Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 70/1992

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 69. gr. C-liður   Lög nr. 86/1988   Reglugerð nr. 76/1988  

Húsnæðisbætur — Íbúðarhúsnæði — Íbúðareign — Fyrsta íbúðarhúsnæði — Búseturéttur — Eignarréttur — Afnotaréttur — Kaupleiguíbúð — Búsetusamningur — Samvinnufélag — Húsnæðissamvinnufélag — Eignarréttur að fasteign

Kærð er synjun skattstjóra um húsnæðisbætur kæranda til handa við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989. Eru forsendur kæruúrskurðar skattstjóra svohljóðandi:

„Ekki er hægt að fallast á, að búsetusamningur sbr. lög nr. 86/1988 um Húsnæðisstofnun ríkisins með síðari breytingum, uppfylli skilyrði C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt og reglugerðar nr. 76/1988 með síðari breytingum.“

Með kæru, dags. 19. desember 1989, hefur kærandi skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og fer fram á að sér verði veittar húsnæðisbætur við álagningu opinberra gjalda árið 1989. Eru forsendur fyrir kröfu hans svohljóðandi:

„Samkvæmt kaupsamningi við húsnæðissamvinnufélagið Búseta dags. 10.04.88, öðlast ég hluteign í íbúð að X (búseturétt) og tel ég mig því hafa rétt til húsnæðisbóta.

Samkvæmt mínum heimildum, hef ég frétt af fólki sem keypti búseturétt í sama húsnæðissamvinnufélagi hafa verið veittar húsnæðisbætur og á því byggi ég kröfu mína um húsnæðisbætur.

Ég greiði í raun afborganir af húsnæðisstjórnarlánum þótt greiðslan sé innt af hendi með mánaðarlegum greiðslum til húsnæðissamvinnufélagsins sem síðan greiðir af lánunum. Því tel ég mig vera í sömu stöðu sem aðrir íbúðarkaupendur þótt þessi öflun íbúðarhúsnæðis sé formlega á annan veg en hefðbundin íbúðarkaup. Samkvæmt þessu tel ég engin rök vera til þess að mismuna mönnum hvað varðar greiðslu húsnæðisbóta, enda er tilgangur þeirra að aðstoða fólk við að afla sér þaks yfir höfuðið.“

Með bréfi, dags. 30. september 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svohljóðandi kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Kaup kæranda á búseturétti, sbr. lög nr. 86/1988 og lög nr. 109/1988, um breytingu á þeim lögum, geta ekki talist vera kaup eða bygging á íbúðarhúsnæði, hvorki í skilningi skattalaga né annarra laga. Virðist samkvæmt því ekki uppfyllt skilyrði í C-lið 69. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 9. gr. laga nr. 92/1987, og á kærandi ekki rétt á að fá húsnæðisbætur.

Ríkisskattstjóri hefur aflað ýmissa gagna varðandi réttarstöðu Búseta bsvf. og Búseta og eru þau lögð hér með.

Höfuðforsenda þess að fá ákvarðaðar húsnæðisbætur er að umsækjandi hafi keypt, byggt eða eignast íbúðarhúsnæði á annan hátt.

Í lögum nr. 86/1988 um Húsnæðisstofnun ríkisins er að finna heimild til þess að lána sveitarfélögum, félagasamtökum eða fyrirtækjum fé til að standa fyrir byggingu á kaupleiguíbúðum“, eins og það er orðað. Í samræmi við það var stofnað húsnæðissamvinnufélagið Búseti og fékk það félag lán til framkvæmda. Þá er í sömu lögum að finna reglur um starfsemi sem þessa og þau skilyrði og ákvæði sem uppfylla þarf. M.a. kemur fram að byggingaraðila (Búseta) sé heimilt að selja leigutaka sínum svonefndan búseturétt, sem á að tryggja viðkomandi ævarandi rétt til leigu á íbúðinni, að uppfylltum öðrum skilyrðum. Verð á búseturétti er skv. lögunum ákveðið hlutfall (15 – 30%) af kostnaðarverði viðkomandi íbúðar sem búseti hefur tekið á leigu. Búseturétti má/skal þinglýsa sem kvöð á íbúðinni en að öðru leyti eru aðrar eignarheimildir hjá Búseta félagi/ríkinu. Samkvæmt framansögðu er einungis um að ræða afnotarétt sem færist yfir til búsetans, aðrar eignarheimildir eru ekki tengdar búsetusamningum. Í reglunum er lagt bann við fullnustugerð á leigusamningi sem og framsali. Þá er sagt í lögunum að búseturétturinn sé persónulegur og að hann erfist ekki.

Af ofanrituðu verður ráðið að öflun og eignarhald búseturéttar getur ekki verið lögð að jöfnu við kaup eða byggingu eða eignarhald íbúðar til eigin nota. Samkvæmt því uppfyllti kærandi ekki meginskilyrði fyrir húsnæðisbótum. Er gerð krafa um staðfestingu á úrskurði skattstjóra.“

Með vísan til þess sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra er krafa kæranda ekki tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja