Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Virðisaukaskattur
  • Innskattur
  • Álag
  • Álag á virðisaukaskatt

Úrskurður nr. 215/1998

Gjaldár 1993

Virðisaukaskattur 1992

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr., 106. gr. 2. mgr.   Lög nr. 50/1988, 16. gr. 3. mgr. 2. tölul., 27. gr. 6. mgr.   Reglugerð nr. 81/1991, 2. gr. 1. mgr. 2. tölul.  

Kærðar voru ákvarðanir skattstjóra um að synja kæranda um innskattsfrádrátt vegna breytinga á bifreið og að heimila einungis gjaldfærslu húsnæðiskostnaðar sem svaraði til 15% af heildarkostnaði við rekstur íbúðarhúsnæðis kæranda. Þá var álagsbeitingu skattstjóra mótmælt. Fallist var á kröfur kæranda að öðru leyti en því að ekki þóttu efni til að hnekkja álagsbeitingu skattstjóra. Var í því sambandi vísað til þess að óvefengt væri að kærandi hefði fært ýmsan persónulegan kostnað til frádráttar tekjum af atvinnurekstri, m.a. allan rafmagns- og hitakostnað íbúðarhúss síns.

I.

Með kæru, dags. 8. febrúar 1996, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði skattstjóra, dags. 12. janúar 1996, vegna endurákvörðunar hans á opinberum gjöldum kæranda gjaldárið 1993 og virðisaukaskatti á árinu 1992. Í fyrsta lagi er kærð sú ákvörðun skattstjóra að synja kæranda um innskattsfrádrátt vegna breytinga á bifreiðinni X. Krefst kærandi þess að innskattsfrádráttur vegna breytinga þessara verði heimilaður í sama hlutfalli og rekstrarkostnaður bifreiðarinnar heimilist til frádráttar í rekstri hans, þ.e. 85% af 83.300 kr. eða 70.805 kr. Í öðru lagi mótmælir kærandi ákvörðun skattstjóra um að heimila einungis gjaldfærslu húsnæðiskostnaðar sem svarar til 15% af heildarkostnaði við rekstur íbúðarhúsnæðis kæranda. Krefst kærandi þess að helmingur kostnaðarins verði talinn frádráttarbær rekstrarkostnaður og að innskattsfrádráttur heimilist í sama hlutfalli. Verði frádráttarbær húsnæðiskostnaður þá 248.906 kr. og innskattur vegna þessa liðar verði 48.674 kr. Þá mótmælir kærandi álagsbeitingu skattstjóra.

II.

Kærandi hefur með höndum hreingerningaþjónustu. Skattstjóri synjaði kæranda um innskattsfrádrátt 83.300 kr. vegna virðisaukaskatts sem til féll vegna endurbóta á bifreið kæranda, en hækkaði fyrningargrunn vegna endurbótanna um fjárhæð virðisaukaskattsins. Skattstjóri byggði úrskurð sinn á því að bifreið kæranda væri í blönduðum notum og hefði ekki notið innskattsfrádráttar vegna öflunar. Breytingar á bifreiðinni teldust falla undir öflun hennar en ekki rekstur. Óheimilt væri að telja til innskatts virðisaukaskatt vegna öflunar bifreiðarinnar, sbr. 6. tölul. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt. Að því er húsnæðiskostnað varðar, vefengdi skattstjóri að öll neðri hæð íbúðarhúsnæðis kæranda og bílskúr væri notuð í þágu hreingerningaþjónustu kæranda, svo sem hann héldi fram. Taldi skattstjóri húsnæðiskostnað til frádráttar í rekstri hæfilega ákvarðaðan með 65.000 kr.

Af hálfu kæranda eru þau rök færð fyrir kærunni að breytingar á umræddri bifreið hafi allar verið í þágu rekstrarins. Þær hefðu verið gerðar til að auka öryggi starfsfólks og koma í veg fyrir að tæki og tól skemmdust í flutningum.

Varðandi húsnæðiskostnað þá kveður kærandi hús sitt vera á tveimur hæðum og sé öll neðri hæðin ásamt bílskúr undirlögð undir tól og tæki er tilheyri rekstrinum. Þá sé inngangurinn í neðri hæðina í gegnum vaskahúsið útbúinn í þeirri hæð sem hentar best til að ferma og aferma vinnubílinn. Umfang rekstrarins sé það mikið að tæki tilheyrandi rekstrinum séu einnig geymd hjá einum starfsmanni kæranda og í geymslu hjá Y. Kærandi telur óeðlilegt ef rekstraraðilar séu látnir gjalda þess ef þeir breyti um notkun á eigum sínum þannig að þær þjóni þeim rekstri er þeir stunda. Þá telur hann óeðlilegt að mismuna rekstraraðilum eftir því hvort þeir haldi starfsemi sína í sama húsi og þeir búa í eða ekki.

Kærandi mótmælir álagsbeitingu skattstjóra með þeim rökum að þeir liðir í skattframtali hans sem hafi valdið ágreiningi hefðu allir verið tíundaðir í ársreikningi þannig að ekki hafi verið reynt að fela neitt. Þá vísar kærandi til þess að um ágreining sé að ræða um frádráttarbærni einstakra liða.

Þann 13. maí 1996 lagði kærandi fram viðbótargögn til yfirskattanefndar. Hafa þau að geyma samþykkt byggingarnefndar A-kaupstaðar, dags. 6. maí 1996, á umsókn kæranda um að skrá neðri hæð húss hans og bílskúr sem atvinnuhúsnæði.

III.

Með bréfi, dags. 23. ágúst 1996, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjanda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Varðandi þann hluta máls þessa er varðar virðisaukaskatt:

Farið er fram á að kæranda verði heimill innskattsfrádráttur vegna breytinga á bifreið í sama hlutfalli og bifreiðin er notuð í rekstri hans. Ekki er hægt að fallast á þau rök skattstjóra að þær breytingar er gerðar voru á bifreiðinni geti fallið undir öflun bifreiðarinnar. Breytingar þessar voru gerðar til hagræðisauka vegna flutnings á vélum og tækjum er kærandi notar í rekstri sínum og verður ekki séð að kæranda sé óheimilt að telja til frádráttar innskatt vegna þessara breytinga í réttu hlutfalli þó þær nýtist honum einnig til einkanota.

Farið er fram á staðfestingu á úrskurði skattstjóra hvað varðar húsnæðiskostnað. Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, er óheimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af rekstri íbúðarhúsnæðis fyrir eiganda eða starfsmenn skattaðila og gildir einu þótt aðili noti húsnæðið einnig vegna atvinnu sinnar.

Til íbúðarhúsnæðis teljast einnig geymsluherbergi og bifreiðageymsla sem byggð er í venjulegum tengslum við íbúð.

Varðandi þann hluta er varðar tekju- og eignarskatt:

Húsnæðiskostnaður.

Í úrskurði sínum hefur skattstjóri fallist á gjaldfærslu húsnæðiskostnaðar sem svarar til 15% húsnæðisins. Að virtum atvikum öllum og með hliðsjón af fram komnum skýringum og gögnum getur ríkisskattstjóri fallist á að hlutfall þetta verði hækkað.

Álag.

Krafist er staðfestingar á úrskurði skattstjóra varðandi álagsbeitingu þó með hliðsjón af kröfugerð ríkisskattstjóra hér að framan.“

IV.

Skilja verður kröfugerð ríkisskattstjóra þannig að embættið fallist á kröfur kæranda varðandi innskatt af breytingum á bifreið svo og að ríkisskattstjóri fallist á kröfu kæranda um 50% gjaldfærslu húsnæðiskostnaðar sem frádráttarbærs rekstrarkostnaðar. Að þessu virtu verða kröfur kæranda um þessi atriði teknar til greina, en tekið skal fram að engar athugasemdir hefur skattstjóri gert um einstaka liði þessa kostnaðar. Af þessu leiðir einnig að breyting skattstjóra á fyrningargrunni og fyrningu bifreiðar gengur til baka. Að því er varðar kröfu kæranda um innskatt af húsnæðiskostnaði, verður ekki fallist á það með skattstjóra og ríkisskattstjóra að ákvæði 2. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 81/1991, um innskatt, sbr. nú reglugerð nr. 192/1993, eigi við fullum fetum í máli þessu, eins og aðstæðum er háttað í tilviki kæranda, enda verður ekki annað ráðið af framlögðum gögnum en að sérgreindur hluti af húsi kæranda, þ.e. sérstök íbúð á neðri hæð hússins og bílskúr, sé nýttur eingöngu vegna atvinnureksturs kæranda. Samkvæmt því er fallist á kröfu kæranda um þennan þátt málsins, þó þannig að til gjalda færist 214.964 kr., sem er helmingur af heildarkostnaði vegna húss kæranda, og innskattur hækkar um 41.781 kr. sem er helmingur virðisaukaskatts af húsnæðiskostnaði, sbr. bréf skattstjóra, dags. 10. febrúar 1995.

Óvefengt er að kærandi færði ýmsan persónulegan kostnað til frádráttar tekjum af atvinnurekstri, m.a. allan rafmagns- og hitakostnað íbúðarhúss síns. Þykja slíkir annmarkar á skattskilum hans að ekki eru efni til að hnekkja ákvörðun skattstjóra um álag á hækkun gjaldstofna, sbr. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, né þykir tilefni til að fella niður álag á hækkun virðisaukaskatts, sbr. heimildarákvæði 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Kröfum kæranda hér að lútandi er því hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja