Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 72/1992

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 68. gr. A-liður — 73. gr. — 74. gr. 5. tl. 1. mgr. — 121. gr. 3. mgr.   Lög nr. 45/1987 — 1. gr. — 9. gr. 2. og 3. mgr. — 13. gr. — VIII. kafli — 38. gr.   Reglugerð nr. 79/1988 — I. kafli   Reglugerð nr. 37/1989 — 5. gr.  

Staðgreiðsla opinberra gjalda — Bráðabirgðagreiðsla tekjuskatts og útsvars — Álagning — Álagning að liðnu tekjuári — Álagning, almenn — Persónuafsláttur — Persónuafsláttur í staðgreiðslu — Millifærður persónuafsláttur frá maka — Persónuafsláttur, millifærður frá maka — Óráðstafaður persónuafsláttur maka — Skattkort — Skattkort maka — Verðbætur — Verðbætur á tekjuskatt og útsvar — Verðbótaútreikningur — Staðgreiðsla opinberra gjalda, innborgun samkvæmt 38. gr. laga nr. 45/1987 — Staðgreiðsla og álagning, mismunur — Eignarskattur — Eignarskattsverð — Eignarskattsstofn — Eign, skattskyld — Skattskyld eign — Eignfærsla — Verðbréf — Nafnverð verðbréfa — Niðurfærsla — Niðurfærsla verðbréfa — Verklagsreglur — Verklagsreglur ríkisskattstjóra — Leiðbeiningar ríkisskattstjóra — Sönnun — Gjaldþrotaskipti — Þrotabú — Framtalsháttur

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1989. Kæruefni eru sem hér segir:

1. Verðbætur á ógreiddan tekjuskatt.

Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989 var kæranda, A, gert að greiða 21.190 kr. í verðbætur á ógreiddan tekjuskatt. Þá var felldur niður óráðstafaður skattafsláttur hjá kæranda, B, 1.791 kr. Í kæru til skattstjóra, dags. 24. ágúst 1989, var þessum álagningarþáttum mótmælt. Hljóðaði kæran svo:

„Persónuafsláttur B skiptist í þrennt; þ.e. 1) skattkort v/greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins 11%, 2) skattkort v/lífeyrisgreiðslna frá Lífeyrissjóði Sóknar 5% og 3) skattkort 84% sem maki nýtir 80% af eða persónuafslátt m.v. árið 1988 kr. 125.415. A hefur því persónuafslátt til notkunar á móti launum sínum vegna ársins 1988 kr. 312.044 (eða 186.629 + 125.415). Heildarlaun A á árinu 1988 voru kr. 986.000 og skiptast þau þannig skv. skilagreinum um staðgreiðslu:

Janúar Kr. 50.000

Febrúar – 52.000

Mars – 54.000

Apríl – 66.000

Maí – 67.000

Júní – 67.000

Júlí – 70.000

Ágúst – 92.000

September – 92.000

Október – 92.000

Nóvember – 92.000

Desember – 192.000

SAMTALS Kr. 986.000

Þann 12. janúar 1989 greiddi A kr. 35.030 vegna desemberlauna 1988 sem reikna má þannig.

Kr. 986.000 x 35,2% = Kr. 347.072

Persónuafsláttur – (312.044)

TEKJUSKATTSSKYLDUR MISMUNUR Kr. 35.028

Þann 30. janúar greiddi A kr. 72.563 í tekjuskatt af eignartekjum (þ.e. útleigu á húsnæði) kr. 206.146.

Með hliðsjón af ofansögðu og með vísan til 4. mgr. (sic) 1. 45/1987, þar sem fram kemur að flytja megi persónuafslátt milli mánaða innan sama árs, er það ósk okkar að álagningin verði leiðrétt sem fyrst og umbjóðandi okkar þar með firrtur frekari óþægindum.“

Með kæruúrskurði, dags. 18. maí 1990, hafnaði skattstjóri kröfum kærenda varðandi þessi kæruatriði. Í kæruúrskurði sínum gerði skattstjóri tölulega grein fyrir skattútreikningi kærenda gjaldárið 1989. Með vísan til þess útreiknings og 1. og 2. mgr. A-liðs 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, varð niðurstaða skattstjóra sú, að hin kærðu atriði skyldu óröskuð standa. Rétt þykir að taka upp þennan útreikning skattstjóra hér. Hann er svofelldur:

„1) Persónuafsláttur B gjaldárið 1989 reiknast þannig:

Tekjuskattur og útsvar kr. 29.345

Eignarskattur – 134.044

Sérstakur eignarskattur – 14.286

Persónuafsláttur gjaldanda – (186.629)

Óráðstafaður persónuafsláttur kr. 8.954

Millifærður pers.afsl. til maka (80%) – (7.163)

Persónuafsláttur sem fellur niður kr. 1.791

Opinber gjöld A gjaldárið 1989 reiknast þannig:

Tekjuskattur og útsvar kr. 419.635

Afdregin staðgreiðsla skv. skrá – (107.593)

Persónuafsláttur gjaldanda – (186.629)

Persónuafsláttur frá maka – (7.163)

Vangoldinn tekjuskattur og útsvar – 118.250

Verðbætur 17,92% – 21.190*)

*) Samkvæmt 1. ml. 5. gr. reglugerðar. nr. 37 (27/1 1989).“

Af kærenda hálfu hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 15. júní 1990. Í bréfi, dags. 19. júní 1990, gerði umboðsmaður kærenda grein fyrir kröfum sínum og rökstuðningi varðandi þennan þátt kærunnar. Krafan er sú, að verðbætur á ógreiddan tekjuskatt 21.190 kr. verði felldar niður. Í bréfi umboðsmanns kærenda, dags. 19. júní 1990, er að finna svofelldan rökstuðning:

„Í 13. gr. staðgreiðslulaga, sbr. 8. gr. laga nr. 90/1987 um breytingar á þeim lögum, er skattaðila heimilað að nýta hluta af persónuafslætti maka. Til samræmis við ákvæði þetta var 68. gr. tekjuskattslaganna breytt þannig að persónuafsláttur tæki einungis til laga um staðgreiðslu. Með þessari breytingu var hætt að ráðstafa persónuafslætti til gjalda utan staðgreiðslu, þ.e. eignarskatts. Þessi breyting skýrist af því að gjöld utan staðgreiðslu tóku ekki verðbætur eins og gjöld í staðgreiðslu. Breyting þessi var því forsenda þess að ákvæði 13. gr. staðgreiðslulaganna íþyngdu ekki skattþegnum við álagningu.

Í samræmi við lög þessi gaf ríkisskattstjóri út leiðbeiningar til launþega um með hvaða hætti þeir gætu nýtt sér skattkort maka á staðgreiðsluárinu 1988. Leiðbeiningar þessar voru í samræmi við ákvæði laganna, eins og þau voru allt fram til 22. desember 1988.

Með breytingu á 68. gr. tekjuskattslaganna sem samþykkt voru 22. desember 1988 var aftur horfið til þess að ráðstafa persónuafslætti fyrst til greiðslu tekjuskatts — útsvars og því næst eignarskatts. 80% af ónýttum persónuafslætti maka nýttist til greiðslu skatta hins makans í sömu röð og áður var talið upp.

Með breytingu þessari var gengið þvert á framkvæmd staðgreiðslulaganna, sbr. leiðbeiningar ríkisskattstjóra varðandi framkvæmd þeirra á staðgreiðsluárinu 1988. Áhrif þessara breytinga urðu þau að aðilar sem höfðu nýtt sér persónuafslátt maka að fullu eða samnýtt skattkort sitt og greiddu jafnframt eignarskatt við álagningu voru gerðir að vanskilafólki við álagningu. Það er erfitt að útskýra fyrir heiðarlegu fólki hvers vegna það er látið greiða verðbætur á ógreiddan tekjuskatt — útsvar við álagningu þegar það hefur farið að fyrirmælum skattyfirvalda allt árið varðandi greiðslur skatta í staðgreiðslu og taldi sig þar með vera í skilum með staðgreiðsluskatta sína.“

2. Eignfærsla verðbréfa. Í sérstöku fylgiskjali um eignabreytingar með skattframtali kærenda árið 1989 var tekið fram, að ávöxtunarbréf að nafnverði 2.560.000 kr. og rekstrarbréf að nafnverði 410.000 kr. Ávöxtunar sf. hefðu verið afskrifuð, enda væri veruleg óvissa varðandi greiðslur frá þrotabúi Ávöxtunar sf. bæði að því er varðar fjárhæð þess, sem greitt yrði og þann tíma, sem uppgjör sjóðanna kynni að taka og áhrif þess á fjárhæð krafna. Í samræmi við þessi sjónarmið voru bréf þessi ekki eignfærð í framtali árið 1989. Með bréfi, dags. 27. júlí 1989, tilkynnti skattstjóri kæranda, að 50% af nafnverði Ávöxtunar- og rekstrarbréfa 1.485.000 kr. hefðu verið færð til eignar í reit 13 í skattframtali árið 1989, sbr. auglýsingu ríkisskattstjóra, dags. 27. janúar 1989.

Af hálfu umboðsmanns kærenda var þessari breytingu mótmælt í kæru, dags. 29. ágúst 1989. Sagði svo í kærunni:

„Með bréfi dags. 27. júlí 1989 voru gerðar þær breytingar á framtali umbjóðanda okkar, að 50% af nafnverði ávöxtunar- og rekstrarbréfa voru færð til eignar, en þau höfðu verið færð af framtali sem töpuð. Þessari breytingu viljum við mótmæla, og vísum í því sambandi til yfirlýsinga bústjóra þrotabús Ávöxtunar sf., þar sem fram hefur komið að allt að 80% af eignum búsins séu þegar tapaðar. Þegar litið er til kostnaðar við búskiptin og þess að langur tími mun líða áður en þessi mál verða til lykta leidd, má ætla að fé þetta sé að mestu eða öllu leyti tapað. Það er í hæsta máta óeðlilegt að umbjóðandi okkar sé látinn gjalda þeirrar óvissu sem ríkir varðandi þessar eignir, og gerum þá kröfu að þær séu með öllu afskrifaðar.“

Með kæruúrskurði, dags. 18. maí 1990, synjaði skattstjóri kröfu kærenda. Sagði svo í úrskurðinum:

„Kærandi eignaðist á árinu 1987, ávöxtunar- og rekstrarbréf að nafnverði kr. 2.975.000. Á skattframtali 1989 voru nefnd bréf eignfærð á hálfu nafnverði kr. 1.485.000, sbr. bréf skattstjóra dags. 27. júlí 1989. Stuðst er við bréf Ríkisskattstjóra dags. 27. jan. 1989, en þar kemur m.a. fram að telja eigi bréf þessi til eignar í árslok 1988 á a.m.k. hálfu nafnverði. Kærunni er því synjað með vísan til framanritaðs.“

Í bréfi, dags. 19. júní 1990, í framhaldi af kæru til ríkisskattanefndar, dags. 15. júní 1990, er breytingu skattstjóra mótmælt með vísan til framkomins rökstuðnings.

Með bréfi, dags. 17. október 1991, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Um 1. tl. Ekki verður af kæru ráðið, að haldið sé til streitu þeim þætti, sem lýtur að niðurfellingu óráðstafaðs hluta persónuafsláttar kæranda, B, 1.791 kr., sbr. ákvæði 2. mgr. A-liðs 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Verða því andmæli kæranda, A, vegna verðbóta á ógreiddan tekjuskatt einungis til meðferðar í úrskurði þessum. Fjárhæð verðbóta þessara nemur 21.190 kr. Féllu verðbætur þessar á kæranda sökum þess, að hann hafði í staðgreiðslu opinberra gjalda nýtt 84% af persónuafslætti eiginkonu að lögleyfðu marki (80%) og nam fjárhæð þessa hluta persónuafsláttar við staðgreiðslu opinberra gjalda hans 125.415 kr. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989 var þessum hluta persónuafsláttar eiginkonu kæranda hins vegar að mestu leyti ráðstafað til greiðslu eignarskatts og eignarskattsauka hennar, sem þá var lagður á þannig að fjárhæð óráðstafaðs persónuafsláttar eiginkonunnar, sem yfirfærð var til kæranda, A, við álagningu nam einungis 7.163 kr. Úrlausn máls þessa veltur á því, hvernig skýra beri 1. ml. 3. mgr. 121. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, en þar er fjallað um slíkar verðbætur, sem hér um ræðir, þegar mismunur kemur í ljós á álögðum tekjuskatti og staðgreiðslu skv. lögum um hana og sá mismunur stafar af „of lágri staðgreiðslu,“. Hin umdeilda ákvörðun verðbóta í þessu tilfelli kæranda þykir styðjast við næga heimild í nefndu ákvæði 3. mgr. 121. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt sbr. og ákvæði 2. mgr. A-liðs 68. gr. sömu laga. Að því athuguðu og þar sem ekki verður annað séð en útreikningur skattstjóra á fjárhæð verðbótanna sé réttur þykir bera að staðfesta úrskurð hans um þetta kæruatriði.

Um 2. tl. Framtalsháttur kærenda varðandi eignfærslu umræddra verðbréfa þykir ekki fá staðist, þegar litið er til þess, sem fyrir liggur um bréf þessi, sbr. og 1. mgr. 5. tl. 74. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Með því að af hálfu kærenda hefur ekki verið rökstutt, að bréf þessi beri að telja til eignar á lægra verði en skattstjóri hefur ákveðið og byggt er á bréfi ríkisskattstjóra, dags. 27. janúar 1989, sbr. leiðbeiningar þess embættis um útfyllingu skattframtals einstaklinga árið 1989, þykja ekki efni til þess að hrófla við ákvörðun skattstjóra. Er kröfu kærenda varðandi þetta kæruatriði því synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja