Úrskurður yfirskattanefndar
- Styrkur
- Beinn kostnaður
Úrskurður nr. 803/1997
Gjaldár 1996
Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 2. tölul., 30. gr. 2. mgr.
Yfirskattanefnd synjaði kröfu kæranda um frádrátt kostnaðar vegna tannviðgerða á móti fengnum sjúkrastyrk frá verkalýðsfélagi þar sem um væri að ræða persónuleg útgjöld hans.
Málavextir eru þeir að í athugasemdareit á skattframtali sínu árið 1996 gerði kærandi grein fyrir eingreiðslu sjúkrastyrks að fjárhæð 510.952 kr. frá Verkalýðsfélaginu …. Með bréfi, dags. 25. júlí 1996, tilkynnti skattstjóri kæranda með vísan til 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að hann hefði fært honum sjúkrastyrk þennan til tekna á skattframtalinu. Væri um að ræða skattskyldar tekjur samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981.
Kæru vegna álagningarinnar, dags. 28. ágúst 1996, vísaði skattstjóri frá með kæruúrskurði, dags. 1. nóvember 1996, á þeim grundvelli að kæran væri órökstudd.
Með kæru, dags. 28. nóvember 1996, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni segir að sjúkrastyrkurinn hafi verið endurgreiðsla útlagðs kostnaðar vegna tannskaða. Meðfylgjandi kærunni er vottorð frá … tannlækni, dags. 21. nóvember 1996, en í því kemur fram að ráðist hafi verið í umfangsmiklar og nauðsynlegar uppbyggingar á tönnum kæranda og brúun tannskarða í þeim tilgangi að fyrirbyggja fyrirsjáanlegt tanntap og rétta bit, sem annars hefði leitt til ýmissa sjúkdómseinkenna.
Með bréfi, dags. 6. júní 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Að breytingar þær er skattstjóri gerði með bréfi dags. 25. júlí 1996 verði staðfestar, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra."
II.
Styrk þann, sem mál þetta varðar, ber að telja til tekna samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Um sérstakan frádrátt á móti tekjum þessum er ekki öðrum ákvæðum til að dreifa en frádráttarheimild þeirri sem getur í 2. mgr. 30. gr. sömu laga. Kæru til yfirskattanefndar þykir verða að skilja svo að krafist sé frádráttar á móti umræddum tekjum á grundvelli síðarnefnds lagaákvæðis.
Í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 segir að „hafi maður beinan kostnað af öflun annarra tekna en tekna skv. 1. tl. A-liðs 1. mgr. 7. gr., án þess að hún verði talin falla undir atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, skulu ákvæði 1. mgr. 1. tl. 31. gr. samt sem áður gilda um slíkan kostnað eftir því sem við á, þó ekki ákvæðin um vexti af skuldum afföll, gengistöp og fyrningu eigna". Þá segir í ákvæðinu að kostnaður þessi leyfist eingöngu til frádráttar sams konar tekjum og hann gekk til öflunar á, og má frádráttur hvers árs aldrei nema hærri fjárhæð en sem nemur þeim tekjum sem hann leyfist til frádráttar.
Það leiðir af tilvísun 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 til 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laganna, sem hafa að geyma ákvæði um frádrátt rekstrarkostnaðar frá tekjum af atvinnurekstri, að við skilgreiningu á beinum kostnaði ber að fara eftir almennum reglum um rekstrarkostnað, eftir því sem við á, með þeim takmörkunum sem ákvæðið sjálft mælir fyrir um. Persónuleg útgjöld heimilast ekki til frádráttar sem rekstrarkostnaður.
Útgjöld kæranda vegna tannviðgerða verða að teljast persónulegur kostnaður sem ekki kæmi til álita að heimila til frádráttar sem rekstrarkostnað. Samkvæmt því þykir ekki unnt að taka til greina kröfu kæranda um frádrátt á móti fengnum sjúkrastyrk.