Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 79/1992

Virðisaukaskattur 1991

Lög nr. 50/1988 — 2. gr. 1. mgr. — 3. gr. — 5. gr. — 12. gr. — 15. gr. — 16. gr. — 24. gr. — 29. gr.   Reglugerð nr. 563/1989 — 4. gr.   Reglugerð nr. 81/1991 — 1. gr. 2. mgr.  

Virðisaukaskattur — Virðisaukaskattsskyld starfsemi — Virðisaukaskattsskyldur aðili — Tilkynningarskylda um virðisaukaskattsskylda starfsemi — Tilkynning um virðisaukaskattsskylda starfsemi — Skráningardagur — Tilkynning til hlutafélagaskrár — Hlutafélagaskrá — Hlutafélag — Stofndagur hlutafélags — Virðisaukaskattsskyld velta — Virðisaukaskattsskyld velta, undanþegin velta — Undanþegin velta frá virðisaukaskatti — Virðisaukaskattsskýrsla — Bráðabirgðaskýrsla fiskvinnslufyrirtækis — Fiskvinnslufyrirtæki — Uppgjörstímabil virðisaukaskatts — Innskattur — Hráefniskaup fiskvinnslu — Endurgreiðsla virðisaukaskatts — Virðisaukaskattsskrá — Vanræksla á tilkynningarskyldu um virðisaukaskattsskylda starfsemi — Innskattur sem fellur til fyrir skráningu — Virðisaukaskattur, grunnskrá — Grunnskrá virðisaukaskatts — Virðisaukaskattsnúmer

Kærður er úrskurður skattstjóra, dags. 23. september 1991, um synjun á endurgreiðslu virðisaukaskatts.

Málavextir eru þeir að forsvarsmenn kæranda, sem er hlutafélag, tilkynntu til skráningar hjá skattstjóra virðisaukaskattsskylda starfsemi með tilkynningu dags. 30. ágúst 1991. Er upphafsdagur rekstrar talinn 1. júní 1991, en skv. upplýsingum úr hlutafélagaskrá eru samþykktir kæranda dagsettar þann dag. Með bréfi, dags. 3. september 1991, óskaði kærandi eftir endurgreiðslu virðisaukaskatts (innskatts) frá þeim tíma, er hann hóf starfsemi, en samkvæmt því, sem fram kemur í bréfinu, hófst hún um mánaðamót maí/júní 1991. Hefði láðst að tilkynna um starfsemina sökum vankunnáttu forsvarsmanna. Hefðu þeir ennfremur talið, að innskatti mætti safna upp, sem þeir og gerðu, þar sem kærandi hefði hvorki hlotið kennitölu né virðisaukaskattsnúmer. Með bréfi, dags. 13. september 1991, sama erindis skilaði kærandi ennfremur bráðabirgðaskýrslum fiskvinnslufyrirtækis vegna virðisaukaskatts, dagsettum hinn 13. september 1991, fyrir tímabilið 1. maí til 30. júní 1991, þar sem innskattur er tilgreindur 27.325 kr., virðisaukaskattsskýrslu (uppgjörsskýrslu) fyrir sama tímabil, þar sem innskattur er tilgreindur 46.329 kr., bráðabirgðaskýrslu fiskvinnslufyrirtækis vegna tímabilsins 1. júlí til 31. ágúst 1991, þar sem innskattur er tilgreindur 232.908 kr., svo og virðisaukaskattsskýrslu (uppgjörsskýrslu) fyrir sama tímabil en á henni er innskattur tilgreindur 105.790 kr. Engar aðrar fjárhæðir voru tilgreindar á uppgjörsskýrslunum. Voru skýrslurnar mótteknar hinn 16. september 1991, samkvæmt áritun skattstjóra um móttöku þeirra.

Ofangreint erindi kæranda var tekið sem kæra og úrskurður skattstjóra kveðinn upp 23. september 1991, sbr. 29. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Var kröfu kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts frá 1. júní 1991 til skráningardags 26. júlí 1991 synjað. Enn fremur var innsendum bráðabirgðaskýrslum vegna tímabilsins 1. maí til 30. júní 1991 og 1. júlí til 31. ágúst 1991 vísað frá sem og innsendum uppgjörsskýrslum félagsins fyrir sömu tímabil. Tekið er fram að kærandi hefði vanrækt tilkynningarskyldu sína, sbr. ákvæði 5. gr. framangreindra laga. Hann hefði sent til skattstjóra hinn 15. ágúst 1991 erindi þess efnis, að það fengi heimild til að skila sérstakri bráðabirgðaskýrslu vikulega, er tæki til innskatts vegna hráefniskaupa, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 563/1989. Kærandi hefði verið færður á skrá yfir virðisaukaskattsskylda aðila þann 30. ágúst 1991, með skráningarnúmerið X og skráningardagur ákveðinn 26. júlí 1991, þ.e. þegar sala eða afhending á framleiðsluvöru félagsins átti sér fyrst stað skv. upplýsingum forráðanda kæranda, og að auki veitt heimild til að skila sérstakri bráðabirgðaskýrslu fiskvinnslufyrirtækis, sbr. ákvæði 4. gr. reglugerðar nr. 563/1989. Staðfesting á skráningu kæranda hefði verið dagsett og póstlögð til hans þann 3. september 1991. Honum væri ekki heimill innskattur samkvæmt innsendum bráðabirgðaskýrslum þess, enda tækju þær til tveggja mánaða en ekki einnar viku í senn, en það bryti í bága við ákvæði framangreindrar reglugerðar. Innskatt vegna hráefniskaupa liðinna tímabila hefði því átt að tilgreina á uppgjörsskýrslu úr því sem komið var. Kæranda væri hins vegar ekki heimill neinn innskattur vegna þess á hráefni eða öðrum rekstrarvörum fyrir skráningardag, sbr. ákvæði 2. mgr. reglugerðar nr. 81/1991 um innskatt. Þar sem skráningardagur hefði verið ákveðinn 26. júlí 1991 ætti kærandi að skila bráðabirgðaskýrslum fiskvinnslufyrirtækja og virðisaukaskattsskýrslu fyrir tímabilið 26. júlí til 31. ágúst 1991 og tilgreina á henni skattskylda veltu og útskatt, ef um slíkt hefði verið að ræða, undanþegna veltu, sbr. forsendur skráningardags, og innskatt vegna kaupa kæranda á rekstrarvörum, öðrum en hráefni, sem til hefði fallið á tímabilinu 26. júlí til 31. ágúst 1991. Þar eð innsendar bráðabirgðaskýrslur tækju til lengra tímabils en heimilt væri samkvæmt reglugerð nr. 563/1989 væri þeim vísað frá. Miðað við þær upplýsingar forráðanda kæranda um, að hann hefði selt eða afhent framleiðsluvöru (unnar fiskafurðir til útflutnings) í fyrsta sinn þann 26. júlí 1991, skyti það skökku við, að ekki skyldu hafa komið fram upplýsingar um undanþegna veltu á skýrslu kæranda fyrir tímabilið 1. júlí til 31. ágúst 1991. Því yrði að vísa henni frá og jafnvel breyta skráningardegi.

Kæra forsvarsmanns kæranda, dags. 11. október 1991, var send skattstjóra, sem framsendi hana ríkisskattanefnd. Verður eigi annað ráðið af kærubréfinu en kærandi geri þá kröfu, að innsendar virðisaukaskattsskýrslur verði teknar til greina. Forsvarsmenn kæranda væru byrjendur í nýju starfi með nýtt fyrirtæki og hefðu haft að mörgu að hyggja. Þeim hefðu verið gefnar rangar upplýsingar hjá einkaaðila um þær reglur, er giltu um innskatt. Telur forsvarsmaðurinn, að fordæmi séu fyrir því, að hliðrað hafi verið til í hliðstæðum málum, og því sé ósanngjarnt að krafa kæranda hafi ekki hlotið náð fyrir augum skattstjóra.

Með virðisaukaskattsskýrslum kæranda dags. 26. nóvember 1991 er bárust skattstjóra hinn 27. nóvember 1991 og voru framsendar ríkisskattanefnd er innskattur kæranda fyrir tímabilið maí – júní 1991 tilgreint 129.492 kr. og fyrir tímabilið 1. júlí – 26. júlí 1991 tilgreindur 235.670 kr.

Með bréfi, dags. 30. desember 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofellda kröfu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Í málinu kemur fram að kærandi vanrækti tilkynningarskyldu skv. 5. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt vottorði hlutafélagaskrár er dagsetning samþykkta félagsins 1. júní 1991. Á eyðublaðinu RSK 10.22, tilkynning um virðisaukaskattsskylda starfsemi, er sá dagur tilgreindur sem upphafsdagur reksturs. Eftir atvikum er fallist á kröfu kæranda um að upphafsdagur skráningar samkvæmt fyrrgreindri lagagrein verði talinn 1. júní 1991. Jafnframt er fallist á að kærandi eigi rétt á innskattsfrádrætti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum sem mótteknar voru hjá skattstjóra 27. nóvember 1991, fyrir 1. til 30. júní að fjárhæð 129.492 kr. og fyrir 1. júlí til 26. júlí 235.670 kr.“

Að virtum öllum málavöxtum og með hliðsjón af kröfugerð ríkisskattstjóra er fallist á endurgreiðslu virðisaukaskatts í samræmi við innsendar virðisaukaskattsskýrslur, dags. 26. nóvember 1991, 129.492 kr. og 235.670 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja