Úrskurður yfirskattanefndar
- Virðisaukaskattur
- Innskattur
Úrskurður nr. 118/1998
Virðisaukaskattur 1996
Lög nr. 50/1988, 16. gr. 1. mgr., 3. mgr. 1 og 3 tölul. Reglugerð nr. 192/1993, 2. gr., 6. gr.
Deilt um rétt kæranda, sem rak útgerð fiskibáts, til innskattsfrádráttar vegna ýmissa innkaupa. Yfirskattanefnd benti á að þó að þau aðföng, sem um væri deilt, kynnu að teljast frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt færi um heimild til innskattsfrádráttar eftir lögum um virðisaukaskatt, en ákvæði þessara laga færu ekki ávallt saman. Fallist var á kröfu kæranda um innskattsfrádrátt vegna kaupa á vatnsvörðum hátölurum. Að öðru leyti var kröfum hans synjað.
I.
Með kæru, dags. 15. nóvember 1996, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar endurákvörðun skattstjóra á virðisaukaskatti kæranda uppgjörstímabilið júlí til ágúst 1996, sbr. endurákvörðun skattstjóra, dags. 28. október 1996, og kæruúrskurð, dags. 6. nóvember 1996. Með hinni kærðu endurákvörðun hækkaði skattstjóri virðisaukaskatt kæranda um 20.790 kr. vegna lækkunar innskatts. Kærandi rekur útgerð fiskibáts.
Kæruatriði málsins eru sem hér greinir:
Skattstjóri felldi niður innskattsfrádrátt af eftirgreindum reikningum á þeirri forsendu að ekki yrði séð að um hefði verið að ræða kaup á vörum sem tengdust skattskyldri starfsemi kæranda heldur virtist um að ræða persónulegan kostnað sem ekki væri heimill innskattsfrádráttur af, sbr. 1. og 3. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 1. og 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 192/1993:
1. Reikningur frá Olíufélaginu, dags. 23. ágúst 1996, að fjárhæð 2.236 kr. vegna kaupa á vinnuvettlingum. Innskattur nam 440 kr. Af hálfu kæranda hefur verið upplýst að um sé að ræða nauðsynlegan vinnufatnað fyrir þá sem vinna um borð í bát kæranda.
2. Reikningur frá Fatabúðinni, dags. 9. ágúst 1996, að upphæð 6.200 kr. vegna kaupa á sængurverasettum. Innskattur nam 1.220 kr. Af hálfu kæranda er á það bent að um sé að ræða sængurverasett vegna sænga sem eru um borð í bát kæranda, en nauðsynlegt sé að hafa sængurfatnað um borð í bátnum, þar sem algengt sé að veiðiferð taki nokkra daga.
3. Reikningur frá Te og kaffi, dags. 9. ágúst 1996, að upphæð 1.659 kr. vegna vörukaupa. Innskattur nam 326 kr. Af hálfu kæranda er upplýst að um hafi verið að ræða kaup á tekatli sérstaklega gerðum fyrir gaseldavélar, en gaseldavél sé um borð í bátnum.
4. Reikningur frá Búsáhöldum og gjafavörum, dags. í ágúst 1996, að upphæð 4.715 kr. vegna vörukaupa. Innskattur nam 928 kr. Af hálfu kæranda er upplýst að um hafi verið að ræða kaup á pottum og pönnu, sérstaklega gerðum fyrir gaseldavél.
5. Reikningur frá Byko hf., dags. 20. júlí 1996, að upphæð 2.734 kr. vegna kaupa á hnífaparabakka, hnúð og brauðrist. Innskattur nam 538 kr. Af hálfu kæranda er á það bent að vegna mistaka hafi brauðrist verið talin til búnaðar bátsins en svo sé ekki. Annað á þessum reikningi teljist hins vegar til búnaðar bátsins.
6. Reikningur frá Radíóbæ, dags. 19. júlí 1996, að upphæð 65.615 kr. vegna kaupa á hátölurum, sjónvarpsloftneti og geislaspilara. Innskattur nam 16.076 kr. Af hálfu kæranda er á það bent að m.a. sé um að ræða vatnsvarða hátalara sem vísa út á dekk bátsins til að hægt sé að heyra í útvarpi og hljómflutningstækjum ásamt talstöð. Er á það bent að hátalararnir þjóni einnig því hlutverki að vera öryggistæki um borð en að öðru leyti sé hér um að ræða búnað sem almennt séu um borð í bátum.
7. Reikningur frá Gripið og greitt, dags. 9. ágúst 1996, að upphæð 27.441 kr. vegna kaupa á ýmsum vörum, m.a. hreinlætisvörum, búsáhöldum, sæng og kodda. Samkvæmt reikningi nam innskattur 5.295 kr. en skattstjóri lækkaði innskatt um 3.584 kr. Af hálfu kæranda er á það bent að um sé að ræða nauðsynlegan búnað um borð í bátnum.
Við framangreinda endurákvörðun tók skattstjóri tillit til vanreiknaðs innskatts að fjárhæð 3.765 kr. vegna reiknings frá DNG, dags. 31. júlí 1996.
II.
Í kæru til yfirskattanefndar er gerð sú krafa af hálfu kæranda að ákvörðun skattstjóra verði felld úr gildi og að kostnaður samkvæmt framangreindum reikningum verði samþykktur sem rekstrarkostnaður og innskattur kæranda hækkaður um 21.320 kr. Fram kemur í kærunni að umræddur bátur kæranda sé nýsmíði af gerðinni X og að hann sé útbúinn öllum nýjustu tækjum og búnaði. Allur búnaður sem keyptur hafi verið til bátsins sé óhjákvæmilega hluti af rekstrarkostnaði kæranda og því eigi kærandi rétt á innskattsfrádrætti vegna þeirra, með örfáum undantekningum þó. Bendir umboðsmaður kæranda á að meðal búnaðar í bátnum sé tölva með forritum, svo sem sjókortum og staðsetningarkortum. Einnig sé í tölvunni sjónvarpskort þannig að hægt er að horfa á sjónvarp en til þess þurfi loftnet sem kærandi hafi keypt. Er á það bent að ekki sé óeðlilegt að þeir sem fjárfesta í nýjum búnaði nýti sér nýjustu tæki sem í boði eru, hvort sem um er að ræða öryggistæki eða afþreyingarbúnað, í þessu tilfelli sjónvarp og tengdan búnað. Sama megi segja um svefnaðstöðu sem útbúin er í slíkum bátum sem sé til fyrirmyndar. Eðlilegt sé að slíkur búnaður sé keyptur og því sé hann eðlilegur hluti af rekstri bátsins. Í kærunni er því mótmælt sérstaklega að skattstjóri hafi ekki rökstutt framangreinda ákvörðun sína heldur byggi á því að um persónulegan kostnað hafi verið að ræða án þess að rökstyðja það á neinn hátt.
Með bréfi, dags. 21. febrúar 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Í 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, segir að til innskatts á hverju uppgjörstímabili skuli telja virðisaukaskatt af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum sem eingöngu varða sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Í athugasemdum í greinargerð við 16. gr. laga um virðisaukaskatt kemur fram að með ákvæðinu sé því slegið föstu að til innskatts megi aðeins telja virðisaukaskatt af innkaupum o.s.frv. sem eingöngu varðar sölu (veltu) skattskyldrar vöru eða þjónustu.
Telja verður kaup á vinnuvettlingum, koddum og sængum og sængurverasettum teljist til hlunninda eiganda eða starfsmanna skv. 3. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988. Sama er einnig að segja um kaup á sjónvarpsloftneti, öflugum og vönduðum hátölurum og geislaspilara. Hér er um að ræða kaup á búnaði sem er langt umfram það sem tíðkast í sambærilegum bátum. Ekki er því hægt að fallast á þá kröfu kæranda um að reiknaður verði innskattur af fyrrnefndum kaupum.
Þessu til stuðnings má einnig vísa í bréf ríkisskattstjóra nr. 747/1996, dags. 9. ágúst 1996. Í því bréfi var spurt hvort útgerðum væri heimilt að telja virðisaukaskatt til innskatts af kaupum á útvörpum, sjónvörpum og líkamsræktartækjum til afnota fyrir skipverja. Ríkisskattstjóri hafnaði því með vísan til þess að óheimilt væri að telja til innskatts virðisaukaskatt af innkaupum er varða hlunnindi til eiganda eða starfsmanna, sbr. 3. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988. Það er því álit ríkisskattstjóra að slík innkaup komi ekki til greina við uppgjör innskatts.
Í 1. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988 kemur fram að óheimilt er að telja til innskatts aðföng er varða kaffistofu og mötuneyti skattaðila og hvers konar fæðiskaup hans. Samkvæmt þessu er óheimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af þeim aðföngum sem eru keypt til nota í þessum tilgangi.
Hins vegar þykir rétt að fallast á kröfu kæranda að hluta vegna kaupa kæranda hjá Selt og sent/Gripið og greitt, dags. 9. ágúst 1996, þar sem líklegt þykir að þessi aðföng séu til nota fyrir rekstur kæranda. Fallist er á kaup á gluggahreinsiefni (161 + 149 kr.), gluggaklútum (337 + 674 kr.), ruslapokum (194 + 372 kr.), möppu (169 kr.), perum (57 kr.), gatara (250 kr.), heftara (122 kr.), penna (198 kr.), stílabókum og vasabók (114 + 46 + 286 kr.). Heildarfjárhæð þessara rekstrarinnkaupa er 3.129 kr. Þar af er innskattur 616 kr. Ekki er hægt að fallast á frekari innkaup vegna þessa reiknings án frekari skýringa. Öðrum varningi af reikningi þessum er því hafnað með vísun til 1. og 3. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988.
Af hálfu ríkisskattstjóra er fallist á hækkun innskatts um 616 kr. vegna virðisaukaskattstímabilsins júlí–ágúst 1996. Að öðru leyti er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans og framanritaðra athugasemda.“
III.
Vegna athugasemda kæranda um að skattstjóri hafi ekki rökstutt þær ákvarðanir sínar sem um er deilt í máli þessu skal á það bent að skattstjóri vísaði til viðeigandi laga- og reglugerðarákvæða ákvörðun sinni til stuðnings. Er því ekki unnt að telja að skort hafi á rökstuðning skattstjóra, enda kveða nefnd ákvæði skýrt á um að óheimilt sé að telja til innskatts virðisaukaskatt af þar greindum aðföngum. Þá ber til þess að líta að umræddir reikningar lágu fyrir skattstjóra ásamt framkomnum skýringum kæranda. Jafnframt þykir mega taka fram að þó þau aðföng sem um er rætt í máli þessu kunni að teljast frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, fer um heimild til innskattsfrádráttar eftir lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, en ákvæði þeirra laga fara ekki ávallt saman.
Skilja verður kröfugerð kæranda fyrir yfirskattanefnd á þann hátt að kærandi fallist á lækkun innskattsfrádráttar kæranda vegna reikninga frá Víkurbarðanum og Vélsmiðju Árna Jónssonar.
Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, telst til innskatts á hverju uppgjörstímabili virðisaukaskattur af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum sem eingöngu varða sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar er fjármálaráðherra heimilað að setja reglur um að til innskatts megi telja ákveðinn hluta af virðisaukaskatti innkaupa sem ekki varða eingöngu sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Reglur um þetta efni er nú að finna í reglugerð nr. 192/1993, um innskatt, en í 2. gr. reglugerðarinnar eru ákvæði um af hvaða aðföngum innskattsfrádráttur er ekki heimill. Í 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988 er að finna upptalningu á þeim aðföngum sem ekki er heimilt að færa innskatt af. Í 1. tölul. málsgreinarinnar er mælt fyrir um að óheimilt er að telja til innskatts virðisaukaskatt vegna aðfanga til kaffistofu eða mötuneytis skattaðila, sbr. einnig 1. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 192/1993. Undir framangreind ákvæði falla m.a. tæki og áhöld sem notuð eru í kaffistofum og mötuneytum, svo og hvers kyns fæðiskaup skattaðila. Með vísan til þessara ákvæða ber að hafna innskattsfrádrætti kæranda vegna reikninga frá Te og Kaffi, Búsáhöldum og gjafavörum og Byko hf., en um var að ræða kaup kæranda á vörum til nota í framangreindum tilgangi. Í 3. tölul. 3. mgr. laganna, sbr. 3. tölul. 2. gr. reglugerðarinnar, eru ákvæði um ekki sé heimilt telja til innskatts virðisaukaskatt af hlunnindum til eigenda eða starfsmanna. Ber því að hafna kröfu kæranda um að honum verði heimilað að telja til innskatts virðisaukaskatt af reikningum frá Olíufélaginu, Fatabúðinni og Radíóbæ vegna kaupa á vinnuvettlingum og sængurfatnaði þar sem umrædd kaup teljist til hlunninda eigenda og starfsfólks í skilningi framangreindra ákvæða. Hvað varðar reikning frá Gripið og greitt skal á það bent að um var að ræða kaup á ýmsum smávörum en mikill hluti þeirra er þess eðlis að þær falla undir framangreint ákvæði 1. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988. Í kröfugerð ríkisskattstjóra er fallist á að hluti af þeim vörum sem um getur á reikningi frá Gripið og greitt teljist innskattshæfur og er á þá niðurstöðu ríkisskattstjóra fallist, en ekki verður talið að kæranda sé heimill meiri innskattur en ríkisskattstjóri hefur fallist á. Varðandi kröfu um innskatt samkvæmt reikningi frá Radíóbæ hf., dags. 19. júlí 1996, verður að telja að kaup kæranda á sjónvarpsloftneti, bílageislaspilara og hátölurum tengist ekki virðisaukaskattsskyldri starfsemi kæranda, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 6. gr. reglugerðar 192/1993, um innskatt, heldur séu vegna einkanota kæranda. Hins vegar þykir mega fallast á innskatt vegna kaupa kæranda á vatnsvörðum hátölurum. Innskattur kæranda hækkar því um 1.680 kr.