Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tímaviðmiðun rekstrarútgjalda
  • Leiðréttingarskylda skattstjóra

Úrskurður nr. 1037/1997

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr.   Lög nr. 144/1994, 14. gr.   Reglugerð nr. 245/1963, 93. gr.  

Deilt var um frádráttarbærni ýmissa útgjalda í skattskilum kæranda vegna rekstrarárins 1995. Kostnaður féll til á árunum 1993, 1994 og 1996 og var kröfu kæranda um gjaldfærslu hans í rekstrarreikningi fyrir árið 1995 því synjað. Yfirskattanefnd tók hins vegar fram að kærandi hefði átt rétt á því að skattstjóri leiðrétti skattskil hans fyrir viðkomandi ár vegna þessara útgjalda og hefði skattstjóra borið að hafa frumkvæði að slíkri leiðréttingu samkvæmt leiðréttingarskyldu sinni.

I.

Málavextir eru þeir að skattframtali kæranda árið 1996 fylgdi skýrsla vegna útgerðar fiskibátsins … (RSK 4.06). Í framhaldi af bréfi sínu, dags. 14. maí 1996, og að fengnu svarbréfi kæranda, dags. 21. júní 1996, tilkynnti skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 22. júlí 1996, um breytingar sem hann hefði gert á skattframtali kæranda árið 1996. Vörðuðu breytingarnar lækkun á gjaldfærðu viðhaldi báts, tækja og veiðarfæra úr 389.779 kr. í 134.779 kr., lækkun gjaldfærðs bifreiðakostnaðar úr 111.218 kr. í 90.000 kr., niðurfellingu á gjaldfærðu mótframlagi í lífeyrissjóð 54.045 kr., lækkun á gjaldfærðum afla- og hafnargjöldum úr 67.709 kr. í 32.339 kr. og lækkun á gjaldfærðum vöxtum og bankakostnaði úr 332.583 kr. í 182.583 kr. Af hálfu kæranda var breytingum skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 22. ágúst 1996. Með kæruúrskurði, dags. 12. desember 1996, féllst skattstjóri á kröfur kæranda varðandi lækkun gjaldfærðs bifreiðakostnaðar og vaxta- og bankakostnaðar. Þá ákvað skattstjóri að lækkun gjaldfærðs viðhaldskostnaðar báts og tækja yrði 71.649 kr. Að öðru leyti hafnaði skattstjóri kröfum kæranda í kæruúrskurði sínum. Hinn 3. febrúar 1997 endurupptók skattstjóri kæruúrskurð sinn og tók til greina gjaldfært mótframlag í lífeyrissjóð 54.045 kr. með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands frá 19. desember 1996 í málinu nr. 432/1995, [H 1996:4248].

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 9. janúar 1997, er lækkun skattstjóra á gjaldfærðum viðhaldskostnaði báts og tækja svo og hafnargjöldum mótmælt. Þá er niðurfellingu skattstjóra á gjaldfærðu mótframlagi í lífeyrissjóð mótmælt. Nánar eru kæruefnin sem hér segir:

1. Viðhaldskostnaður báts og tækja. Skattstjóri byggði lækkun sína á gjaldalið þessum, þ.e. um 71.649 kr., á því að tilgreindir reikningar tilheyrðu ekki rekstrarárinu 1995. Um var að ræða 12 reikninga sem gerð er grein fyrir í kæruúrskurði skattstjóra, dags. 12. desember 1996. Allir reikningarnir nema einn tilheyrðu eldri árum, þ.e. voru gefnir út á árunum 1993 og 1994, en einn reikningur var gefinn út á árinu 1996. Vísaði skattstjóri til þess að rekstrarkostnaður í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, teldist vera þau gjöld sem á árinu ættu að ganga til að afla tekna, tryggja þær og halda þeim við.

Af hálfu kæranda er þess krafist að lækkun skattstjóra verði hrundið. Hefur kærandi borið því við að um sé að ræða reikninga sem greiddir séu og gjaldfærðir á rekstrarárinu 1995, sbr. kæru til skattstjóra, dags. 22. ágúst 1996. Standi því engin rök til ákvörðunar skattstjóra um lækkun gjaldfærðs kostnaðar vegna viðhalds báts og tækja.

2. Hafnargjöld. Skattstjóri lækkaði gjaldfærð afla- og hafnargjöld 67.709 kr. í 32.339 kr. eða um 35.370 kr. Um var að ræða annars vegar reikning frá hafnarsjóði …, dags. 31. desember 1993, vegna hafnar- og bryggjugjalda fyrir maí–desember 1993 samtals 15.720 kr. og hins vegar reikning, dags. 31. desember 1994, frá sama aðila vegna sömu gjalda fyrir 1/1 til 10/5 og 11/7 til 6/12 1993 samtals 19.650 kr. Skattstjóri taldi að ekki væri unnt að fallast á gjaldfærslu hafnargjalda þessara rekstrarárið 1995 þar sem gjöldin væru vegna áranna 1993 og 1994 og væru því ekki til öflunar tekna á árinu 1995, sbr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kærandi hafði gert þá varakröfu í kæru, dags. 22. ágúst 1996, að skattstjóri leiðrétti álagningu viðkomandi gjaldára héldi hann fast við afstöðu sína um ófrádráttarbærni rekstrarárið 1995. Í kæruúrskurði sínum, dags. 12. desember 1996, hafnaði skattstjóri varakröfunni að svo stöddu þar sem „skoða verður rekstrarkostnað hvers árs um sig heildstætt". Skattstjóri tók fram að hann myndi „að beiðni umboðsmanns kæranda, innan skamms, taka fyrri ár til skoðunar og verður við þá skoðun fjallað um fylgiskjöl sem tilheyra hverju rekstrarári fyrir sig".

Af hálfu kæranda er þess krafist að umrædd hafnargjöld 35.350 kr. verði tekin til greina gjaldárið 1996. Fram hefur komið af hálfu kæranda, sbr. kæru til skattstjóra, dags. 22. ágúst 1996, að umrædd hafnargjöld séu ekki innheimt af hreppnum … fyrr en að liðnu ári og séu því ekki gjaldfærð fyrr. Það sé almennt raunin með bókhald einyrkja að reikningar séu ekki gjaldfærðir í rekstri fyrr en við sýningu reikninganna og tengist því ekki alltaf nákvæmlega því rekstrarári þegar þeir eru gjaldfærðir. Aðalatriðið sé að reikningarnir hafi ekki áður verið gjaldfærðir og því eigi frádrátturinn rétt á sér.

3. Mótframlag í lífeyrissjóð. Af hálfu kæranda er þess krafist, sbr. kæru til yfirskattanefndar, dags. 9. janúar 1997, að mótframlag í lífeyrissjóð 54.045 kr. verði tekið til greina með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands þar sem tekin hafi verið afstaða til hliðstæðs álitaefnis.

II.

Með bréfi, dags. 29. ágúst 1997, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Með úrskurði skattstjóra, dags. 3. febrúar 1997, var fallist á kröfu kæranda varðandi gjaldfærslu lífeyrissjóðsiðgjalda. Hvað varðar aðrar kröfur kæranda ber að mati ríkisskattstjóra að staðfesta úrskurð skattstjóra með vísan til forsendna hans."

III.

Um 1. kærulið: Samkvæmt fyrirliggjandi reikningum féll umræddur kostnaður samtals að fjárhæð 71.649 kr. til á árunum 1993, 1994 og 1996. Út af fyrir sig hefur kærandi ekki borið brigður á þetta. Þá er jafnframt óumdeilt að kostnaður þessi teljist frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Samkvæmt þessu og með vísan til fyrrgreinds lagaákvæðis, sbr. og almennar reikningsskilareglur, sbr. m.a. 14. gr. laga nr. 144/1994, um ársreikninga, verður að hafna kröfu kæranda um gjaldfærslu kostnaðarins í rekstrarreikningi fyrir árið 1995. Hins vegar er ljóst að kærandi átti rétt á því að skattstjóri leiðrétti skattskil hans fyrir viðkomandi ár, eins og ráða mátti af kæru hans til skattstjóra, dags. 22. ágúst 1996. Bar skattstjóra að hafa frumkvæði að slíkri leiðréttingu samkvæmt leiðréttingarskyldu sinni, sbr. m.a. þau sjónarmið sem fram koma í 93. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt.

Um 2. kærulið: Samkvæmt því sem fram kemur í fyrrgreindum reikningum frá skrifstofu hreppsins … var kæranda gert að greiða þjónustugjöld samkvæmt hafnalögum og gjaldskrá viðkomandi hafnar, sbr. 11. gr. hafnalaga nr. 69/1984 og 11. gr. hafnalaga nr. 23/1994. Samkvæmt reikningum þessum virðist kæranda hafa verið gert að greiða skipagjald, þ.e. bryggjugjald, og vörugjald, þ.e. aflagjald sem er vörugjald af sjávarafla. Ljóst er af reikningunum, sbr. og gjaldtökuheimildir þessara gjalda, að þau féllu til á árunum 1993 og 1994, enda eru gjaldtímabil tilgreind í reikningunum. Að svo vöxnu og með vísan til þess sem fram kemur í niðurstöðu um 1. kærulið hér að framan verður að hafna kröfu kæranda um gjaldfærslu umræddra hafnargjalda í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1995. Að því er varðar þá beiðni, sem fram kom af hálfu kæranda í kæru til skattstjóra sem varakrafa, um leiðréttingu álagningar viðkomandi ára, skal tekið fram að það fékk engan veginn staðist að skattstjóri hafnaði þeim tilmælum, sbr. kæruúrskurð hans, dags. 12. desember 1996. Þvert á móti bar skattstjóra að hafa frumkvæði að því samkvæmt leiðréttingarskyldu sinni að álagning viðkomandi ára yrði leiðrétt, sbr. og það sem segir um þetta í umfjöllun um 1. kærulið.

Um 3. kærulið: Hinn 3. febrúar 1997 endurupptók skattstjóri kæruúrskurð sinn, dags. 12. desember 1996, og heimilaði til frádráttar mótframlag í lífeyrissjóð að fjárhæð 54.045 kr. með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands, sem kveðinn var upp 19. desember 1996 í málinu nr. 432/1995, [H 1996:4248]. Samkvæmt þessu er kæran tilefnislaus að því er tekur til þessa kæruatriðis og er henni vísað frá yfirskattanefnd hvað það snertir.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja