Úrskurður yfirskattanefndar
- Virðisaukaskattur
- Áætlun
- Tekjuskráning
- Málsmeðferð áfátt
Úrskurður nr. 940/1997
Virðisaukaskattur 1995
Lög nr. 50/1988, 17. gr., 23. gr., 27. gr. Lög nr. 37/1993, 22. gr. 1. mgr. Reglugerð nr. 50/1993, 8. gr., 10. gr.
Kærandi hafði með höndum veitingasölu á útihátíð um verslunarmannahelgi. Skattstjóri hækkaði virðisaukaskattsskylda veltu hans fyrir viðkomandi uppgjörstímabil um áætlaða fjárhæð og byggði á því að tekjuskráning hans hefði verið ófullnægjandi þar sem hún hefði ekki byggst á skráningu í sjóðvél. Yfirskattanefnd taldi að eins og atvikum var háttað hefði skattstjóra verið rétt að áætla skattskylda veltu kæranda á umræddu uppgjörstímabili. Hins vegar var breyting skattstjóra felld úr gildi vegna annmarka á málsmeðferð skattstjóra.
I.
Málavextir eru þeir að kærandi hafði með höndum veitingasölu á útihátíðinni … um verslunarmannahelgina 1995. Hinn 5. október 1995 stóð kærandi skil á virðisaukaskattsskýrslu fyrir uppgjörstímabilið júlí–ágúst 1995. Samkvæmt skýrslunni var skattskyld velta 1.629.999 kr., útskattur 398.615 kr., innskattur 753.153 kr. og inneign virðisaukaskatts 354.538 kr.
Með bréfi, dags. 18. október 1995, óskaði skattstjóri eftir því við kæranda að lögð yrðu fram bókhaldsgögn til stuðnings virðisaukaskattsskýrslunni. Í kjölfarið var kærandi kvaddur til skýrslutöku hjá skattstjóra 16. febrúar 1996, sbr. 38. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og er endurrit skýrslutökunnar meðal gagna málsins. Aðspurður um það hvernig tekjuskráningu vegna veitingasölu á hátíðinni hefði verið háttað, sbr. spurningu 2 á endurriti, svaraði kærandi með svofelldum hætti: „Rafmagnslausir kassar sem ekki var hægt að nota og litlir pappakassar. Engir strimlar fylgdu kössunum." Er kærandi var spurður hvort sótt hefði verið um heimild til ríkisskattstjóra um undanþágu frá skyldu til að vera með sjóðvél, sbr. spurning 3u á endurriti, var svar hans svohljóðandi: „Nei. Gert hafði verið ráð fyrir að nota sjóðvélar."
Með bréfi, dags. 22. apríl 1996, boðaði skattstjóri kæranda hækkun á skattskyldri veltu hans fyrir uppgjörstímabilið júlí–ágúst 1995 með vísan til heimildar í 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í bréfi skattstjóra eru rakin ofangreind svör kæranda við skýrslutökuna þann 16. febrúar 1996 og tekið fram að samkvæmt því og fyrirliggjandi gögnum væri ljóst að tekjuskráning veitingasölu kæranda á útihátíðinni hefði verið ófullnægjandi og í engu samræmi við kröfur reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Samkvæmt upplýsingum kæranda sjálfs hefðu innan við 3000 manns borgað sig inn á hátíðina. Miðað við að hátíðin hafi staðið yfir í fjóra daga, þ.e. föstudag, laugardag, sunnudag og mánudag, og 2800 gesti hefði neysla hvers gests samkvæmt uppgefinni veltu kæranda verið að meðaltali 725 kr. á meðan á hátíðinni stóð eða 182 kr. á dag með virðisaukaskatti. Skattstjóri gæti ekki fallist á uppgefna veltu í ljósi þessa og hygðist hækka virðisaukaskattsskylda veltu um 1.444.094 kr. og útskatt um 353.803 kr. Með bréfi, dags. 29. maí 1996, hratt skattstjóri boðaðri breytingu í framkvæmd. Kvað hann ekkert skriflegt svar hafa borist við boðunarbréfi.
Með kæru til skattstjóra, dags. 3. júlí 1996, mótmælti kærandi ofanritaðri breytingu skattstjóra. Kærunni fylgdi yfirlýsing … framkvæmdastjóra A ehf., um fjölda þeirra sem greiddu aðgangseyri að [útihátíðinni], en samkvæmt yfirlýsingunni var þar um að ræða 1420 manns.
Með kæruúrskurði, dags. 19. ágúst 1996, staðfesti skattstjóri ákvörðun sína um hækkun virðisaukaskattsskyldrar veltu kæranda fyrir áðurgreint uppgjörstímabil. Kvað skattstjóri fyrir liggja í málinu að tekjuskráning kæranda vegna veitingasölu á hátíðinni hefði verið allsendis ófullnægjandi. Samkvæmt 7. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, væri skattstjóra heimilt að áætla virðisaukaskatt ef tekjuskráning, þar með talið notkun sjóðvélar eða útbúnaður hennar, væri ekki í samræmi við ákvæði laga og reglugerða. Miðað við ástand tekjuskráningar á hátíðinni þætti ekki fært að taka uppgefnar fjárhæðir veltu og útskatts á virðisaukaskattsskýrslu trúanlegar og endurgreiða kæranda þar með hundruð þúsunda úr ríkissjóði. Hvort gestafjöldinn, sem eitthvað virtist vera á reiki, hefði verið tæplega 3000 manns eða 1420 breytti í raun engu um þá staðreynd að tekjuskráning hefði verið í molum. Benda mætti á að í bréfi skattstjóra frá 22. apríl 1996 væri reiknuð út meðalneysla hvers gests á hátíðinni þá fjóra daga sem hún stóð og fengin út fjárhæðin 725 kr. miðað við uppgefna veltufjárhæð og gestafjöldann 2800. Þótt gestafjöldinn lækkaði um tæplega helming og neyslufjárhæðin hækkaði þar með um tæplega helming fengist ekki út ýkja há fjárhæð. Í ljósi þessa þætti ekki grundvöllur til annars en að staðfesta ákvörðun skattstjóra frá 29. maí 1996.
II.
Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 3. september 1996, sbr. rökstuðning í bréfi, dags. 4. desember 1996. Eru kröfur kæranda þær að innskattur að fjárhæð 353.803 kr. verði endurgreiddur „auk dráttarvaxta á tímabilinu frá því að réttum endurgreiðsludegi". Í kæru víkur kærandi að forsendum skattstjóra varðandi reiknaða meðaltalsneyslu hvers gests á hátíðinni í fjóra daga miðað við uppgefna veltufjárhæð. Kveður kærandi hér um mikinn misskilning að ræða hjá skattstjóra. Segir svo í kæru:
„Í fyrsta lagi er yfirleitt aldrei nein sala á mánudeginum, en þá eru allir hátíðargestir á heimleið, eins og var á hátíðinni ….
Í öðru lagi var neysla á gest ekki 182 kr. á dag heldur var hún miðað við að salan dreifðist á alla gestina í 2 og 1/2 dag því yfirleitt mæta hátíðargestir seint á föstudögum og margir koma á laugadegi og enn aðrir dvelja einungis 2 daga.
Í þriðja lagi var gestafjöldi 1.420 (sjá ljósrit) og heildarsala með vsk. var kr. 2.028.614 miðað við 1.420 gesti var sala pr. gest kr. 1.429 eða kr. 572 pr. dag miðað við 2 1/2 dag.
Í fjórða lagi þá versla hámark 60% af hátíðargestum í veitingatjaldi eins og undirritaður var með á hátíðinni.
Á hátíðinni versluðu um 40% af hátíðargestum veitingar hjá undirrituðum. Hið lága hlutfall var því miður vegna mikils töfluáts hjá mörgum hátíðargestum. Samkvæmt upplýsingum hjá aðilum, sem til þekkja, þá er lítið um matarneyslu hjá slíkum aðilum.
Miðað við að 60% hátíðargesta hafi verslað þá er verslun á hvern gest 60% af 1.420 = 852 gestir deilt í heildarsölu 2.028.614 / 852 = 2.381 kr. eða kr. 953 á dag. Miðað við 2 1/2 dag.
Miðað við raunveruleikann sem var þá versluðu 40% hátíðargesta hjá undirrituðum, þá lítur dæmið þannig út: 40% af 1.420 eru 568 gestir.
2.028.614 / 568 = 3.571 kr. eða 1.428 kr. á dag miðað við 2 1/2 dag.
Samkvæmt þessu: var salan pr. gest pr. dag á bilinu 953 kr. til 1.428 kr. á dag, en ekki 182 kr. samkvæmt úrskurði skattstjórans í … Munurinn samkvæmt ofangreindu er á bilinu 423% til 684% hærri sala pr. gest á hátíðinni samkvæmt ofangreindu, en sérfræðingar skattstofunnar töldu.
Þannig að vangaveltur þeirra félaga á skattstofunni … eru rangar.
3.
Þegar undirritaður gerði samning við A ehf., var miðað við 10.000 gesti. Undirritaður miðaði öll innkaup við ca. 5.000 manns, þannig að rýrnun var mikil og dró það álagninguna mikið niður.
Þá er rétt að það komi fram að undirritaður greiddi kr. 2.000.000 auk vsk. 490.000 kr. fyrir aðstöðuna á hátíðinni og er sú fjárhæð öll greidd. Sjá ljósrit.
4.
Þegar þá félaga skorti rök, fjalla þeir um tekjuskráninguna. Öll sala var tekjufærð og uppgefin. Á hátíðinni var gert ráð fyrir að hafa sjóðvélar, hins vegar þegar kassarnir komu urðu þeir rafmagnslausir, bilanir, vantaði strimla í suma þeirra, og allt fór úr skorðum við að tekjufæra með rafmagnsdrifnum sjóðvélum. Misgagngóðar ljósavélar sáu fyrir rafmagni fyrir veitingatjaldið. Rafmagn sem fékkst á streng dugði rétt fyrir hljómsveitirnar. Allur undirbúningur mótsaðila var slæmur á allan hátt.
5.
Í skýrslutöku dags. 16. febrúar 1996 tjáði undirritaður skattstjóranum … frá því að áætluð sala þyrfti að vera kr. 6.000.000, enda er það í samræmi við áætlaðan gestafjölda upp á 5.000 manns, sbr. að ofan. Ef 5.000 manns hefðu sótt hátíðina þá hefði salan orðið 6–7 milljónir kr. eins og vikið hefur verið að.
6.
Í lok hátíðar þurfti undirritaður að henda miklu hráefni, sem var orðið ónýtt, eða gaf fólkinu samlokur, sem voru útrunnar.
7.
Undirritaður óskar eftir því, að yfirskattanefnd taki tillit til þess tjóns sem undirritaður varð fyrir á hátíðinni."
III.
Með bréfi, dags. 21. mars 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð: „Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans."
IV.
Skattstjóri ákvarðaði hina kærðu tekjuviðbót á grundvelli þágildandi 7. og 9. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, og byggði á því að tekjuskráning kæranda hefði verið ófullnægjandi þar sem hún hefði ekki byggst á skráningu í sjóðvél. Af hálfu kæranda er komið fram að ýmsir erfiðleikar á sölustað hafi valdið því að ekki hafi verið unnt að nota sjóðvélar við skráningu tekna, sem þó hafi staðið til.
Samkvæmt 17. gr. laga nr. 50/1988 skulu allir, sem skattskyldir eru eftir lögunum, haga bókhaldi sínu og uppgjöri til virðisaukaskatts þannig að skattyfirvöld geti jafnan gengið úr skugga um réttmæti virðisaukaskattsskila. Í 23. gr. laganna er kveðið á um heimild fjármálaráðherra til að setja með reglugerð nánari fyrirmæli um bókhald virðisaukaskattsskyldra aðila og um notkun sjóðvéla og annarra gagna til sönnunar færslum. Í 8. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, er mælt fyrir um skyldu smásöluverslana o.fl. til að skrá tekjur í sjóðvél. Samkvæmt 10. gr. reglugerðarinnar getur ríkisskattstjóri veitt undanþágu frá skyldu til notkunar sjóðvéla við sérstakar aðstæður.
Þegar virt eru rök að baki reglum um skráningu tekna smásöluverslana í sjóðvél verður almennt að telja að slíkar aðstæður og greinir í máli þessu valdi því að draga verði grundvöll viðkomandi skattskila í efa. Þótt ekki hafi út af fyrir sig verið sýnt fram á að kærandi hafi vantalið veltu á virðisaukaskattsskýrslu sinni fyrir uppgjörstímabilið júlí–ágúst 1995, þykja atvik með þeim hætti að telja verður að skattstjóra hafi verið rétt að áætla skattskylda veltu kæranda á uppgjörstímabilinu. Hins vegar þykir hækkun skattstjóra á framtalinni skattskyldri veltu ekki nægilega rökstudd, sbr. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og er þá m.a. litið til þess sem upplýst er um meðalálagningu kæranda. Það athugist jafnframt að skattstjóri virðist þegar í boðunarbréfi sínu, dags. 22. apríl 1996, hafa tekið ákveðna afstöðu um fjárhæð viðbótarveltu miðað við tilgreindar forsendur um fjölda gesta á útihátíðinni. Að fram komnum gögnum um að þessi gestafjöldi stæðist ekki, hélt skattstjóri engu að síður fast við ákvörðun sína og virðist öðrum þræði hafa haft í huga að ekki væri fært „að endurgreiða kæranda … hundruð þúsunda úr ríkissjóði".
Samkvæmt því sem rakið hefur verið verður ekki talið að málsmeðferð skattstjóra hafi verið fullnægjandi. Af þessum sökum verður eigi hjá því komist að fella úr gildi hina kærðu breytingu skattstjóra.