Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 50/1992
Gjaldár 1990
Lög nr. 75/1981 — 69. gr. C-liður Lög nr. 79/1989 — 1. gr.
Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Vaxtagjöld — Vaxtabætur — Eigin notkun — Íbúðarhúsnæði, eigin notkun — Eigin notkun íbúðarhúsnæðis — Notkun húsnæðis — Lögheimili — Útleiga — Útleiga íbúðarhúsnæðis — Húsaleigutekjur — Öflun íbúðarhúsnæðis — Íbúðarhúsnæði, öflun — Fyrri skattframkvæmd
Kærð er endurákvörðun skattstjóra á vaxtabótum gjaldárið 1990, en kærendum höfðu verið ákvarðaðar slíkar bætur við álagningu opinberra gjalda það ár. Með hinum kærða úrskurði, dags. 6. maí 1991, leit skattstjóri svo á, að kærendur uppfylltu ekki skilyrði ákvæða C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, til vaxtabóta, með því að þau hefðu ekki á árinu 1989 sjálf nýtt íbúðarhúsnæði í eigu þeirra að A í Reykjavík og B í Garðabæ. Sé það og ómótmælt af hálfu kærenda. Hafnaði skattstjóri því kröfu kærenda og staðfesti endurákvörðun sína í bréfi, dags. 13. mars 1991, en þar var ástæða hans svohljóðandi:
„Að því virtu að íbúðir yðar hafa verið leigðar út frá árinu 1988 og verða í leigu fram á mitt ár 1991 verður ekki fallist á að umrætt íbúðarhúsnæði hafi verið nýtt til eigin nota. Dvöl yðar erlendis virðist ekki vera þess eðlis að um tímabundna nauðsyn sé að ræða.“
Lokakröfugerð kærenda fyrir ríkisskattanefnd er svohljóðandi:
„Í fylgiskjali með framtali og á framtali í reit 8.1 gjaldársins 1990 vegna ársins 1989 láðist að geta um nýtingu eiganda húsnæðisins að A. Húsnæðið var að fullu nýtt frá ársbyrjun til 15. febrúar 1989 af eiganda þess undirritaðri X eða þar til hún fór utan til E til náms. Frá 15. febrúar til ársloka 1989 var 25% eignarhluti nýttur til geymslu húsgagna og annarra persónulegra muna eiganda.
Eignarhluti fasteignarinnar B var nýtt að 1/4 hluta af eiganda undirrituðum Y til geymslu húsgagna, bóka og annarra persónulegra muna eða 25%.
Það skal jafnframt tekið fram að framangreindar fasteignir hafa nú verið seldar og andvirði þeirra notað til öflunar á öðru húsnæði sem undirrituð nýta til eigin nota.
Lögheimili undirritaðra var D, sem er heimili foreldra undirritaðs Y og tengdaforeldrar undirritaðrar X. Skráning þessi var gerð í þeim tilgangi að bréf og aðrar póstsendingar bærust til skyldra aðila sem síðan önnuðust framsendingu þeirra til undirritaðra.
Eins og áður hefur komið fram eru tekjur vegna sjálfstæðrar starfsemi á rekstrarárunum 1989 og 1990 greiddar af íslenskum aðilum en unnar í E. Það er jafnframt ljóst að öflun frétta og heimilda eru staðbundnar við E þannig að dvöl þar og dvalarkostnaður var nauðsynleg forsenda fyrir öflun teknanna og má því segja að undirrituð hafi orðið að dvelja á atvinnustað sem má jafna við hóteldvöl erlendis þar sem búslóð var ekki flutt á milli landa og þar af leiðir ekki stofnað til heimilis. Undirrituð gátu því ekki nýtt íbúð sína á annan hátt en getið hefur verið. Þrátt fyrir skráningu á lögheimili og útleigu á húsnæði að hluta er því í reynd um heimilisfesti að ræða í eigin húsnæði.
Af framangreindum upplýsingum er þess hér með farið á leit við ríkisskattanefnd að úrskurði skattstjórans í Reykjavík frá 06.05.1991 verði breytt þannig að viðurkenndur verði réttur kærenda til vaxtabóta á grundvelli eigin afnota af íbúðarhúsnæði okkar.“
Ríkisskattstjóri hefur krafist þess f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Að virtum öllum málavöxtum og með hliðsjón af meðferð skattstjóra á vaxtagjöldum, vegna umræddra lána áður, þykir bera að taka kröfu kærenda til greina.