Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Kaffikostnaður
  • Vinnufatakostnaður

Úrskurður nr. 1034/1997

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr.   Skattmat fyrir tekjuárið 1995   Skattmat í staðgreiðslu árið 1995  

Í málinu var fjallað um gjaldfærðan kaffikostnað og hlífðarfatakostnað í skattskilum kæranda, sem hafði með höndum útgerð fiskibáts. Gjaldfærslu kaffikostnaðar var hafnað með því að hann væri vegna eigenda og skylduliðs þeirra. Þá var synjað um gjaldfærslu vegna kaupa á gúmmíhönskum, sjóbuxum, sjóblússum og stígvélum.

I.

Málavextir eru þeir að skattframtali kæranda árið 1996 fylgdi ársreikningur fyrir árið 1995 vegna útgerðar X sem kærandi hafði með höndum í félagi við A og B að jöfnu. Með launum og launatengdum gjöldum var í rekstrarreikningnum gjaldfærður kaffikostnaður 139.726 kr. og hlífðarfatakostnaður 51.231 kr. Í framhaldi af bréfi sínu, dags. 10. júní 1996, og að fengnu svarbréfi kæranda, dags. 18. júní 1996, tilkynnti skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 22. júlí 1996, m.a. um niðurfellingu umræddra gjaldaliða samtals að fjárhæð 190.957 kr. Að fenginni kæru kæranda, dags. 12. ágúst 1996, staðfesti skattstjóri þessar breytingar með kæruúrskurði, dags. 13. desember 1996. Nánar eru kæruefnin sem hér segir:

1. Kaffikostnaður. Skattstjóri rökstuddi ákvörðun sína um niðurfellingu gjaldfærðs kaffikostnaðar 139.726 kr. með því að um einkanot væri að ræða en ekki frádráttarbæran rekstrarkostnað samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, enda störfuðu aðeins eigendur, makar þeirra og börn við reksturinn, sbr. bréf skattstjóra, dags. 22. júlí 1996, og kæruúrskurð, dags. 13. desember 1996.

Af hálfu kæranda hafa þær skýringar verið gefnar á þessum gjaldalið að um sé að ræða kaffi og kaffibrauð sem neytt hafi verið um borð í X. Ekki verði séð að máli skipti að það séu eigendur og skyldulið þeirra, sem neytt hafi kaffisins, heldur hljóti aðalatriðið að vera það að þess sé neytt við öflun tekna af atvinnurekstrinum. Í flestum fyrirtækjum og stofnunum hér á landi tíðkist að starfsmönnum sé boðið ókeypis kaffi og kaffibrauð. Ekki sé vitað til þess að skattyfirvöld gangist fyrir niðurfellingu slíks kostnaðar sem nemi áætlaðri neyslu eigenda sem starfi hjá viðkomandi fyrirtækjum og stofnunum. Afstaða skattstjóra feli í sér að rekstrarformum sé mismunað. Slík mismunun varði fleiri liði svo sem mótframlag í lífeyrissjóð, sbr. málarekstur þar um sem lokið hafi með dómi Hæstaréttar Íslands þar sem niðurstaðan hafi orðið sú að einstaklingar með sjálfstæðan rekstur mættu draga mótframlag sitt frá atvinnurekstrartekjum sínum. Er krafa kæranda sú í kæru til yfirskattanefndar, dags. 10. janúar 1997, að gjaldaliður þessi verði tekinn til greina.

2. Hlífðarfatakostnaður. Að því er varðar gjaldfærðan hlífðarfatakostnað 51.231 kr. þá taldi skattstjóri að kostnaður vegna hlífðarfata, svo sem vegna kaupa á sjóbuxum, sjóblússum og stígvélum, sem eigendur notuðu við reksturinn, teldist ekki rekstrarkostnaður samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, heldur félli kostnaður þessi undir persónuleg not eigenda, sbr. bréf skattstjóra, dags. 22. júlí 1996, og kæruúrskurð, dags. 13. desember 1996. Skattstjóri vísaði og til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 301/1993.

Af hálfu kæranda hefur verið gerð grein fyrir því að gjaldfærður hlífðarfatakostnaður felist í kaupum á gúmmíhönskum, sjóbuxum, sjóblússum og stígvélum. Fiskveiðar verði ekki stundaðar með neinum árangri nema notast sé við fatnað af þessu tagi. Ekki verði séð að máli skipti, eins og skattstjóri telji, hvort það eru eigendur og skyldulið þeirra eða einhver utanaðkomandi sem noti fatnaðinn. Aðalatriðið hljóti að vera hvort fatnaðurinn sé nauðsynlegur til öflunar rekstrartekna. Þá skipti máli hvort unnt sé að nota fatnaðinn í eigin þágu. Veiðarnar verði ekki stundaðar nema íklæðast þessum fatnaði er sé eign útgerðarinnar og eingöngu notaður um borð í skipinu, enda verði hann trauðla notaður í eigin þágu. Af afstöðu skattstjóra megi gagnálykta á þann veg að ef eigendur hefðu keypt að alla vinnu hefði þessi kostnaðarliður verið talinn falla undir 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með þessum rökum er þess krafist í kæru til yfirskattanefndar, dags. 10. janúar 1997, að gjaldfærður hlífðarfatakostnaður verði að fullu tekinn til greina.

II.

Með bréfi, dags. 13. júní 1997, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

III.

Um 1. kærulið: Óumdeilt er að gjaldfærður kaffikostnaður er vegna eigenda og skylduliðs þeirra. Slíkur kostnaður telst ekki frádráttarbær rekstrarkostnaður í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er úrskurður skattstjóra staðfestur um þetta kæruatriði.

Um 2. kærulið: Samkvæmt gögnum málsins störfuðu eigendur fyrst og fremst að þeim útgerðarrekstri, sem í málinu greinir, og makar þeirra og börn innan 16 ára að nokkru leyti. Óumdeilt er að sá hlífðarfatakostnaður er til kominn vegna þessara aðila. Eftir því sem upplýst er af hálfu kæranda er kostnaður þessi fólginn í gúmmíhönskum, sjóbuxum, sjóblússum og stígvélum.

Útgjöld sjálfstætt starfandi manns til fatakaupa eru þess eðlis að almennt verður að miða við að um sé að ræða persónuleg útgjöld og því ekki frádráttarbær sem rekstrarkostnaður í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, nema atvik leiði sérstaklega til annarrar niðurstöðu.

Í almennum skattmatsreglum ríkisskattstjóra tekjuárið 1995 (framtalsárið 1996), sem birtar voru í B-deild Stjórnartíðinda sem auglýsing nr. 26, 4. janúar 1996 er í lið 2.2.1. eingöngu tekið fram um mat einkennisfatnaðar til tekna. Í 8. lið í skattmati í staðgreiðslu á árinu 1995, sbr. auglýsingu nr. 1, 3. janúar 1995, sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda, er tekið fram að ekki skuli reikna launamanni til tekna nauðsynlegan hlífðarfatnað sem launagreiðandi afhendir honum til afnota við störf í þágu launagreiðandans. Í framtalsleiðbeiningum ríkisskattstjóra árið 1996 kemur á sama hátt fram að ekki skuli meta eða færa til tekna í skattframtali nauðsynlegan hlífðarfatnað sem launþegi fær til afnota við störf í þágu vinnuveitanda. Enda þótt nauðsynlegur hlífðarfatnaður skuli samkvæmt þessu ekki teljast til tekna hjá launamanni er ljóst að útgjöld þar að lútandi teljast til rekstrarkostnaðar launagreiðanda.

Rétt þykir að líta til framangreinds við úrlausn þess hvort útgjöld sjálfstætt starfandi manns vegna fatnaðar til eigin nota geti talist frádráttarbær rekstrarkostnaður hans, sbr. einnig þau viðhorf sem fram koma í dómi Hæstaréttar Íslands 19. desember 1996 í málinu nr. 432/1995, [H 1996:4248]. Þykir mega við það miða í þessu sambandi að ef hlífðarfatnaður er almennt afhentur launþegum í viðkomandi starfsgrein til afnota, t.d. samkvæmt ákvæðum kjarasamninga, án þess að teljast þeim til tekna, og um er að ræða fatnað sem einungis nýtist við þá vinnu sem stunduð er, geti útgjöld vegna kaupa á slíkum fatnaði til eigin nota sjálfstætt starfandi manns verið frádráttarbær rekstrarkostnaður í skilningi nefnds lagaákvæðis, enda sé fjárhæð innan hóflegra og eðlilegra marka.

Samkvæmt almennum kjarasamningum sjómanna, sbr. m.a. kjarasamning milli Sjómannasambands Íslands annars vegar og Landssambands íslenskra útvegsmanna hins vegar, er meginreglan sú að sjómönnum eru greiddir hlífðarfatapeningar. Þær greiðslur eru í framkvæmd skattlagðar. Að þessu virtu og með skírskotun til þess, sem að framan greinir um frádráttarbærni hlífðarfatakostnaðar í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, er kröfu kæranda hafnað um þetta kæruatriði.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja