Úrskurður yfirskattanefndar
- Kæruheimild
- Kæranleg skattákvörðun
- Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði
Úrskurður nr. 878/1997
Gjaldár 1996
Lög nr. 75/1981, 16. gr., 99. gr. 1. mgr., 101. gr. 3. mgr. Lög nr. 30/1992, 3. gr. 1. mgr.
Yfirskattanefnd taldi að ágreiningi um fjárhæð hagnaðar af sölu íbúðarhúsnæðis bæri almennt að ráða til lykta í skattskilum vegna þess tekjuárs þegar söluhagnaðurinn myndaðist og þætti engu breyta um það þótt skattaðili nýtti sér lagaheimild til frestunar á skattlagningu söluhagnaðar. Fjárhæð söluhagnaðar kærenda hefði verið ákvörðuð við meðferð á skattframtali þeirra árið 1994. Yrði krafa kærenda um niðurfellingu hins umþrætta söluhagnaðar því ekki tekin til umfjöllunar í kærumáli vegna álagningar opinberra gjalda árið 1996.
I.
Málavextir eru þeir að með kæruúrskurði, dags. 21. október 1994, féllst skattstjóri á kröfu kærenda og lækkaði skattskyldan söluhagnað af íbúðarhúsnæði þeirra að … á skattframtali 1994. Samkvæmt ljósritum af reikningum, sem kærendur lögðu fyrir skattstjóra með kæru, hefði framreiknaður kostnaður við endurbætur húsnæðis þeirra á árunum 1989–1992 numið alls 667.804 kr. Skattstjóri lækkaði því umræddan söluhagnað úr 1.324.338 kr. í 656.534 kr. Þá féllst skattstjóri á frestun skattlagningar hagnaðarins um tvenn áramót, sbr. 16. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Með bréfi, dags. 4. október 1996, boðaði skattstjóri kærendum tekjufærslu frestaðs söluhagnaðar alls 673.265 kr. á skattframtali 1996. Kærendur andmæltu ekki áformum skattstjóra og með tilkynningu, dags. 18. október 1996, hratt hann boðuðum breytingum í framkvæmd.
Með bréfum, dags. 8. nóvember og 6. desember 1996, kærði umboðsmaður kærenda endurákvörðun skattstjóra og gerði þá kröfu að söluverð húseignarinnar yrði lækkað um 8.000 kr., en sú upphæð hefði verið beinn kostnaður við söluna, sbr. 19. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Skattstjóri vísaði kærunni frá sem tilefnislausri með kæruúrskurði, dags. 13. desember 1996, enda hefðu umrædd sölulaun þegar verið dregin frá söluverði við útreikning söluhagnaðar.
Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 12. janúar 1997, hafa kærendur farið fram á að álagning þess hluta skattskylds söluhagnaðar, sem hafi verið frestað, verði einnig felld niður. Kærendur telja að hvorki hafi verið tekið tillit til eigin vinnu við endurbætur húsnæðisins né til vinnu vina og vandamanna.
II.
Með bréfi, dags. 5. september 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Með úrskurði sínum, dags. 21. október 1994, féllst skattstjóri á að lækka skattskyldan söluhagnað um framreiknaðan kostnað við endurbætur íbúðarinnar samkvæmt framlögðum reikningum. Einnig féllst skattstjóri á þá kröfu kærenda að fresta skattlagningu hagnaðarins um tvenn áramót. Úrskurður þessi um fjárhæð söluhagnaðar var ekki kærður til yfirskattanefndar og verður því að líta svo á að kærendur hafi unað niðurstöðunni.
Með endurákvörðun skattstjóra, dags. 18. október 1996, og með úrskurði hans, dags. 13. desember 1996, er eingöngu verið að kveða á um tekjufærslu þess söluhagnaðar sem frestað hafði verið. Úr ágreiningi um fjárhæð hagnaðarins var skorið með úrskurði skattstjóra, dags. 21. október 1994.
Að framangreindu virtu ber því að mati ríkisskattstjóra að vísa kærunni frá yfirskattanefnd."
III.
Söluhagnaður sá er í málinu greinir myndaðist á tekjuárinu 1993 og gerðu kærendur grein fyrir fjárhæð söluhagnaðar í skattskilum sínum vegna þess árs, sbr. greinargerð um eignabreytingar er fylgdi skattframtali þeirra 1994. Var skattframtal kærenda lagt óbreytt til grundvallar álagningu það ár. Með kæru til skattstjóra fóru kærendur fram á niðurfellingu söluhagnaðarins en til vara fóru þau fram á frestun á skattlagningu hans um tvenn áramót, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Að undangengnum bréfaskriftum féllst skattstjóri á lækkun fjárhæðar söluhagnaðar kærenda og frestun skattlagningar hans um tvenn áramót, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981, sbr. kæruúrskurð, dags. 21. október 1994. Úrskurður skattstjóra var ekki kærður til yfirskattanefndar.
Skattstjóri færði kærendum frestaðan söluhagnað til tekna á skattframtali 1996, sbr. kæruúrskurð, dags. 13. desember 1996. Í kæru til yfirskattanefndar fara kærendur fram á að skattlagning söluhagnaðarins verði felld niður.
Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981, svo sem lagaákvæði þetta hljóðaði við álagningu opinberra gjalda árið 1994, taldist hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis að fullu til skattskyldra tekna á söluári hefði maður átt hið selda húsnæði skemur en fimm ár. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar gat maður farið fram á frestun söluhagnaðar um tvenn áramót frá söludegi. Keypti hann annað íbúðarhúsnæði eða hæfi byggingu íbúðarhúsnæðis í stað þess selda innan þess tíma skyldi söluhagnaðurinn, framreiknaður skv. 2. mgr. 13. gr., færast til lækkunar stofnverði hinnar nýju eignar. Kærendur fengu skattlagningu söluhagnaðar frestað samkvæmt framangreindri lagaheimild. Af framangreindum lagaákvæðum þykir leiða að ágreiningi um fjárhæð söluhagnaðar beri almennt að ráða til lykta í skattskilum vegna þess tekjuárs þegar hann myndast og þykir engu breyta um það þótt skattaðili nýti sér fyrrgreinda lagaheimild til frestunar á skattlagningu hans. Þessu til stuðnings þykir ennfremur vera að gagnstæð niðurstaða myndi leiða til þess að sá, sem nýtti sér fyrrgreinda frestun, hefði aukna möguleika á að koma fram leiðréttingum á fjárhæð söluhagnaðar miðað við þá sem sæta tekjufærslu á söluári samkvæmt meginreglu um það.
Fyrir liggur að kærendur festu ekki kaup á öðru íbúðarhúsnæði innan tilskilins tíma og færði skattstjóri þeim frestaðan söluhagnað til tekna á skattframtali 1996. Í samræmi við það sem að framan greinir var fjárhæð söluhagnaðarins ákvörðuð við meðferð á skattframtali kærenda 1994. Verður fjárhæð söluhagnaðarins því ekki tekin til umfjöllunar vegna kæru á álagningu opinberra gjalda 1996. Kæruatriði þessu er vísað frá yfirskattanefnd.
Rétt þykir að vekja athygli kærenda á heimild þeirri sem ríkisskattstjóri hefur skv. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981 til breytingar á ákvörðun skattstjóra um skattstofn eða skattlagningu, en yfirskattanefnd hefur ekki hliðstæða heimild.