Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Gjafir til menningarmála o.fl.
  • Tímamörk endurákvörðunar
  • Álag

Úrskurður nr. 881/1997

Gjaldár 1990–1995

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul., 31. gr. 2. tölul. (brl. 122/1993, 4. gr.), 32. gr., 97. gr. 2. mgr., 106. gr. 2. mgr.   Reglugerð nr. 615/1987, 2. gr.  

Fjallað um frádráttarbærni kostnaðar í skattskilum kærenda, sem m.a. höfðu með höndum kjötvinnslu og eignaleigu, þ. á m. um frádráttarbærni ferða- og bifreiðakostnaðar. Þá var deilt um gjaldfærslu kærenda á framlagi til sjóðs sem þau stofnuðu sjálf. Markmið sjóðsins samkvæmt skipulagsskrá var að stuðla að endurmenntun og símenntun manna, einkum á sviði matvælaframleiðslu, verslunar- og skrifstofustarfa, svo og að styðja við vísindalega rannsóknarstarfsemi, sérstaklega á sviði matvælaframleiðslu, og styrkja slysavarnir, byggingu hvíldar- og heilsuheimila og þá er slösuðust og ættu við veikindi að stríða. Yfirskattanefnd benti á að eins og skipulagsskrá fyrir sjóðinn væri úr garði gerð hvíldi engin skylda á stjórn sjóðsins til að úthluta úr honum til þeirra málaflokka sem að framan er getið að því leyti sem þau markmið féllu undir viðkomandi frádráttarheimildir skattalaga. Fram kom í málinu að aldrei hafði verið úthlutað úr sjóðnum á þeim tíma sem málið varðaði. Að þessu athuguðu og með vísan til H 1995:435 hafnaði yfirskattanefnd kröfu kærenda um frádrátt tillaga í umræddan sjóð. Álagsbeiting skattstjóra var staðfest.

I.

Með kæru, dags. 3. júlí 1996, sbr. greinargerð í bréfi, dags. 11. janúar 1997, hefur umboðsmaður kærenda skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði skattstjóra, dags. 10. júní 1996, vegna endurákvörðunar opinberra gjalda kærenda gjaldárin 1990, 1991, 1992, 1993, 1994 og 1995, sbr. tilkynningu um endurákvörðun, dags. 7. nóvember 1995. Í kærunni er mótmælt öllum breytingum skattstjóra á skattframtölum kærenda umrædd ár.

Með bréfum, dags. 22. ágúst 1996 og 25. apríl 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda gert þá kröfu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

II.

Kærandi A rekur í eigin nafni kjötvinnslu undir nafninu E … og eignaleigu. Með skattframtölum kærenda öll umrædd ár fylgdu ársreikningar vegna þessa rekstrar. Skattstjóri gerði eftirfarandi breytingar á skattframtölum kærenda og fylgigögnum þeirra:

1. Framfarasjóður E.

Skattstjóri féllst ekki á frádráttarbærni tillaga í Framfarasjóð E, sem færð voru til gjalda í rekstrarreikningi fyrir árin 1989, 1990, 1992 og 1993 að fjárhæð 1.500.000 kr. hvert ár.

2. Bifreiðakostnaður.

Bifreiðin … var eignfærð í efnahagsreikningi kæranda A í lok rekstraráranna 1989, 1990, 1991 og 1992. Bifreiðin var seld á árinu 1993 og var söluhagnaður að fjárhæð 107.702 kr. tekjufærður í rekstrarreikningi það ár, en jafnframt var umrætt ár keypt og eignfærð í efnahagsreikningi bifreiðin … Sú bifreið var síðan seld á árinu 1994 og keypt og eignfærð í efnahagsreikningi bifreiðin … Rekstrarkostnaður umræddra bifreiða var gjaldfærður í rekstrarreikningum öll umrædd ár, og til frádráttar færður kostnaður sem nam eigin notkun kærenda á bifreiðunum. Auk þess voru fyrningar bifreiðanna að fullu gjaldfærðar.

Skattstjóri féllst ekki á að telja bifreiðarnar til eigna í rekstri og lækkaði því eignir samkvæmt efnahagsreikningi um 2.662.570 kr. gjaldárið 1990, 2.580.978 kr. 1991, 2.660.239 kr. 1992, 2.320.141 kr. 1993, 2.300.000 kr. 1994 og 3.798.385 kr. 1995. Til eigna á skattframtali kærenda færði skattstjóri vegna þessa kaupverð bifreiðanna sem nam 2.503.000 kr. gjaldárin 1990, 1991, 1992 og 1993, 2.500.000 kr. gjaldárið 1994 og 4.128.679 kr. gjaldárið 1995. Jafnframt lækkaði skattstjóri gjaldfærslu vegna rekstrarkostnaðar bifreiða um 48.508 kr. gjaldárið 1990, 11.695 kr. 1991, 46.695 kr. 1992, 63.061 kr. 1993 og 134.425 kr. 1994, og sem nam fyrningum bifreiðanna öll þessi ár eða 290.007 kr. fyrsta árið, 345.573 kr. annað árið, 366.929 kr. þriðja árið, 371.222 kr. fjórða árið og 200.000 kr. fimmta árið, og felldi einnig niður tekjufærslu vegna söluhagnaðar að fjárhæð 107.702 kr. gjaldárið 1994.

3. Gjafir.

Til gjalda í rekstrarreikningi gjaldárið 1990 voru færð útgjöld vegna gjafa að fjárhæð 2.175.000 kr. Skattstjóri féllst ekki á frádráttarbærni þessara útgjalda og felldi þennan lið því niður.

4. Ferðakostnaður.

Skattstjóri lækkaði ferðakostnað til frádráttar í rekstrarreikningum um 1.668.428 kr. gjaldárið 1990, 806.139 kr. gjaldárið 1991, 1.984.533 kr. gjaldárið 1992, 1.162.738 kr. gjaldárið 1993 og 2.210.334 kr. gjaldárið 1994.

5. Risna og kynningar.

Skattstjóri féllst ekki á frádráttarbærni útgjalda vegna risnu að fjárhæð 15.180 kr. gjaldárið 1991, 49.725 kr. gjaldárið 1992 og 18.470 kr. gjaldárið 1994.

6. Blómakostnaður.

Skattstjóri féllst ekki á frádráttarbærni útgjalda vegna blómakaupa að fjárhæð 77.085 kr. gjaldárið 1992, 29.900 kr. gjaldárið 1993 og 8.778 kr. gjaldárið 1994.

7. Tryggingar og fasteignagjöld.

Skattstjóri felldi niður gjaldfærslu vegna trygginga að fjárhæð 2.984 kr. gjaldárið 1992, 44.743 kr. gjaldárið 1993 og 11.236 kr. gjaldárið 1994, auk fasteignagjalda að fjárhæð 1.379 kr. gjaldárið 1993.

8. Álag.

Skattstjóri bætti 25% álagi, sbr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, við þá hækkun gjaldstofna kærenda sem leiddi af breytingum að því er tók til gjafa, bifreiðakostnaðar, fyrninga, ferðakostnaðar, trygginga og fasteignagjalda.

III.

1.

Af hálfu kærenda eru gerðar þær aðalkröfur varðandi breytingar skattstjóra að því er varðar Framfarasjóð E, bifreiðakostnað og gjafir að þær verði felldar úr gildi gjaldárin 1990, 1991, 1992 og 1993 vegna ákvæða 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Samkvæmt nefndu lagaákvæði er eigi heimilt að endurákvarða skattaðila skatt nema vegna síðustu tveggja ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram þótt í ljós komi að álagning hafi verið of lág, enda hafi skattaðili látið í té í framtali sínu eða fylgigögnum þess fullnægjandi upplýsingar sem byggja mátti rétta álagningu á. Í athugasemdum við 2. mgr. 97. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, kemur fram að í þessu laganýmæli felist „að frestur til endurupptöku er styttur ef ástæðan fyrir henni er ófullnægjandi skoðun skattstjóra á framtali og fylgigögnum þess en ekki ófullnægjandi upplýsingar skattaðila". Er og tekið fram að málsgreinin eigi aðeins við „ef upplýsingar, sem byggja mátti rétta álagningu á, koma beinlínis fram í framtali eða fylgigögnum þess, en 1. mgr. gildir ef þessi gögn eru ófullnægjandi enda þótt skattstjóra hefði mátt vera ljóst fyrr að eitthvað var athugavert við framtalið". Um skýringu á þessu lagaákvæði hafa gengið nokkrir dómar Hæstaréttar Íslands, m.a. dómar 14. febrúar 1996 (H 1996:470), 30. janúar 1997 í málinu nr. 3/1997 og 30. október 1997 í málunum nr. 52/1997 og 97/1997. Samkvæmt dómum þessum ber að líta til orðalags 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 og meta hvort fyrir hafi legið nægjanlegar upplýsingar í framtali eða fylgigögnum þess sem rétt álagning varð byggð á. Í dómi í síðastnefnda málinu tók Hæstiréttur m.a. fram að við skýringu á þessu ákvæði yrði að líta til ákvæða 95. gr. laganna og þess hvað skattyfirvöld hafi skamman tíma til að fara yfir framtöl og fylgigögn og gera sínar leiðréttingar áður en réttur til endurákvörðunar er liðinn. Þá taldi Hæstiréttur mega líta til þess að framtal gjaldanda, sem hlut átti að máli, var gert af löggiltum endurskoðanda og því eðlilegt að starfsmenn skattstjóra legðu meira traust á það en ella. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði í 95. gr. laga nr. 75/1981 getur skattstjóri leiðrétt fjárhæðir einstakra liða ef þeir eru í ósamræmi við gildandi lög og fyrirmæli skattyfirvalda, svo og einstaka liði framtals ef telja má að óyggjandi upplýsingar séu fyrir hendi.

Kemur þá til athugunar með hvaða hætti gerð var grein fyrir framangreindum liðum í skattframtölum kærenda gjaldárin 1990, 1991, 1992 og 1993 og fylgigögnum með þeim.

Í sundurliðun annars rekstrarkostnaðar samkvæmt skýringu nr. 9, sem fylgdi ársreikningi kæranda, A, vegna rekstrar á árinu 1989, kom fram að gjaldfærðar hefðu verið gjafir að fjárhæð 3.996.630 kr. Jafnframt fylgdi með nánari sundurliðun á þessari fjárhæð. Þar kom fram að framlag til Framfarasjóðs E hefði verið 1.500.000 kr. og gjafir til annarra nafngreindra aðila hefðu numið 321.630 kr. Þá var ósundurliðað tillag, sem bar heitið aðrar gjafir, að fjárhæð 2.175.000 kr. Síðastnefndan lið felldi skattstjóri niður með endurákvörðun sinni, dags. 7. nóvember 1995, ásamt tillagi til Framfarasjóðs E. Í rekstrarreikningum kæranda fyrir árin 1990 og 1992 var tilgreining framlags til Framfarasjóðs E með sama hætti og rekstrarárið 1989. Þau ár lækkaði skattstjóri gjaldfærðar gjafir eingöngu að því er nam tillagi í sjóð þennan. Engar skýringar var að finna í framtalsgögnunum um nefndan sjóð og hvort framlögum til hans hefði verið ráðstafað í samræmi við ákvæði þágildandi 3. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Þá var engin grein gerð fyrir þiggjendum gjafa að fjárhæð 2.175.000 kr. árið 1989 og er raunar það eitt komið fram af hálfu kæranda um það efni að fyrir mistök löggilts endurskoðanda kæranda hafi láðst að bakfæra þann frádráttarlið á skattframtali, sbr. bréf umboðsmanns kæranda, dags. 31. október 1994.

Að því er varðar bifreiðakostnað kæranda kom ekki fram í skattframtali kæranda eða fylgigögnum þess hvort og þá með hvaða hætti tillit hefði verið tekið til kostnaðar vegna persónulegra nota kæranda af viðkomandi bifreið í gjaldfærðum bifreiðakostnaði. Í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 20. maí 1994, sagði hins vegar að fallið hefði niður að hækka tekjur með tilliti til eigin afnota miðað við 7.000 km akstur á ári.

Svo sem rakið hefur verið verður talið að á hafi skort að upplýsingar í framtölum kæranda umrædd ár og fylgigögnum þeirra hafi verið fullnægjandi til að unnt hefði verið fyrir skattstjóra að taka afstöðu til gjaldaliðanna án þess fyrst að biðja um frekari gögn eða upplýsingar. Að þessu virtu og þar sem gætt hefur verið ákvæða 1. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 við endurákvörðun skattstjóra er þeirri kröfu kæranda hafnað að hnekkja beri hinum umdeildu breytingum skattstjóra á þeim grundvelli að ekki hafi verið gætt þeirra lagaákvæða sem setja endurákvörðunum skattstjóra tímamörk.

2.

Víkur þá að efnisatriðum málsins.

Um Framfarasjóð E.

Kærendur stofnuðu Framfarasjóð E þann …, sbr. skipulagsskrá …, sem staðfest var af forseta Íslands og birt í B-deild Stjórnartíðinda. Hin umkrafða gjaldfærsla framlaga til sjóðsins á árunum 1989, 1990 og 1992 er byggð á þágildandi ákvæði í 3. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, og á hliðstæðu ákvæði í 2. tölul. sömu lagagreinar, sbr. 4. gr. laga nr. 122/1993, að því er varðar framlag á árinu 1993, sbr. reglugerð nr. 615/1987, um frádrátt vegna gjafa til menningarmála o.fl.

Samkvæmt 2. gr. nefndrar skipulagsskrár er markmið sjóðsins að stuðla að endurmenntun og símenntun manna, einkum á sviði matvælaframleiðslu, verslunar- og skrifstofustarfa, svo og stuðningur við vísindalega rannsóknarstarfsemi, sérstaklega á sviði matvælaframleiðslu. Ennfremur stuðningur við slysavarnir, við byggingu hvíldar- og heilsuheimila og við þá er slasast og eiga við veikindi að stríða.

Samkvæmt 5. gr. skipulagsskrárinnar fer úthlutun úr sjóðnum fram eftir nánari ákvörðun stjórnar hverju sinni. Eins og skipulagsskráin er úr garði gerð að þessu leyti hvílir engin skylda á stjórn sjóðsins til að úthluta úr honum til þeirra málaflokka sem um er fjallað í 2. gr. skipulagsskrárinnar að því leyti sem þau markmið falla undir fyrrgreindar frádráttarheimildir skattalaga, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 615/1987. Fram er komið í málinu að aldrei var úthlutað úr sjóðnum á þeim tíma er málið varðar. Að þessu athuguðu og með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands 16. febrúar 1995, (H 1995:435), sem telja verður að eigi efnissamstöðu með máli því sem hér er til úrlausnar, er kröfu kæranda hafnað um frádrátt tillaga í Framfarasjóð E.

Um bifreiðakostnað.

Breytingar skattstjóra að því er varðar bifreiðakostnað og eignfærslu bifreiða lúta að fólksbifreiðum í eigu kæranda, A. Óumdeilt er að um var að ræða fólksbifreiðar sem bæði voru notaðar í rekstri kæranda og til persónulegra nota hans. Er því á það fallist með skattstjóra að eigi geti hér verið um fyrnanlega eign að ræða eftir 32. gr. laga nr. 75/1981. Þykir engu fá um það breytt að starfsmenn kæranda hafi að einhverju leyti notað umræddar bifreiðar vegna rekstursins. Skattstjóri lækkaði gjaldfærðan rekstrarkostnað miðað við að akstur kæranda í eigin þágu hefði numið 7.000 km hvert ár, sem var í samræmi við bréf umboðsmanns kæranda, dags. 20. maí 1994, og með þeim hætti sem greindi í tilkynningu skattstjóra, dags. 7. nóvember 1995. Engar tölulegar athugasemdir hafa komið fram vegna ákvörðunar skattstjóra að þessu leyti. Úrskurður skattstjóra er því staðfestur um þetta kæruatriði.

Um ferðakostnað.

Forsendur skattstjóra fyrir því að fallast ekki á frádráttarbærni allra þeirra útgjalda sem færð höfðu verið til gjalda sem ferðakostnaður gjaldárin 1990 til og með 1994 voru fyrst og fremst þær að ekki þætti með framlögðum gögnum og skýringum hafa verið sýnt fram á að gjaldfærður kostnaður vegna tiltekinna ferða tengdist atvinnurekstri kæranda, A, heldur virtist vera um að ræða ferðir í eigin þágu kæranda. Þá vefengdi skattstjóri ferðakostnað á þeim grundvelli að hluti útgjaldanna hefði verið gjaldfærður samkvæmt yfirlitum frá greiðslukortafyrirtæki og gjaldeyriskaupanótum. Jafnframt féllst skattstjóri ekki á frádráttarbærni útgjalda vegna ferða kæranda, B, og ferða sonar kærenda, C, með þeim rökum að hvorugt þeirra starfaði við rekstur kæranda, A.

Samkvæmt ljósritum af fylgiskjölum úr bókhaldi kæranda, sem liggja fyrir í málinu, hafa gjaldfærslur ekki í öllum tilvikum byggst á frumgögnum vegna útlagðs kostnaðar, heldur er í sumum tilvikum einungis um að ræða greiðslukortayfirlit eða kvittanir fyrir kaupum á gjaldeyri. Á hluta fylgiskjalanna hafa verið ritaðar skýringar um ferðatilefni. Vegna tveggja ára, þ.e. rekstraráranna 1991 og 1992, liggja einnig fyrir skýringar á eyðublöðum sem skattstjóri lagði fyrir kæranda að útfylla. Almennt geta skýringar þessar ekki talist skilmerkileg og fullnægjandi svör við ítrekuðum fyrirspurnum skattstjóra, m.a. í bréfi, dags. 24. ágúst 1994, um tilefni ferða. Um sumar ferðir hafa engar skýringar komið fram. Rétt þykir að víkja nánar að þeim ferðum sem ágreiningur stendur um hvert umræddra gjaldára og skýringum kæranda vegna þeirra.

Gjaldárið 1990 hafnaði skattstjóri alfarið frádráttarbærni útgjalda vegna sjö ferða. Ein þessara ferða var til New York og Flórída, ein til Kaupmannahafnar, ein til Lundúna og Kanaríeyja, tvær til Hamborgar, ein til Lundúna og Kýpur og ein til Amsterdam og Þýskalands. Auk þess féllst skattstjóri ekki á þriðjung útgjalda vegna ferðar til Frankfurt. Fyrir liggur að í a.m.k. þremur tilvikum var um að ræða ferðalög beggja kærenda. Þá tók C þátt í ferðunum til Kaupmannahafnar og Amsterdam og Þýskalands. Engin sundurliðuð grein hefur verið gerð fyrir ferðatilefnum og tengslum kostnaðar vegna ferða þessara við tekjuöflun kæranda, A, að öðru leyti, að því undanskildu að um ferðina til Lundúna og Kanaríeyja er komið fram að hún hafi verið vegna ráðstefnu og fundar. Engin nánari grein hefur verið gerð fyrir þessu og engin gögn hafa verið lögð fram um ráðstefnu þessa og fund. Um ferðina til Frankfurt gildir í raun það sama að engar viðhlítandi skýringar koma fram um tilefni þeirrar ferðar. Auk kæranda, A, tókust einn starfsmaður hans og C þessa ferð á hendur. Skattstjóri hefur ekki fallist á útgjöld vegna þess síðastnefnda, en látið kostnað að öðru leyti óhreyfðan.

Gjaldárið 1991 hefur skattstjóri alfarið fellt niður gjaldfærslu vegna þriggja ferða, til New York og Flórída, til Spánar, en í báðum þessum tilvikum voru kærendur báðir á ferð, og ótilgreindan ferðakostnað samkvæmt fylgiskjali nr. 1334, auk hluta útgjalda vegna ferðar til Hamborgar og Zürich. Um fyrstnefndu ferðirnar gildir að engar sundurliðaðar skýringar hafa komið fram um tilefni þeirra en varðandi síðastnefndu ferðina er tilgreint að um hafi verið að ræða kynnisferð vegna framleiðslu. Skattstjóri felldi niður gjaldfærslu hluta útgjalda vegna þessarar ferðar og tók í því sambandi fram að um hefði verið að ræða tvo farþega en engar skýringar hefðu komið fram um hver annar þeirra hefði verið, né tengsl þess aðila við tekjuöflun kæranda A.

Gjaldárið 1992 felldi skattstjóri alfarið niður gjaldfærslu vegna þriggja ferða, þ.e. ferða til New York og Flórída, Marbella á Spáni og Hamborgar og Kanaríeyja. Í öllum þessum tilvikum var um að ræða ferðalög kærenda beggja. Auk þess féllst skattstjóri ekki á frádráttarbærni hluta útgjalda vegna þriggja ferða, þ.e. til Hamborgar, Kaupmannahafnar og Kölnar og Danmerkur, og loks hafnaði skattstjóri gjaldfærslu samkvæmt fylgiskjali nr. 1997 vegna úttektar frá flugfélaginu … hf., en ekkert hefur komið fram um af hverju þau útgjöld stöfuðu. Engar skýringar hafa komið fram vegna fyrstnefndu ferðanna þriggja þetta gjaldár, en vegna ferðar til Hamborgar og Kanaríeyja er komið fram að um hafi verið að ræða kynnisferð vegna pökkunarvélar. Ekkert kemur þó fram um hvar vélar hafi verið skoðaðar og hjá hverjum eða hve langan tíma það hafi tekið. Varðandi ferð til Hamborgar kemur fram að hún hafi verið í tilefni af vélakaupum, ferð til Kaupmannahafnar og Kölnar hafi verið vegna umbúðasýningar og ferð til Danmerkur hafi verið vegna landbúnaðarsýningar. Í fyrrnefndu ferðunum tveimur tóku kærendur báðir þátt og skattstjóri féllst ekki á frádráttarbærni reiknaðrar hlutdeildar kæranda B í heildarferðakostnaði auk útgjalda samkvæmt fylgiskjali nr. 1977 vegna úttektar í fríhöfn í Düsseldorf. Þrír aðilar tókust á hendur ferðina til Danmerkur vegna landbúnaðarsýningar, þar á meðal C. Skattstjóri féllst ekki á frádráttarbærni útgjalda vegna hans.

Gjaldárið 1993 felldi skattstjóri alfarið niður gjaldfærslu vegna tveggja ferða, annarrar til New York og Flórída en hinnar til Hamborgar og Kanaríeyja. Af hálfu kærenda, sem bæði tókust þessar ferðir á hendur, hefur komið fram að fyrrnefnda ferðin hafi verið kynnisferð vegna stórmarkaða, en sú síðarnefnda hafi verið vegna vélakynningar. Ekkert hefur þó nánar komið fram um þessar kynningar, t.d. hvort um skipulagðar kynningar eða ferðir til framleiðenda var að ræða og þá hverra eða á annan hátt gerð grein fyrir fyrirkomulagi þessara ferða. Auk þess felldi skattstjóri niður hluta gjaldfærslu vegna ferða til Hamborgar og Kaupmannahafnar og Hamborgar. Samkvæmt skýringum kærenda, sem bæði tóku þátt í þessum ferðum, var annars vegar um að ræða ferð vegna kynningar á vélum og hins vegar vegna endurnýjunar á …. Skattstjóri féllst ekki á frádráttarbærni ætlaðrar hlutdeildar kæranda B í gjaldfærðum ferðakostnaði vegna þessara ferða. Að síðustu var gjaldárið 1993 um að ræða útgjöld samkvæmt fylgiskjali nr. 830 sem tilkomið var vegna úttektar í fríhöfn í Mílanó.

Gjaldárið 1994 felldi skattstjóri alfarið niður gjaldfærslu vegna fjögurra ferða, þar af tveggja ferða til Hamborgar og Kanaríeyja, svo og ferða til Hamborgar og Spánar og New York og Flórída. Í öllum þessum ferðum voru þátttakendur báðir kærendur, en auk þess verður ekki annað séð en að dóttir kærenda hafi tekið þátt í annarri ferðinni til Hamborgar og Kanaríeyja. Engar viðhlítandi skýringar þykja hafa komið fram um tilefni þessara ferða. Það eitt liggur fyrir af hálfu kærenda að ferðin til New York og Flórída hafi verið til kynningar á stórmörkuðum og önnur ferðin til Hamborgar og Kanaríeyja hafi verið vegna kjötvinnsluvéla. Ekkert hefur þó komið nánar fram um fyrirkomulag vegna þessa. Auk þessa felldi skattstjóri niður hluta gjaldfærslu vegna ferðar til Hamborgar og Kölnar og alfarið vegna ferðar D til Spánar. Engin skýring hefur komið fram á síðarnefndu ferðinni, en sú fyrrnefnda er sögð vera vegna umbúðasýningar. Þá ferð tókust á hendur tveir aðilar, en ekki verður ráðið hver annar þeirra var. Skattstjóri felldi niður gjaldfærslu vegna ætlaðrar hlutdeildar annars farþegans.

Svo sem rakið hefur verið er í mörgum tilvikum um að ræða ágreining um frádráttarbærni útgjalda vegna ferða til staða sem teljast til þekktra sumarleyfisstaða, m.a. á Kanaríeyjum, Spáni og Flórída, og hefur skattstjóri hafnað frádráttarbærni útgjaldanna á þeirri forsendu að ekki yrði annað ráðið en að um persónulegan kostnað kærenda væri að ræða. Á það verður að fallast með skattstjóra að áfangastaðir ferða þessara gefa tilefni til að vefengja að um ferðir í þágu rekstrar sé að ræða. Mátti kæranda vera ljóst að þessar aðstæður gáfu tilefni til þess að hann gerði ítarlega grein fyrir ferðatilefni og tilhögun ferða. Þykja skýringar kæranda ekki hafa verið fullnægjandi í þessum efnum.

Sömu sjónarmið þykja eiga við varðandi gjaldfærðan ferðakostnað vegna aðila sem ekki starfa við rekstur kæranda A. Þótt ekki sé loku fyrir það skotið að slík útgjöld geti í einhverjum tilvikum talist til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, verður að telja að efni hafi verið til þess að kærandi gerði sérstaka grein fyrir rekstrarlegri nauðsyn fyrir þátttöku þessara aðila í umræddum ferðum. Hafi þeir aðilar gegnt verulegu hlutverki í ferðum, sem telja má að hafi verið í þágu rekstrar, verður þó að telja ósamræmi í því að þeim hafi ekki verið talið neitt endurgjald til tekna vegna þess vinnuframlags sem þeir þá inntu af hendi í þágu rekstrarins.

Með því að skýringar kærenda á gjaldfærðum ferðakostnaði eru með þeim hætti sem að ofan greinir, og þar sem ekkert hefur frekar komið fram í kæru til yfirskattanefndar um ágreiningsefnið en lá fyrir skattstjóra, þykir ekki hafa verið sýnt fram á að telja beri hærri fjárhæð ferðakostnaðar en skattstjóri hefur þegar fallist á til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981 og er kröfum þar að lútandi því hafnað.

Um risnu og kynningar.

Umboðsmaður kærenda hefur upplýst að útgjöld samkvæmt fylgiskjali nr. 1751 gjaldárið 1991, að fjárhæð 15.180 kr., séu tilkomin vegna fundar með starfsmönnum kæranda A. Um er að ræða kaup á matföngum á gamlársdag. Að virtum skýringum kæranda, og með hliðsjón af slíkum starfsmannakostnaði að öðru leyti, þykir mega fallast á frádráttarbærni þessara útgjalda. Gjaldárin 1992 og 1994 er undir þessum kærulið einnig ágreiningur um útgjöld vegna matarkaupa sem samkvæmt skýringum voru nýtt í tilefni af móttöku viðskiptavina á heimili kærenda á gamlársdag. Ekkert hefur þó komið fram um hvaða viðskiptavini var að ræða eða hvernig tilhögun þessara boða var að öðru leyti. Að svo vöxnu verður ekki fallist á kröfu kærenda að því er tekur til þessa kæruatriðis.

Um blómakostnað.

Umboðsmaður kærenda hefur í bréfi til skattstjóra, dags. 3. júlí 1995, haldið því fram að til útgjalda vegna blómakaupa hafa fyrst og fremst verið stofnað í auglýsingaskyni, og því komi þágildandi ákvæði 1. tölul. 52. gr. laga nr. 75/1981 ekki til álita. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er um að ræða blóm, blómaskreytingar og kransa vegna útfara auk ósundurliðaðra vörukaupa. Engin nákvæm grein hefur verið gerð fyrir tengslum þeirra aðila sem blómanna hafa notið við rekstur kæranda A. Þótt út af fyrir sig sé ekki dregið í efa að um einhvern slíkan frádráttarbæran kostnað kynni að vera að ræða þykir að svo vöxnu ekki unnt að fallast á kröfur kærenda að því er þetta kæruatriði varðar.

Um tryggingar og fasteignagjöld.

Óumdeilt er að þær tryggingar og þau fasteignagjöld sem um er deilt í máli þessu eru vegna sumarbústaðar kærenda að … og íbúðarhúsnæðis þeirra að …. Umboðsmaður kærenda hefur bent á að gjaldfærsla þessi byggist á notum rekstrar kæranda A á viðkomandi húseignum. Engar frekari skýringar hafa þó komið fram um hver not þessi hafi verið. Er kröfum kærenda hafnað að því er þetta kæruatriði varðar.

Um álag.

Skattstjóri bætti 25% álagi, sbr. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, á þá hækkun gjaldstofna sem leiddi af breytingum hans að því er tók til tilgreindra gjaldaliða. Af hálfu kæranda hefur krafa um niðurfellingu álags fyrst og fremst verið byggð á því að um sé að ræða mismunandi túlkun á því hvað falli undir að vera rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Þegar litið er til eðlis þeirra útgjalda sem um er fjallað í máli þessu, þykir hvorki þessi röksemd út af fyrir sig né annað það sem fram hefur komið af hálfu kæranda varðandi álag, eiga að leiða til niðurfellingar þess. Því er kröfu kæranda hafnað varðandi þennan þátt kæru.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja