Úrskurður yfirskattanefndar
- Rekstrarkostnaður
Úrskurður nr. 100/1998
Gjaldár 1995
Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr.
Fjallað um gjaldfærðan rekstrarkostnað í skattskilum einkahlutafélags, sem hafði með höndum byggingarstarfsemi erlendis. Frumgagna fyrir útlögðum kostnaði naut ekki, en félagið hélt því fram að í raun hefði verið ógerlegt að afla slíkra gagna í fjölmörgum tilvikum. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að það bæri undir skattaðila að sýna fram á að um kostnað væri að ræða sem draga mætti frá tekjum. Eins og bókhaldsgögnum væri háttað í tilviki kæranda, þ.e. félagsins, þætti hann verða að gera rækilega grein fyrir útgjöldum til að viðurkenna mætti þau sem frádráttarbæran rekstrarkostnað. Var úrskurður skattstjóra staðfestur að öðru leyti en því að fallist var á að hækka áætlun hans á frádráttarbærum greiðslum til erlendra starfsmanna.
I.
Málavextir eru þeir að í framhaldi af bréfum sínum, dags. 12. janúar og 8. febrúar 1996, þar sem skattstjóri krafði kæranda um upplýsingar og gögn viðvíkjandi ýmsum atriðum varðandi skattframtal hans árið 1995, og að fengnum svarbréfum kæranda, dags. 23. janúar og 9. febrúar 1996, boðaði skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 1. mars 1996, endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda hans gjaldárið 1995 og virðisaukaskatts árið 1994 vegna tilgreindra breytinga sem hann hugðist gera á skattskilum kæranda rekstrarárið 1994. Hinum fyrirhuguðu breytingum skattstjóra var mótmælt af hálfu kæranda með bréfi, dags. 25. mars 1996. Hinn 16. júlí 1996 hratt skattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1995 og virðisaukaskatt hans árið 1994. Breytingarnar lutu að lækkun tiltekinna gjaldaliða í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1994 og lækkun innskattsfrádráttar samkvæmt innsendum virðisaukaskattsskýrslum kæranda á árinu 1994. Af hálfu kæranda var breytingum skattstjóra mótmælt í kæru til hans, dags. 13. ágúst 1996, sbr. rökstuðning í bréfi, dags. 10. október 1996. Skattstjóri felldi úrskurð um kæruna, dags. 23. desember 1996, þar sem hann féllst að hluta á kröfur kæranda en staðfesti endurákvörðun sína að öðru leyti.
Með kæru, dags. 20. janúar 1997, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni er þess krafist að breytingar skattstjóra að því er varðar nánar tilgreinda gjaldaliði í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1994 verði felldar úr gildi og endurákvörðun skattstjóra á opinberum gjöldum kæranda gjaldárið 1995 breytt til samræmis. Ekki virðist því ágreiningur um breytingar á virðisaukaskatti kæranda.
II.
Kærandi er einkahlutafélag. Allt frá stofnun félagsins á árinu 1994 hefur það haft með höndum verkframkvæmdir í X. Ágreiningur máls þessa varðar lækkun skattstjóra á gjaldfærslum samkvæmt tilteknum gjaldaliðum í rekstrarreikningi félagsins fyrir árið 1994. Fram er komið af hálfu kæranda, að því er varðar þann þátt málsins sem lýtur að færslu bókhalds og sönnun gjaldfærðs rekstrarkostnaðar, að aðstæður í X séu allt aðrar og frumstæðari en hér á landi. Fljótlega eftir að starfsemi kæranda í X hófst hafi komið í ljós að erfitt reyndist að fá nótur og reikninga fyrir útlögðum kostnaði. Skortur hafi verið á ýmissri vöru og þjónustu sem talin sé sjálfsögð hér á landi. Reglur, lög og venjur séu aðrar en vesturlandabúar eiga að venjast og því hafi starfsmenn kæranda þurft að laga sig að breyttum aðstæðum. Þar sem erfitt hafi verið að fá fullnægjandi bókhaldsgögn fyrir smærri rekstrarútgjöldum hafi starfsmenn kæranda ritað niður kostnaðarfjárhæðir í því skyni að hægt yrði að gjaldfæra rekstrarkostnað félagsins réttilega. Hefur kærandi farið fram á að framangreint verði haft í huga við könnun fylgiskjala vegna rekstrar á árinu 1994 og tillit til þess tekið við úrlausn málsins.
III.
Þær breytingar skattstjóra, sem sæta kæru til yfirskattanefndar, eru eftirfarandi:
1. Síma- og faxkostnaður.
Kærandi færði til gjalda í rekstrarreikningi ársins 1994 síma- og faxkostnað 354.228 kr. Skattstjóri lækkaði gjaldfærslu þessa með endurákvörðun sinni um 93.998 kr. og vísaði til þess að kostnaður hefði verið gjaldfærður á grundvelli yfirlitsblaða og blaðsnepla en hvorki lægju fyrir kvittanir né reikningar frá seljanda. Hefði því ekki verið sýnt fram á að um væri að ræða rekstrarkostnað í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með kæruúrskurði, dags. 23. desember 1996, féllst skattstjóri að hluta á fram komnar skýringar kæranda eða hvað varðaði fskj. nr. 521 og 524 samtals að fjárhæð 64.665 kr. Að því er varðaði kostnað að fjárhæð 29.333 kr. samkvæmt fylgiskjali nr. 522 tók skattstjóri fram að um virtist vera að ræða matarkostnað og símakostnað en einhver hluti símakostnaðar virtist vera persónulegur kostnaður nokkurra starfsmanna. Skattstjóri taldi þó mega áætla kæranda nokkurn kostnað vegna umrædds fylgiskjals og féllst á gjaldfærslu 10.000 kr. vegna þess. Samtals nam því lækkun þessa gjaldaliðar samkvæmt kæruúrskurði 19.333 kr.
Umboðsmaður kæranda hefur krafist þess að ofangreindur gjaldaliður verði að fullu samþykktur. Er fram komið af hálfu umboðsmanns að á fyrsta starfsári kæranda í X hafi oft verið erfitt að komast í síma og faxtæki þar sem treysta hafi orðið á hótel og aðra sem leyfðu afnot af símtækjum sínum. Ekki sé einfalt mál að fá símalínu í X og biðtími eftir henni langur. Þá séu símkerfi hótela ekki tölvuvædd og því ekki hægt að fá sundurliðaða reikninga. Í sumum tilvikum hafi þó verið hægt að fá skrifað niður lengd símtalsins og upphæð og stundum hafi fengist smánóta einnig. Í þeim tilvikum þar sem nóta hafi ekki fengist hafi verið skrifað niður um hvaða fjárhæð var að ræða auk dagsetningar.
2. Risna.
Kærandi gjaldfærði í rekstrarreikningi risnukostnað að fjárhæð 212.933 kr. Skattstjóri féllst ekki á gjaldfærslu 32.659 kr. og kvað ekki sýnt fram á að umræddur kostnaður tengdist rekstri kæranda þar sem engin gögn lægju að baki honum.
Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur þess verið krafist að ofangreindur kostnaður verði viðurkenndur sem frádráttarbær rekstrarkostnaður.
3. Ferðakostnaður.
Gjaldfærður ferðakostnaður sem í ágreiningi stendur er að fjárhæð 307.009 kr. Forsendur skattstjóra fyrir lækkun gjaldfærslu skv. þessum gjaldalið voru þær að engin gögn lægju að baki gjaldfærðum kostnaði og hefði því ekki verið sýnt fram á tengsl kostnaðarins við rekstur kæranda.
Umboðsmaður kæranda hefur mótmælt ofangreindri lækkun og bent á að tilhögun á flugvöllum og í leigubílum í X sé önnur en í hinum vestræna heimi. Leigubílar hafi almennt ekki kvittanir og því fáist engin slík gögn þegar þeir séu notaðir. Mikill hluti tekna starfsmanna flugvalla komi frá ferðamönnum sem þurfi á aðstoð þeirra að halda og burðarmenn taki háar fjárhæðir fyrir aðstoð á flutningi vara og áhalda. Þá þurfi að greiða óhemju fjárhæðir í yfirvigt sem ekki fáist alltaf nóta fyrir.
4. Rekstur bifreiða.
Gjaldfærður kostnaður vegna reksturs bifreiða og aðkeypts aksturs í rekstrarreikningi kæranda nam 297.715 kr. Skattstjóri féllst ekki á frádráttarbærni hluta umrædds kostnaðar eða 114.752 kr. þar sem engin gögn lægju að baki gjaldfærslu.
Fram er komið af hálfu umboðsmanns kæranda að kærandi hafi á árinu 1994 lengst af verið með eina bifreið til umráða í X, en síðar hafi önnur bifreið verið keypt og hún borist kæranda í nóvember. Hafi bifreiðarnar verið notaðar við flutning á vörum, starfsmönnum og til ferða milli vinnusvæða og snúninga í borginni B. Telur umboðsmaður skattstjóra ekki hafa haft tilefni til breytinga á ofangreindum gjaldalið.
Fæðiskostnaður og ýmiss kostnaður.
Gjaldfærður kostnaður af ofangreindum toga sem í ágreiningi stendur er að fjárhæð 80.809 kr. Skattstjóri lækkaði þennan kostnað á sömu forsendum og að framan greinir, þ.e. að fullnægjandi gögn lægju ekki til grundvallar gjaldfærslu og hefði því ekki verið sýnt fram á frádráttarbærni kostnaðarins í rekstri kæranda.
Umboðsmaður kæranda hefur mótmælt lækkun skattstjóra. Greinir umboðsmaður frá því að í X hafi þurft að nálgast ýmsar rekstrarvörur á opnum mörkuðum. Þannig hafi þurft að kaupa kaffi, meðlæti og annað matarkyns á útimarkaði fyrir matvæli. Á þessum mörkuðum hafi ekki verið hægt að fá neinar nótur né kvittanir og því hafi verið brugðið á það ráð að skrifa nákvæmlega niður hvað var keypt og fyrir hvaða fjárhæðir. Í búðum hafi sömuleiðis reynst erfitt að fá kvittanir. Ein búð hafi þó verið á staðnum þar sem kassastrimill hafi fengist og séu þeir strimlar til staðar í bókhaldi. Þar sem aðstæður hafi verið með framangreindum hætti sé þess vænst að umræddur rekstrarkostnaður verði viðurkenndur. Tekur umboðsmaður fram, að því er varðar kaffi og annan fæðiskostnað, að þeim kostnaði hafi verið skipt í tvennt, annars vegar fæðiskostnað sem rétt þótti að viðkomandi undirverktakar myndu bera og hins vegar eðlilegan kaffikostnað sem kærandi myndi bera. Til að skipta þessum kostnaði hafi hreinn fæðiskostnaður verið fundinn út pr. dag sem síðan hafi verið margfaldaður með dvalardögum viðkomandi starfsmanna undirverktakans. Þessi kostnaður hafi síðan verið endurgreiddur kæranda svo sem séð verði af meðfylgjandi afriti af reikningi fyrir matarkostnaði.
6. Efniskaup.
Kærandi gjaldfærði í rekstrarreikningi efniskaup 68.947.301 kr. Með kæruúrskurði lækkaði skattstjóri gjaldfærð efniskaup um 505.370 kr. með vísan til skorts á gögnum að baki gjaldfærslu og kvað ekki hafa verið sýnt fram á frádráttarbærni kostnaðar.
Umboðsmaður kæranda kveður hér um að ræða efniskaup vegna verka kæranda í X. Í undantekningartilvikum hafi þurft að leita til einstaklinga til þess að fá byggingarefni og við þær aðstæður hafi ekki fengist nóta. Haldið hafi þó verið utan um hvað um var að ræða og hver fjárhæðin var eins og bókhaldsgögn beri með sér. Hér sé því um að ræða frádráttarbær efniskaup samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981 og er gerð krafa um að kostnaður vegna þeirra sé viðurkenndur að fullu.
7. Greiðslur til erlendra starfsmanna.
Greiðslur til erlendra starfsmanna voru færðar til gjalda í rekstrarreikningi kæranda 1994 með 1.821.471 kr. Skattstjóri gerði athugasemdir við færslur að fjárhæð 1.807.865 kr, en áætlaði gjaldaliðnum í heild með 1.200.000 kr. Breyting skattstjóra nam 621.471 kr. til lækkunnar. Skattstjóri benti á að til grundvallar gjaldfærslu lægju minnisblöð eða blaðsneplar en ekki launaseðlar eða kvittanir undirritaðar af móttakanda, en vefengdi ekki að um einhverjar greiðslur til erlendra starfsmanna hefði verið að ræða.
Umboðsmaður hefur krafist þess að ofangreindur gjaldaliður í rekstrarreikningi verði látinn standa óhreyfður. Kveður hann kæranda hafa þurft að fá Y verkamenn til aðstoðar íslenskum iðnaðarmönnum auk þess sem nauðsynlegt hafi verið að fá túlka og aðra tilfallandi Y aðstoðarmenn. Haldið hafi verið utan um vinnu þessa aðstoðarfólks eins og bókhaldsgögn beri með sér og því greitt eftir því. Af vankunnáttu hafi þess þó ekki alltaf verið gætt að fá móttökukvittun þessara Y starfsmanna. Á því leiki enginn vafi að vinna þessi hafi verið reidd af hendi fyrir kæranda vegna þeirra verka sem í gangi hafi verið og beri fylgiskjöl það með sér. Sé því ótvírætt um að ræða rekstrarkostnað samkvæmt 31. gr. laga nr. 75/1981 sem skattyfirvöldum beri að taka til greina í stað þess að áætla einhvern launakostnað vegna erlendra starfsmanna, enda séu nákvæmar tölur til staðar ásamt rökstuðningi fyrir þeim.
IV.
Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 20. janúar 1997, ítrekar umboðsmaður kæranda áður fram komnar málsástæður sínar og röksemdir. Bendir umboðsmaður á að sú fullyrðing skattstjóra, að engin gögn séu fyrir hendi um þann útlagða kostnað sem hafnað hefur verið gjaldfærslu á, eigi ekki við rök að styðjast. Kærandi hafi haldið sérstaka sjóðsbók þar sem skilmerkilega hafi verið greint frá öllum útlögðum kostnaði vegna verklegra framkvæmda á vegum kæranda í X. Þessari sjóðsbók megi líkja við þá sjóðsbók sem leyfð væri með sérstakri undanþágu við tekjuskráningu staðgreiðslusölu, sbr. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, en með þeim ákvæðum sé löggjafinn að gera ráð fyrir því að tekið sé tillit til aðstæðna hverju sinni. Þá kröfu verði að gera til skattyfirvalda að þau geri ekki óraunhæfar kröfur til bókhaldsgagna, svo sem gerst hafi í máli þessu. Til frekari áréttingar bendir umboðsmaður á dóm Hæstaréttar Íslands frá 19. desember 1996 í málinu nr. 432/1995, H 1996:4248 og kveður Hæstarétt þar ekki hafa gert strangar kröfur til gagna sem lágu til grundvallar gjaldfærslu umdeilds frádráttarliðar í bókhaldi. Þá bendir umboðsmaður á úrskurð ríkisskattanefndar nr. 321/1979 og kveður ríkisskattanefnd þar hafa tekið til greina sérstakar aðstæður kæranda og slakað á kröfum um form bókhaldsgagna.
V.
Með bréfi, dags. 26. september 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.
VI.
Kærandi er einkahlutafélag og hefur með höndum byggingarstarfsemi. Fram er komið að frá stofnun kæranda árið 1994 hefur hann unnið að verkframkvæmdum í X og varðar ágreiningur máls þessa gjaldfærðan rekstrarkostnað í skattskilum kæranda á upphafsári rekstrar hans. Með endurákvörðun, dags. 16. júlí 1996, lækkaði skattstjóri gjaldfærðan rekstrarkostnað í rekstrarreikningi ársins 1994 um samtals 6.705.476 kr. Með kæruúrskurði, dags. 23. desember 1996, féllst skattstjóri að verulegu leyti á fram komnar skýringar kæranda en hafnaði þó frádráttarbærni útgjalda að fjárhæð 1.681.403 kr. Krafa kæranda fyrir yfirskattanefnd lýtur að því að umrædd útgjöld verði að öllu leyti viðurkennd til frádráttar tekjum sem rekstrarkostnaður í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Skattstjóri hefur að öllu leyti hafnað þeim gjaldfærslum, sem í ágreiningi standa, á þeim forsendum að kostnaðurinn hafi verið færður eftir ófullnægjandi fylgiskjölum og kærandi hafi því ekki sýnt fram á að um væri að ræða rekstrarkostnað í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Fram er og komið að til grundvallar gjaldfærslu hinna umþrættu útgjalda liggja að mestu leyti fylgiskjöl sem tilbúin voru af kæranda sjálfum, þ.e. minnisblöð starfsmanna þar sem einstök útgjöld og útgjaldatilefni hafa verið skráð. Frumgagna fyrir útlögðum kostnaði nýtur hins vegar ekki. Af hálfu kæranda hefur komið fram að við aðstæður þær í X, þar sem kærandi rak starfsemi á árinu 1994, hafi raunverulega verið ógerlegt að afla slíkra gagna fyrir útlögðum kostnaði í fjölmörgum tilvikum, svo sem umboðsmaður kæranda hefur gert ítarlega grein fyrir í bréfum til skattstjóra. Hefur umboðsmaður í því sambandi meðal annars skírskotað til bágborins efnahagsástands í X þar sem skortur sé á ýmissri nauðsynjavöru og -þjónustu. Starfsmenn kæranda hafi vegna þessa gripið til þess ráðs að skrá hverju sinni einstök útgjöld sem ekki hafi fengist reikningar eða nótur fyrir, enda ljóst að kæranda sé um megn að breyta þeim viðskiptavenjum sem í gildi séu í X. Af hálfu umboðsmanns kæranda er jafnframt komið fram að í ljósi fenginnar reynslu á árinu 1994 hafi endurbætur verið gerðar á veigamiklum þáttum bókhalds árið 1995. Þar sem erfiðast hafi reynst að fá nótur vegna ýmiss konar kostnaðar hafi verið prentaðar nótur í þríriti þar sem fram komi hvaða kostnað sé um að ræða ásamt móttökukvittun móttakanda greiðslu. Nóturnar séu á A og ensku og hafi verið notaðar á árinu 1995 þegar ekki hafi fengist reikningur fyrir útgjöldum. Ennfremur hafi verið gerð bragarbót á formi launaútreiknings og þess betur gætt að launþegar kvittuðu fyrir móttöku fjárins á umræddar nótur. Sýnishorn þessara gagna fylgdu kæru umboðsmanns til skattstjóra, dags. 10. október 1996.
Heimild til gjaldfærslu rekstrarkostnaðar er að finna í 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Samkvæmt því ákvæði er aðeins frádráttarbær sá kostnaður sem hefur gengið til að afla tekna af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, tryggja þær og halda þeim við. Það ber því undir skattaðila að sýna fram á að um kostnað sé að ræða sem draga megi frá tekjum, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar Íslands 30. janúar 1997 í málinu nr. 3/1997, ST 1997:21 og 20. febrúar 1997 í málinu nr. 163/1996, ST 1997:25. Eins og bókhaldsgögnum er háttað í tilviki kæranda þykir hann verða að gera rækilega grein fyrir útgjöldum til að viðurkenna megi þau sem frádráttarbæran rekstrarkostnað samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981.
Skal þá vikið að einstökum ágreiningsefnum málsins:
1. Síma- og faxkostnaður.
Gjaldfærður síma- og faxkostnaður sem í ágreiningi stendur er að fjárhæð 19.333 kr. og er gjaldfærður að mestu leyti á grundvelli minnisblaða. Samkvæmt skýringum umboðsmanns kæranda sem fylgdu kæru til skattstjóra, dags. 10. október 1996, er hér um að ræða kostnað vegna símtala nokkurra starfsmanna auk kostnaðar vegna kaupa á matvöru fyrir kaffistofu. Fallast verður á það með skattstjóra að skýringar umboðsmanns kæranda benda til þess að einhver hluti símakostnaðar sé persónulegur kostnaður starfsmanna kæranda. Með kæruúrskurði féllst skattstjóri á að áætla kæranda 10.000 kr. kostnað vegna umræddra útgjalda og þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á að honum beri frekari frádráttur vegna síma- og faxkostnaðar en skattstjóri hefur þegar fallist á. Er úrlausn skattstjóra um þennan kærulið staðfest.
2. Risna.
Risnuútgjöld að fjárhæð 32.659 kr. eru vegna matarkaupa. Af hálfu kæranda hefur komið fram að keyptur hafi verið matur og drykkur á markaði í tilefni af verklokum. Engin frekari gögn liggja fyrir. Að svo vöxnu verður ekki talið að kærandi hafi sýnt fram á frádráttarbærni umræddra útgjalda. Er kröfu hans um frekari gjaldfærslu en skattstjóri hefur þegar fallist á hafnað.
3. Ferðakostnaður.
Hér er ágreiningur um útgjöld að fjárhæð 307.009 kr. sem samkvæmt skýringum umboðsmanns kæranda eru margvíslegs eðlis. Einkum er um að ræða ferðir með leigubifreiðum milli flugvalla í X, greiðslur til burðarmanna á flugvöllum og greiðslur vegna yfirvigtar farangurs, en einnig greiðslu til túlks, símakostnað, matarkostnað, kostnað vegna bílaleigubíls og kostnað vegna geymslu farangurs í Kaupmannahöfn. Umræddar fjárhæðir styðjast ekki við frumgögn fyrir raunverulega útlögðum kostnaði og með hliðsjón af eðli sumra kostnaðarliða má gera ráð fyrir að um sé að ræða að einhverju marki persónuleg útgjöld starfsmanna kæranda, sem ekki teljast til rekstrarkostnaðar í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Verður kærandi ekki talinn hafa sýnt fram á frekari rétt til frádráttar samkvæmt þessum kærulið en skattstjóri hefur fallist á.
4. Rekstur bifreiða.
Skattstjóri lækkaði ofangreindan gjaldalið um 114.752 kr. með vísan til þess að fylgiskjöl að baki gjaldfærslu væru ófullnægjandi. Að sögn umboðsmanns kæranda er hér einkum á ferð eldsneytiskostnaður vegna bifreiðar kæranda en jafnframt er um að ræða kaup á eldsneyti á bifreið túlks, greiðslur til starfsmanns vegna afnota af einkabifreið hans o.fl. Svo sem fylgiskjölum að baki gjaldfærslu þessa kostnaðar er háttað þykir ekki unnt að fallast á frekari gjaldfærslu en skattstjóri hefur þegar fallist á.
5. Fæðiskostnaður og ýmiss kostnaður.
Undir gjaldaliðunum fæðiskostnaður og ýmiss kostnaður í rekstrarreikningi 1994 færði kærandi til frádráttar útgjöld að fjárhæð samtals 1.727.135 kr. Skattstjóri féllst ekki á frádráttarbærni útgjalda að fjárhæð 80.809 kr. Af gögnum málsins og skýringum umboðsmanns kæranda verður ráðið að hér sé fyrst og fremst um að ræða kaup á matvöru og kaffi. Fram er komið af hálfu umboðsmanns að kærandi hafi aðeins borið eðlilegan kaffikostnað, en ekki fæðiskostnað starfsmanna undirverktaka. Þykir skorta á fram komnar skýringar umboðsmanns kæranda um tengsl kostnaðar vegna matarkaupa við tekjuöflun hans. Þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á að honum beri frekari gjaldfærsla samkvæmt þessum kærulið en skattstjóri hefur þegar fallist á og er úrskurður skattstjóra því staðfestur um þetta atriði.
6. Efniskaup.
Með endurákvörðun, dags. 16. júlí 1996, lækkaði skattstjóri gjaldfærslu efniskaupa í rekstrarreikningi kæranda um 960.667 kr. með vísan til ófullnægjandi fylgiskjala að baki kostnaði. Að fengnum frekari skýringum umboðsmanns kæranda með kæru til skattstjóra, dags. 10. október 1996, féllst skattstjóri á frádráttarbærni útgjalda að fjárhæð 455.297 kr. sem samkvæmt skýringum umboðsmanns væru að mestu fólgin í kaupum á steypu og kranavinnu. Einungis liggja fyrir frumgögn vegna hluta umrædds kostnaðar. Gjaldfærð efniskaup sem í ágreiningi standa eru því að fjárhæð 505.370 kr. Sé tekið mið af skýringum umboðsmanns er þar að mestu um að ræða ýmiss efniskaup ásamt greiðslum til verktaka eða starfsmanna, en að einhverju leyti kaup á matvöru. Þegar litið er til þess kostnaðar sem skattstjóri hefur þegar fallist á samkvæmt þessum kærulið þrátt fyrir ófullkomin gögn að baki gjaldfærslum þykja ekki efni til breytinga á ákvörðun hans. Er úrskurður skattstjóra því staðfestur um þetta atriði.
7. Greiðslur til erlendra starfsmanna.
Gjaldfærðar greiðslur til erlendra starfsmanna kæranda í rekstrarreikningi 1994 námu samtals 1.821.471 kr. Skattstjóri hafnaði þessum færslum en áætlaði til frádráttar 1.200.000 kr. Fram er komið af hálfu umboðsmanns að vegna vankunnáttu hafi þess ekki verið gætt að afla kvittana starfsmanna fyrir móttöku launa. Fyrir liggi þó sundurliðaðar upplýsingar um hverjir hafi móttekið greiðslurnar og hve mikið. Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum verður ekki fallist á gjaldfærslu allrar umræddrar fjárhæðar en eftir atvikum þykir þó vera tilefni til að hækka áætlun skattstjóra. Þykir mega miða við 1.500.000 kr. í því sambandi.