Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 24/1992
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. B-liður — 31. gr. 1. tl. — 68. gr. B-liður — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 2. ml. Reglugerð nr. 79/1988 — 12. gr. — 13. gr. 1. tl.
Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Skattframtal tekið sem kæra — Rekstrarkostnaður — Hlífðarfatakostnaður — Vinnufatakostnaður — Fæðiskostnaður — Sjúkrakostnaður — Ófrádráttarbær kostnaður — Fæði atvinnurekandans sjálfs — Kostnaður vegna atvinnurekandans sjálfs — Persónulegur kostnaður — Frádráttarheimild — Eigin atvinnurekstur — Grenjavinnsla — Sjómaður — Sjómannaafsláttur — Sjómennskudagar — Dagar við sjómannsstörf — Sjómannaafsláttur í orlofi
Málavextir eru þeir, að kærandi taldi eigi fram til skatts á tilskildum tíma gjaldárið 1989 og sætti því áætlun skattstjóra á skattstofnum það ár. Skattframtal kæranda 1989 barst skattstjóra þann 10. maí 1990 samkvæmt áritun hans á það og var það tekið sem kæra. Með úrskurði uppkveðnum 14. júlí 1990, féllst skattstjóri á að leggja hið innsenda framtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda 1989 að gerðum nokkrum breytingum. Svo segir m.a. í úrskurðinum:
„Fallið er þó alveg frá því að beita álagi á tekjuskattsstofn sbr. fyrirliggjandi upplýsingar.
Sú breyting er gerð á rekstrarreikningi að eigin fæðis-, sjúkra- og hlífðarfatakostnaður teljast ekki vera rekstrargjöld í merkingu 31. gr. ofangr. laga.
Þá hækka tekjur skv. launamiða um kr. 500. Verða því hreinar tekjur úr rekstri kr. 3.938.
Það þykir ekki samrýmast reglum um sjómannaafslátt að hann reiknist yður á meðan á tófuveiðum stendur. Að teknu tilliti til upphæðar frá X-hreppi kr. 112.353 sem aðeins tók kr. 3.363 í staðgreiðslu af þeirri tölu þykir hæfilegt að telja daga til sjómannaafsláttar 151 á fyrri hluta árs í stað 181.“
Umboðsmaður kæranda skaut máli þessu til ríkisskattanefndar með bréfi, dags. 14. ágúst 1990, og segir þar m.a.:
„F.h. umbjóðanda míns, A, viljum við kæra að skattstjóri Suðurlandsumdæmis skuli hafa lækkað þá daga, sem A á rétt á sjómannaafslætti, þar sem hann hafi stundað tófuveiðar hluta af árinu, eins og fram kemur í úrskurðinum.
A, sem er skipstjóri á bát frá B hefur í nokkur ár verið með grenjaleit fyrir X-hrepp og hefur hann ekki gert það í ábataskyni, heldur er þetta eins og hvert annað sport hjá honum.
A eins og aðrir landsmenn hefur rétt á að taka sér orlof, enda er gerð grein fyrir því í skattframtali að innifalið í 365 dögum við sjómannsstörf eru 24 dagar orlof.
A valdi þann tíma af orlofi sínu, sem aðrir nota e.t.v. í að flatmaga á sólarströnd, í að liggja fyrir lágfótunni í kulda og vosbúð einhvers staða úti í hrauni á Suðurlandi, ef það skildi verða til þess að koma í veg fyrir að dýrbíturinn gerði usla í bústofni bágstaddra sauðfjárbænda.
Hann fékk að vísu greitt fyrir þetta verk frá X-hreppi, en sú greiðsla er rétt fyrir útlögðum kostnaði, eins og fram kemur af rekstrarreikningi með framtalinu.
Þarna er ekki um stórar upphæðir að ræða en A er ákaflega ósáttur við að missa sjómannaafsláttinn í heilan mánuð, þar sem hann telur sig stunda sjómennsku allt árið og finnst að skattyfirvöld ættu ekki að skipta sér að því hvernig hann verji sumarfríi sínu.
Varðandi það atriði að hlífðafatnaður sé ekki rekstrargjöld í þessu tilfelli, viljum við benda á að til þess að liggja á greni snemma vors þurfa menn að vera í sérstökum göllum, sem menn ganga nú ekki í svona dags daglega.
Farið er fram á að úrskurði skattstjóra Suðurlandsumdæmis varðandi lækkun daga til sjómannaafsláttar og að hlífðarfatnaður sé ekki rekstrargjöld í þessum tilviki verði hnekkt.“
Af hálfu ríkisskattstjóra er með bréfi, dags. 8. mars 1991, gerð sú krafa að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Kærandi staðhæfir að hann hafi varið orlofi sínu til grenjavinnslu þeirrar, sem í málinu greinir. Gögn málsins styðja þá staðhæfingu. Að þessu virtu og málavöxtum að öðru leyti verður ekki talið, að þessi störf kæranda eigi að leiða til skerðingar á sjómannaafslætti eins og skattstjóri hefur talið. Er því fallist á kröfu kæranda varðandi sjómannaafslátt. Kröfu kæranda um frádrátt vegna hlífðarfatnaðar er hafnað.