Úrskurður yfirskattanefndar

  • Eignarverð hlutabréfa

Úrskurður nr. 91/1998

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 74. gr. 5. tölul. 1. mgr.  

Kærandi taldi hlutafé í tilteknu hlutafélagi vera tapað þar sem eigið fé félagsins væri neikvætt. Skattstjóri synjaði um niðurfærslu hlutabréfaeignar með þeim rökum að viðkomandi hlutafélag væri enn í rekstri. Talið var að þessi ákvörðun skattstjóra færi í bága við lagaákvæði og var hún því ómerkt.

I.

Málavextir eru þeir að í athugasemdadálki á skattframtali kæranda árið 1996 var þess getið að þar sem hlutabréf í X hf. og Y hf. væru sannanlega töpuð væru þau afskrifuð í skattframtali. Með bréfi, dags. 4. júní 1996, óskaði skattstjóri eftir rökstuðningi kæranda fyrir umræddri afskrift hlutabréfa ásamt gögnum er sýndu fram á að bréfin hefðu verið sannanlega töpuð á árinu 1995. Svar barst ekki frá kæranda og með bréfi, dags. 25. júlí 1996, tilkynnti skattstjóri kæranda um að hlutabréf hans í X hf. og Y hf. hefðu verið færð honum til eignar í lið 10.4 á skattframtali með 20.500.000 kr.

Svarbréf kæranda, dags. 19. júní 1996, barst skattstjóra 26. júní 1996. Kærandi mótmælti ofangreindri breytingu skattstjóra með kæru til hans, dags. 28. ágúst 1996. Kærunni fylgdu rekstrar- og efnahagsreikningar X hf. og Y hf. fyrir árið 1995. Benti kærandi á að af þeim yrði séð að talsvert tap hefði orðið á rekstri þessara fyrirtækja á árinu 1995. Eigið fé X hf. væri neikvætt um 402.839.264 kr. en hlutafé aðeins 560.000 kr. þannig að hlutabréf í því félagi væru sannanlega töpuð. Þá væri eigið fé Y hf. neikvætt um 35.759.323 kr. en hlutafé 20.000.000 kr. og því mætti segja að hlutabréf í því félagi væru einnig töpuð.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 9. desember 1996. Kom fram af hálfu skattstjóra að samkvæmt ársreikningum væri neikvætt eigið fé X hf. í árslok 1995 402.839.264 kr. og Y hf. 35.759.323 kr. Kvað skattstjóri X hf. eiga í nauðasamningum og hafa hætt rekstri á árinu 1996 samkvæmt virðisaukaskattsskilum. Samkvæmt virðisaukaskattsskilum væri Y hf. hins vegar enn í rekstri. Féllst skattstjóri á að fella niður eignfærslu hlutabréfa í X hf. en hafnaði niðurfellingu eignfærslu að því er varðaði hlutabréf í Y hf.

II.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 3. janúar 1997. Er gerð sú krafa að hlutafjáreign kæranda í Y hf. að nafnverði 20.000.000 kr. verði talin töpuð og hlutaféð ekki eignfært á skattframtali 1996. Í kæru bendir umboðsmaður á að samkvæmt 5. tölul. 74. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skuli telja hlutabréf til eignar á nafnverði nema sannað sé að raunvirði eigna félags að frádregnum skuldum sé lægra en hlutafé þess. Í efnahagsreikningi Y hf. í árslok 1995 komi fram að nafnverð hlutafjár hjá félaginu sé 20.000.000 kr. en eigið fé félagsins hins vegar neikvætt um 35.759.323 kr. Sé því ljóst að eignir félagsins þyrftu að vera vanmetnar um rúmar 55.000.000 kr. til þess að raunvirði eigna þess að frádregnum skuldum næði nafnverði hlutafjár. Sé hins vegar litið til eigna félagsins sé ljóst að svo sé alls ekki og geti einungis verið um mjög óverulegt vanmat eigna að ræða, ef nokkurt. Stærsti einstaki eignaliðurinn sem bókfærður sé hjá félaginu séu birgðir að fjárhæð 40.892.000 kr. Birgðir hefðu verið taldar í árslok 1995 og því ljóst að ekki geti verið um að ræða verulegt vanmat á þeim. Af öðrum eignum mætti nefna skrifstofuáhöld og bifreið, samtals að bókfærðu verðmæti 891.473 kr. Þegar litið væri til þess að fyrningargrunnur umræddra eigna 1995 væri einungis 2.926.459 kr. hlyti að teljast ljóst að ekki geti verið um vanmat á þeim að ræða er nemi meira en einhverjum hundruðum þúsunda króna. Af framangreindu verði að telja ljóst að raunvirði eigna Y hf. að frádregnum skuldum sé mun lægra en hlutafé þess og ennfremur að eigið fé félagsins sé neikvætt miðað við raunvirði eigna. Kæranda sé því heimilt samkvæmt ákvæðum 5. tölul. 74. gr. laga nr. 75/1981 að telja verðmæti hlutabréfa í Y hf. vera 0 kr. við ákvörðun eignarskattsstofns við álagningu 1996.

Með bréfi, dags. 9. janúar 1998, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

III.

Um mat skattskyldrar hlutabréfaeignar segir svo í 1. málsl. 1. mgr. 5. tölul. 74. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt: „Hlutabréf skal telja til eignar á nafnverði nema sannað sé að raunvirði eigna félags að frádregnum skuldum sé lægra en hlutafé þess.“ Skattstjóri færði kæranda hlutabréfaeign hans í Y hf. til eignar á nafnverði á skattframtali 1996.

Í hinum kærða úrskurði, dags. 9. desember 1996, er hin umdeilda ákvörðun skattstjóra um synjun á niðurfærslu hlutabréfaeignar kæranda í Y hf. ekki rökstudd sérstaklega að því frátöldu að tekið er fram að samkvæmt virðisaukaskattsskilum félagsins væri það enn í rekstri. Í lagaákvæði því sem á við um úrlausnarefnið, þ.e. 1. málsl. 1. mgr. 5. tölul. 74. gr. laga nr. 75/1981, sem vitnað er til hér að framan, er skilyrðis af þessum toga að engu getið og eru þargreind lagaskilyrði allt önnur. Niðurstaða um það, hvort félag stundar enn rekstur eða ekki, skiptir vitaskuld máli við mat á því hvort lagaskilyrðin eru uppfyllt, en lagaskilyrði er ekki að félag hafi hætt rekstri, hvorki eitt sér né ásamt öðru. Að þessu athuguðu verður ekki séð að niðurstaða skattstjóra geti verið byggð á sérstakri túlkun hans á umræddu lagaákvæði. Verður því að líta svo á að hin kærða ákvörðun skattstjóra fari í bága við ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 5. tölul. 74. gr. laga nr. 75/1981. Ber því að ómerkja ákvörðun skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja