Úrskurður yfirskattanefndar
- Vantaldar tekjur
- Tekjuskráning
Úrskurður nr. 867/1997
Gjaldár 1994
Virðisaukaskattur 1993
Lög nr. 75/1981, 96. gr. 1. mgr. Lög nr. 50/1988, 20. gr. 1. mgr., 27. gr. Lög nr. 145/1994, 17. gr.
Skattstjóri hækkaði rekstrartekjur kæranda og virðisaukaskattsskylda veltu um áætlaða fjárhæð með vísan til þess að kærandi hefði ekki gert fullnægjandi grein fyrir tekjuskráningargögnum sínum með því að 37 sölureikninga vantaði í framlögð gögn kæranda til að tölusetning reikningseyðublaða hans væri samfelld. Kærandi kvað umrædd reikningseyðublöð vera glötuð. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að þegar virt væru lagarök að baki ákvæðum um tölusetningu tekjuskráningargagna yrði almennt að telja að slíkar aðstæður og í máli þessu greindi yllu því að draga yrði grundvöll viðkomandi skattskila í efa. Þótt ekki hefði út af fyrir sig verið sýnt fram á að rekstrartekjur kæranda hefðu verið vantaldar þóttu atvik með þeim hætti að telja yrði skattstjóra hafa verið rétt að áætla viðbótartekjur og skattskylda veltu á þann hátt sem gert hefði verið, enda væru skýringar kæranda alveg ófullnægjandi. Þar sem áætlunarfjárhæð skattstjóra þótti ekki úr hófi fram miðað við málsatvik og ekki varð séð að hann hefði byggt hana á ómálefnalegum forsendum var ekki talin ástæða til að hagga við áætlun hans.
I.
Með kæru, dags. 29. nóvember 1996, sbr. og greinargerð, dags. 8. janúar 1997, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði skattstjóra, dags. 30. október 1996, vegna áður álagðra opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1994, sbr. endurákvörðun skattstjóra, dags. 11. janúar 1996. Kærandi krefst þess aðallega að tekjuáætlun skattstjóra vegna glataðra reikninga verði felld niður en gerir þá kröfu til vara að áætluð fjárhæð vantalinna tekna verði lækkuð úr 555.000 kr. í 118.400 kr. Hin kærða breyting er sem hér segir:
Með endurákvörðun sinni hækkaði skattstjóri rekstrartekjur kæranda í rekstrarreikningi fyrir árið 1993 og virðisaukaskattsskylda veltu það ár um 555.000 kr. Byggði skattstjóri ákvörðun sína á því að kærandi hefði á árinu 1993 gefið út sölureikninga vegna auglýsinga, annars vegar nr. 79 og hins vegar vegar nr. 42. Ofangreindir reikningar hefðu verið fyrirfram áprentaðir og hefðu borið með sér firmanafn kæranda … og upplýsingar um kennitölu kæranda, virðisaukaskattsnúmer og síma. Ekki hefðu verið lögð fram afrit af þeim reikningum sem upp á vantaði til að númeraröð væri samfelld. Skattstjóri féllst ekki á þá skýringu kæranda að ekki hefðu verið gefnir út fleiri reikningar og að öll reikningseyðublöð með númer á milli 42 og 79 væru glötuð. Áætluð tekjuviðbót miðaðist við 15.000 kr. á hvert reikningseyðublað sem vantaði í samfellda númeraröð alls 37 reikninga, eða samtals 555.000 kr. Taldi skattstjóri að sönnunarbyrði fyrir því að umræddir reikningar hefðu aldrei verið gefnir út hvíldi á kæranda.
Af hálfu kæranda er því haldið fram að sannanleg rök hafi verið færð fyrir því að aðeins hafi verið skrifaðir út og innheimtir tveir reikningar vegna auglýsinga, þ.e. nr. 42 og nr. 79. Þessar auglýsingar ásamt einni kynningu hafi verið einu auglýsingarnar sem birst hafi á vegum … í bæklingum þess sem aðeins hafi verið tveir. Engin greiðsla hafi verið innt af hendi vegna framangreindrar kynningar. Þá sé upplýst að innheimta áskriftargjalda hafi nær eingöngu farið fram með greiðslukortum s.s. Euro og Visa. Í einstaka tilfellum hafi verið um innheimtu með gíróseðlum að ræða. Að öllu jöfnu hafi ekki verið skrifaðir út reikningar fyrir áskriftargjöldum heldur hafi þau verið tekjufærð samkvæmt innborgunum á tékkareikning. Einnig sé upplýst að áskriftargjald á mánuði hafi verið 2.700 kr. ef greitt hafi verið með Euro og Visa, en 3.700 kr. ef greitt hafi verið með öðru greiðsluformi. Kærandi fullyrðir að þeir 37 reikningar sem upp á vanti í númeraröðina séu glataðir og hafi aldrei verið notaðir. Er þess því krafist að áætlun skattstjóra um vantaldar tekjur að fjárhæð 555.000 kr. verði felld niður. Til vara er gerð sú krafa, með vísan til þess sem rakið hefur verið, að meðalfjárhæð reikninga verði lækkuð í meðaltal áskriftargjalds, sem hafi verið 3.200 kr., og vantaldar tekjur þannig áætlaðar 118.400 kr. í stað 555.000 kr.
Með bréfi, dags. 1. ágúst 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra."
II.
Skattstjóri ákvarðaði hina kærðu tekjuviðbót á grundvelli lokamálsliðar 1. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og hækkun virðisaukaskattsskyldrar veltu samkvæmt 7. og 9. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, og byggði á því að kærandi hefði ekki gert fullnægjandi grein fyrir tekjuskráningargögnum sínum með því að 37 sölureikninga vantaði í framlögð gögn kæranda til að tölusetning reikningseyðublaða hans væri samfelld. Af hálfu kæranda hefur það eitt komið fram varðandi umrædd reikningseyðublöð að þau séu glötuð og hafi aldrei verið notuð. Enga nánari skýringu hefur kærandi gefið á þessu eða leitt að því líkur á hvaða hátt gögnin hafi glatast.
Kveðið er á um tölusetningu reikningseyðublaða í 3. mgr. 7. gr. þágildandi laga nr. 51/1968, um bókhald, sbr. nú 17. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, og 1. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, að því er skráningu virðisaukaskattsskyldrar sölu varðar. Þegar virt eru lagarök að baki ákvæðum um tölusetningu tekjuskráningargagna verður almennt að telja að slíkar aðstæður og greinir í máli þessu valdi því að draga verði grundvöll viðkomandi skattskila í efa. Þótt ekki hafi út af fyrir sig verið sýnt fram á að rekstrartekjur kæranda hafi verið vantaldar, þykja atvik með þeim hætti að telja verði skattstjóra hafa verið rétt að áætla viðbótartekjur og skattskylda veltu á þann hátt sem gert var, enda eru skýringar kæranda alveg ófullnægjandi.
Þar sem áætlunarfjárhæð skattstjóra þykir ekki úr hófi fram miðað við málsatvik og ekki verður séð að hann hafi byggt hana á ómálefnalegum forsendum, þykir ekki ástæða til að hagga við áætlun skattstjóra.
Svo sem mál þetta liggur fyrir þykir rétt að vísa kærunni frá yfirskattanefnd að svo stöddu.