Úrskurður yfirskattanefndar
- Virðisaukaskattur
- Innskattur, öflun bifreiðar
- Bifreiðakostnaður
- Tímamörk endurákvörðunar
- Málshraði
Úrskurður nr. 939/1997
Gjaldár 1992–1995
Virðisaukaskattur 1991–1994
Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr., 97. gr. 2. mgr. Lög nr. 50/1988, 16. gr., 25. gr., 26. gr. 2. mgr., 27. gr. 9. mgr., 49. gr. Lög nr. 37/1993, 9. gr. 1. mgr. Reglugerð nr. 192/1993, 6. gr., 9. gr.
Yfirskattanefnd staðfesti ákvörðun skattstjóra um að fella niður innskatt vegna öflunar bifreiðar í virðisaukaskattsskilum kæranda, enda var talið að umrædd bifreið hefði að verulegu leyti verið notuð til einkaþarfa kæranda. Þá var skattstjóra talið hafa verið rétt að lækka innskatt af bifreiðakostnaði vegna ætlaðra persónulegra afnota kæranda af bifreiðinni. Með sömu rökum var talið að bifreiðakostnaður hefði verið offærður til frádráttar sem rekstrarkostnaður í almennum skattskilum kæranda. Á hinn bóginn var talið að lækkun skattstjóra á innskatti og gjaldfærðum bifreiðakostnaði hefði verið umfram það sem tilefni var til miðað við sjónarmið skattstjóra um að umrædd bifreið hefði að hálfu verið til einkanota. Þá var í málinu fjallað um frest skattstjóra til endurákvörðunar á opinberum gjöldum kæranda og virðisaukaskatti og áhrif þess hversu seint skattstjóri hófst handa með breytingar á skattskilum kæranda.
I.
Málavextir eru þeir að kærandi keypti bifreiðina …, sem er MMC pallbíll, 22. ágúst 1991. Í skattskilum sínum vegna ársins 1991 færði kærandi bifreiðina til eignar í landbúnaðarskýrslu og í fyrningarskýrslu vegna búrekstrar og fyrndi almennri fyrningu miðað við stofnverð 1.489.408 kr. Þá færði hann virðisaukaskatt af kaupverði til frádráttar sem innskatt í virðisaukaskattsskilum sínum. Nam sú fjárhæð 364.905 kr. Virðisaukaskattsskyld velta kæranda nam 524.765 kr. rekstrarárið 1991, 482.856 kr. árið 1992, 195.446 kr. árið 1993 og 195.863 kr. árið 1994.
Með bréfi, dags. 14. nóvember 1995, krafði skattstjóri kæranda um skýringar á notkun bifreiðarinnar árin 1991, 1992, 1993 og 1994, þ.m.t. um einkanot hans af bifreiðinni. Þá óskaði skattstjóri skýringa á háum rekstrarkostnaði bifreiðarinnar umrædd ár, en hann næmi frá 31% til 67% af heildartekjum. Í svari umboðsmanns kæranda, dags. 24. nóvember 1995, kom fram að bifreiðin hefði eingöngu verið notuð við sjálfstæða starfsemi kæranda. Þegar kærandi hefði keypt bifreiðina hefði hann bundið miklar vonir við girðingarvinnu hjá A sf., en jeppabifreið væri nauðsynleg við slíka vinnu og þá helst bifreið með mikla flutningsgetu. Verkefni hjá A sf. hefðu þó brugðist að mestu og hefði útseld vinna og akstur hjá kæranda farið minnkandi með hverju árinu. Kærandi hefði þó ákveðið að reka bifreiðina áfram þrátt fyrir að starfsemi hans hefði ekki verið umfangsmikil.
Skattstjóri tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 15. janúar 1996, að fyrirhugað væri með vísan til 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, að leiðrétta innskattsfrádrátt vegna kaupa á bifreiðinni á árinu 1991 þar sem líta yrði svo á að hún hefði ekki eingöngu verið keypt til notkunar í virðisaukaskattsskyldri starfsemi, sbr. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 81/1991, um innskatt. Þá væri fyrirhugað að áætla kæranda virðisaukaskatt vegna eigin nota bifreiðarinnar og lækka gjaldfærðan kostnað vegna einkanota bifreiðarinnar. Loks væri fyrirhugað að bæta við álagi skv. 27. gr. laga nr. 50/1988. Taldi skattstjóri að kaupverð bifreiðarinnar væri ekki í nokkru samræmi við tekjur kæranda af atvinnustarfsemi hans. Umfang rekstrar kæranda væri lítið og hefði verið svo komið árið 1994 að kærandi hefði ekki reiknað sér laun vegna búrekstrar. Umboðsmaður kæranda mótmælti fyrirætlan skattstjóra með bréfi, dags. 26. janúar 1996. Kvaðst umboðsmaðurinn draga í efa að skattstjóra væri heimilt að framkvæma breytingu á virðisaukaskatti aftur til ársins 1991. Kærandi hefði bæði í skattframtölum sínum og virðisaukaskattsskilum gert grein fyrir innskatti sínum og gert grein fyrir rekstri bifreiðarinnar á landbúnaðarframtali sínu. Hefðu þessar upplýsingar ávallt legið fyrir hjá skattstjóra, svo og umfang sjálfstæðrar starfsemi hans. Til stuðnings þessu sjónarmiði sínu vísaði umboðsmaður kæranda til 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, svo og laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Þá áréttar umboðsmaður kæranda að bifreiðin hefði verið keypt þegar kærandi vann við girðingauppsetningar en hann hefði bundið miklar vonir við stór verkefni á því sviði. Þótt þau verkefni hefðu brugðist hefði kærandi ekki breytt notkun bifreiðarinnar eða umskráð hana. Væri það á valdi kæranda en ekki skattstjóra að ákvarða slíkt, jafnvel þótt stærð og umfang starfsemi kæranda hefði verið jafn lítil og raun bæri vitni.
Skattstjóri hratt boðuðum breytingum í framkvæmd með bréfi, dags. 29. janúar 1996, sama dag og skattstjóra barst framangreint bréf umboðsmanns kæranda. Þótti skattstjóra rétt að taka tillit til þeirra mótmæla sem fram komu í bréfi umboðsmanns kæranda og felldi því fyrri endurákvörðun sína úr gildi. Með bréfi, dags. 5. febrúar 1996, endurákvarðaði skattstjóri opinber gjöld kæranda gjaldárin 1992, 1993, 1994 og 1995 og virðisaukaskatt rekstrarárin 1991, 1992, 1993 og 1994. Taldi skattstjóri hæfilegt að áætla eigin not kæranda af bifreiðinni 50% og bæri því að lækka gjaldfærðan kostnað um 310.000 kr. gjaldárið 1992 (rekstrarárið 1991), 405.000 kr. gjaldárið 1993, 300.000 kr. gjaldárið 1994 og 400.000 kr. gjaldárið 1995. Að því er virðisaukaskatt varðaði felldi skattstjóri niður innskatt af kaupverði bifreiðarinnar og áætlaði lækkun innskatts að viðbættu álagi skv. 27. gr. laga nr. 50/1988 um 14.000 kr. rekstrarárið 1991, 30.000 kr. rekstrarárið 1992, 11.000 kr. rekstrarárið 1993 og 9.200 kr. rekstrarárið 1994 vegna eigin nota kæranda af bifreiðinni. Tók skattstjóri fram að ekki kæmi til hækkunar á tekjuskatti og útsvari hjá kæranda vegna gjaldáranna 1992 og 1993 vegna ákvæða 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981. Hins vegar taldi skattstjóri að ekkert væri því til fyrirstöðu að endurákvarða virðisaukaskatt kæranda fyrir rekstrarárin 1991 til 1994, þar sem ekkert lægi fyrir í gögnum, sem fylgdu skattframtölum kæranda gjaldárin 1992, 1993, 1994 og 1995, að virðisaukaskattsskyld velta kæranda næði aðeins broti af kaupverði bifreiðarinnar.
Umboðsmaður kæranda kærði framangreinda endurákvörðun opinberra gjalda og virðisaukaskatts með kæru, dags. 5. mars 1996, og gerði þá kröfu að endurákvörðunin yrði felld úr gildi. Sérstaklega kvaðst umboðsmaður kæranda vilja mótmæla þeirri ákvörðun skattstjóra að endurákvörðunin skyldi ná aftur til ársins 1991, en samkvæmt 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 væri slíkt ekki heimilt. Þá áréttaði umboðsmaður kæranda að þegar umrædd bifreið hefði verið keypt hefði kærandi haft töluverða vinnu við uppsetningu á girðingum og haft vonir um stór verkefni. Fyrirtækið sem kærandi vann hjá hefði hins vegar orðið gjaldþrota á árinu 1992 og hefði kærandi því misst vinnu sína. Vegna þeirra væntinga sem kærandi hefði gert um aukin verkefni hefði hann afráðið að kaupa bifreiðina og hefðu því kaupin verið gerð í fullkomlega venjulegum og eðlilegum rekstrartilgangi. Loks kom fram í kærunni að kærandi hefði hinn 1. mars 1996 endurgreitt innskatt að fjárhæð 86.075 kr. af bifreiðinni. Hefði það verið gert vegna þeirrar ofuráherslu sem skattstjóri hefði lagt á að kærandi ætti ekki rétt á að reka slíka virðisaukabifreið, en í þessu fælist engin viðurkenning af hálfu kæranda á einkanotum bifreiðarinnar.
Með kæruúrskurði, dags. 22. mars 1996, staðfesti skattstjóri fyrri ákvörðun sína. Fram kom í úrskurðinum að ljóst hefði verið frá upphafi að kaup á bifreiðinni og innskattsfrádráttur af kaupunum hefði frá upphafi orkað tvímælis. Skattstjóra hefði þó þótt eðlilegt að gefa kæranda tækifæri til að sýna með auknum umsvifum að innskattsfrádrátturinn hefði verið eðlilegur. Þrátt fyrir mjög lítið umfang atvinnustarfsemi kæranda hefði hann sett rauðhvítar númeraplötur á bifreiðina þann 28. júní 1993. Ljóst væri af umfangi starfsemi kæranda að forsendur fyrir innskattsfrádrætti og rekstri á bifreiðinni hefðu aldrei verið fyrir hendi. Engu skipti þótt A sf. hefði orðið gjaldþrota á árinu 1992, en þar sem félagið hefði verið í eigu skyldra aðila hefði kærandi einmitt átt að sjá að framtíð þess var óljós þann 1. mars 1992 á gjalddaga virðisaukaskatts vegna síðara uppgjörstímabils 1991. Yrði því að líta svo á að bifreiðin … hefði ekki eingöngu verið keypt til notkunar vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi kæranda, sbr. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 81/1991, um innskatt. Þá hafnaði skattstjóri því að ákvæði 97. gr. laga nr. 75/1981 ættu við í tilviki kæranda. Mál hans hefðu verið skoðuð fjórum árum eftir kaupin og hefði þá átt að vera sýnt hvort um eðlilegan innskattsfrádrátt og rekstrarlegan tilgang hefði verið að ræða.
II.
Með kæru, dags. 19. apríl 1996, og greinargerð, dags. 21. maí 1996, hefur umboðsmaður kæranda skotið máli þessu til yfirskattanefndar. Í kærunni eru gerðar þær kröfur að upphafleg álagning opinberra gjalda kæranda vegna rekstraráranna 1991, 1992, 1993 og 1994 standi óhögguð. Þá er mótmælt beitingu álags. Kveðst umboðsmaður kæranda leggja á það áherslu að kærandi hafi keypt bifreiðina … í rekstrarlegum tilgangi þótt væntingar kæranda um reksturinn hafi ekki gengið eftir. Þá bendir hann á að skattstjóri hafi látið hjá líða að sinna rannsóknarskyldu sinni skv. 25. gr. og 2. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988 og hafi skattstjóri viðurkennt það í bréfi sínu, dags. 5. febrúar 1996. Loks kveðst umboðsmaður kæranda vilja benda á að samkvæmt 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 5. mgr. 49. gr. laga nr. 50/1988, hafi skattstjóra ekki verið heimilt að endurákvarða opinber gjöld kæranda mörg ár aftur í tímann. Fellst umboðsmaður kæranda á að rekstrarkostnaður bifreiðarinnar hafi verið umtalsverður, en bendir á að fyrst og fremst hafi verið um að ræða fastan kostnað við rekstur hennar. Bendir umboðsmaður kæranda á að lækkun skattstjóra á gjaldfærðum kostnaði hafi verið mun meiri en sem svari til 50% einkanota kæranda og hafi lækkun gjalda vegna áranna 1991 og 1993 verið meiri en heildarrekstrarkostnaður bifreiðarinnar þessi ár. Verði því ekki séð hvernig forsendur skattstjóra um 50% einkanot kæranda fengju staðist. Þá bendir umboðsmaður kæranda á að skattstjóri gerði ekki athugasemdir við innskattsfrádrátt kæranda fyrr en 54 mánuðum eftir kaup bifreiðarinnar, en af þeim sökum hafi kærandi verið í góðri trú varðandi innskattsfrádrátt við öflun og rekstur bifreiðarinnar.
Með bréfi, dags. 6. september 1996, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans. Eins og skattstjóri bendir á er hér um hliðstætt mál að ræða og fjallað var um í úrskurði yfirskattanefndar nr. 181/1993, en þá var staðfestur úrskurður skattstjóra um niðurfellingu innskatts af öflun bifreiðar kæranda. Þótti ósennilegt, að virtu eðli og umfangi reksturs kæranda, að ekki væri um meiri eða minni einkanot að ræða af bifreiðinni. Í máli því sem hér er til úrskurðar nam kaupverð viðkomandi bifreiðar nærri þrefaldri virðisaukaskattsskyldri veltu kæranda á kaupári hennar."
III.
Um formhlið málsins:
Í 97. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eru skattstjórum sett tímatakmörk til endurákvörðunar skatts samkvæmt 96. gr. laganna. Aðalreglan um tímatakmörkin eru í 1. mgr. 97. gr., sem heimilar endurákvörðun skatts vegna tekna og eigna síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram. Ef skattaðili hefur látið í té í framtali sínu eða fylgigögnum þess fullnægjandi upplýsingar, sem byggja mátti rétta álagningu á, er ekki heimilt að endurákvarða honum skatt nema vegna síðustu tveggja ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram, þótt í ljós komi að álagning hafi verið of lág, sbr. 2. mgr. 97. gr. Í athugasemdum við 2. mgr. 97. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, kemur fram að í þessu laganýmæli felist „að frestur til endurupptöku er styttur ef ástæðan fyrir henni er ófullnægjandi skoðun skattstjóra á framtali og fylgigögnum þess en ekki ófullnægjandi upplýsingar skattaðila". Er og tekið fram að málsgreinin eigi aðeins við „ef upplýsingar, sem byggja mátti rétta álagningu á, koma beinlínis fram í framtali eða fylgigögnum þess, en 1. mgr. gildir ef þessi gögn eru ófullnægjandi enda þótt skattstjóra hefði mátt vera ljóst fyrr að eitthvað var athugavert við framtalið".
Skattstjóri taldi að 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 ætti við um endurákvörðun tekjuskatts og útsvars og hróflaði ekki við gjöldunum gjaldárin 1992 og 1993. Endurákvörðun skattstjóra fór fram á árinu 1996. Samkvæmt því og í samræmi við viðhorf sitt um tímamörk endurákvörðunar bar skattstjóra að telja gjaldárið 1994 með í þessum efnum. Er þetta leiðrétt.
Samkvæmt þágildandi 9. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. nú 5. mgr. 26. gr. laganna, sbr. 4. gr. laga nr. 149/1996, nær heimild til endurákvörðunar virðisaukaskatts til skatts síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram. Í lögum nr. 50/1988 er ekki ákvæði sem jafnað verður til 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 og hefur ákvæðið í lokamálsgrein 49. gr. fyrrnefndra laga ekki þýðingu í því sambandi. Kröfu kæranda um að endurákvörðun skattstjóra verði hnekkt á þeim grundvelli er því hafnað.
Af hálfu kæranda er því haldið fram að skattstjóri hafi látið hjá líða að sinna rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 25. gr. og 2. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988. Þessa málsástæðu kæranda þykir bera að skilja svo að því sé haldið fram af hálfu kæranda að endurákvörðunin sé of seint fram komin vegna tafa á afgreiðslu málsins. Í þessu sambandi er á það bent í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 21. maí 1996, að þrátt fyrir fyrirliggjandi upplýsingar í framtalsgögnum hafi skattstjóri ekki gert athugasemdir við innskattsfrádrátt vegna bifreiðakaupa fyrr en 54 mánuðum eftir kaup bifreiðarinnar.
Virðisaukaskattsskýrsla kæranda fyrir uppgjörstímabilið júlí–desember 1991 barst skattstjóra hinn 17. mars 1992 samkvæmt móttökustimplun. Sama dag ákvarðaði skattstjóri virðisaukaskatt kæranda þetta uppgjörstímabil á grundvelli skýrslunnar óbreyttrar. Af hálfu skattstjóra var ekki hafist handa út af innskattsfrádrætti fyrr en með bréfi skattstjóra til kæranda, dags. 14. nóvember 1995, að óskað var skýringa og gagna um réttmæti umrædds innskattsfrádráttar og meðferðar bifreiðarinnar í almennum skattskilum kæranda. Endurákvörðun skattstjóra á áður álögðum opinberum gjöldum og virðisaukaskatti fór síðan fram hinn 5. febrúar 1996. Samkvæmt þessu liðu því þrjú og hálft ár frá því að virðisaukaskattsskýrslunni var skilað þar til að skattstjóri hófst handa út af hinu umdeilda atriði skattskila kæranda. Verður að taka undir það með kæranda að óhæfilega lengi hafi dregist að skattstjóri hæfist handa, ekki síst með tilliti til þess að framtalsgögn kæranda, eins og þau lágu fyrir, gáfu tilefni til þess að skattstjóri kannaði nánar þennan þátt í skattskilum hans. Af hálfu skattstjóra hafa ekki komið fram viðhlítandi skýringar á þessum töfum. Verður því að telja að ónauðsynlegur dráttur hafi orðið á því að skattstjóri hæfist handa um þær breytingar á skattskilum kæranda, sem hann taldi rétt að gera vegna umrædds þáttar þeirra, er hafi farið í bága við almennar málshraðareglur, sbr. nú 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það eitt veldur þó eigi brottfalli á heimild skattstjóra til endurálagningar virðisaukaskatts kæranda, enda getur skattþegn átt von á því innan þeirra tímamarka, sem að ofan greinir, að skattyfirvöld hefjist handa þegar ástæða er til, sbr. m.a. sjónarmið sem fram koma um hliðstætt atriði í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 9. desember 1996 sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar Íslands frá 30. janúar 1997 í málinu nr. 3/1997 [ST 1997:21].
Um efnishlið málsins:
Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, telst til innskatts á hverju uppgjörstímabili virðisaukaskattur af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum sem eingöngu varða sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar er fjármálaráðherra heimilað að setja reglur um að til innskatts megi telja ákveðinn hluta af virðisaukaskatti innkaupa sem ekki varða eingöngu sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Þegar kærandi keypti bifreiðina … gilti um það efni reglugerð nr. 81/1991, um innskatt, sbr. núgildandi reglugerð nr. 192/1993. Samkvæmt þessum reglugerðum er að meginstefnu til heimilt að telja til innskatts hluta virðisaukaskatts af innkaupum sem ekki vörðuðu eingöngu sölu skráðs aðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Þó er í 9. gr. gerð undantekning að því er varðar ökutæki af tilteknu tagi að óheimilt er að telja til innskatts virðisaukaskatt vegna öflunar eða leigu þeirra nema þau séu eingöngu notuð vegna sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu, sbr. upphafsmálslið 9. gr. tilvitnaðra reglugerða. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. gilda hin almennu ákvæði um hlutföllun innskatts í 2.–6. gr. reglugerðarinnar um útreikning innskatts vegna reksturs þessara ökutækja. Óumdeilt er að bifreið kæranda fellur að því er gerð og búnað varðar undir ákvæði þessarar greinar. Um það er hins vegar deilt í málinu hvort í tilviki kæranda sé fullnægt skilyrði um að umrædd bifreið hafi eingöngu verið notuð við búrekstur hans. Niðurstaðan í máli þessu ræðst því af því hvort kærandi hafi haft persónuleg not af bifreiðinni umrædd ár eða notað hana eingöngu í sambandi við sölu sína á vörum og skattskyldri þjónustu þannig að ekki komi til niðurfellingar innskatts af kaupverði og hlutföllunar skattsins vegna rekstrar.
Samkvæmt skráningu í ökutækjaskrá Bifreiðaskoðunar Íslands hf. er bifreiðin … sendibifreið. Bifreiðin er af gerðinni Mitsubishi L200 4WD og verður að telja að út af fyrir sig séu slíkar bifreiðar ekki óhentugar til venjulegrar notkunar vegna persónulegra þarfa. Verður jafnframt að draga í efa að persónulegum bifreiðaþörfum kæranda og eiginkonu hans hafi að öllu leyti verið mætt með annarri bifreiðaeign þeirra, sem var á umræddum árum Mazda 323, árgerð 1981. Að þessu virtu og þegar litið er til þeirrar starfsemi sem kærandi hefur með höndum og þarfar slíks rekstrar almennt fyrir sendibifreiðir, verður að ætla að bifreiðin … hafi að verulegu leyti verið notuð til einkaþarfa kæranda. Verður því ekki talið að notkun bifreiðarinnar hafi verið með þeim hætti sem um getur í upphafsákvæði 9. gr. reglugerðar nr. 81/1991, um innskatt, sbr. nú reglugerð nr. 192/1993.
Samkvæmt framangreindu er staðfest ákvörðun skattstjóra um að fella niður innskattsfrádrátt vegna öflunar bifreiðarinnar. Þá var skattstjóra rétt, svo sem málið var vaxið, að fella niður innskattsfrádrátt vegna ætlaðra persónulegra afnota kæranda af bifreiðinni, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt.
Með sömu rökum og áður greinir verður talið að bifreiðakostnaður hafi verið offærður til frádráttar sem rekstrarkostnaður í almennum skattskilum kæranda, sbr. 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Tekið skal fram að þótt skattstjóri hafi ekki vikið sérstaklega að fyrningu bifreiðarinnar og eignfærslu hennar á landbúnaðarskýrslu, þykir auðsýnt að hann hefur litið svo á að ekki væri um fyrnanlega eign að ræða.
Í kæru til yfirskattanefndar er fundið að því að lækkun skattstjóra á gjaldfærðum bifreiðakostnaði hafi verið um skör fram miðað við þá forsendu hans að helmingur aksturs bifreiðarinnar hafi verið til einkanota. Svo sem áður greinir féll skattstjóri frá breytingu sinni að því er varðaði hluta þess tíma, sem málið varðar, með skírskotun til ákvæðis 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981. Samkvæmt því stendur bifreiðakostnaður óhaggaður frá því sem tilfært var af kæranda í skattframtölum hans árin 1992, 1993 og 1994. Gjaldfærður bifreiðakostnaður í skattframtali kæranda árið 1995 var 516.363 kr., þar af almenn fyrning 237.343 kr. Að teknu tilliti til fastrar fyrningar og með hliðsjón af framangreindu meginsjónarmiði skattstjóra, sem þykir ekki vera kæranda óhagstætt í ljósi málavaxta, verður að taka undir það með kæranda að lækkun skattstjóra á bifreiðakostnaði gjaldárið 1995 er umfram það sem leiðir af forsendum hans. Þykir lækkun gjaldfærðs bifreiðakostnaðar kæranda þetta gjaldár hæfilega ákveðin 300.000 kr. í stað 400.000 kr.
Á sama hátt þykir lækkun innskatts vegna einkanota öll umrædd ár vera umfram það sem tilefni var til miðað við sjónarmið skattstjóra um að bifreiðin hafi að hálfu verið til einkanota. Miðað við þann bifreiðakostnað sem ætla verður að hafi borið virðisaukaskatt, sbr. fyrirliggjandi sundurliðun bifreiðakostnaðar í fylgigögnum með skattframtölum kæranda, þykir lækkun innskatts hæfilega ákveðin 2.000 kr. árið 1991, 11.000 kr. árið 1992, 11.000 kr. árið 1993 og 9.000 kr. árið 1994.
Það athugist að í kæru til skattstjóra, dags. 5. mars 1996, kemur fram að kærandi hafi leiðrétt innskattsfrádrátt vegna bifreiðarinnar í samræmi við ákvæði IV. kafla reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, uppgjörstímabilið júlí–desember 1995. Hins vegar verður ekki annað ráðið en að kærandi hafi fallið frá þessari bakfærslu innskatts með leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts vegna ársins 1995, dags. 22. maí 1995, sem mun hafa fylgt skattframtali hans árið 1996. Er því ekki tilefni til breytinga á uppgjörstímabilinu júlí–desember í framhaldi af niðurstöðu í úrskurði þessum um meðferð virðisaukaskatts af kaupverði bifreiðar kæranda.