Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vaxtabætur
  • Sameign íbúðarhúsnæðis
  • Sönnun

Úrskurður nr. 1066/1997

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 69. gr. C-liður (brl. nr. 122/1993, 9. gr.)  

Staðhæfing kæranda um mismunandi lánsfjárþörf hennar og sameiganda hennar vegna öflunar íbúðarhúsnæðis, sem þau áttu að jöfnu, var talin fá stuðning af fjárhagsstöðu þeirra. Því var tekin til greina krafa kæranda, sem var skattlögð sem einstæð móðir, um að 80% láns frá Húsnæðisstofnun færðist á skattframtal hennar og að sama hlutfall vaxtagjalda af láninu kæmi til útreiknings vaxtabóta kæranda.

I.

Málavextir eru þeir að á skattframtali sínu 1996 gerði kærandi grein fyrir eftirstöðvum lána vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði 4.584.481 kr. og í reit 87 tilgreindi hún vaxtagjöld af sömu lánum 224.200 kr. Skattframtali hennar fylgdi greinargerð um vaxtagjöld, RSK 3.09, þar sem gerð var grein fyrir tveimur lánum. Annars vegar var um að ræða lán frá Húsbréfadeild L.Í. upphaflega að fjárhæð 4.200.000 kr. og hins vegar var um að ræða lán frá Landsbanka Íslands upphaflega að fjárhæð 600.000 kr. Í kafla 10.1. tilgreindi hún 50% hluta í fasteigninni X.

Með bréfi, dags. 13. maí 1996, óskaði skattstjóri eftir skýringum varðandi skattframtal kæranda. Samkvæmt skattframtali væri hún eigandi 50% íbúðarbyggingar að X. Þrátt fyrir það virtist mestur hluti skulda og vaxtagjalda vegna byggingarinnar vera færður á skattframtal hennar sem ekki fengi staðist. Kærandi svaraði fyrirspurn skattstjóra með bréfi, dags. 15. maí 1996. Gaf hún þá skýringu á framtali sínu að meðeigandi hennar að eigninni X hefði fjármagnað sinn hluta húseignarinnar að mestu með eigin fé, en að hún hefði orðið að taka lán til framkvæmdanna. Skuld við Húsbréfadeildina væri skipt milli þeirra í samræmi við það og væri hennar hluti 80% en hans 20%. Skuldir þessar tilheyrðu því henni og hennar hluta eignarinnar. Með bréfi, dags. 25. júlí 1996, tilkynnti skattstjóri kæranda um breytingar á skattframtali hennar. Engin gögn hefðu verið lögð fram sem staðfestu yfirlýsingu í bréfi kæranda varðandi skiptingu skulda vegna X. Íbúðinni væri skipt til helminga á milli eigenda og þætti því að svo stöddu verða að skipta skuldum og vaxtagjöldum í sama hlutfalli. Með vísan til þess hefðu vaxtagjöld í reit 87 á skattframtali verið lækkuð í 137.500 kr., eftirstöðvar skulda í reit 45 hefðu verið lækkaðar í 2.790.301 kr. og eftirstöðvar skulda í reit 86 hefðu verið lækkaðar í 3.063.436 kr. og yrði álagning 1996 í samræmi við ofangreint.

Kærandi mótmælti breytingum skattstjóra með kæru, dags. 26. ágúst 1996, og vísaði til svarbréfs síns, dags. 15. maí 1996. Eins og fram hefði komið ætti hún helming húseignarinnar, en hefði orðið að fjármagna kaup á sínum hluta með lántökum á meðan meðeigandi hennar hefði fjármagnað sinn hluta með öðrum hætti. Með kærunni fylgdi yfirlýsing sem kærandi og meðeigandi hennar undirrituðu, dags. 26. ágúst 1996. Lýstu þau því yfir að við kaup á húseigninni fokheldri og við áframhaldandi framkvæmdir við hana hefði meðeigandi kæranda lagt fram mun meira fé og til að halda eignarhlutum jöfnum tilheyrði stærsti hluti skuldanna kæranda, eða 80%. Hefði skipting þessi gilt frá upphafi og væri í samræmi við framtöl þeirra. Skattstjóri kvað upp úrskurð hinn 15. nóvember 1996 þar sem hann synjaði kærunni. Forsendur úrskurðar skattstjóra voru þær að húsbréfalán væru með veði í fasteign og úthlutun þess byggði á greiðslugetu eiganda viðkomandi eignar. Þegar litið væri til fjárhæðar húsbréfa vegna X og tekna kæranda samkvæmt eldri framtölum, þætti ekki líklegt að úthlutun lánsins hefði að mestu verið til kæranda og hefðu engin gögn verið lögð fram sem sýndu að kærandi væri skráður skuldari þess umfram eignarhlut sinn í íbúðinni. Með hliðsjón af skráðri skiptingu fasteignarinnar þætti því verða að líta svo á að kærandi og sambýlismaður hennar bæru jafna ábyrgð á húsbréfaláni vegna X. Þá hefðu engin gögn verið lögð fram sem sýndu að kærandi væri einn skráður skuldari að láni hjá Landsbanka Íslands. Auk þess þætti ekki líklegt, þegar litið væri til tekna kæranda og fjárfestinga á árinu, að hún hefði verið greiðandi meirihluta afborgana og vaxtagjalda af umræddum lánum.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið úrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 11. desember 1996. Ítrekar hann kröfu um að vaxtabætur verði ákvarðaðar samkvæmt framtali kæranda og vísar kröfu sinni til stuðnings til fyrri skýringarbréfa kæranda, en engu þurfi við þau að bæta.

Með bréfi, dags. 13. júní 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

Kærandi er eigandi að 50% hluta fasteignarinnar X á móti …. Við álagningu opinberra gjalda 1996 var hún skattlögð sem einstæð móðir og hefur skattstjóri ekki gert athugasemd við það. Á skattframtal sitt færði hún skuldir að fjárhæð 4.584.481 kr. Í bréfi kæranda, dags. 15. maí 1996, kom fram að meðeigandi hennar hefði fjármagnað kaup á sínum eignarhluta að mestu með eigin fé, en að hún hafi fjármagnað sinn hluta með lánsfé. Hafi þau skipt láni frá húsbréfadeild í hlutföllunum 80% sem hlut kæranda og 20% sem hlut sameiganda. Skattstjóri lækkaði vaxtagjöld kæranda og taldi að einungis helmingur vaxtagjalda vegna framangreindra lána tilheyrðu kæranda. Tók skattstjóri fram að kærandi hefði ekki lagt fram nein gögn til stuðnings staðhæfingum um skiptingu vaxtagjalda. Þegar litið væri til eigna og tekna kæranda annars vegar og meðeiganda hennar hins vegar undanfarin ár virtist ljóst að hún hafi þurft að fjármagna sinn hluta af byggingu íbúðarhúsnæðis þeirra með lántökum. Þegar litið er til fjárhagsstöðu kæranda virðast staðhæfingar hennar um mismunandi lánsfjárþörf kæranda og sameiganda hennar vegna öflunar íbúðarhúsnæðisins fá staðist. Að svo vöxnu þykir mega fallast á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja