Úrskurður yfirskattanefndar

  • Frádráttur á móti ökutækjastyrk
  • Skattmat ríkisskattstjóra
  • Tryggingabætur
  • Beinn kostnaður

Úrskurður nr. 126/1998

Gjaldár 1993, 1995 og 1996

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 2. tölul., 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tölul., 30. gr. 2. mgr.   Skattmat fyrir tekjuárið 1994   Skattmat fyrir tekjuárið 1995  

Kærandi var hjúkrunarfræðingur sem starfaði við heimahjúkrun. Gögn til staðfestingar frádrætti kostnaðar á móti ökutækjastyrk kæranda voru talin ófullnægjandi. Í samræmi við kröfugerð ríkisskattstjóra var fallist á að miða áætlun frádráttarins við akstur sem næmi sex km vegna hverrar vitjunar kæranda. Í öðru lagi var deilt frádrátt vegna sjúkradagpeninga sem kærandi fékk greidda frá tryggingafélagi vegna slyss er hún varð fyrir. Kærandi krafðist þess að greitt iðgjald vegna slysatryggingar kæmi til frádráttar tekjufærslu sjúkradagpeninga. Þeirri kröfu var synjað.

I.

Kærðar eru þær breytingar skattstjóra samkvæmt endurákvörðun hans, dags. 28. júlí 1997, annarsvegar að lækka frádrátt vegna kostnaðar á móti ökutækjastyrk í skattframtölum kæranda árin 1995 og 1996 og hins vegar að ákvarða kæranda viðbótartekjur vegna greiðslna frá tryggingafélagi í skattframtölum 1993 og 1996.

Málavextir eru þeir að kærandi, sem er hjúkrunarfræðingur og starfar við heimahjúkrun, tilgreindi 832.274 kr. í ökutækjastyrk í reit 22 á skattframtali 1995 og 789.627 kr. á skattframtali 1996. Til frádráttar í reitum 32 færði hún 756.221 kr. á skattframtali 1995 og 731.086 kr. á skattframtali 1996. Með skattframtölunum fylgdu ökutækjaskýrslur (RSK 3.04) þar sem kærandi tilgreindi 25.232 km akstur í þágu launagreiðanda árið 1994 og 23.544 km árið 1995. Hvorki gerði kærandi grein fyrir heildarakstri viðkomandi bifreiðar né akstri milli heimilis og vinnustaðar og öðrum akstri í eigin þágu.

Með bréfi, dags. 21. janúar 1997, krafði skattstjóri kæranda um akstursdagbækur til staðfestingar hinum tilgreinda frádrætti vegna ökutækjastyrksins og öll gögn til staðfestingar sundurliðun rekstrarkostnaðar bifreiðarinnar, eins og hann var tilgreindur í ökutækjaskýrslunum en auk þess að kærandi gerði grein fyrir heildarakstri fyrir viðkomandi ár ásamt skiptingu á akstri til og frá vinnu og öðrum akstri í eigin þágu. Jafnframt boðaði skattstjóri kæranda meðal annars tekjuviðbót að fjárhæð 70.000 kr. í skattframtali 1993 og 44.439 kr. í skattframtali 1996 vegna dagpeninga sem kærandi hefði fengið greidda frá X hf. á árunum 1992 og 1995. Kvað skattstjóri kæranda ekki hafa tilgreint þessar fjárhæðir á skattframtölum fyrir þessi ár. Hvers kyns skaðabætur og vátryggingarfé vegna sjúkdóms, slysa, atvinnutaps eða launamissis og hvers konar aðrar skaðabætur og vátryggingarbætur væru skattskyldar samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. þó 2. tölul. 28. gr. sömu laga.

Með bréfi, dags. 7. febrúar 1997, lagði umboðsmaður kæranda fram ljósrit af umbeðnum akstursdagbókum fyrir árin 1994 og 1995. Að því er varðaði gögn til staðfestingar sundurliðun rekstrarkostnaðar bifreiðarinnar fyrir viðkomandi ár kvað umboðsmaðurinn yngri son kæranda hafa komist í gögnin „… og svo sem oft er háttur ungra barna reif hann og tætti pappírinn þannig að það sem eftir var var ólæsilegt og algjörlega ónothæft sem bókhaldsgögn og var þess vegna hent“. Lét umboðsmaðurinn fylgja útreikning Félags íslenskra bifreiðaeigenda á rekstrarkostnaði bifreiða fyrir árin 1994 og 1995 og benti á að samkvæmt þeim útreikningi væri rekstrarkostnaður fyrir bifreið í 1.300.000 kr. verðflokki miðað við 30.000 km akstur 650.106 kr. árið 1994 og 657.357 kr. árið 1995. Þá gerði umboðsmaðurinn grein fyrir akstri milli heimilis og vinnustaðar með útreikningi sem nam 540 km á ári. Kvað hann kæranda hafa tamið sér þann lífsmáta að fara nánast allra sinna ferða utan vinnu gangandi eða á reiðhjóli. Frávik frá því væru eingöngu ef ekki væri göngu- eða hjólafæri vegna slæms veðurs eða færðar eða ef vegalengdir væru þeim mun meiri, þá notaði kærandi almenningsvagna. Annar akstur í eigin þágu væri því óverulegur. Að því er varðaði greiðslur vegna slysadagpeninga vitnaði umboðsmaðurinn til 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og fór fram á að iðgjöld vegna slysatrygginga 17.334 kr. árið 1992 og 16.843 kr. árið 1995 kæmu til lækkunar tekjufærslu þeirra. Kvað hann kæranda hafa í báðum slysatilvikunum fallið og slasast í vinnu þannig að hún hafi nánast orðið ófær um gang og af þeim sökum hafi hún meðal annars þurft að senda syni sína í skóla með leigubifreið. Bætur tryggingafélagsins hafi ekki gert meira en að standa undir þeim aukaútgjöldum sem hún hafi orðið fyrir vegna slysanna. Þar sem hún hafi verið í þeirri trú að bæturnar væru ekki skattskyldar hafi hún ekki haldið til haga gögnum vegna þess kostnaðar sem hún hafi orðið fyrir. Með bréfinu fylgdi staðfesting tryggingafélagsins um greiðslur kæranda vegna slysaiðgjalda fyrir viðkomandi ár.

Með bréfi, dags. 24. febrúar 1997, boðaði skattstjóri kæranda lækkun hins tilgreinda frádráttar á móti ökutækjastyrk í skattframtölum kæranda árin 1995 og 1996. Kvað hann koma fram í akstursdagbókunum að kærandi sinnti heimahjúkrun víðs vegar um borgina, en aðallega afmarkaðist aksturinn af svæðinu … og virtust ferðir utan þess svæðis frekar heyra til undantekninga. Fjöldi viðkomustaða á dag væru fjórir til tíu og mætti þannig ætla að þeir væru að meðaltali sjö. Skattstjóri kvað það ekki fá staðist að kærandi reiknaði átta km akstur fyrir hverja ferð og tók sem dæmi af handahófi eina síðu akstursdagbókar. Var um að ræða akstur 24. febrúar 1994 en þá hafði kærandi ekið á eftirtalda staði: … Samkvæmt akstursdagbókinni hefði kærandi því ekið þann dag á níu staði og samtals 72 km. Kvað skattstjóri útilokað að þessi kílómetrafjöldi gæti staðist miðað við að kærandi hafi ekið frá Y að hverjum vinnustað miðað við eðlilega akstursleið. Þá vefengdi skattstjóri jafnframt skýringar kæranda um afdrif gagna til staðfestingar sundurliðun rekstrarkostnaðar bifreiðar kæranda.

Hinn 9. mars 1997 óskaði umboðsmaður kæranda eftir fresti til loka þess mánaðar til að koma að mótmælum og eftir atvikum skýringum við boðuðum breytingum skattstjóra.

Með bréfi, dags. 28. júlí 1997, tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði hrundið boðuðum breytingum í framkvæmd og endurákvarðað opinber gjöld kæranda gjaldárin 1993, 1995 og 1996. Varðandi vantalda dagpeninga vegna slysa kvað skattstjóri heimilt samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að draga frá tekjum sem féllu til utan atvinnurekstrar, öðrum en tekjum samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. sömu laga, beinan kostnað við öflun þeirra, þó með tilteknum takmörkunum. Eðli sínu samkvæmt væru slysadagpeningar ætlaðir hinum tryggða til framfærslu þann tíma sem tímabundin örorka hans varaði í kjölfar slyss og væri þeim sem slíkum ætlað að koma í stað launa sem hinn tryggði yrði af. Væri því ekki til staðar frádráttarheimild vegna ráðstöfunar dagpeninga, hvorki á grundvelli nefndrar 2. mgr. 30. gr. né annarra ákvæða nefndra laga. Að því er varðar frádrátt vegna ökutækjastyrks kvað skattstjóri heimahjúkrun kæranda afmarkast af svæðinu … Ferðir utan þess svæðis heyrðu til undantekninga. Samkvæmt ökutækjaskýrslu hefði kærandi ekið árið 1994 samtals 25.232 km í þágu launagreiðanda. Ef miðað væri við 200 vinnudaga á ári samsvaraði aksturinn að meðaltali 126,2 km á dag. Kvað skattstjóri framlögð gögn kæranda um akstur í þágu launagreiðanda ekki fá staðist og væri því ekki hægt að byggja frádrátt á móti ökutækjastyrk á framlögðum akstursdagbókum. Í ljósi þess að kærandi hefði ekki lagt fram gögn til staðfestingar rekstrarkostnaði viðkomandi bifreiðar, kvaðst skattstjóri fella niður hinn tilgreinda frádrátt á skattframtölum kæranda 1995 og 1996. Kvaðst skattstjóri áætla kæranda frádrátt miðað við þær forsendur að meðalfjöldi vitjana virtist vera tíu á dag og með hliðsjón af því og stærð þess svæðis sem kærandi hefði umsjón með kvað skattstjóri hæfilegt að áætla akstur kæranda í þágu launagreiðanda með 40 km á dag í 200 vinnudaga eða 8.000 km miðað við aksturskostnað á hvern ekinn kílómetra samkvæmt innsendum ökutækjaskýrslum eða 29,97 kr. árið 1994 og 31,05 kr. árið 1995. Samkvæmt því nam áætlaður frádráttur kostnaðar á móti ökutækjastyrk 239.760 kr. í skattframtali 1995 og 248.400 kr. í skattframtali 1996.

II.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var endurákvörðun skattstjóra kærð til yfirskattanefndar með kæru, dags. 25. ágúst 1997, og hinn 26. ágúst 1997 barst yfirskattanefnd greinargerð kæranda, dags. sama dag.

Frádráttur vegna kostnaðar á móti ökutækjastyrk.

Í greinargerð kæranda er greint nánar frá ástæðum þess að gögn vegna rekstrarkostnaðar eyðilögðust og áréttaðar skýringar um akstur milli heimilis og vinnustaðar og lítinn annan akstur í eigin þágu. Kveður kærandi kröfu um akstur vegna starfsins vera forsendu fyrir því að hún eigi bifreið og hafi hún í einu og öllu farið eftir fyrirmælum yfirmanna um skráningu á akstri í akstursdagbækurnar og vitnar meðal annars í bréf frá Fjármálaráðuneytinu því til staðfestingar auk þess sem þar komi fram að greiðslur vegna ökutækjastyrks séu áætlaðar og ákvarðaðar sem greiðslur vegna kostnaðar starfsmanna heimahjúkrunar vegna aksturs í þágu launagreiðanda en ekki á neinn hátt sem launagreiðslur. Með greinargerðinni fylgir ljósrit af bréfi Fjármálaráðuneytisins ásamt ýmsum öðrum gögnum. Kveður kærandi skattstjóra hafa sérstaklega vefengt eldsneytiseyðslu bifreiðarinnar og hafi kærandi af þeim sökum hafið mánaðarleg reikningsviðskipti við Skeljung hf. til þess að hafa yfirlit yfir eldsneytiskostnað við höndina hvenær sem á þyrfti að halda. Fylgir með kærunni yfirlit frá Skeljungi hf. yfir mánaðarlega reikninga, dags. 28. febrúar 1997 til 31. júlí 1997, samtals 112.741 kr. Vísar kærandi til yfirlitsins og telur með hliðsjón af því að reikna megi ársnotkun eldsneytis árið 1997 225.482 kr. sem bendi til þess að tilgreindur eldsneytiskostnaður árin 1994 og 1995 hafi ekki verið fjarri sannleikanum, en akstur árið 1997 sé ívið minni en hin fyrri ár. Jafnframt kveður kærandi ekki óalgengt að starfsmenn heimahjúkrunar fari í 12 til 16 vitjanir á dag. Á kvöldin og um helgar sé starfssvæði þeirra miklu víðfeðmara eða öll borgin. Eldsneytiseyðsla bifreiðar kæranda sé óeðlilega mikil eða ekki undir 14 lítrum á 100 km þrátt fyrir ítrekaðar vélarstillingar en um sé að ræða sjálfskipta bifreið með hvarfakút og líta verði til þess að bifreiðin sé óvenju oft gangsett í misjöfnu veðri og færð vegna eðlis starfsins. Jafnframt bendir kærandi á að þótt skattstjóri hafi vefengt sundurliðun rekstrarkostnaðarins þá sé fastur rekstrarkostnaður ávallt hinn sami, svo sem föst afskrift, tryggingar og bifreiðagjöld. Þá mótmælir kærandi áætlun skattstjóra á akstri í þágu launagreiðanda. Samkvæmt launamiðum hafi hún fengið greitt fyrir 25.232 km árið 1994 og 23.544 km árið 1995 sem miðað við átta km fyrir hverja ferð séu 3.154 vitjanir árið 1994 og 2.943 vitjanir árið 1995. Kærandi hafi unnið 216 daga á árinu 1994 og 202 daga árið 1995 en ekki 200 daga eins og skattstjóri hafi miðað við. Jafnvel þótt miðað væri við fjögurra km akstur í hverri ferð en ekki átta km jafngildi aksturinn 12.614 km árið 1994 og 11.772 km árið 1995. Þá hafi skattstjóri miðað við rekstrarkostnað á hvern ekinn kílómetra samkvæmt ökutækjaskýrslum sem hann hafi þó hafnað í stað þess að miða við rekstrarkostnað samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra. Rakið er í kærunni fyrirkomulag akstursgreiðslna sem breyttist að nokkru leyti er ríkið yfirtók rekstur heilsugæslustöðva af sveitarfélögum, meðal annars að greitt hafi verið fyrir sjö km akstursvegalengd fyrir hverja ferð sem nokkru eftir yfirtöku hafi verið hækkað í átta km þar sem kílómetragjald sem greitt var af borginni hafi verið töluvert hærra en það sem greitt var af ríkinu. Þá finnur kærandi að því að ekki skuli vera meira samræmi í aðgerðum ríkisstofnana. Fram komi af hálfu launagreiðanda kæranda, Fjármálaráðuneytisins, að hagkvæmasti kosturinn við rekstur heilsugæslunnar sé sá að starfsmenn við heimahjúkrun noti eigin bifreiðar við störf sín. Það sé staðfest af launagreiðanda að eingöngu sé verið að greiða kostnað við akstur starfsmanna heimahjúkrunar en ekki laun. Önnur ríkisstofnun, skattstjóri, viðurkenni ekki samning sem gerður sé um slíkan akstur og kveður að greiða beri skatt af akstri umfram fjóra km í hverri ferð. Þá er því jafnframt mótmælt að einungis hluta þeirra starfsmanna er starfi við heilsugæslu sé gert að greiða viðbótarskatta vegna akstursgreiðslna á meðan ekki sé hróflað við öðrum.

Dagpeningar vegna slysa.

Kærandi gerir kröfu um að iðgjöld vegna slysatryggingar fyrir viðkomandi ár komi til frádráttar tekjuviðbót skattstjóra og áréttar áður framkomnar röksemdir.

III.

Með bréfi, dags. 24. október 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„ Frádráttur á móti ökutækjastyrk.

Í kæruúrskurði sínum færir skattstjóri rök fyrir því að fella verði niður frádrátt á móti skattskyldum ökutækjastyrk eins og kærandi hefur gert grein fyrir honum á skattframtölum gjaldárin 1995 og 1996. Í þeim efnum leggur skattstjóri áherslu á að ekki verði byggt á framlögðum akstursdagbókum.

Í kæru til yfirskattanefndar gerir kærandi athugasemd við það að skattstjóri hafi kallað eftir gögnum til sönnunar rekstrarkostnaði bifreiðar og hafi svo í ljósi þess að þessi gögn voru ekki lögð fram, fellt niður frádrátt á móti skattskyldum ökutækjastyrk, en hafi samt sem áður notað kostnaðinn eins og hann var tilgreindur af kæranda í áætlunum sínum. Þetta telur kærandi ekki standast hjá skattstjóra og vill að miðað verði við hámarksfjárhæð kostnaðar pr. km samkvæmt skattmati ríkisskattstjóra.

Kærandi hefur gefið skýringu á því hvers vegna ekki er unnt að leggja fram gögn til sönnunar á tilfærðum kostnaði. Hefur skattstjóri því í raun fallist á að rekstrarkostnaður bifreiðar kæranda hafi verið sá sem kærandi hefur sjálfur talið vera, sbr. RSK 3.04. Því fær ekki staðist krafa kæranda fyrir yfirskattanefnd að kostnaður pr. km verði sá sami og hámark heimilaðs frádráttar vegna hvers kílómetra samkvæmt skattmati ríkisskattstjóra. Með þessu er kærandi í raun að segja að upplýsingar þær sem fram koma á RSK 3.04 séu ekki réttar. Í greinargerð sinni til yfirskattanefndar færir kærandi hins vegar rök fyrir því að það sem tilgreint er á RSK 3.04 séu réttar upplýsingar varðandi kostnað.

Ríkisskattstjóri fellst á það með kæranda að forsendur skattstjóra varðandi fjölda vinnudaga umrædd ár eru ekki í samræmi við framlögð gögn. Á árinu 1994 fékk kærandi greitt fyrir 25.232 km akstur í þágu launagreiðanda. Þar sem hver ferð er reiknuð sem átta km þá munu þetta hafa verið 3.154 ferðir á árinu 1994. Framlögð gögn sína að vinnudagar voru 216 og því munu ferðir hafa verið 14,6 að meðaltali hvern dag. Á sama máta má sjá af framlögðum gögnum að ferðir á árinu 1995 voru 2.943 og 14,57 að meðaltali á dag.

Af fyrirliggjandi akstursbókum má ráða að vinnusvæði kæranda afmarkist eins og skattstjóri lýsir því í kæruúrskurði, þ.e. af A-götu í austri, B-götu í norðri, C-götu í vestri og D-götu í suðri. Með hliðsjón af þessu vinnusvæði og upplýsingum úr akstursdagbókum ályktaði skattstjóri að hver ferð hafi ekki náð þeim átta km sem greitt er fyrir. Kærandi bendir hins vegar á að á kvöld og helgarvöktum þurfi hann að sinna heimahjúkrun í öðrum hverfum borgarinnar og þá sé akstur meiri en á venjulegum vöktum. Ríkisskattstjóri fær þó ekki séð af könnun sinni á dagbókum og akstursdagbókum kæranda nema það eigi aðeins við um hluta helgarvakta kæranda umrædd ár. Mjög margar helgar virðist vinnusvæðið hafa verið það sama og á venjulegum vöktum. Þá vill ríkisskattstjóri benda á að af færslum í akstursdagbók kæranda verður ekki annað ráðið en að sá háttur sé viðhafður að fara á milli heimila án þess að hafa viðkomu á Y. Þetta sést m.a. af því hvernig ferðir á Y í mat eru sérstaklega merktar. Af framlögðum gögnum, varðandi áætlaðan akstur, m.a. frá Vélamiðstöð Reykjavíkur og Fjármálaráðuneyti, verður ekki annað ráðið en gert hafi verið ráð fyrir akstri til sjúklings og aftur á Y. Í leiðbeiningum Vélamiðstöðvar Reykjavíkur varðandi greiðslufyrirkomulagið kemur m.a. fram að greiða skuli fyrir fjölda vitjana, en þó aldrei nema fyrir eina vitjun þegar fleiri en ein vitjun er í sama húsi. Ekkert liggur fyrir í málinu um að breyting hafi orðið á þessu þegar starfsemin færðist frá Reykjavíkurborg til ríkisins. Fljótlega eftir þá tilfærslu varð hins vegar sú breyting að greiðsla fyrir hverja ferð var hækkuð úr sjö km í átta km. Eins og glögglega kemur fram í rökstuðningi kæranda sjálfs var sú breyting ekki grundvölluð á nýjum eða endurskoðuðum akstursmælingum, heldur var þar einfaldlega verið að gera starfsmenn jafnsetta og meðan þeir fengu greiðslur frá Reykjavíkurborg, þar sem kílómetragjaldið var hærra hjá borginni en ríkinu.

Það heyrir undir kæranda að leggja fram fullnægjandi gögn um akstur hans á vegum launagreiðanda. Sýnt hefur verið fram á að færslur í akstursdagbók kæranda voru ófullnægjandi árunum 1994 og 1995. Þá þykir einnig ljóst að akstur vegna hverrar ferðar hefur ekki verið sá sem hinn staðlaði samningur við Fjármálaráðuneytið gengur út frá, og þá aðallega vegna þess að fulljóst þykir að sá samningur gangi út frá því að hver ferð sé frá Y til sjúklings og aftur til baka. Raunverulegt akstursfyrirkomulag kæranda mun hins vegar hafa verið allt annað, þ.e. oft er farið til margra sjúklinga áður farið er til baka á Y.

Ríkisskattstjóri telur að kærandi hafi í raun ekki lagt fyrir yfirskattanefnd nein gögn sem byggja má á þannig að komast megi að því hver raunverulegur akstur í þágu launagreiðanda var umrædd ár. Því verði ekki komist hjá því að áætla þann akstur. Skattstjóri áætlar aksturinn sem fjóra km í hverri ferð. Fallast má á það með kæranda, sérstaklega þegar haft er í huga fyrirliggjandi samningar um greiðslur, sem byggja munu á eldri akstursmælingum, að í þessari áætlun skattstjóra komi fram ákveðið vanmat á akstrinum. Ríkisskattstjóri telur hins vegar að framlögð gögn sýni að akstur kæranda nái að meðaltali ekki þeirri vegalengd sem framangreindir samningar gera ráð fyrir, hvorki núverandi samningur við Fjármálaráðuneytið né eldri samningur við Reykjavíkurborg. Hins vegar þykir mega fallast á að akstur fyrir hverja ferð verði miðaður við sex km.

Ríkisskattstjóri telur því að varðandi skattframtal 1995 beri að leggja til grundvallar 3.154 ferð x 6 km pr. ferð, þ.e. 18.924 km. Kostnaður pr. kílómetra skv. RSK 3.04 kæranda var kr. 29,97 og því verður heildarfrádráttur kr. 567.152. Varðandi skattframtal 1996 ber að leggja til grundvallar 2.943 ferðir x 6 km pr. ferð, þ.e. 17.658 km. Kostnaður pr. kílómetra skv. RSK 3.04 kæranda var kr. 31,05 og því verður heildarfrádráttur kr. 548.280.

Sjúkradagpeningar

Gerð er krafa um að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

IV.

Um frádrátt vegna kostnaðar á móti ökutækjastyrk.

Samkvæmt 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, er frádráttur kostnaðar á móti ökutækjastyrk heimill að þargreindum skilyrðum uppfylltum, þar á meðal því að slík útgjöld séu sönnuð og í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra. Samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra fyrir tekjuárin 1994 og 1995, sbr. auglýsingu í 4. tbl. Lögbirtingablaðsins 1995 og auglýsingu nr. 26/1996, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 1996, þarf framteljandi að hafa fært akstursdagbók eða akstursskýrslu, þar sem meðal annars sé skráð hver ferð í þágu launagreiðanda, vegalengd og aksturserindi fyrir viðkomandi tímabil, sbr. reglugerð nr. 490 frá 28. desember 1992. Skal færa þessi gögn reglulega og skulu þau vera aðgengileg skattyfirvöldum þegar þau óska þess. Þá telst ökutækjakostnaður því aðeins sannaður að meðal annars sé gerð grein fyrir kostnaði við rekstur ökutækisins. Hafi framteljandi fengið greiðslu fyrir afnot af eigin bifreið í þágu launagreiðanda síns á árunum 1994 og 1995, þannig að um hafi verið að ræða endurgreiðslu á kostnaði við rekstur hennar, og sá akstur verið 2.000 km eða minni þá er samkvæmt matsreglunum fallið frá kröfu um sannanlegan ökutækjakostnað. Þetta er þó bundið þeim skilyrðum að framteljandi hafi fært akstursdagbók eða akstursskýrslu, sbr. það sem áður er getið. Taka ber undir það með skattstjóra að skráðar akstursvegalengdir fyrir hverja ferð fá ekki staðist og að skráning þeirra er ekki í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra, sbr. og nefnda reglugerð nr. 490/1992. Þá er jafnframt ljóst að tilgreindur aksturskostnaður á hvern ekinn kílómetra samkvæmt ökutækjaskýrslu fær ekki staðist þar sem einungis eru lagðir til grundvallar þeir kílómetrar sem eknir voru í þágu launagreiðanda en hvorki tekið tillit til ekinna kílómetra milli heimilis og vinnustaðar og annars persónulegs aksturs og þykir það með ólíkindum að sá akstur hafi enginn verið árin 1994 og 1995 þegar litið er til fjölskylduaðstæðna kæranda, frídaga og orlofs- og veikindadaga. Samkvæmt því og að virtum skýringum kæranda um afdrif gagna vegna rekstrarkostnaðar, sem ekki þykir ástæða til að vefengja, verður að telja að aksturskostnaður á hvern ekinn kílómetra hafi verið töluvert lægri en tilgreindur er á ökutækjaskýrslunum. Hins vegar hefur kærandi fært fram rök fyrir því að áætlun skattstjóra að því er varðar heildarakstur samkvæmt launamiðum og með tilliti til vinnudaga árin 1994 og 1995 hafi verið vanáætluð. Með hliðsjón af því og kröfugerð ríkisskattstjóra þykir rétt að fallast á frádrátt vegna kostnaðar á móti ökutækjastyrk að fjárhæð 567.152 kr. á skattframtali 1995 og 548.280 kr. á skattframtali 1996.

Um frádrátt vegna sjúkradagpeninga.

Óumdeilt er að greiðslur þær sem kærandi fékk frá tryggingafélagi sínu vegna slysa sem hún lenti í teljast til skattskyldra tekna skv. 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981. Um frádrátt frá slíkum tekjum fer eftir 2. mgr. 30. gr. framangreindra laga. Þar kemur fram að hafi maður beinan kostnað við öflun þeirra gildi ákvæði 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laganna um kostnaðinn eftir því sem við eigi, þó ekki ákvæðin um vexti af skuldum, afföll, gengistöp og fyrningu eigna. Fram kemur að kostnaður leyfist eingöngu til frádráttar sams konar tekjum og hann gekk til öflunar á og að frádráttur verði aldrei hærri en nemur þeim tekjum sem hann leyfist til frádráttar. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur kærandi krafist þess að greitt iðgjald vegna slysatryggingar komi til frádráttar umræddum greiðslum.

Af orðalagi 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 má ráða að til þess að frádráttur heimilist frá tekjum sem ekki stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi verði að vera mjög skýrt og afmarkað samband á milli tekna og gjalda. Telja verður að sá kostnaður sem heimilast til frádráttar samkvæmt framangreindri 2. mgr. 30. gr. verði að tengjast því tjóni sem um er að ræða, þ.e. afleiðingum tjónsatburðarins, en að iðgjald af þeirri tryggingu sem greitt er út á falli ekki þar undir. Verður því að hafna kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja