Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattlagning hjóna
  • Framfærslueyrir
  • Málsmeðferð áfátt
  • Álag

Úrskurður nr. 854/1997

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 81. gr., 106. gr. 1. mgr.  

Yfirskattanefnd taldi, þegar litið væri til þeirra reglna sem giltu samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt um skattlagningu hjóna, sem samvistum væru, að það stríddi gegn réttum rökum að hafna skattframtali vegna tortryggilega lágs framfærslueyris að því er tæki til annars hjóna en fallast á það að því er snerti hitt. Féllst yfirskattanefnd á kröfu kæranda um að álagning opinberra gjalda hans yrði byggð á innsendu skattframtali. Álagsbeiting skattstjóra var þó látin standa óhögguð og tekið fram að hún hefði ekki sætt andmælum af hálfu kærenda.

I.

Málavextir eru þeir að kærendur, A og B, töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1996. Við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1996 sættu kærendur því áætlun skattstjóra á skattstofnum, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að viðbættu álagi samkvæmt 1. mgr. 106. gr. sömu laga.

Skattframtal kærenda árið 1996 hafði borist skattstjóra hinn 24. júlí 1996. Tók skattstjóri framtalið sem kæru samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981. Áður en skattstjóri felldi kæruúrskurð um kæruna ritaði hann kærendum bréf, dags. 24. september 1996, þar sem hann fór fram á að rekstrar- og efnahagsreikningur fyrir árið 1995 yrði lagður fram og gerð grein fyrir sölu eigna ef reksturinn hefði verið yfirtekinn eða seldur. Þá tók skattstjóri fram að samkvæmt hinu innsenda skattframtali næmi framfærslueyrir kærenda á árinu 1995 einungis 555.739 kr. sem þætti óeðlilega lágt, sbr. útreikninga á sérblaði sem fylgdi bréfi skattstjóra. Ennfremur gat skattstjóri þess að samkvæmt upplýsingum úr fyrirtækjaskrá væri kærandi skráður forráðandi félagsins D ehf. Í skattframtalinu væri ekki getið hlutafjáreignar í því félagi.

Í svarbréfi umboðsmanns kærenda, dags. 9. október 1996, var getið skuldar við … vegna vanskila 65.579 kr. og skuldar við föður kæranda, A, … 400.000 kr. Þá var greint frá því í bréfinu að D ehf., hefði yfirtekið eignir og skuldir E sf., hinn 1. janúar 1995 og væri óráðstafað eigið fé notað til greiðslu á hlutabréfum hins nýja félags 500.000 kr. Hlutaféð skiptist að jöfnu milli kæranda, A, og C 250.000 kr. í hlut hvors um sig. Farið var fram á að hlutafjáreignin yrði færð í reit 08 í lið 10.4. í skattframtalinu. Tekið var fram að skattskuld 608.794 kr. hefði verið greidd af D ehf. Bréfinu fylgdi ljósrit af efnahagsreikningi kæranda, A, pr. 31. desember 1994.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 11. nóvember 1996, og hafnaði því að byggja álagningu á hinu innsenda skattframtali að því er varðar kæranda, A, þar sem framtalið þætti bæði ófullnægjandi og tortryggilegt. Hins vegar lækkaði skattstjóri áður áætlaðan tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda, A, úr 5.627.450 kr. að meðtöldu álagi í 1.947.450 kr. að meðtöldu álagi. Jafnframt felldi skattstjóri niður áætlaðan tryggingagjaldsstofn. Að því er kæranda, B, snertir þá féllst skattstjóri á að byggja álagningu á tekjuframtali hennar og varð tekjuskatts- og útsvarsstofn að meðtöldu 10% álagi 627.008 kr. Forsendur skattstjóra eru svohljóðandi í kæruúrskurðinum:

„Fallist er á skýringar umboðsmanns kæranda varðandi yfirtöku hlutafélagsins á rekstri kæranda. Þó ber kæranda að reikna hjá sér verðbreytingarfærslu skv. 53. gr. laga nr. 75/1981 miðað við stöðu veltufjármuna og skulda í árslok 1994, þ.e. tekjufærslu að fjárhæð kr. 37.106.

Ekki er fallist á að eftirgreindar skýringar í bréfi umboðsmannsins og hefur skattstjóri í því sambandi fengið ljósrit af ársreikningi D ehf. árið 1995 frá skattstjóranum í R: Ekki verður séð af þeim reikningum að einkahlutafélagið hafi greitt skattaskuld A og á efnahagsreikningi er fært til skuldar lán eigenda kr. 1.306.656 og verður að líta svo á að kærandi hafi lánað félaginu helming þeirrar fjárhæðar eða 653.328 og myndi framfærslulífeyrinn (sic) þá lækka um þá fjárhæð. Einnig er bent á að ef félagið hefði greitt skattaskuld eigandans eins og haldið er fram væri sú greiðsla skattskyld hjá honum. Þá þykja þau laun sem A fær greidd frá einkahlutafélaginu óeðlilega lág miðað við þau reiknuðu laun sem hann reiknaði sér árið á undan."

II.

Af hálfu umboðsmanns kærenda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 26. nóvember 1996. Tekið er fram í kærunni að lán eigenda í efnahagsreikningi D ehf. árið 1995 sé sama og yfirteknar skuldir. Lán eigenda sé heiti á bókhaldslykli og hafi láðst að breyta því í yfirfærslu á efnahagsreikning. Eins og sjá megi á áður sendu ljósriti af efnahagsreikningi kæranda, A, hafi talsverðar skuldir verið í árslok 1994. Varðandi ógreidda skatta kæranda, A, hafi verið um misskilning að ræða.

III.

Með bréfi, dags. 16. maí 1997, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

IV.

Eins og fram hefur komið töldu kærendur ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1996 og sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1996. Skattframtal kærenda árið 1996, sem barst að liðnum framtalsfresti en áður en álagningu var lokið, tók skattstjóri sem kæru, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, og kvað upp hinn umdeilda kæruúrskurð 11. nóvember 1996 þar sem hann hafnaði skattframtalinu að því er kæranda, A, varðar að undangengnum bréfaskiptum þar sem skattstjóri krafðist skýringa á tilteknum atriðum. Eins og málið bar að var skattstjóri ekki bundinn af fyrirspurnar- og tilkynningarákvæðum 96. gr. laga nr. 75/1981 hygðist hann gera breytingar á skattframtalinu eða vefengja það í heild sinni eða hluta. Honum bar hins vegar að rökstyðja kæruúrskurð sinn, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981 og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og sjá til þess samkvæmt rannsóknarreglu að málið væri nægjanlega upplýst, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Bréfi skattstjóra, dags. 24. september 1996, fylgdi útreikningur á framfærslueyri kærenda árið 1995 þar sem fram kom að þau hefðu það ár haft til framfærslu 555.739 kr. Samkvæmt bréfinu taldi skattstjóri þennan framfærslueyri óeðlilega lágan. Í kæruúrskurði sínum, dags. 11. nóvember 1996, áréttaði skattstjóri enn lágan framfærslueyri og nú m.a. í ljósi tilgreindra lána D ehf. við eigendur. Þar sem skattstjóri féllst með kæruúrskurði sínum á skýringar kæranda á ráðstöfun þess rekstrar, sem hann hafði haft með höndum í félagi við C að jöfnu í sameignarfélaginu E sem ekki var sjálfstæður skattaðili, og stofnun fyrrgreinds einkahlutafélags um þann rekstur, verður að telja að meginforsenda hans fyrir höfnun skattframtalsins að því er kæranda, A, varðar hafi byggst á fyrrgreindum framfærslueyri sem skattstjóri taldi afbrigðilega lágan. Eins og fram hefur komið tók skattstjóri skattframtalið til greina að því er varðar kæranda, B. Þegar litið er til þeirra reglna sem gilda samkvæmt lögum nr. 75/1981 um skattlagningu hjóna, sem samvistum eru, sbr. einkum 81. gr. laganna, og tilhögunar á fjárskipulagi hjóna almennt, verður að telja að það stríði gegn réttum rökum að hafna skattframtali vegna tortryggilega lágs framfærslueyris að því er tekur til annars hjóna en fallast á það að því er snertir hitt. Að þessu virtu og með vísan til framkominna skýringa kærenda verður höfnun skattframtalsins að því er kæranda, A, varðar ekki byggð á fyrrgreindri forsendu skattstjóra.

Í kæruúrskurði sínum, dags. 11. nóvember 1996, taldi skattstjóri laun kæranda, A, frá D ehf. óeðlilega lág, miðað við reiknuð laun árið á undan. Ekki gat skattstjóri þessa atriðis í bréfi sínu, dags. 24. september 1996. Þessi forsenda skattstjóra þykir í þeim mæli órökstudd og óupplýst að höfnun skattframtalsins þykir ekki verða byggð á henni. Önnur atriði, sem skattstjóri færir fram í kæruúrskurði sínum, geta ekki gefið tilefni til höfnunar skattframtalsins.

Með vísan til þess, sem að framan greinir, og framkominna skýringa kærenda þykir bera að fallast á að álagning opinberra gjalda gjaldárið 1996 á kæranda, A, verði byggð á hinu innsenda skattframtali. Þær leiðréttingar þykir bera að gera að hlutafjáreign 250.000 kr. í D ehf. er færð til eignar og tekjufærsla vegna verðbreytinga 37.106 kr. að hlut kæranda, A, er tekjufærð hjá honum sem hreinar tekjur af atvinnurekstri í reit 62. Þá þykir bera í ljósi framkominna upplýsinga að leiðrétta skuldir í reit 45 til hækkunar um 65.579 kr. og skuldir í reit 168 til hækkunar um 400.000 kr. Álagsbeiting hefur ekki sætt andmælum af hálfu kærenda og verður hún látin óhögguð standa.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja