Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 58/1992

Sölugjald 1988

Lög nr. 10/1960 — 10. gr. — 13. gr. — 21. gr. — 28. gr. 1. mgr.   Lög nr. 75/1981 — 99. gr. — 100. gr. — 112. gr.   Lög nr. 50/1988 — 28. gr. — 50. gr.   Reglugerð nr. 486/1982 — 43. gr.  

Söluskattur — Söluskattsálag — Söluskattsuppgjör — Söluskattur, vangreiddur — Söluskattur, ofgreiddur — Söluskattstímabil — Söluskattsskýrsla — Samanburðarblað söluskatts — Vextir — Dráttarvextir — Vextir af ofgreiddu skattfé — Innheimta opinberra gjalda — Kæruheimild — Valdsvið ríkisskattanefndar — Lögskýring — Frávísun — Frávísun, mál utan valdsviðs — RIS 1982.838 — RIS 1986.132 — Gildistaka skattalaga — Virðisaukaskattur — Dráttarvextir af vangreiddum virðisaukaskatti — Dráttarvextir af eindagaðri endurgreiðslu virðisaukaskatts

Kærður er útreikningur skattstjóra á álagi vegna vangreiðslu á sölugjaldi árið 1988. Kröfugerð umboðsmanns kæranda fyrir ríkisskattanefnd er svohljóðandi:

„Málavextir eru þeir að bókhald ofanritaðs var fært af eldri manni, sem jafnframt tók saman tölulegar upplýsingar fyrir söluskattskýrslur. Þessi maður var ekki vel að sér í söluskattslögum og gaf umbjóðanda mínum upp rangar tölur allt árið 1988. Skýrslugjöf var síðan leiðrétt með samanburðarblaði söluskatts sem fylgdi skattframtali 1989. Með úrskurði skattstjóra dags. 18. okt. 1990 var söluskattur ársins 1988 lækkaður um kr. 190.265.

Kjarni málsins er sá að umbjóðandi minn ofgreiddi söluskatt átta mánuði ársins 1988 og vangreiddi söluskatt fjóra mánuði ársins. Ef bornar eru saman þær fjárhæðir sem umbjóðandi minn greiddi og þær fjárhæðir sem hann hefði réttilega átt að greiða, kemur í ljós að hann var ekki í skuld við ríkissjóð nema í einn mánuð á öllu árinu, þ.e.a.s. eftir söluskattsskil fyrir apríl, en þá var hann í skuld að fjárhæð kr. 49.033. Skattstjóri reiknar 20% álag á þær fjórar söluskattsskýrslur sem voru vanreiknaðar þrátt fyrir að í mánuðunum á undan hafi umbjóðandi minn ofgreitt söluskatt og því ekki verið í skuld við ríkissjóð þegar tillit er tekið til réttra söluskattsskila.

Þessu vill umbjóðandi minn ekki una og kærir því álag á söluskatt til ríkisskattanefndar, að undanskildu álagi á skuld vegna apríl mánaðar sbr. kærubréf til skattstjóra dags. 8. nóv. 1990.“

Með bréfi, dags. 30. desember 1991, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjanda:

„Ríkisskattstjóri telur eðlilegt að við útreikning á álagi skv. 2. mgr. 21. gr. söluskattslaga sé tekið tilliti til inneignar sem myndast á fyrri uppgjörstímabilum sama almanaksárs vegna sömu skattbreytingar. Er því fallist á kröfu kæranda, þannig að álag skv. 1. tölul. 2. mgr. 21. gr. verði 9.806 kr. vegna apríl 1988 og álag skv. 2. tölul. lækki samsvarandi, en álag vegna febrúar, júní og októbertímabila falli niður.“

Þegar umræddur mismunur kom fram við ársuppgjör kæranda fyrir árið 1988 var rétt að hann léti innheimtumanni ríkissjóðs í té leiðréttar söluskattsskýrslur fyrir sérhvert tímabil þess árs, þar á meðal fyrir þau tímabil sem sölugjald hafði áður verið ofgreitt. Sérstök ákvæði voru hvorki í söluskattslögum né reglugerð um vexti af ofgreiddu sölugjaldi og fór þá um það eftir ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 10/1960, um söluskatt, og 43. gr. reglugerðar nr. 486/1982, um söluskatt. Um vexti af ofgreiddu skattfé er fjallað í 112. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, í XIII. kafla þeirra laga um innheimtu og ábyrgð. Hefur verið litið svo á að ágreiningsefni varðandi innheimtu álagðra opinberra gjalda, þ.m.t. vexti, eigi ekki undir kærumeðferð þá, sem kveðið er á um í 99. og 100. gr. laga nr. 75/1981, sbr. t.d. úrskurð ríkisskattanefndar nr. 838 frá árinu 1982. Hefur og verið litið svo á, að sama gilti um kærumeðferð eftir 13. gr. söluskattslaga varðandi það ágreiningsefni, sem til úrlausnar er í máli þessu, sbr. t.d. úrskurð ríkisskattanefndar nr. 132 frá árinu 1986. Er það því eigi á valdsviði ríkisskattanefndar að taka til efnislegrar úrlausnar kröfu kæranda og er kærunni af þeim ástæðum vísað frá.

Rétt er að geta þess hér, að skv. 50. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, gilda lög nr. 10/1960, um söluskatt, með síðari breytingum, um söluskatt af sölu til og með 31. desember 1989. Í 28. gr. nefndra laga um virðisaukaskatt er fjallað um dráttarvexti vegna vangreiðslu þess skatts og síðbúinnar endurgreiðslu hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja