Úrskurður yfirskattanefndar
- Sambýlisfólk
- Sönnun
Úrskurður nr. 132/1998
Gjaldár 1997
Lög nr. 75/1981, 63. gr. 3. mgr., 69. gr. C-liður
Skattstjóri taldi reglur um vaxtabætur sambýlisfólks eiga við í tilviki kæranda og A gjaldárið 1997 og vísaði í því sambandi til þess að þau hefðu átt sameiginlegt lögheimili á tímabilinu frá 29. apríl 1994 og fram til 9. maí 1997. Kærandi hélt því fram að A hefði aðeins fengið að skrá lögheimili sitt tímabundið hjá henni og hann hefði engin afskipti haft af íbúðarkaupum hennar. Yfirskattanefnd féllst á kröfu kæranda um vaxtabætur með vísan til þess m.a. að skýringum hennar hefði ekki verið hnekkt.
I.
Málavextir eru þeir að við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1997 voru kæranda ekki ákvarðaðar vaxtabætur. Umboðsmaður kæranda kærði álagninguna og krafðist þess að kæranda yrðu ákvarðaðar vaxtabætur í samræmi við upplýsingar á skattframtali hennar. Samkvæmt upplýsingum frá skattstjóra hefði við ákvörðun vaxtabóta verið tekið tillit til tekna sambýlismanns kæranda, A. Af hálfu kæranda var byggt á því að kærandi og A hefðu aldrei verið skráð í óvígðri sambúð og því til staðfestingar fylgdi vottorð frá Hagstofu Íslands, dags. 31. júlí 1997. A væri sjómaður og hefði hann fengið að skrá lögheimili sitt tímabundið hjá kæranda, en hann hefði ekki lengur lögheimili hjá henni.
Skattstjóri hafnaði kröfum kæranda með kæruúrskurði, dags. 27. október 1997. Byggði skattstjóri á því að í C-lið 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, segði um vaxtabætur: „Skipta skal vaxtabótum til helminga milli hjóna. Sama gildir um sambýlisfólk sem uppfyllir skilyrði fyrir samsköttun, sbr. 3. mgr. 63. gr., í lok tekjuárs, enda þótt það óski ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein.“ Í 63. gr. sömu laga segði um samsköttun: „Karl og kona, sem búa saman í óvígðri sambúð og eiga sameiginlegt lögheimili, eiga rétt á að telja fram og vera skattlögð sem hjón, sem samvistum eru, ef þau hafa átt barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. eitt ár, enda óski þau þess bæði skriflega við skattyfirvöld.“ Ljóst væri að kærandi og A uppfylltu fyrrgreind skilyrði og skyldi meðal annars á það bent að frá 29. apríl 1994 og allt fram til 9. maí 1997 hefðu þau haft sama lögheimili. Á þessu tímabili, þ.e. 6. október 1995, hefðu þau flutt saman lögheimili sitt frá X til Y. Þar sem skilyrði samsköttunar hefðu verið uppfyllt árið 1996 væru ekki forsendur til að breyta fyrri álagningu.
Með kæru, dags. 11. nóvember 1997, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar og krafist þess að honum verði hnekkt og að opinber gjöld gjaldárið 1997 verði lögð á kæranda sem einstakling. Er af hálfu kæranda byggt á sömu rökum og fram komu í kæru til skattstjóra, dags. 20. ágúst 1997. Fylgir kærunni vottorð frá Hagstofu Íslands, dags. 31. júlí 1997, þar sem staðfest er að kærandi og A hafi aldrei verið skráð í óvígðri sambúð og yfirlýsing frá A, dags. 5. nóvember 1997, þar sem hann lýsir því yfir að hann hafi aðeins fengið að skrá lögheimili sitt tímabundið hjá kæranda eða frá apríl 1994 til maí 1997. Gefur A þá skýringu að hann sé sjómaður og dveljist langdvölum frá heimili. Hann og kærandi hafi haft aðskilinn fjárhag og hafi hann engin afskipti haft af íbúðarkaupum hennar á umræddu tímabili né afskipti af lánum vegna þeirra. Þau hafi aldrei verið skráð í sambúð, enda ekki tilefni til. Þá hafi þau aldrei sótt um samsköttun og því síður átt barn saman.
Með bréfi, dags. 12. desember 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð: „Eftir atvikum er fallist á kröfu kæranda.“
II.
Með vísan til skýringa kæranda, sem ekki hefur verið hnekkt, og kröfugerðar ríkisskattstjóra er fallist á kröfu kæranda.