Úrskurður yfirskattanefndar

  • Þungaskattur
  • Sönnun

Úrskurður nr. 106/1998

Þungaskattur 1996

Lög nr. 3/1987, 9. gr. 5. mgr.  

Í kröfugerð sinni fyrir yfirskattanefnd í kærumáli vegna endurákvörðunar á þungaskatti féllst ríkisskattstjóri á kröfu kæranda um niðurfellingu endurákvörðunarinnar með því að framlögð gögn styddu frásögn kæranda þess efnis að ökumælir viðkomandi ökutækis hefði verið í lagi við sölu kæranda á því í febrúar 1996.

I.

Með kæru, dags. 20. maí 1997, hefur umboðsmaður kæranda skotið ákvörðun ríkisskattstjóra á þungaskatti vegna ökutækisins X á 1. tímabili þungaskatts 1996 til yfirskattanefndar og krefst þess að ákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi en til vara að áætlunin verði lækkuð.

Málavextir eru þeir að hinn 28. febrúar 1996 var bifreiðin, sem þá hafði verið seld A hf., stöðvuð af eftirlitsmönnum ökumæla og reyndist þá ökumælir óvirkur. Var sýslumanni því send tilkynning um brot á reglum um ökumæla, sbr. 5. mgr. 9. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, eins og það ákvæði hljóðaði á þeim tíma er umrætt atvik átti sér stað, sbr. og 11. gr. reglugerðar nr. 593/1987. Á þeim grundvelli áætlaði sýslumaður samtals 56.387 km akstur fyrir tímabilið sem ökumælir bifreiðarinnar taldi ekki.

Með vísan til 3. gr. laga nr. 3/1987, sbr. 3. gr. laga nr. 68/1996, þar sem ríkisskattstjóra var falin álagning þungaskatts og önnur framkvæmd laganna, skoraði ríkisskattstjóri á kæranda með bréfi, dags. 6. mars 1997, að láta í té skýringar og gögn um akstur á tímabilinu frá 9. október 1995 til 5. febrúar 1996 sem gæti gefið vísbendingu um raunverulegan akstur ökutækisins, en samkvæmt ökutækjaskrá hefði kærandi verið eigandi bifreiðarinnar frá 8. mars 1995 til 5. febrúar 1996. Taldi ríkisskattstjóri leitt í ljós með hliðsjón af akstri bifreiðarinnar á fyrri tímabilum, sbr. álestrarskrá ökutækja, að ökumælirinn hefði bilað einhvern tíma eftir álestur þann 9. október 1995, þar sem hann hefði ekki talið nema 741 km frá þeim tíma til þess dags að ökutækið var skoðað 28. febrúar 1996. Samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 62/1977, um ökumæla, skyldi ökumaður eða umráðamaður bifreiðar fara með ökutæki til skoðunar hjá næsta eftirlitsmanni kæmi fram bilun í ökumæli eða ef líklegt þætti að mælir teldi rangt. Í 10. gr. sömu reglugerðar væri mælt fyrir um að kæmi í ljós við eftirlit eða tilkynningu frá skoðunarmanni að mælir væri eigi innsiglaður eða ekki frá honum gengið á þann hátt sem fyrir væri mælt um í reglugerð svo og ef ökutækið hefði verið í notkun án þess að mælir hefði verið virkur þá ákvarðaðist skatturinn af hlutaðeigandi innheimtumanni ríkissjóðs svo og sekt. Í 5. mgr. 9. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, eins og það hljóðaði á þeim tíma er umrætt atvik átti sér stað, varðaði það eiganda og eða umráðamann viðurlögum sem samsvaraði allt að 10.000 km akstri á mánuði væri ökumælir óvirkur, innsigli rofið eða ekki væri komið með bifreið eða vagn til álesturs á tilskildum tímum.

Með því að svar barst ekki við fyrrgreindri fyrirspurn hratt ríkisskattstjóri ákvörðun sinni í framkvæmd hinn 21. apríl 1997 og endurákvarðaði þungaskatt kæranda á 1. tímabili 1996 með 1.169.716 kr. Byggði ríkisskattstjóri á því að ljóst væri þegar litið væri til aksturs bifreiðarinnar á tímabilinu 10. apríl til 9. október 1995 þar sem eknir væru 69.875 km eða um 11.500 km á mánuði að mælirinn hefði bilað skömmu eftir álesturinn 9. október 1995. Hefði ríkisskattstjóri því ákveðið að áætla akstur ökutækisins fyrir tímabilið 9. október 1995 til 5. febrúar 1996 að teknu tilliti til þess aksturs sem átti sér stað á tímabilinu auk þess tíma sem númer voru lögð inn þar sem engin svör eða gögn um akstur hefðu borist.

Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar kemur fram að bifreiðin X hafi verið í eigu kæranda á árinu 1995 þar til hún var seld hinn 5. febrúar 1996 A hf. og hafi hún verið umskráð þann dag. Samkvæmt samningi aðila skyldi kærandi greiða áfallinn þungaskatt samkvæmt álestri 9. október 1995 og áfallinn skatt síðan. Hinn 9. febrúar 1996 hafi verið lesið af ökumæli bílsins og samkvæmt því hafi bifreiðinni verið ekið 258 km á tímabilinu. Þegar eftirlitsmenn ökumæla stöðvuðu bifreiðina með óvirkan ökumæli 28. sama mánaðar hafi mælirinn sýnt 483 km akstur frá síðasta álestri sem sýni að mælirinn hafi verið í lagi við þá skoðun en orðið óvirkur einhvern tíma á tímabilinu 9. febrúar til 28. febrúar 1996, þ.e. á þeim tíma þegar A hf. átti bifreiðina. Sé því alröng sú fullyrðing ríkisskattstjóra að ökumælir bifreiðarinnar hafi verið óvirkur á tímabilinu 9. október 1995 til 5. febrúar 1996 en málatilbúnaður hans sé að öllu leyti byggður á þeirri málsástæðu. Auk þess hafi opinberir eftirlitsmenn lesið af ökumæli bifreiðarinnar 9. febrúar 1996 og yrði að gera þá kröfu til þeirra að þeir a.m.k. athugi hvort innsigli mælisins sé órofið. Að því er varðar mikinn akstur á fyrri tímabilum ætti það sér þær skýringar að bifreiðin hafi verið notuð í vikurflutninga um sumarið og fram í september 1995, en að þeim flutningum loknum hafi ekki verið not fyrir bifreiðina og hún því staðið ónotuð þar til hún var seld.

Með bréfi, dags. 10. október 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að fallist verði á kröfu kæranda þess efnis að tekið verið tillit til aksturs skv. álestri á ökumæli sem studdur er framlögðum gögnum vegna aksturs ökutækisins X fyrir tímabilið frá 9. október 1995 til 5. febrúar 1996.

I. Samkvæmt lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með breytingum skv. lögum nr. 68/1996 kemur fram í ákvæðum til bráðabirgða í 1. mgr. kafla I. að ákvæði laganna um málsmeðferð vegna brota á lögum nr. 3/1987 gilda um brot sem framin voru fyrir gildistöku laga nr. 68/1996.

Um vantalinn akstur sem átti sér stað fyrir gildistöku laga nr. 68/1996 voru í gildi ákvæði 5. mgr. 9. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar. Samkvæmt því ákvæði var heimilt að beita „viðurlögum“ sem samsvöruðu allt að 10.000 km akstri á mánuði og var það háð mati hverju sinni. Í raun var að jafnaði beitt þeirri reglu að áætla þungaskatt miðað við meðaltalsakstur og við það bætt 10% álagi.

II. Ríkisskattstjóri sendi fyrirspurn og boðun endurákvörðunar dags. 6. mars 1997 (Boð/Þsk 63/97), þar sem fyrrum eiganda ökutækisins X var gefinn kostur á að senda inn gögn varðandi akstur á því tímabili sem ökumælir taldi svo mun minna en gert hafði mánuðina á undan (ökumælir taldi 258 km frá 9. október 1995 til 5. febrúar 1996 en hafði talið 69.875 km frá 10. apríl 1995 til 9. október 1995). Þar sem engin viðbrögð bárust hvorki símleiðis né skriflega við fyrrgreindu bréfi ríkisskattstjóra var þungaskattur endurákvarðaður fyrir tímabilið frá 9. október 1995 til 5. febrúar 1996 og er vísað til rökstuðnings í bréfi ríkisskattstjóra dags. 21. apríl 1997 (End/Þsk 64/97).

III. Ríkisskattstjóri fellst á þá kröfu kæranda að akstur X á framangreindu tímabili hafi ekki verið meiri en sem fram kemur við álestur ökumælis þann 9. febrúar 1996 eða 258 km. Framlögð gögn kæranda styðja þá kröfu hans að ökumælir ökutækisins hafi verið í lagi þegar hann seldi ökutækið til T hf. þann 5. febrúar 1996.

Af hálfu ríkisskattstjóra er fallist á að áætlaður þungaskattur fyrir ökutækið X að fjárhæð kr. 1.169.716 vegna gjaldtímabils 96-01 verði felldur niður.“

II.

Að virtum atvikum og með hliðsjón af kröfugerð ríkisskattstjóra er fallist á kröfu kæranda í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja