Úrskurður yfirskattanefndar

  • Gjöf
  • Meðalhófsreglan

Úrskurður nr. 863/1997

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 4. tölul. 2. málsl.  

Kæranda var afsöluð jörð á árinu 1995 og skyldi umsamið andvirði hennar greiðast á tíu árum í formi skógræktar á jörðinni. Skattstjóri færði kæranda söluverð jarðarinnar til tekna og taldi um skattskylda gjöf að ræða, enda yrði að skoða skilyrðið um ræktun skógar á jörðinni um ókomin ár sem kvöð fylgjandi gjöfinni, en ekki greiðslu á andvirði jarðarinnar. Yfirskattanefnd tók fram að hvað sem liði skilgreiningu afsalsgernings um jörðina þætti einsýnt, með tilliti til þeirra skuldbindinga sem kærandi hefði gengist undir með honum, að tekjufærsla yrði ekki byggð á tilgreindu söluverði. Var breyting skattstjóra því felld úr gildi.

I.

Málavextir eru þeir að á fylgiskjali með skattframtali sínu árið 1996 gerði kærandi grein fyrir kaupum sínum á jörðinni A. Kom þar fram, að hann hefði keypt jörð þessa hinn 22. febrúar 1995 fyrir 450.000 kr. Í kjölfar bréfaskipta færði skattstjóri kæranda til tekna á skattframtali kaupverð jarðarinnar, sbr. bréf skattstjóra, dags. 13. maí og 25. júlí 1996, og bréf umboðsmanns kæranda, dags. 30. maí 1996. Voru forsendur skattstjóra fyrir breytingunni þær, að jörðinni hefði verið afsalað til kæranda án greiðslu, en með því skilyrði að skógrækt yrði stunduð á henni. Skógrækt gæti talist atvinnurekstur samkvæmt lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og færi það eftir því í hvaða mæli hún væri stunduð. Skilyrði þetta gæti því aldrei skoðast sem greiðsla á verðmæti jarðar.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var ofangreind breyting kærð til skattstjóra með kæru, dags. 7. ágúst 1996. Mótmælti hann þeirri skoðun skattstjóra að um tekjur væri að ræða þar sem andvirði jarðarinnar ætti að inna af hendi með skógrækt á jörðinni. Kvað hann ósanngjarnt að kærandi yrði krafinn um skatta af andvirði jarðarinnar en ætti þess síðan ekki kost að draga væntanlegan kostnað við skógræktina frá tekjunum. Fyrri eigandi hefði haft það að markmiði með afsalinu að sjá til þess að skógur yrði ræktaður á jörðinni, en kærandi hefði engin áform um að stunda skógrækt í atvinnuskyni. Hann myndi því í framtíðinni að líkindum einungis hafa útgjöld af skógræktarkvöðinni. Til vara gerði umboðsmaður þá kröfu, að kæranda yrði heimilað að færa andvirði jarðarinnar til skuldar á skattframtali en útlagður kostnaður kæmi síðan til greiðslu á henni. Með kæruúrskurði, dags. 26. nóvember 1996, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda. Voru forsendur hans svohljóðandi:

„Samkvæmt fyrirliggjandi afsali, dags. 22. febrúar 1995, eignaðist kærandi jörðina A án þess að greiðsla kæmi fyrir, en með þeim skilyrðum að á næstu tíu árum yrði framkvæmt í skógrækt á jörðinni að jafnvirði fasteignamats jarðar og mannvirkja, sem var 1. 12. 1995 samtals kr. 450.000. Augljóst er að kæranda er í sjálfsvald sett hvort hann uppfyllir skilyrði um skógrækt sem atvinnustarfsemi eða ekki. Hvernig svo sem þeim framkvæmdum verður varið, verður skógræktin hans eign og því aukið verðmæti eignarinnar í hans hendi. Önnur not mannvirkja og jarðar eru í engu skilyrt í afsali og engin greiðsla eða verðmæti renna til afseljanda.

Af ofan rituðu verður að líta svo á að í hendi kæranda sé hér um að ræða gjöf sem skattskyld er skv. 2. ml. 4. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt."

II.

Með kæru, dags. 19. desember 1996, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Ítrekar hann fyrri röksemdir í kæru til skattstjóra og kveður ætlun fyrri eiganda jarðarinnar einungis munu hafa verið þá að fá einhverju ráðið um það í hverra hendur jörðin kæmist eftir hans dag og helst að sjá til þess að skógur yrði ræktaður þar. Eiginleg verðmæti séu hér lítil þar sem jörðin sé óhýst og án ræktunar og bústofns og enginn framleiðsluréttur fylgi henni, en flestir viti að bújörð með þessi einkenni sé harla verðlítil. Gerir umboðsmaður svofelldar kröfur í málinu:

„Við förum því fram á að fallið verði frá ofangreindri skattlagningu. Til vara er farið fram á að framteljanda verði heimilað að líta á andvirði jarðarinnar sem fyrirframgreiðslu sem hann færi til skuldar á framtali sínu og meðhöndli síðan útlagðan kostnað sem greiðslu á þeirri skuld."

Með bréfi, dags. 18. apríl 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

III.

Með afsali, dags. 22. febrúar 1995, en ljósrit þess liggur fyrir í málinu, var kæranda afsöluð jörðin A „ásamt tilheyrandi réttindum og öllu öðru er eign þeirri fylgir og fylgja ber, svo sem venja er í fasteignaviðskiptum". Kærandi gerði grein fyrir eignabreytingu þessari á fylgiskjali með skattframtali sínu árið 1996 og færði jörðina til eignar á framtalinu samkvæmt fasteignamati. Í afsalinu kemur fram að umsamið andvirði hins selda, 450.000 kr., skuli greiðast á tíu árum í formi skógræktar á jörðinni, en fram hefur komið af hálfu kæranda í málinu, að markmið fyrri eiganda með afsali jarðarinnar hafi verið að sjá til þess, að skógur yrði ræktaður á jörðinni. Skattstjóri hefur talið að um skattskylda gjöf væri að ræða samkvæmt 2. málsl. 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, enda yrði að skoða skilyrði um ræktun skógar á jörðinni um ókomin ár sem kvöð fylgjandi gjöfinni, en ekki sem greiðslu á andvirði jarðarinnar. Af hálfu kæranda er því mótmælt að um gjöf sé að ræða. Ljóst er að samkvæmt afsali um jörðina er gengið út frá endurgjaldi af hálfu kæranda í formi skógræktar, sem metið er jafnhátt söluverði. Hvað sem líður skilgreiningu þessa afsalsgernings þykir einsýnt, með tilliti til þeirra skuldbindinga sem kærandi gekkst undir með honum, að tekjufærsla varð ekki byggð á tilgreindu söluverði. Að svo vöxnu er hin kærða breyting skattstjóra felld úr gildi.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja