Úrskurður yfirskattanefndar

  • Útlagður kostnaður
  • Stjórnarstörf

Úrskurður nr. 117/1998

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul., 30. gr. 2. mgr.  

Yfirskattanefnd taldi ekki efni til að draga í efa að tilgreindar greiðslur kæranda frá samtökum nokkrum hafi átt að fela í sér endurgreiðslur á útlögðum kostnaði kæranda vegna síma og skrifstofuhalds vegna stjórnarstarfa í þágu samtakanna. Með hliðsjón af skýringum kæranda var ekki talið varhugavert að líta svo á að öll umrædd fjárhæð hefði falið í sér endurgreiðslu útlagðs kostnaðar hans í þágu samtakanna. Var því fallist á kröfu hans í málinu.

I.

Málavextir eru þeir að samkvæmt launauppgjöf frá samtökunum X fékk kærandi m.a. greiðslur að fjárhæð 26.038 kr. vegna skrifstofu- og símakostnaðar. Með bréfi, dags. 7. október 1996, óskaði skattstjóri eftir skýringum kæranda á því að þessar greiðslur hefðu ekki verið taldar fram í skattframtali árið 1996 þar sem svo virtist sem um skattskyldar tekjur væri að ræða samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í svarbréfi sínu, dags. 15. október 1996, kvað kærandi greiðslurnar tilkomnar vegna setu sinnar í stjórn X og kostnaðar sem af því leiddi. Hann hefði fengið símanúmer vegna starfsins og fylgdu bréfinu reikningar vegna þess síma samtals að fjárhæð 22.450 kr. Kvaðst kærandi ekki hafa haldið til haga öðrum reikningum. Hann teldi annan kostnað, s.s. vegna skrifstofu, nema 5–10 þús. krónum. Kærandi hélt því fram að greiðslurnar frá X væru ekki hærri en kostnaðurinn og væri tekjufærslu því mótmælt.

Í framhaldi af bréfi sínu, dags. 25. nóvember 1996, og að fengnu svarbréfi kæranda, dags. 1. desember 1996, færði skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 10. janúar 1997, umræddar greiðslur 26.038 kr. til tekna í launahlið skattframtals kæranda árið 1996 á þeim forsendum að starfstengdar greiðslur, s.s. fyrir síma og skrifstofu, teldust skattskyldar tekjur samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 og á móti þeim væri einungis heimill sá frádráttur sem sérstaklega væri getið um í III. kafla laganna, sbr. 1. mgr. 29. gr. þeirra. Þar væri ekki að finna heimild til frádráttar á móti greiðslum vegna síma- og skrifstofukostnaðar. Endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1996 í samræmi við þessa breytingu, sbr. skattbreytingaseðil, dags. 10. janúar 1997.

Af hálfu kæranda var tekjufærslu skattstjóra mótmælt með kæru, dags. 22. janúar 1997, og áréttað að greiðslurnar væru vegna stjórnarstarfa í X. Augljóslega væri ekki unnt að sinna þessum stöfum alfarið frá skrifstofum X og því væri stjórnarmönnum greitt fyrir símanotkun og skrifstofuaðstöðu. Ekki væri ágreiningur um þann kostnað. Var vísað til þess að í öðrum starfsstéttum fengju gjaldendur kostnað dreginn frá starfstengdum greiðslum, svo sem sóknarprestar. Með kæruúrskurði, dags. 21. mars 1997, synjaði skattstjóri kröfu kæranda, enda kæmu ekki fram í kærunni neinar nýjar upplýsingar eða rök sem breytt gætu fyrri ákvörðun skattstjóra.

II.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 10. apríl 1997. Er þess krafist að endurákvörðun skattstjóra, dags. 10. janúar 1997, er hann staðfesti með kæruúrskurði, dags. 21. mars 1997, verði hnekkt. Byggir umboðsmaðurinn kröfuna á því að frá umræddum greiðslum 26.038 kr. leyfist frádráttur beins kostnaðar, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Lögð er áhersla á að greiðslur þessar séu ekki kostnaður kæranda heldur stjórnunarkostnaður X sem kærandi hafi lagt út fyrir. Kærandi hefði getað látið X greiða beint til þriðja aðila þann kostnað sem starfið í þágu samtakanna hafði í för með sér. Í málinu sé ekki deilt um fjárhæðir þar sem ekki hafi á það reynt með því að sjónarmið skattstjóra sé það að engar frádráttarheimildir séu fyrir hendi. Til stuðnings kröfunni er vísað til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 495/1992. Í kærunni er að finna svofellda lýsingu á störfum kæranda í þágu X og umræddum kostnaði:

„Kærandi var kjörinn í stjórn X á Y í mars 1995. Stjórnarsetan er ábyrgðarstarf sem óhjákvæmilega hefur nokkurn kostnað í för með sér. Stjórnarmenn fá greidda þóknun fyrir stjórnarsetuna sjálfa en útlagðan kostnað bera X. Í samræmi við þetta greiða samtökin, eftir atvikum, dagpeninga, aksturspeninga, fargjöld og síma og skrifstofukostnað vegna stjórnar. Þess ber að geta að stjórnarmenn eru búsettir víða um land en stjórnarfundir eru nær undantekningarlaust í Reykjavík. Samskipti innan stjórnar og við aðra félagsmenn fara að verulegu leyti fram í síma. Þetta var kæranda ljóst þegar hann tók starfið að sér og var ástæða þess að hann útvegaði sér strax í maí 1995 sérstakt símanúmer til að nota vegna stjórnarstarfans. Þessu til staðfestingar lagði framteljandi fram afrit af símareikningum á þetta númer, þar sem m.a. kemur fram að greitt er fyrir stofngjald síma, í svari sínu til skattstjóra þann 15. október. Heildarfjárhæð umræddra reikninga er kr. 22.450. Þrátt fyrir að endurgreiðslan frá X sé aðallega hugsuð vegna símanotkunar er ætlunin einnig að greiðslan komi á móti útlögðum kostnaði vegna nauðsynlegra ritfanga, burðargjalda og faxsamskipta svo dæmi séu tekin.“

III.

Með bréfi, dags. 31. desember 1997, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Ríkisskattstjóri fellst á að kærandi hafi haft einhvern kostnað vegna síma og skrifstofuhalds vegna starfa sinna í þágu X án þess að fyrir liggi hver sá kostnaður hafi verið. Ríkisskattstjóri fellst á að yfirskattanefnd ákvarði kæranda frádrátt að álitum.“

IV.

Á launamiða X vegna launagreiðslna árið 1995 til kæranda er tekið fram í reit 29 um endurgreiðslur síma- og skrifstofukostnaðar 26.038 kr. Þegar litið er til þessa svo og skýringa kæranda þykja ekki efni til að draga í efa að hinar umdeildu greiðslur frá X hafi átt að fela í sér endurgreiðslur á útlögðum kostnaði kæranda vegna síma og skrifstofuhalds vegna stjórnarstarfa sinna í þágu samtakanna. Kemur þá til skoðunar hvort öll hin umdeilda fjárhæð feli í sér slíkar endurgreiðslur. Kærandi hefur upplýst að hann hafi útvegað sér sérstakt símanúmer gagngert til nota í starfi sínu í þágu X og hefur lagt fram ljósrit símareikninga vegna þess númers, þ.m.t. vegna stofngjalds og tengils, samtals að fjárhæð 22.450 kr. Það sem á vantar til að endurgreiðslufjárhæð sé náð kveður kærandi felast í kostnaði vegna ritfanga, burðargjalda o.fl. Með hliðsjón af þessum skýringum kæranda þykir ekki varhugavert að telja að öll umrædd fjárhæð hafi falið í sér endurgreiðslu útlagðs kostnaðar kæranda í þágu X á árinu 1995. Samkvæmt þessu er krafa kæranda tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja