Úrskurður yfirskattanefndar

  • Frádráttur frá leigutekjum

Úrskurður nr. 25/1998

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 2. mgr., 30. gr. 3. mgr. (brl. 57/1994, 1. gr.), 30. gr. 4. mgr. (brl. 147/1994, 2. gr.)  

Kærandi var búsett erlendis og hafði tekjur af útleigu íbúðar í fjöleignarhúsi hér á landi á árinu 1995. Í málinu var deilt um frádrátt frá þeim tekjum. Synjað var kröfu kæranda um frádrátt greiddrar leigu frá leigutekjunum með því að hún þótti ekki hafa sýnt fram á að um tímabundna dvöl erlendis væri að ræða. Þá var ekki fallist á frádrátt kostnaðar vegna glerskipta á svefnherbergisgluggum og hlutdeildar íbúðar kæranda í viðhaldsframkvæmdum við fjöleignarhúsið þar sem af fram lögðum gögnum um nefndan kostnað virtist mega ráða að kostnaðurinn hefði fallið til á árinu 1994, og yrði því ekki færður til frádráttar frá leigutekjum 1995. Fallist var á kröfu kæranda um 80% frádrátt frá leigutekjunum.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi er búsett erlendis við nám. Með bréfi til skattstjóra, dags. 8. ágúst 1996, fór hún fram á að álagning opinberra gjalda hennar gjaldárið 1996 yrði tekin til endurskoðunar. Óskaði kærandi eftir því að við skattlagningu leigutekna vegna útleigu íbúðar að A, í Reykjavík, 300.000 kr., yrði tekið tillit til kostnaðar vegna viðgerða á steypuskemmdum á fjölbýlishúsinu A, en kærandi kvað mestan hluta húsaleiguteknanna, sem verið hefðu einu tekjur hennar á Íslandi á árinu 1995, hafa runnið til greiðslu nefnds kostnaðar. Með kæruúrskurði, dags. 19. nóvember 1996, féllst skattstjóri á að fella niður sérstakan eignarskatt kæranda með vísan til 1. gr. laga nr. 154/1995, en hafnaði að öðru leyti kröfum hennar. Kom fram af hálfu skattstjóra að kostnaður sem leyfðist til frádráttar húsaleigutekjum takmarkaðist við beinan kostnað við öflun tekna samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Viðgerðir á steypuskemmdum á fjölbýlishúsi gætu vart talist til beins kostnaðar vegna útleigu íbúðar, þar sem skemmdir þessar mætti tæpast rekja til útleigunnar. Þar sem framtaldar leigutekjur byggðu á innsendu rekstraryfirliti vegna íbúðar kæranda sem fylgdi skattframtali hennar teldist álagning rétt að öllu leyti.

II.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 8. desember 1996, sbr. viðbótarkröfugerð og rökstuðning í bréfi, dags. 4. apríl 1997. Í fyrra bréfi kæranda, dags. 8. desember 1996, fer kærandi fram á að við álagningu opinberra gjalda hennar gjaldárið 1996 verði tekið tillit til mikils kostnaðar vegna viðgerða á húsnæðinu að A, og kveður kærandi þar ekki aðeins um að ræða viðgerðir á steypuskemmdum fjölbýlishússins heldur viðgerðir á íbúð kæranda sem fram hafi farið í því skyni að gera hana íbúðarhæfa. Séu leigutekjur kæranda einu tekjurnar sem hún hafi til að mæta umræddum kostnaði. Í síðara bréfi kæranda, dags. 4. apríl 1997, kemur fram svohljóðandi kröfugerð og rökstuðningur af hennar hálfu:

„Ég hef, svo sem áður hefur verið skýrt frá, búið í Þýskalandi undanfarin ár og leigt íbúð mína að A, Reykjavík, og eru húsaleigutekjurnar mínar einu tekjur. Ég var við nám fyrstu árin og ætlaði að vera í Þýskalandi í 1–2 ár. Dvölin í Þýskalandi hefur nú orðið lengri en til stóð, en ég er samt ákveðin í að flytja til Íslands og búa í íbúðinni aftur eftir fáein ár.

Ég og sambýlismaður minn höfum búið í leiguhúsnæði þessi ár í Þýskalandi. Við eftirgrennslan hefur nú komið í ljós að leyfilegt er að draga greidda húsaleigu erlendis frá húsaleigutekjum á Íslandi. Ég sendi hér með ljósrit af húsaleigusamningum til nánari upplýsinga um greidda húsaleigu.

Frá 1.1. 1993 til 31.5. 1996 bjuggum við í … og var leiguupphæðin DM 670,00 á mánuði.

Frá 1.6. 1996 höfum við búið í … og er leiguupphæðin sem stendur DM 1.193,50 á mánuði.

Ég fer nú fram á að álagning tekjuskatts verði felld niður í ljósi þessara gagna.

Ég bið ennfremur um að málinu verði flýtt, þar sem ég hef áhyggjur af þessari skuld, kr. 345.286,00, sem er sennilega ranglega álögð.

Ef nefndin telur að reglan um greidda húsaleigu erlendis gildi ekki í mínu tilviki, fer ég til vara fram á að fá að færa 80% af leigutekjunum til frádráttar, samanber lið 8.1 um leigutekjur bls. 8 í leiðbeiningum ríkisskattstjóra um skattframtöl.“

III.

Með bréfi, dags. 11. júlí 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Í kæru til yfirskattanefndar dagsettri þann 8. desember 1996 fer kærandi fram á að fá kostnað vegna viðgerða á húsnæðinu að A, Reykjavík, dreginn frá húsaleigutekjum kæranda. Í sjálfu sér getur ríkisskattstjóri fallist á þá kröfu en þar sem ekki liggja fyrir fullnægjandi gögn varðandi fyrrgreindan kostnað gerir ríkisskattstjóri kröfu um frávísun kröfunnar að svo stöddu. Ljósrit af innsendu skuldabréfi nægir ekki til þess að sýna fram á þann kostnað sem fallið hefur til á kæranda sérstaklega tekjuárið 1995.

Í framhaldskæru dagsettri þann 4. apríl 1997 fer kærandi aðallega fram á að greidd húsaleiga erlendis verði dregin frá húsaleigutekjum kæranda hér á landi. Í 3. mgr. b. liðar 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt segir að frádráttur leyfist eingöngu til frádráttar leigutekjum af íbúðarhúsnæði sem ætlað er til eigin nota en er tímabundið til útleigu. Kærandi hefur að mati ríkisskattstjóra ekki sýnt fram á að um tímabundna útleigu sé að ræða en það er skilyrði frádráttar og er því gerð krafa um synjun þessa kröfuliðar.

Til vara fer kærandi fram á að heimilt verði að draga 80% frá húsaleigutekjum samkvæmt 4. mgr. b. liðar 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Fallist er á þá kröfu kæranda vegna gjaldársins 1996.“

IV.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 15. júlí 1997, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í máli þessu og gefinn kostur á að leggja fram gögn til skýringar og tjá sig um þau atriði í kröfugerð ríkisskattstjóra sem hún teldi ástæðu til. Í svarbréfi kæranda, dags. 10. ágúst 1997, kom meðal annars fram að kostnaður hennar vegna viðgerðar á húseigninni að A hafi verið rúmlega 300.000 kr. og hafi kærandi tekið lán fyrir upphæðinni og greitt hana húsfélaginu í einu lagi. Í bréfi sínu boðaði kærandi frekari framlagningu gagna vegna viðgerðarkostnaðar og bárust þau með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 23. september 1997.

V.

Kærandi hefur gert kröfu um frádrátt greiddrar leigu frá leigutekjum, sbr. 3. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Fram er komið að kærandi flutti til Þýskalands árið 1989 og hefur búið þar síðan með þýskum sambýlismanni sínum. Í bréfum sínum, dags. 8. ágúst og 8. desember 1996, vék kærandi ekki að því að um tímabundna dvöl væri að ræða. Við mat á því hvort um tímabundna dvöl sé að ræða þykir verða að líta til þess tíma sem kærandi hefur búið í Þýskalandi og aðstæðna kæranda að öðru leyti svo og þeirra gagna sem fram hafa verið lögð um námsferil hennar í Þýskalandi, en af þeim verður ekkert ráðið um námslok. Þykir kærandi því ekki hafa sýnt fram á að um tímabundna dvöl í Þýskalandi sé að ræða. Kröfu hennar um frádrátt greiddrar leigu frá leigutekjum er því hafnað.

Í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, kemur fram að hafi maður beinan kostnað við öflun annarra tekna en tekna samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr., án þess að hún verði talin falla undir atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, skuli ákvæði 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. samt sem áður gilda um slíkan kostnað eftir því sem við eigi, þó ekki ákvæðin um vexti af skuldum, afföll, gengistöp og fyrningu eigna. Kostnaður þessi leyfist eingöngu til frádráttar sams konar tekjum og hann hafi gengið til öflunar á. Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 23. september 1997, fylgdi yfirlýsing gjaldkera húsfélagsins A á greiðslum kæranda til húsfélagsins vegna viðgerða og viðhalds. Kemur þar fram að kærandi hafi greitt samkvæmt gíróseðli 34.300 kr. vegna glerskipta á svefnherbergisgluggum árið 1994 og 310.193 kr. vegna hlutdeildar íbúðar hennar í viðhaldsframkvæmdum á suðurhlið A sama ár. Af þeim gögnum sem fram hafa verið lögð virðist mega ráða að umræddur kostnaður hafi fallið til á árinu 1994 og verður því ekki fallist á frádrátt þessa kostnaðar frá leigutekjum 1995.

Fallist er á kröfu kæranda um 80% frádrátt frá leigutekjum, sbr. 4. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja