Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðakostnaður
  • Málsmeðferð áfátt

Úrskurður nr. 718/1997

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul., 96. gr., 99. gr.   Lög nr. 37/1993, 22. gr.  

Breyting skattstjóra á gjaldfærðum bifreiðakostnaði í rekstrarreikningi kæranda var ómerkt. Fyrirspurn skattstjóra vegna bifreiðakostnaðar var talin svo óljós að kæranda hefði ekki gefist nægur kostur á að koma að skýringum sínum og andmælum. Þá var talið að skattstjóri hefði ekki rökstutt nægilega ákvörðun sína.

I.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 15. janúar 1997, er kærð sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1996 að lækka gjaldfærðan bifreiðakostnað í rekstrarreikningi um 140.000 kr.

Málavextir eru þeir að kærandi færði 85% rekstrarkostnaðar bifreiðar til gjalda í rekstrarreikningi vegna sjálfstæðs atvinnurekstrar eða samtals 210.900 kr. Var umrædd bifreið færð til eignar í efnahagsreikningi og auk rekstrarkostnaðarins var gjaldfærð fyrning hennar 132.186 kr.

Í bréfi, dags. 14. maí 1996, vefengdi skattstjóri umræddan rekstrarkostnað og kvað hann óeðlilega háan með tilliti til umfangs rekstrarins. Til sönnunar á réttmæti frádráttarins krafðist skattstjóri að kærandi gerði ítarlega rökstudda grein fyrir kostnaðinum og legði fram skýringar „sem nauðsynlegar kunna að vera". Þá var kærandi jafnframt krafinn um sundurliðun tekna.

Með bréfi, dags. 7. júní 1996, voru lögð fram umbeðin gögn og í bréfinu gerði umboðsmaður kæranda sundurliðaða grein fyrir bifreiðakostnaðinum. Kvað hann tekjur vegna aksturs vera hærri en fram kæmi í sundurliðun tekna þar sem akstur væri oft innifalinn í útseldri vinnu. Notkun bifreiðar væri nauðsynleg í rekstrinum og í raun grundvöllur tekjuöflunar í tilviki kæranda. Kvað umboðsmaðurinn kæranda hafa gert samning við sveitarfélagið X um fasta greiðslu fyrir mælingu allra húsa … til að ákvarða fasteignamat. Kærandi hafi farið heim á hvern einasta bæ til mælinga og hafi akstur verið innifalinn í þeim verksamningi. Eins og sjá mætti af sundurliðun teknanna hefði mikill hluti þeirra verið vegna vinnu í … auk tekna sem aflað væri innanbæjar. Viðhaldskostnaður hafi verið í hærra lagi umrætt ár vegna endurnýjunar á undirvagni.

Hinn 22. júlí 1996 tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði lækkað gjaldfærðan bifreiðakostnað í rekstrarreikningi um 140.000 kr. og hagað álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1996 í samræmi við það. Áréttaði hann það mat sitt að kostnaðurinn væri óeðlilega hár miðað við eðli og umfang rekstrarins og kvað kæranda ekki hafa sýnt fram á að allur umræddur kostnaður væri réttmætur rekstrarkostnaður samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Umboðsmaður kæranda mótmælti breytingu skattstjóra í kæru, sem móttekin var hjá skattstjóra 29. ágúst 1996, sbr. greinargerð, dags. 23. september 1996. Kvað hann skattstjóra ekki hafa sýnt fram á að kostnaðurinn væri óeðlilega hár. Hér væri einfaldlega um að ræða raunverulegan kostnað, enda mikill akstur vegna verkefna í … og víðar. Þá gat umboðsmaðurinn þess að kærandi ætti aðra bifreið sem notuð væri í einkaakstur og að kærandi hefði reiknað 15% af rekstrarkostnaðinum í eigin þágu vegna aksturs í og úr vinnu.

Skattstjóri staðfesti ákvörðun sína með kæruúrskurði, dags. 17. desember 1996. Kvað hann þegar hafa verið tekna afstöðu til fram kominna skýringa og gagna kæranda sem fram hefðu verið færðar í bréfi umboðsmanns kæranda hinn 7. júní 1996. Ekkert nýtt hefði komið fram af hálfu kæranda sem gæfi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 15. janúar 1997, er gerð krafa um að úrskurði skattstjóra verði hnekkt. Kveður hann rekstrarkostnað bifreiðarinnar hafa verið sundurliðaðan ítarlega en ekki hafi komið fram af hálfu skattstjóra hver sá kostnaður sé sem ekki teldist réttmætur rekstrarkostnaður. Af þeim sökum hafi ekki verið hægt að færa fram mótrök við breytingum skattstjóra. Einu rök skattstjóra virtust vera þau að bifreiðakostnaðurinn sé óeðlilega hár miðað við eðli og umfang rekstrarins. Kveður umboðsmaðurinn tæpan helming tekna kæranda vera vegna vinnu utan bæjarmarka Y og gerir grein fyrir nokkrum vegalengdum í því sambandi. Áréttar hann fyrri skýringar um verkefni kæranda við mat á fasteignum fyrir X. Kveður hann aksturskostnað vera hlutfallslega hærri vegna margra smárra verkefna en vegna samfelldra stærri verka og að fastur bifreiðakostnaður, svo sem fyrningar, þungaskattur, bifreiðagjöld og tryggingar, verði hlutfallslega hærri ef veltan sé lítil.

Með bréfi, dags. 2. maí 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra."

II.

Meðferð máls þessa hjá skattstjóra þykir ekki hafa verið nægilega markviss. Ekki verður annað talið en kærandi hafi gert grein fyrir þeim efnisatriðum sem fólust í fyrirspurn skattstjóra í bréfi hans, dags. 14. maí 1996, en skattstjóri krafðist einungis að kærandi gerði ítarlega og rökstudda grein fyrir bifreiðakostnaði „ásamt þeim skýringum sem nauðsynlegar kunna að vera". Skattstjóri færði þau einu rök fyrir lækkun hins gjaldfærða bifreiðakostnaðar að kostnaðurinn væri óeðlilega hár með tilliti til eðlis og umfangs hinnar sjálfstæðu starfsemi kæranda. Taka ber undir það með kæranda að ekkert hafi komið fram af hálfu skattstjóra á hverju vefenging skattstjóra er byggð, enda er hún ekki studd neinum rökum. Hafi það verið ætlan skattstjóra að kærandi gerði ítarlega grein fyrir notkun bifreiðarinnar að því er varðaði akstur hennar í eigin þágu og akstur í þágu rekstrarins, verður að telja fyrirspurn skattstjóra svo óljósa að kæranda hafi ekki gefist nægur kostur á að koma að skýringum sínum og andmælum. Þykir málsmeðferð skattstjóra vera með þeim hætti að ómerkja beri breytingu hans með öllu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja