Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 62/1992
Gjaldár 1988
Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 52. gr. 2. tl.
Rekstrarkostnaður — Vaxtagjöld — Vaxtakostnaður — Verðbætur — Endurgreiðsla oftekins fjár — Oftekið fé — Fésektir — Auðgunarbrot — Refsiverður verknaður — Viðurlög við refsiverðum verknaði — Frádráttarheimild
Málavextir eru þeir, að upp komst, að kærandi hefði sent einum af viðskiptamönnum sínum, X, of háa reikninga fyrir selda þjónustu. Krafðist X endurgreiðslna á hinu oftekna fé með verðbótum og vöxtum. Er fullyrt af hálfu kæranda, að „hinir of háu reikningar á [X]“ hefðu verið tekjufærðir á viðkomandi árum. Í rekstrarreikningi sínum fyrir árið 1987 færði kærandi m.a. til gjalda „vaxtagjöld v/X 603.147 kr.“
Undir rekstri málsins hjá skattstjóra var upplýst af hálfu kæranda að því er þennan gjaldalið varðar, að vegna hins oftekna endurgreidda fjár hefði höfuðstóll endurgreiðslunnar verið færður í rekstrarreikningi fyrir árið 1987 til lækkunar á tekjum en til gjalda nefnd vaxtagjöld sem hefðu verið 67% af 900.220 kr. greiðslu vaxta og verðbóta vegna skuldaskilanna við X. Frá því er greint í gögnum málsins, að rannsóknarlögregla ríkisins hefði fengið framangreint ætlað auðgunarbrot kæranda til umfjöllunar. Að því er frá greinir í kærunni til ríkisskattanefndar lauk því máli með þeim hætti, að kærandi gerði samkomulag við X um umrædda endurgreiðslu.
Fyrir ríkisskattanefnd er deilt um frádráttarbærni nefnds vaxtagjaldaliðar 603.147 kr. Leit skattstjóri þannig á, að svo væri ekki, og studdi þá afstöðu sína með svofelldum rökum í kæruúrskurði sínum, dags. 23. apríl 1990:
„Samkvæmt framkomnum upplýsingum sýnist óumdeilt, að umþrættur gjaldaliður stafi af refsiverðum verknaði eða saknæmu athæfi á vegum félagsins vegna oftöku fjár. Skiptir í því sambandi ekki máli þótt eigendaskipti hafi orðið í félaginu, sem er hlutafélag, og fyrri eigendur hafi staðið að hinu saknæma athæfi, þ.e. ábyrgðin er hjá félaginu sem hefur endurgreitt hið oftekna fé ásamt vöxtum og verðbótum. Verður því ekki litið öðru vísi á en að vextir og verðbætur, sem ofangreindur gjaldaliður samanstendur af, falli undir ákvæði 2. tl. 52. gr. laga nr. 75/1981 og teljist viðurlög eða kostnaður, hverju nafni sem nefnast, sem til eru orðin vegna refsiverðs verknaðar eða sem tengist saknæmum brotum og er ekki heimilt að telja þau til rekstrarkostnaðar skv. 31. gr. nefndra laga eða til frádráttar tekjum á einn eða annan hátt, sbr. tilvitnaða 52. gr.“
Af hálfu kæranda er þess krafist, að hinn umdeildi frádráttarliður verði látinn standa óbreyttur og úrskurði skattstjóra þar með hnekkt. Sú krafa er studd svofelldum rökum:
„Séu atvik þessa máls skoðuð nánar, þá standa uppúr nokkur lykilatriði í atburðarásinni:
1. Upp komu deilur milli X og A hf. um verð á ákveðinni þjónustu þess síðarnefnda fyrir þann fyrrnefnda.
2. Málið var rannsakað. Að því loknu komust aðilar að þeirri sameiginlegu niðurstöðu, að rétt væri að semja á ný um hið umdeilda verð þjónustunnar. Það er að segja, kæru var ekki haldið til streitu og málið kom aldrei til kasta dómstóla.
3. Niðurstaða samninganna var, að A hf. skyldi greiða X:
Lækkun reikninga Kr. 1.262.187
Verðbætur – 648.083
Vextir – 252.137
Verðbætur Kr. 2.162.407
…
Skattstjóri byggir úrskurð sinn á ákvæðum 2. tl. 52. gr. laga nr. 75/1981 eins og áður segir. Forsenda þess að kostnaður geti fallið undir ákvæði nefndrar lagagreinar er, að hann tengist refsiverðum verknaði eða saknæmu broti, eins og segir í texta greinarinnar. Mun þar væntanlega vísað til túlkunar íslensks réttarfars á hugtökunum „refsiverður verknaður“ og „saknæmt brot“.
Það er ein af meginreglum íslensks réttar, að maður er saklaus þar til sekt hans er sönnuð fyrir lögmætum dómstóli. Þar til dómur fellur er ósannað að lögbrot hafi verið framið.
Að virtum atriðum samkvæmt töluliðum 1 til 3 hér að ofan er ljóst, að í málinu var aldrei úr skorið fyrir dómstólum hvort lög voru brotin, og refsivert athæfi sannaðist ekki fyrir dómi á umrætt hlutafélag eða forráðamenn þess. Engar sektir voru greiddar né fóru fram aðrar refsitengdar greiðslur. Deilan var leyst í frjálsu samkomulagi milli málsaðila. Skattstjórinn í Reykjavík hefur hins vegar tekið sér lögsögu í málinu og fellt dóm þess efnis, að þarna hafi átt sér stað refsivert lögbrot.“
Með bréfi, dags. 22. janúar 1991, gerir ríkisskattstjóri þá kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Umræddar verðbætur og vextir teljast hvorki til fésekta né annars konar refsiviðurlaga við afbrotum í skilningi íslenskrar refsilöggjafar. Kemur þá ekki til þess, að 2. tl. 52. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eigi hér við. Er því fallist á kröfu kæranda.