Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 80/1992

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 100. gr. 5. og 11. mgr.  

Framleiðsluréttur í landbúnaði — Fullvirðisréttur — Stjórnun búvöruframleiðslu — Endurupptaka máls — Endurupptaka úrskurðar ríkisskattanefndar — Endurupptökuheimild ríkisskattanefndar — Kröfugerð ríkisskattstjóra

Endurrit úr gerðarbók ríkisskattanefndar:

„Ár 1992, miðvikudaginn 22. janúar, kemur ríkisskattanefnd saman til fundar að Laugavegi 118, í Reykjavík. Fundinn sitja Helgi V. Jónsson, Gylfi Knudsen og Gunnar Jóhannsson.

Lagt er fram svohljóðandi bréf ríkisskattstjóra, dags. 4. október 1991:

„Hér með er farið fram á endurupptöku á úrskurði ríkisskattanefndar nr. 514, 30. maí 1991 í máli X.

Í umræddu máli setti ríkisskattstjóri á sínum tíma fram kröfur f.h. gjaldkrefjenda, sbr. ákvæði 100. gr. laga nr. 75/1981 þar að lútandi. Ríkisskattstjóri telur nú að e.t.v. hafi sjónarmið gjaldkrefjenda varðandi það mikilvæga svið skattlagningar sem umræddur úrskurður varðar ekki komið nægilega skýrt fram. Telur hann því að ástæða sé að rita frekari greinargerð varðandi þau sjónarmið og jafnframt að fara þess á leit við háttvirta ríkisskattanefnd að hún afturkalli og breyti fyrri úrskurði sínum. Það, að slík greinargerð sem hér um ræðir kom ekki fram á sínum tíma stafar fyrst og fremst af því að sökum sérstakra atvika gerði ríkisskattstjóri ekki reka að því að setja hana á framfæri við nefndina strax við framlagningu upphaflegrar kröfugerðar í umræddu máli.

Með vísan til nú framlagðrar sérstakrar greinargerðar dagsettrar þann 16. september 1991, gerir ríkisskattstjóri þær kröfur að gjaldfærslu á umræddum fullvirðisrétti verði synjað og úrskurður skattstjóra staðfestur um eignfærslu kaupverðsins.

Byggir ríkisskattstjóri kröfurnar á þeirri forsendu að telja verði að öll lögskýringarrök hnígi að þeirri niðurstöðu að framleiðsluréttur á bújörð og samningur um fullvirðisrétt teljist ófyrnanleg eign tengd bújörðinni.

Nánari grein er gerð fyrir kröfum ríkisskattstjóra og röksemdum hans í tilvitnaðri greinargerð, dagsettri 16. september 1991.“

Umræddur úrskurður var fullnaðarúrskurður í skilningi 11. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er ekkert það framkomið af hálfu ríkisskattstjóra sem þykir geta heimilað ríkisskattanefnd endurupptöku úrskurðarins. Er kröfu ríkisskattstjóra því hafnað.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja