Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Vinnuherbergi í heimahúsi

Úrskurður nr. 811/1997

Gjaldár 1995

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr.  

Kærandi nýtti hluta íbúðarhúsnæðis síns í þágu sjálfstæðrar starfsemi sinnar við tækniþjónustu og færði til gjalda í rekstrarreikningi sínum 20% af kostnaði vegna hita og rafmagns, fasteignagjalda og tryggingagjalda vegna húsnæðisins. Skattstjóri lækkaði gjaldfærðar fjárhæðir að álitum. Kærandi var ekki talinn hafa sýnt fram á að frádráttarbær húsnæðiskostnaður væri hærri en skattstjóri hafði áætlað og var í því sambandi m.a. skírskotað til fyrirliggjandi upplýsinga um stærð vinnuherbergis kæranda í íbúðinni.

I.

Málavextir eru þeir að skattframtali kæranda fylgdi rekstrarreikningur vegna sjálfstæðrar starfsemi hans við tækniþjónustu. Meðal gjaldaliða var kostnaður vegna hita og rafmagns 34.420 kr. og vegna húsatryggingar og fasteignagjalda 37.303 kr.

Að undangengnum bréfaskiptum tók skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda til endurákvörðunar vegna lækkunar framangreindra gjaldaliða að álitum í samtals 25.000 kr., sbr. tilkynningu um endurákvörðun, dags. 22. ágúst 1996, sem skattstjóri staðfesti með kæruúrskurði, dags. 2. október 1996. Taldi skattstjóri kostnaðinn hæfilega metinn með tilliti til þess að útgjöld vegna trygginga, fasteignagjalda og hita yrðu ekki skilgreind sem rekstrarkostnaður til lækkunar á tekjum, þar sem kostnaðurinn félli til hvort sem gjaldandi hefði vinnuaðstöðu í íbúð sinni eða ekki. Kvað skattstjóri kæranda ekki hafa sýnt fram á að aukinn útlagður kostnaður hefði fallið til sem gæfi tilefni til frádráttar, en umrædd starfsemi væri aukastarf hjá kæranda.

Af hálfu kæranda kemur fram í kæru til yfirskattanefndar, dags. 21. október 1996, að starfsemi hans sé aðallega fólgin í tækniþjónustu svo sem kostnaðaráætlunum fyrir ýmsa aðila, tilboðsgerð fyrir verktaka, fasteignamat og …. Vegna þessarar starfsemi hafi hann til afnota eitt herbergi í íbúðarhúsnæði sínu auk sameiginlegrar aðstöðu. Kveður kærandi nettóflöt vinnuherbergisins vera 12 m2 en kærandi telur það varlega áætlað 18 m2 þegar tekið hafi verið tillit til sameignar, þar með taldir út- og innveggir sem komi inn í útleigt flatarmál húsnæðis. Telur hann að húsaleiga á leigumarkaði yrði 50% hærri en gjaldfærður húsnæðiskostnaður. Þá tekur kærandi fram að hann hafi einungis gjaldfært 20% af kostnaði við hita og rafmagn, fasteignagjöld og tryggingagjöld vegna húsnæðis. Ekki hafi verið gjaldfærður kostnaður vegna afskrifta, viðhalds og þrifa á húsnæði og vegna vaxtaþáttar húsnæðiskostnaðar. Umrædd gjaldfærsla sé einungis 4% af meðalveltu hans á árunum 1988–1995 sem varla geti talist óeðlilegt hlutfall. Kærandi gerir þá kröfu að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi.

II.

Með bréfi, dags. 29. nóvember 1996, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur enda mat hans á ófrádráttarbærum hluta hins umdeilda kostnaðar hæfilegt með hliðsjón af atvikum málsins."

III.

Samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, má draga rekstrarkostnað frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Til rekstrarkostnaðar teljast þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við. Persónulegur kostnaður rekstraraðila, þar með talinn almennur kostnaður við rekstur heimilis, er ekki frádráttarbær, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar Íslands frá 20. febrúar 1997 í málinu nr. 163/1996. Í skattframkvæmd hefur hins vegar verið litið svo á að sé hluti íbúðarhúsnæðis nýttur í þágu sjálfstæðrar starfsemi sé heimilt að færa til frádráttar rekstrartekjum kostnað sem beinlínis leiðir af rekstraraðstöðunni, enda sé ekki jafnframt um að ræða persónuleg not af húsnæðinu. Samkvæmt því verður að telja að m.a. fyrning íbúðarhúsnæðis komi ekki til álita við þessar aðstæður né gjaldfærsla fjármagnskostnaðar vegna húsnæðisins.

Komið er fram af hálfu kæranda í máli þessu að hann nýti hluta íbúðarhúsnæðis síns í þágu sjálfstæðrar starfsemi sinnar. Kveðst hann hafa til þessara þarfa vinnuherbergi að nettófleti um 12 m2 að stærð, en það sé varlega áætlað 18m2 að teknu tilliti til sameignar og út- og innveggja. Á þessum grundvelli gjaldfærði kærandi 20% af kostnaði vegna hita og rafmagns, fasteignagjalda og tryggingagjalda vegna húsnæðis.

Ekki verður séð að skattstjóri hafi út af fyrir sig vefengt að kærandi nýtti umrætt vinnuherbergi eingöngu vegna rekstrar. Hins vegar verður að skilja athugasemdir skattstjóra m.a. í bréfi hans, dags. 12. febrúar 1996, þannig að skattstjóri hafi talið að það hlutfall af húsnæðiskostnaði, sem kærandi miðaði við, fengi ekki staðist þegar litið væri til aðstæðna hans.

Samkvæmt skráningu Fasteignamats ríkisins er íbúðarhús kæranda 227,4 m2. Þá fylgir húsnæðinu bifreiðageymsla. Það sem upplýst er um stærð vinnuherbergis kæranda getur því ekki gefið tilefni til að ætla að beinn kostnaður, sem leiðir af þessari aðstöðu, nemi þeirri fjárhæð sem kærandi færði til gjalda í skattskilum sínum. Þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á að frádráttarbær húsnæðiskostnaður sé hærri en skattstjóri hefur áætlað.

Kröfu kæranda í máli þessu er því hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja