Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 26/1992
Gjaldár 1990
Lög nr. 75/1981 — 1. gr. — 3. gr. 7. og 9. tl. — 84. gr. — 100. gr. 5. mgr. Lög nr. 83/1989 — 3. gr. b-liður Auglýsing nr. 22/1975 um tvísköttunarsamning milli Íslands og Bandaríkja Ameríku — 7. gr. 1. mgr. — 17. gr. 4. mgr
Skattskylda — Skattskylda einstaklings — Takmörkuð skattskylda — Ótakmörkuð skattskylda — Heimilisfesti — Skattaleg heimilisfesti — Eignarskattur — Eignarskattsskylda — Eignarskattsstofn — Eignarskattsútreikningur — Eignarskattsauki — Sérstakur eignarskattur (Þjóðarbókhlöðuskattur) — Frádráttarbærni við ákvörðun eignarskatts — Eignir, frádráttur frá eignum — Frádráttarheimild — Skattfrelsi — Skattfrelsi eigna til eignarskatts — Skattfrelsi hlutabréfaeignar til eignarskatts — Hlutabréf — Hlutabréfaeign, hámarksfrádráttur til eignarskatts — Verðbréf — Úrskurðarvald ríkisskattstjóra — Valdsvið ríkisskattanefndar — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Tvísköttun — Tvísköttunarsamningur — Milliríkjasamningur — Stjórnvaldsákvörðun, bindandi áhrif — Framtalsháttur
Kærð er álagning eignarskatts og sérstaks eignarskatts gjaldárið 1990. Er þess krafist, að álagningin „verði felld niður með hliðsjón af tvísköttunarsamningi Íslands og Bandaríkja Ameríku frá 1. janúar 1976 samanber 7. gr. 1. málsgrein og 17. gr. og 4. málsgrein.“
Með hinum kærða úrskurði, dags. 4. apríl 1991, féllst skattstjóri ekki á að hagga við álagningunni á svofelldum forsendum:
„Gjaldandi er skattskyldur skv. 7. tl. og 9. tl. 3. gr. laga nr. 75/1981. Þar sem eign hans gefur arð ber að skattleggja hana skv. 84. gr. sömu laga. Jafnframt skal lagður á sérstakur eignarskattur skv. b-lið 3. gr. laga nr. 83/1989.
Til eigna reiknast öll hlutabréfaeign ásamt Kjarabréfum Fjárfestingarfélagsins sem færast í reit 10.3 á skattframtali, samtals kr. 3.069.500,- Skattfrjáls hlutabréfaeign að hámarki kr. 1.080.000,- dregst síðan frá. Skattleysismörk eigna gilda að öðru leyti ekki um þá sem falla undir skattskyldu skv. 3. gr. ofangreindra laga nr. 75/1981.“
Með bréfi, dags. 17. október 1991, krefst ríkisskattstjóri þess fyrir hönd gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Hin kærða álagning var byggð á skattframtali kæranda árið 1990. Með bréfi til kæranda, dags. 11. ágúst 1989, leit ríkisskattstjóri svo á, að kærandi bæri hér á landi ótakmarkaða skattskyldu, sbr. og úrskurðarvald hans í þeim efnum í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Eigi var á því byggt í hinum kærða úrskurði og eigi að því vikið í framangreindri kröfugerð ríkisskattstjóra. Skattstjóri byggði hins vegar skattlagningu á því að kærandi bæri takmarkaða skattskyldu hér á landi. Hefur kærandi miðað framtalsskil sín við það. Samkvæmt þessu sem hér hefur verið rakið er slík óvissa um skattskyldu kæranda og ákvarðanir þar til bærra skattstjórnarvalda um hana að ómerkja verður með öllu hina kærðu álagningu. Rétt er, að skattstjóri hlutist til um nýja álagningu að lögum.