Úrskurður yfirskattanefndar
- Vantaldar tekjur
- Teknategund
- Álag
Úrskurður nr. 808/1997
Gjaldár 1995
Lög nr. 75/1981, 7. gr. B-liður, 7. gr. C-liður 9. tölul., 106. gr. 2. mgr. Lög nr. 30/1992, 12. gr.
Talið var að líta bæri á tekjur kæranda fyrir verk, sem hún tók að sér fyrir útgáfufyrirtæki, sem tilfallandi tekjur, en ekki tekjur af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, svo sem skattstjóri hafði miðað við. Kærandi gerði ekki grein fyrir tekjum þessum í skattskilum sínum. Að virtum skýringum kæranda var fallist á kröfu hennar um niðurfellingu álags vegna vantalinna tekna. Rekstraryfirlit, sem lagt var fram með kæru til yfirskattanefndar, var sent skattstjóra til afgreiðslu.
I.
Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 6. janúar 1997, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda hennar gjaldárið 1995. Kvað skattstjóri liggja fyrir upplýsingar þess efnis að kærandi hefði þegið greiðslu fyrir útselda þjónustu frá A ehf. [útgáfufyrirtæki] á árinu 1994 að fjárhæð 110.400 kr., sem ekki hefði verið getið í skattframtali hennar árið 1995. Hygðist skattstjóri hækka skattskyldar tekjur kæranda gjaldárið 1995 um nefnda fjárhæð þar sem ekki yrði annað séð en að um vantaldar skattskyldar tekjur í skilningi B-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, væri að ræða. Við ofangreinda fjárhæð kvaðst skattstjóri hafa í hyggju að bæta 25% álagi með vísan til heimildarákvæðis 106. gr. laga nr. 75/1981.
Af hálfu kæranda var boðunarbréfi skattstjóra svarað með bréfi, dags. 21. janúar 1997. Í bréfinu komu fram svofelldar skýringar af hálfu kæranda:
„Ég viðurkenni fúslega að hafa tekið að mér vinnu fyrir A ehf. á árinu 1994. Þegar þeirri vinnu lauk, lagði ég fram reikning að upphæð kr. 110.400.
Greiðsla frá A kom í nokkrum hlutum, og enn eru ógreiddar kr. 10.400, sem mér er lofað að ég fái fljótlega.
Í fávísi minni hélt ég (þar sem ég fékk engan launamiða sendan frá A) að hægt væri að telja alla upphæðina fram í einu, þegar lokagreiðsla hefði farið fram. Auðvitað hefði ég átt að telja strax fram það sem ég var búin að fá greitt, en það er auðvelt að vera vitur eftir á.
Af ofangreindum ástæðum óska ég eftir að ég fái að telja þessi 100.000 kr., sem nú eru greiddar, fram í framtalinu núna fyrir 1996.
Ef það er ekki hægt, fer ég fram á að 25% álag, sem minnst er á í bréfi yðar, verði fellt niður."
Með úrskurði um endurákvörðun álagningar, dags. 4. mars 1997, hratt skattstjóri hinni boðuðu breytingu í framkvæmd. Að því er varðaði beitingu 25% álags kom fram af hálfu skattstjóra að kærandi hefði vantalið tekjur sínar umrætt gjaldár og í ljósi bókhaldsskyldu hennar vegna sjálfstæðrar starfsemi og þess að ekki hafi verið öðrum tekjum af sjálfstæðri starfsemi til að dreifa á umræddu ári, ef marka mætti fyrirliggjandi gögn, yrði að telja að hún hafi sýnt að minnsta kosti verulegt gáleysi við framtalsgerð sína. Því yrði að telja að ríkar forsendur fyrir álagsbeitingu væru fyrir hendi og kæmi niðurfelling álags því ekki til álita.
Með kæru, dags. 26. mars 1997, hefur kærandi skotið úrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Í kæru kemur fram svofelld kröfugerð:
„Þar sem ég hef aldrei áður tekið að mér sjálfstæða starfsemi fyrir neinn, hafði ég ekki hugmynd um þær skyldur sem hvíla á verktaka, þar með að ég væri bókhaldsskyld, eins og kemur fram í bréfi yðar frá 4. mars sl.
Í ljósi þessa, og að ég hef ekki áður gerst brotleg við skattalög, fer ég fram á niðurfellingu álags á vantalinn gjaldstofn.
Einnig óska ég að tekið verði tillit til hjálagðs rekstrarreiknings."
Með bréfi, dags. 23. maí 1997, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
II.
Vegna athugasemda skattstjóra um sjálfstæða starfsemi kæranda og bókhaldsskyldu skal tekið fram að í ljósi fyrirliggjandi gagna og skýringa kæranda verður ekki séð að efni séu til að líta á tekjur kæranda fyrir umrætt verk sem annað en tilfallandi tekjur.
Eftir atvikum og að virtum skýringum kæranda þykir mega fallast á kröfu hennar um niðurfellingu álags samkvæmt 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kæru til yfirskattanefndar fylgir rekstraryfirlit kæranda vegna vinnu fyrir A ehf. á árinu 1994 sem kærandi óskar eftir að tekið verði tillit til. Með hliðsjón af þeim lagarökum sem búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, er kæruatriði þessu vísað til skattstjóra til meðferðar.