmdastjórans við þessa notkun og væri honum ekki heimilt að nýta viðkomandi bifreið í eigin þágu með öðrum hætti.

Skattstjóri staðfesti ákvörðun sína með kæruúrskurði, dags. 15. janúar 1996. Vísaði hann til töluliðar 2.7. í bifreiðaskrá ríkisskattstjóra en þar væri gerð grein fyrir skilyrðum fyrir því að afnot teldust takmörkuð. Í umræddum tölulið segði meðal annars að gögn um takmörkuð afnot skuli vera greinilega færð og aðgengileg skattyfirvöldum bæði í bókhaldi launagreiðanda og hjá launamanni. Í yfirlýsingu stjórnar Y hf. kæmi fram að hin takmörkuðu afnot byggðust á munnlegu samkomulagi. Væri því eigi um að ræða aðgengileg gögn um afnot kæranda af bifreið launagreiðanda.

II.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 14. febrúar 1996. Kveður hann munnlegt samkomulag vera jafngilt og skriflegt og ekki hafi staðið á því að staðfesta umrætt samkomulag skriflega, sbr. yfirlýsingu stjórnar félagsins. Báðir aðilar hafi verið sammála um túlkun þessa samkomulags og ekki verði séð að skattstjóri geti hafnað því að taka fullt tillit til samkomulagsins. Gerð er krafa um að tekjuviðbót skattstjóra verði breytt þannig að aðeins verði reiknað með takmörkuðum afnotum sem miðist við akstur milli heimilis og vinnustaðar sem séu 960 km á ári.

Með bréfi, dags. 19. júlí 1996, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð: „Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans."

III.

Óumdeilt er að kærandi hafði bifreiðar launagreiðenda sinna til umráða utan vinnutíma á árunum 1992 og 1993. Ágreiningur stendur hins vegar um það hvort kærandi hafi haft bifreiðarnar til fullra umráða eða þær staðið honum til takmarkaðra afnota, sbr. orðalag í skattmötum ríkisskattstjóra í staðgreiðslu á árunum 1993 og 1994 sem birt voru í 2. tbl. Lögbirtingablaðsins 1993 og 3. tbl. 1994. Skilja verður skattmat ríkisskattstjóra þannig að bifreiðaafnot skuli metin til tekna eftir reglum um takmörkuð afnot ef eingöngu er um að ræða akstur milli heimilis og vinnustaðar, svo og önnur tilfallandi og einstök afnot, enda sé slíkur akstur í þágu launamanns, en til fullra umráða ef afnotin eru ekki bundin við framangreint.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að honum hafi einungis verið heimilt að nota bifreiðarnar til aksturs milli heimilis og vinnustaðar og að engin önnur afnot af bifreiðunum hafi verið heimil utan vinnutíma. Stjórn Y hf. hefur staðfest þessa staðhæfingu kæranda. Ekkert er komið fram af hálfu skattstjóra sem þykir geta hnekkt skýrslu kæranda um einkanot af umræddum bifreiðum. Því er tekin til greina krafa kæranda um að skattskyld bifreiðahlunnindi ákvarðist eftir reglum um takmörkuð afnot sem miðist við akstur milli heimilis og vinnustaðar sem sé 960 km á ári.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja