Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 69/1992
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 60. gr. 2. mgr. — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 2. ml. — 100. gr. 1. mgr. — 106. gr. 1. mgr.
Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Skattframtal tekið sem kæra — Byggingarstarfsemi — Byggingarkostnaður — Tekjuuppgjör — Tekjutímabil — Tekjuuppgjörsaðferð — Tekjuuppgjör rekstrar — Verk í vinnslu — Verk, ólokin — Ólokin verk — Verklokaregla — Reiknaður ágóði — Ágóði, reiknaður — Kaupsamningur — Innborgun samkvæmt kaupsamningi — Kærufrestur — Kæra, síðbúin — Síðbúin kæra — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila
Kærendur töldu ekki fram innan tilskilins framtalsfrests árið 1989. Við frumálagningu opinberra gjalda það ár sættu kærendur því áætlun skattstjóra á skattstofnum. Við hina áætluðu skattstofna bætti skattstjóri 25% álagi samkvæmt heimildarákvæðum 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Skattframtal kærenda, sem er dagsett 26. maí 1989, barst skattstjóra hinn 12. júní 1989 samkvæmt áritun hans á skattframtalið um móttöku þess. Af hálfu umboðsmanns kærenda var álagning opinberra gjalda ársins 1989 kærð með bréfi, dags. 24. ágúst 1989. Var þess óskað að hið innsenda skattframtal yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldársins 1989.
Með bréfi, dags. 25. október 1989, krafði skattstjóri kæranda, X, sem starfar sjálfstætt við byggingarstarfsemi, um eftirfarandi;
1. Sundurliðun á tekjuliðnum „innb. á söluverð íbúða“ samkvæmt rekstrarreikningi að fjárhæð 33.283.337 kr. auk ljósrita af kaupsamningum vegna hverrar seldrar íbúðar.
2. Skýringa og sundurliðun á gjaldaliðnum „kaupverð íbúða v/uppítöku“ samkvæmt rekstrarreikningi að fjárhæð 7.900.000 kr. Ennfremur að hann legði fram eyðublöð RSK 3.02 „Kaup og sala eigna“ útfyllt eins og form þeirra segði til um.
Voru umbeðin gögn lögð fram hinn 17. nóvember 1989 ásamt bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 5. nóvember 1989.
Með kæruúrskurði, dags. 12. febrúar 1990, féllst skattstjóri á að leggja hið innsenda skattframtal til grundvallar álagningar opinberra gjalda ársins 1989 að gerðum svohljóðandi breytingum er varða kæruefnið:
„1. Þegar kaupendur skuldbinda sig í kaupsamningi að greiða áhvílandi veðskuld er litið svo á að þessar greiðslur tilheyra tekjum af seldum íbúðum á því ári þegar kaupsamningur er undirritaður. Tvær slíkar greiðslur (kaupsamn. um A) samtals kr. 3.617.978 eru því færðar til tekna á rekstrarreikningi ársins 1988.
2. Samkvæmt innsendum gögnum er kaupverð íbúðar v/uppítöku kr. 6.811.558. Gjaldaliðurinn „kaupverð íbúðar“ kr. 7.900.000 er því lækkaður í það, til viðbótar er hann lækkaður um kr. 2.811.558. þ.e. um kaupverð íbúðar við B. Samkvæmt innsendum gögnum er hún óseld um áramót 1988/1989. Er því óheimilt að gjaldfæra hana og er hún eignfærð á efnahagsreikning á kaupverði.“
Af hálfu umboðsmanns kærenda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með svohljóðandi kærubréfi, dags. 15. mars 1990:
„Í úrskurði Skattstjóra, lið 1. hækkar hann tekjur umbjóðenda minna um kr. 3.617.978,00, þar sem hann telur að kaupendur tveggja íbúða, (kaupsamningur um A) hafi skuldbundið sig í kaupsamningi, að greiða áhvílandi veðskuld, og því beri að líta svo á að þessar greiðslur tilheyri tekjum af seldum íbúðum á því ári þegar kaupsamningar eru undirritaðir.
Þessari túlkun vil ég eindregið mótmæla, þar sem það er viðtekin venja og hefð, að í kaupsamningum sem þessum, yfirtaki kaupandi áhvílandi veðskuldir á afhendingardegi eignarinnar, enda hirði hann arð, og greiðir skatta og skyldur af eigninni frá þeim degi. Einnig hvað umræddar veðskuldir viðvíkur, greiða umbjóðendur mínir vexti og verðbætur af þeim til 1. janúar 1989, en kaupendur íbúðanna frá þeim degi, enda er afhendingardagur beggja íbúðanna 1. janúar 1989.
Kaupendur íbúðanna yfirtaka því ekki umræddar veðskuldir fyrr en 1. janúar 1989, og því getur þessi fjárhæð ekki talist tekjur hjá umbjóðendum mínum, fyrr en á árinu 1989, enda umræddar veðskuldir taldar meðal skulda umbjóðenda minna á efnahagsreikningi þeirra pr. 31.12.1988.
Í úrskurði skattstjóra, lið II. lækkar hann fyrst gjaldaliðinn „kaupverð íbúðar“ um kr. 1.088.442,- sem eru yfirteknar áhvílandi skuldir á íbúð að B, sem umbjóðendur mínir yfirtóku við sölu annarrar íbúðar að A. Þar sem eyðublað RSK 3.02 vegna þessarar íbúðar var ranglega útfyllt, en það fylgdi svarbréfi okkar dags. 5. nóvember 1989, hefur Skattstjóri litið svo á að kaupverð þessarar íbúðar hafi verið oftalið. Því fylgir hér með ljósrit af kaupsamningi vegna umræddrar íbúðar að B, þar sem fram kemur að heildarkaupverð eignarinnar er kr. 3.900.000,00.
Í annan stað lækkar hann gjaldaliðinn „kaupverð íbúðar“ um kr. 2.811.558,- sem hann telur vera kaupverð íbúðarinnar að B. En hann telur óheimilt að gjaldfæra hana, þar sem hún sé óseld um áramótin 1988/1989, og því beri að eignfæra hana á efnahagsreikningi.
Þessari meðferð Skattstjóra vil ég einnig mótmæla fyrir hönd umbjóðenda minna.
Ég get fallist á að gjaldaliðurinn „kaupverð íbúðar“ lækki um kr. 1.088.442,-, þar sem umbjóðendur mínir fengu umrædda íbúð ekki afhenta fyrr en 15.03.1989, og því ekki skuldarar þessara veðskulda fyrr en þá. Þannig er samræmi í kröfum okkar varðandi lið 1. og lið II., í bréfi Skattstjóra.
Umbjóðandi minn hefur alla tíð fylgt þeirri reglu, að hann hefur ávallt gjaldfært byggingarkostnað á því ári sem hann hefur tilfallið, og aftur á móti tekjufært allar samningsbundnar greiðslur samkvæmt kaupsamningum viðkomandi árs. Það að byggja og selja íbúðir er hans atvinna. Þannig hefur hann á móti, ekki getað gjaldfært verðbreytingar sem orðið hafa á byggingartímanum, eða fram til söludags. Við þetta hefur Skattstjóri heldur aldrei gert neinar athugasemdir.
Það, að umbjóðendur mínir tóku íbúðina að B uppí söluverð íbúðar að A, voru einungis viðskipti. Íbúðin var strax sett í sölu, og seldist síðan fljótlega á árinu 1989.
Ég hlýt því að líta svo á, að umbjóðendum mínum leyfist að gjaldfæra kaupverð hennar á kaupári, eins og allt annað við byggingarframkvæmdirnar.
Vænti ég því, að Ríkisskattanefnd sjái sér fært að breyta úrskurði Skattstjóra í ofangreindum atriðum.“
Með bréfi, dags. 30. maí 1990, hefur ríkisskattstjóri gert svohljóðandi kröfugerð í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem hún er of seint fram komin en lögmæltur 30 daga kærufrestur skv. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981 rann út þann 14. mars 1990. Kærendur þykja ekki hafa sýnt fram á að þeim hafi eigi verið unnt að kæra innan þess frests.“
Eftir atvikum þykir mega taka kæruna til efnislegrar umfjöllunar. Svo hefur verið litið á, að skattaðilar sem stunda sams konar atvinnurekstur og kærandi, geti valið á milli tveggja aðferða við uppgjör tekna af óloknum verkum. Annars vegar að færa árlega til tekna reiknaðan ágóða af húsbyggingarframkvæmdum með hliðsjón af væntanlegum hagnaði af sölu húseignanna. Hins vegar að eignfæra áfallinn kostnað og skuldfæra innborganir vegna framkvæmdanna á byggingartíma og færa síðan til gjalda og tekna við verklok.
Hvorugri framangreindra aðferða er beitt í skattframtali kæranda. Þar er heldur eigi gerð grein fyrir framvindu og stöðu einstakra verka. Þó virðist ljóst að sú aðferð, er kærandi beitir, geti leitt til þess að kaupverð íbúða verði að fullu fært til gjalda á kaupári þótt engin tekjufærsla eigi sér stað á sama ári þeirra vegna.
Af því, sem að framan er rakið, verður að telja að verulega skorti á að framtalsskil kæranda séu með viðhlítandi hætti. Er því eigi unnt að fallast á kröfur hans, heldur þykir bera að vísa kærunni frá vegna vanreifunar.