Úrskurður yfirskattanefndar
- Endurupptaka máls
Úrskurður nr. 1025/1997
Gjaldár 1995 og 1996
Lög nr. 75/1981, 96. gr., 99. gr. (brl. nr. 145/1995, 16. gr., 17. gr.) Lög nr. 37/1993, 7. gr. 2. mgr., 24. gr., 27. gr. 4. mgr. Lög nr. 30/1992, 12. gr.
Í framhaldi af úrskurði skattstjóra um endurákvörðun sendi kærandi skattstjóra rekstrarreikning sem hann fór fram á að yrði lagður til grundvallar við skattlagningu. Skattstjóri endursendi kæranda erindið og tók fram að kæruréttur væri til yfirskattanefndar. Yfirskattanefnd tók fram að skattstjóra hefði verið rétt og skylt að líta á umrætt erindi sem beiðni um endurupptöku á úrskurði hans um endurákvörðun og taka afstöðu til þess erindis í stað þess að vísa því frá. Var kærunni vísað til skattstjóra til uppkvaðningar nýs úrskurðar.
I.
Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 5. mars 1997, krafði skattstjóri kæranda skýringa á því að samkvæmt greiðslumiðum (RSK 2.02) vegna tekjuáranna 1994 og 1995 hefði kærandi fengið greiddar 160.000 kr. fyrra árið og 480.000 kr. síðara árið í leigutekjur, en svo virtist sem tekjur þessar hefðu ekki verið taldar fram á skattframtölum viðkomandi ára. Svar barst ekki og með bréfi, dags. 1. apríl 1997, tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði í hyggju að færa umræddar leigutekjur til tekna á framtali hans, en á móti tekjunum færðist 80% frádráttur skv. 4. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 2. gr. laga nr. 147/1994. Þá hefði skattstjóri í hyggju að beita álagi á vantaldar tekjur skv. 106. gr. laga nr. 75/1981.
Með úrskurði, dags. 21. apríl 1997, hratt skattstjóri boðuðum breytingum sínum í framkvæmd, en kærandi hefði ekki andmælt boðuðum breytingum.
Með bréfi til skattstjóra, dags. 21. maí 1997, lagði kærandi fram rekstrarreikning vegna leigu eignar kæranda að …, og fór fram á að hann yrði lagður til grundvallar skattlagningu umræddra tekna, en fram kæmi að tap hefði orðið af leigunni bæði árin. Með bréfi, dags. 23. maí 1997, endursendi skattstjóri kæranda erindið og tók fram að kæruréttur væri til yfirskattanefndar. Skattstjóri hefði því ekki heimild til að taka erindið til afgreiðslu.
Af hálfu kæranda er þess krafist í kæru til yfirskattanefndar, dags. 10. júní 1997, að framlagður rekstrarreikningur verði lagður til grundvallar álagningu gjaldárin 1994 og 1995.
Með bréfi, dags. 5. september 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Þar sem kærandi hefur lagt fram ný gögn og rökstuðning í máli þessu og með hliðsjón af þeim lagarökum er búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, er þess krafist að kærunni verði vísað til skattstjóra til uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar."
II.
Með 16. og 17. gr. laga nr. 145/1995, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, var 96. og 99. gr. laga nr. 75/1981 breytt á þann veg að endurákvörðun skattstjóra á áður álögðum opinberum gjöldum skattaðila, sbr. heimild í 4. mgr. 96. gr. laganna, varð kæranleg til yfirskattanefndar í samræmi við lög nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, án undangenginnar kærumeðferðar hjá skattstjóra. Þrátt fyrir þessa lagabreytingu var kæranda heimilt að leita eftir endurupptöku máls síns hjá skattstjóra, væru lagaskilyrði fyrir því uppfyllt, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, svo sem hann gerði. Við þær aðstæður rofnaði kærufrestur til yfirskattanefndar, sbr. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt þessu var skattstjóra rétt og skylt að líta á erindi kæranda, dags. 21. maí 1997, sem beiðni um endurupptöku á úrskurði hans um endurákvörðun, dags. 21. apríl 1997, og taka afstöðu til þess erindis í stað þess að vísa því frá. Tekið skal fram að hafi skattstjóri talið að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga væru ekki fyrir hendi, þrátt fyrir framlagt rekstraryfirlit kæranda, bar honum að framsenda erindi kæranda til yfirskattanefndar sem kæru til nefndarinnar, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, í stað þess að láta sitja við leiðbeiningar til kæranda um kæruheimild til yfirskattanefndar.
Með vísan til þess sem rakið hefur verið og að virtum sjónarmiðum að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, þykir bera að vísa kæru, með þeim rökstuðningi sem fram kemur í kæru til yfirskattanefndar, til skattstjóra til uppkvaðningar nýs úrskurðar.