Úrskurður yfirskattanefndar

  • Frádráttur á móti ökutækjastyrk
  • Skattmat ríkisskattstjóra

Úrskurður nr. 872/1997

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tölul.   Skattmat fyrir tekjuárið 1995  

Skattstjóri lækkaði tilfærðan frádrátt vegna kostnaðar á móti ökutækjastyrk á skattframtali kæranda, sem starfaði við heimahjúkrun. Vefengdi skattstjóri akstursvegalengdir sem tilgreindar voru í akstursdagbók og kvað vegalengdir ekki fá staðist samkvæmt mælingum sem eftirlitsdeild skattstjóra hefði gert. Af hálfu kæranda komu ekki fram neinar efnislegar röksemdir um að mælingar skattstjóra hefðu ekki verið réttar, svo sem um akstursleiðir eða annað þar að lútandi. Að svo vöxnu og með tilliti til afbrigðilega lítils aksturs í eigin þágu, sem ekki hafði verið skýrður þrátt fyrir fyrirspurn skattstjóra, staðfesti yfirskattanefnd ákvörðun skattstjóra.

I.

Kærð er sú breyting skattstjóra, sbr. kæruúrskurð, dags. 2. desember 1996, að lækka 142.548 kr. frádrátt vegna kostnaðar á móti ökutækjastyrk sömu fjárhæðar í 40.248 kr. á skattframtali kæranda 1996.

Málavextir eru þeir að skattstjóri krafði kæranda með bréfi, dags. 22. maí 1996, um nýja ökutækjaskýrslu (RSK 3.04) þar sem skýrsla sú sem fylgdi skattframtali kæranda 1996 var óútfyllt að því er varðaði notkun í kílómetrum og sundurliðun rekstrarkostnaðar ökutækis. Í framhaldi af því tilkynnti skattstjóri kæranda hinn 25. júlí 1996 að hann hefði fellt niður tilgreindan frádrátt vegna kostnaðar á móti ökutækjastyrk þar sem kærandi hefði ekki svarað bréfi sínu. Var álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1996 hagað í samræmi við það. Umboðsmaður kæranda sendi skattstjóra leiðrétta ökutækjaskýrslu hinn 1. ágúst 1996 og í framhaldi af því krafði skattstjóri kæranda um akstursdagbók fyrir árið 1995 svo og skýringa á litlum akstri í eigin þágu. Eftir að hafa móttekið akstursdagbók kæranda ákvarðaði skattstjóri hina kærðu breytingu á skattframtali kæranda 1996, sbr. kæruúrskurð hans, dags. 2. desember 1996. Kvað skattstjóri fram koma í akstursdagbók kæranda að hún starfaði við heimahjúkrun í sveitarfélaginu X og væru akstursleiðir nokkuð hefðbundnar milli sömu staða flesta daga vikunnar. Algengustu vegalengdir sem gefnar væru upp væru 7 km, 28 km, 35 km, 49 km og 56 km. Vefengdi skattstjóri uppgefnar vegalengdir þar sem aksturinn færi allur fram innan sveitarfélagsins X. Kvað hann eftirlitsdeild skattstjóra hafa mælt vegalengdir milli staða eins og þær væru tilgreindar í akstursdagbók kæranda. Vegalengd sem tilgreind hefði verið 56 km næmi einungis 14,5 km, tilgreind 35 km vegalengd næmi einungis 10,8 km og tilgreind 7 km vegalengd næmi einungis 3 km. Yrði því ekki annað séð en að um rangfærslur hafi verið að ræða varðandi skráningu á komu og brottför í kílómetraálestri samkvæmt akstursdagbókinni. Vegalengdir fengju ekki staðist miðað við þær akstursleiðir sem tilgreindar væru og yrði því að líta svo á að um hafi verið að ræða verulegan akstur í eigin þágu sem færður hafi verið undir akstur í þágu vinnuveitanda, en kærandi hefði einungis tilgreint 440 km sem akstur í eigin þágu á hinni innsendu ökutækjaskýrslu. Kvaðst skattstjóri áætla kæranda akstur í þágu vinnuveitanda með 1.200 km.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 21. desember 1996. Kveður hann kæranda hafa skilað inn akstursreikningum til vinnuveitanda samkvæmt gildandi reglum og fyrirmælum ríkisskattstjóra og sem vinnuveitandi hafi staðfest með eðlilegum og viðurkenndum hætti og ekki gert neinar athugasemdir við akstursdagbækur kæranda. Yfirmenn kæranda þekktu betur til starfa kæranda en starfsmaður skattstjóra, enda hefðu ekki komið fram nein þau gögn af hálfu skattstjóra sem sýndu fram á að mælingar hans væru réttar. Er gerð krafa um að frádráttur vegna kostnaðar á móti ökutækjastyrk verði látinn standa óbreyttur.

Með bréfi, dags. 18. apríl 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð: „Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans."

II.

Samkvæmt 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, er frádráttur kostnaðar á móti ökutækjastyrk heimill að þargreindum skilyrðum uppfylltum, þar á meðal því að slík útgjöld séu sönnuð og í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra. Samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra fyrir tekjuárið 1995, sbr. auglýsingu nr. 26/1996, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 1996, þarf framteljandi að hafa fært akstursdagbók eða akstursskýrslu, þar sem meðal annars sé skráð hver ferð í þágu launagreiðanda, vegalengd og aksturserindi fyrir viðkomandi tímabil, sbr. reglugerð nr. 490 frá 28. desember 1992. Skal færa þessi gögn reglulega og skulu þau vera aðgengileg skattyfirvöldum þegar þau óska þess. Þá telst ökutækjakostnaður því aðeins sannaður að meðal annars sé gerð grein fyrir kostnaði við rekstur ökutækisins. Hafi framteljandi fengið greiðslu fyrir afnot af eigin bifreið í þágu launagreiðanda síns á árinu 1995, þannig að um hafi verið að ræða endurgreiðslu á kostnaði við rekstur hennar, og sá akstur verið 2.000 km eða minni þá er samkvæmt matsreglunum fallið frá kröfu um sannanlegan ökutækjakostnað. Þetta er þó bundið þeim skilyrðum að framteljandi hafi fært akstursdagbók eða akstursskýrslu, sbr. það sem áður er getið.

Skattstjóri vefengdi akstursvegalengdir þær sem kærandi tilgreindi í akstursdagbók og kvað tilgreindar vegalengdir ekki fá staðist samkvæmt mælingum sem eftirlitsdeild skattstjóra hefði gert. Af hálfu kæranda hafa ekki komið fram neinar efnislegar röksemdir um að mælingar skattstjóra á tilgreindum akstri kæranda í þágu launagreiðanda hafi ekki verið réttar, svo sem um akstursleiðir eða annað þar að lútandi. Að svo vöxnu og með tilliti til afbrigðilega lítils aksturs í eigin þágu, sem ekki hefur verið skýrður þrátt fyrir fyrirspurn skattstjóra, þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja