Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður

Úrskurður nr. 85/1998

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr.  

Skattstjóri lækkaði að álitum gjaldfærðan kostnað vegna bílasíma í skattskilum kæranda vegna ætlaðra persónulegra nota hans af símanum. Yfirskattanefnd taldi þrátt fyrir staðhæfingar kæranda verða að gera ráð fyrir því að kostnaður vegna persónulegra nota væri að einhverju leyti falinn í hinni umkröfðu frádráttarfjárhæð. Var tekið fram að kærandi hefði enga grein gert fyrir skiptingu kostnaðarins til einkanota og í þágu atvinnu. Var kröfum hans hafnað.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1996 og sætti því áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1996, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal kæranda árið 1996 hafði borist skattstjóra 13. júní 1996 samkvæmt áritun hans um móttöku þess. Skattstjóri tók skattframtalið sem kæru samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981. Með skattframtali kæranda fylgdi rekstrarreikningur vegna starfa kæranda sem bifreiðastjóri á árinu 1995. Með bréfi, dags. 10. október 1996, óskaði skattstjóri eftir því að kærandi legði fram gögn og upplýsingar varðandi tiltekna gjaldaliði á rekstrarreikningnum. Umboðsmaður kæranda svaraði fyrirspurnarbréfi skattstjóra með bréfi, dags. 14. október 1996, og fylgdi bókhald kæranda bréfinu.

Með kæruúrskurði, dags. 4. febrúar 1997, féllst skattstjóri á að leggja innsent framtal kæranda til grundvallar álagningu opinberra gjalda ársins 1996 með ýmsum breytingum. Meðal breytinga skattstjóra var lækkun á gjaldaliðnum „Bílasími 67.900 kr.“ í 25.000 kr. Byggði skattstjóri ákvörðun sína á því að kostnaður vegna heimilissíma kæranda, samtals 14.936 kr. félli ekki undir 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, heldur væri persónulegur kostnaður kæranda. Felldi hann því niður gjaldfærða reikninga vegna þess kostnaðar. Þá felldi hann niður gjaldfærðan rekstrarkostnað vegna reksturs farsíma að fjárhæð 52.964 kr. og áætlaði kæranda 25.000 kr. vegna kostnaðar af þessu. Byggði skattstjóri lækkunina á ætluðum persónulegum notum kæranda af símanum. Þá nýtti skattstjóri sér heimild 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 til beitingar álags á gjaldstofna vegna síðbúinna framtalsskila. Með hliðsjón af fyrri framtalsskilum kæranda, en kærandi hefði sætt áætlun gjaldstofna gjaldárið 1994 þar sem skattframtal 1994 hefði borist þann 28. júlí 1994, yrði ekki talið að sýnt hefði verið fram á að þær ástæður hefðu legið fyrir er leiddu til þess að fella bæri niður álag skv. 3. mgr. greinarinnar. Álag væri 10% á gjaldstofna, þ.m.t. á þann hluta stofns til tekjuskatts og útsvars sem skattstjóri hefði ákvarðað umfram 95% af þeim tekjum sem staðgreiðslu hefði verið skilað af, sbr. auglýsingu ríkisskattstjóra, dags. 30. maí 1991, sem birt hefði verið í 71. tbl. Lögbirtingablaðsins, dags. 12. júní 1991.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 3. mars 1997, hefur umboðsmaður kæranda kært lækkun skattstjóra á gjaldaliðnum „Bílasími 67.900 kr.“ og krafist þess að gjaldaliðurinn verði hækkaður þar sem kærandi noti bílasímann eingöngu vegna atvinnu sinnar sem sendibílstjóri. Þá fer hann fram á að álag falli niður. Kærandi hafi farið í áfengismeðferð á árinu 1995 og hafi verið að vinna í sínum málum.

Með bréfi, dags. 26. september 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

II.

Skilja verður kröfugerð kæranda svo að tekinn verði til greina að fullu gjaldfærður kostnaður vegna bílasíma 52.964 kr. Þrátt fyrir staðhæfingu kæranda, verður að gera ráð fyrir því að kostnaður vegna persónulegra nota sé að einhverju leyti falinn í hinni umkröfðu fjárhæð. Kærandi hefur enga grein gert fyrir skiptingu kostnaðarins til einkanota og í þágu atvinnu. Að þessu virtu þykir verða að hafna kröfu kæranda.

Að virtum fyrri framtalsskilum kæranda þykja ekki efni til þess að falla frá beitingu heimildarákvæða 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, um álag vegna síðbúinna skila framtals, en ekkert hefur komið fram um að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að kærandi skilaði framtali sínu á réttum tíma.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja