Úrskurður yfirskattanefndar
- Sjómannaafsláttur
- Farþegaskip
Úrskurður nr. 874/1997
Gjaldár 1996
Lög nr. 75/1981, 68. gr. B-liður (brl. nr. 85/1991, 10. gr.)
Kærandi var skipverji á farþegaskipi. Skattstjóri synjaði kröfu hans um sjómannaafslátt á þeim forsendum að umræddur afsláttur tæki eingöngu til fiskimanna og sjómanna sem störfuðu á skipum af því tagi sem talin væru upp í 3. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 75/1981. Yfirskattanefnd tók fram að þessari lögskýringu skattstjóra hefði verið hafnað í úrskurðarframkvæmd og féllst á kröfu kæranda um sjómannaafslátt.
I.
Með kæru, dags. 8. nóvember 1996, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra frá 15. október 1996 til yfirskattanefndar. Með úrskurðinum hafnaði skattstjóri kröfu kæranda um sjómannaafslátt vegna starfa við skipstjórn á farþegaskipinu X og byggði það á því að umrætt skip félli ekki undir ákvæði B-liðar 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 10. gr. laga nr. 85/1991. Kæmi og fram í verklagsreglum ríkisskattstjóra að skipverjar á farþegabátum til sýningarferða nytu ekki sjómannaafsláttar.
Í kæru til yfirskattanefndar er tekið fram að skylt sé að lögskrá skipstjóra og vélstjóra á X. Samkvæmt lagaákvæðum um sjómannaafslátt eigi sjómenn á ferjum að njóta sjómannaafsláttar. Siglingamálastofnun ríkisins geri ekki mun á farþegaskipi og ferju við skráningu skips, sbr. framlagða yfirlýsingu stofnunarinnar. Regla sé að skrá slík skip sem farþegaskip. Kveðst kærandi álykta af þessu að sjómenn á X eigi að njóta sjómannaafsláttar. Þótt skipið sé mikið notað til sýningarferða með farþega sé það skráð allt árið sem opið farþegaskip, enda oft farið með farþega til … og farþegar ferjaðir í land af togurum, skemmtiferðaskipum o.fl. Telur kærandi að bátar og skip sem stundi útsýnisferðir séu flest fiskibátar með leyfi til takmarkaðra farþegaflutninga og að takmörkun á rétti til sjómannaafsláttar eigi við skipverja slíkra báta.
Með bréfi, dags. 20. desember 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.
II.
Í máli þessu er deilt um rétt kæranda, sem er skipverji á farþegaskipinu X, til sjómannaafsláttar samkvæmt B-lið 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, til frádráttar tekjuskatti við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1996.
Í núgildandi ákvæðum um sjómannaafslátt, sbr. B-lið 68. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 10. gr. laga nr. 85/1991, er kveðið á um það í 1. mgr. stafliðarins að maður, sem stundar sjómennsku á íslensku skipi eða skipi sem gert er út af íslensku skipafélagi, skuli njóta sjómannaafsláttar. Í 2. mgr. stafliðarins kemur fram að rétt til sjómannaafsláttar hafi þeir sem stunda sjómennsku, sbr. 4. mgr. stafliðarins, og lögskráðir eru í skiprúm á fiskiskipi. Sama rétt skulu þeir menn eiga sem ráðnir eru sem fiskimenn eða stunda fiskveiðar á eigin fari þótt ekki sé skylt að lögskrá þá, enda uppfylli þeir skilyrði 4. mgr. stafliðarins. Í 3. mgr. stafliðarins segir síðan að enn fremur eigi rétt til sjómannaafsláttar lögskráðir sjómenn sem starfa, sbr. 4. mgr., á varðskipi, rannsóknaskipi, sanddæluskipi, ferju eða farskipi sem er í förum milli landa eða er í strandsiglingum innan lands. Í 4. mgr. stafliðarins er kveðið á um fjárhæð sjómannaafsláttar og ákvörðun dagafjölda sem veitir rétt til sjómannaafsláttar.
Þegar litið er til þeirra ákvæða, sem hér hafa verið rakin, verður að telja að nokkur meginskilyrði þurfi að uppfylla til þess að geta notið sjómannaafsláttar samkvæmt þeim. Í fyrsta lagi þurfi lögskráning í skiprúm til að koma nema hinar lögmæltu undantekningar eigi við. Í öðru lagi þurfi skipið að vera íslenskt eða gert út af íslensku skipafélagi. Í þriðja lagi verði störf viðkomandi að teljast sjómannsstörf. Telja verður að öll framangreind skilyrði séu uppfyllt í tilviki kæranda. Skattstjóri hefur hins vegar byggt niðurstöðu sína á því að þrátt fyrir þetta beri kæranda ekki réttur til sjómannaafsláttar þar sem skattafslátturinn taki eingöngu til fiskimanna og sjómanna sem starfa á skipum af því tagi sem talin eru upp í 3. mgr. B-liðar 68. gr. nefndra laga.
Þeirri lögskýringu, sem skattstjóri byggði ákvörðun sína á, hefur verið hafnað í úrskurðaframkvæmd, sbr. m.a. úrskurð yfirskattanefndar nr. 377, 28. apríl 1995. Með vísan til þessa er fallist á kröfu kæranda.